Fimmtíu mínútur

Mánuðurinn í tölumÍ kvöld náði ég mánaðar gömlu markmiði þar ég einsetti mér að fara upp að vegstiku 4 á Esjunni á 50 mínútum eða skemur fyrir lok júlí. Nú liggur fyrir að fara þessa sömu leið á 45 mínútum eða skemur fyrir miðjan ágúst sem ég vona að náist.

Göngustígarnir á fjallinu voru illa farnir eftir úrhellið um daginn. Yfirlag hafði sópast af stígnum á mörgum stöðum og vatnið hafði skorið djúpar rákir þar sem það rann ólgandi niður hlíðarnar. Vinnufólk á fjalli á framundan margar hjólböruferðir með möl til að bæta skaðann.

Ég mun veifa þeim þegar ég fer hjá!


Leggjabrjótur

BotnssúlurMeð sínum hætti blés Brandur góðvinur minn til sóknar inn á íslensk víðerni í gær. Að gömlum sið féllu síðustu stykkin í stóru púsluspili á rétta staði á elleftu stundu, en allt hafðist. Fríður hópur fór úr Mosfellsbænum og leiðin lá í Hvalfjörðinn, hvaðan ganga yfir til Þingvalla myndi hefjast um magnaða leið sem nefnd er Leggjabrjótur. Aldur leiðangursmanna spannaði frá örfáum árum, snáðarnir, til nokkuð margra ára. Góð stemmning var í hópnum og mikill hugur, markinu skyldi náð með glans. Himinn var nær heiður og og aðstæður allar hinar ákjósanlegustu. Haldið var af stað þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í sjö.

Öldungarnir í hópnum - hinir mögnuðu meistarar tölfræðinnar, Jón og Jóhanna hin góða Glósudís - tóku fljótt að sér hlutverk undanfara og leiddu sem slík hópinn um hlykkjótta stigu. Fyrstu sex kílómetrana var á sótt að brattanum, en eftir það skiptust á hæðir og lægðir uns það tók almennt að halla undan fæti skömmu eftir að níu kílómetra markinu var náð. Hópurinn áði klukkan átta og gæddi sér á nesti. Þar var farið yfir stöðu landsmála, þau reifuð og afgreidd. Þetta var eina hléið sem gert var og varði það í tuttugu mínútur eða svo.

Brandur geystist um hæðir og hóla eins og gimbur, enda er hann svo gisinn í vextinum að hann getur nýtt sér hinn ljúfasta andvara sem sterkan meðbyr. Björk, kona hans og samviska, rak iðulega lestina og hvatti snáðana tvo til dáða með umhyggju og natni sem mæðrum er einum gefin. Ljóst er að ef hlýju hennar og lipurðar í samskiptum við ungviðið hefði ekki notið við værum við kallarnir enn á stígnum með drengina á öxlunum. Eitthvað vógu þó verðlaunin sem drengjunum var lofað í skiptum fyrir tápmikla framgöngu, en farið verður með ungana í bíógrafið í næstu viku.

Við vorum svo búin að vera á röltinu í rétt liðlega fimm tíma þegar nafni minn og bjargvættur okkar kom keyrandi á móti okkar á umsömdum mótsstað. Þá vantaði örfáa metra upp á það að við næðum að fylla 14,5 kílómetra vegalengd, á hverri við hækkuðum okkur samtals um rétt rúma 700 metra. Þetta var laust fyrir miðnætti og framundan var akstur að Botni í Hvalfirði þar sem náð var í fararskjóta Brands. Gönguferðin var öll hin ágætasta, en næst verður farið fyrr af stað þannig að hægt sé að fara hægar yfir og njóta náttúrunnar betur. Á leiðinni eru mýmörg ljósmyndatækifæri sem fóru forgörðum sökum hraðrar (sem er auðvitað afstætt hugtak!) yfirferðar. En Leggjabrjótur er að baki og þá er bara að líta í kringum sig eftir næstu gönguleið.

Einhverjar tillögur?


Að þekkja gervihnetti

Er hún spurning'á hann kastar,
halur svarar spurulu mani.
"Stjörnur sýnast vera fastar,
en Spútnik er á heljarspani!"

(2001, haust)

Ég elska ykkur ...

Vegstikur... en ég þarf að slíta sambandinu sem við höfum átt saman. Þetta hefur verið frábært þótt það megi segja að ég hafi gefið meira af mér í svita og tárum. En það skiptir ekki máli, þið hafið alltaf verið til staðar fyrir mig og fyrir það er ég þakklátur. En nú verð ég að halda áfram leið minni og ég vona að þið skiljið það. Við munum sjást á förnum vegi og ég mun heilsa þegar ég á leið hjá, en ég mun ekki staldra við. Ég hef sett markið hærra og þið nægið mér hreinlega ekki lengur. Ég er nokkuð viss um að það líður ekki á löngu uns það kemur einhver nýr til ykkar, enda verður að segjast að það er býsna gestkvæmt hjá ykkur, svo ekki sé meira sagt!

Vegstikur 1, 2 og 3 á Esjunni, ég mun aldrei gleyma ykkur! Vegstika 4 ... þú ert nýja stikan í lífi mínu. Vonandi sjáumst við oft í framtíðinni.


Hvítur er grænn!

Hvítt og svartÍ áhugaverðri grein í á businessweek.com rekur Greg Blonder augljós rök fyrir því að hvítur er grænn. Bendir hann á að fjölmargar leiðir séu í dag færar til þess að sporna gegn hnattrænni hlýnun; skógrækt, notkun kjarnorku til orkuframleiðslu, 'bio' eldsneyti o.s.frv. Á endanum telur höfundur að við séum oft föst í þeim hugsanahætti að flókin vandamál krefjist flókinna lausna. Ég ætla ekki að rekja efni greinarinnar hér, enda hvet ég lesendur Blogg Schmogg til þess að hyggja að henni sjálfir. Þó vil ég stinga undan höfundi og rekja meginatriði greinar hans, en það er að hvít málning sé vanmetin sem liður í vörnum móður jarðar. Ljóst yfirborð endurvarpar hitageislum sólar, en hún baðar jörðina linnulítið með 1.350 vöttum af orku á hvern fermetra hvern einasta klukkutíma sem við njótum ásjónu hennar. Hvítt húsþak endurvarpar megninu af þessari orku meðan rautt eða grænt þak dregur megnið af henni í sig.

Niðurstaðan er því sú að það eigi í auknum mæli að kaupa hvíta málningu og mála allt hvítt sem hægt er að mála. Það að lýsa malbik á vegum myndi endurvarpa mikilli orku aftur út í geiminn, en þess er skemmst að minnast að malbik á vegarspotta við Akureyri hreinlega bráðnaði á dögunum í mikilli hitabylgju. Ljós malbiksblanda á bílastæðum og inngötum í hverfum myndi skila sér strax í minni hita.

Hvítur er grænn!


Drekinn veginn!

EsjanÁ fimmtudaginn var náði ég áfanga sem ég hef stefnt að um nokkurn tíma og það var að rölta upp að vegpunkti 5, 'Steini', á Esjunni. Ég er ekki mikill gönguhrólfur og því tók ég þetta í nokkrum áföngum. Sú ráðstöfun hefur gefist vel og skilað mér á þennan stað. Það er skemmst frá því að segja að göngutúr upp Esjuna er hin besta skemmtun. Þangað streymir fólk í löngum röðum og oft eru bílastæðin við fjallsræturnar þéttskipuð.

Í gær bætti ég svo um betur og fór upp að vegstiku 6, en hún er sú síðasta áður en farið er að glíma við Þverfellshornið sjálft. Stikan er í rúmlega 670 metra hæð yfir sjávarmáli og þar er hægt að njóta mergjaðs útsýnis yfir höfuðborgina og Reykjanesið. Síðasta kaflinn bíður um stund því ég er ekki jafn áræðinn og allar þær mömmur og ömmur sem geystust fram hjá mér og skoppuðu upp á topp eins og liprar fjallageitur. Ég tek ofan fyrir þessum glæsilegu freyjum sem skeiða upp fjallið án þess að blása úr nös!

Viðtakandi verkefni er að halda áfram þessu Esjubrölti og reyna þá að stytta ferðatímann ögn í hverri ferð. Alla jafna mun ég líklega mið við vegpunkt 4, enda er hann innan þægilegrar seilingar. En toppurinn er þarna og verður hann sigraður við gott tækifæri í góðra vina hópi!


Myndavél sem grennir

Grennri og flottari!Á vafri um vefinn fann ég lýsingu á nýrri myndavél frá HP, R937. Þetta er afar glæsileg vél og virðist helsti kostur hennar liggja í því að á henni er 3,6" snertiskjár sem þekur allt bak vélarinnar. Þegar ég las mig betur til um eiginleika vélarinnar rak ég fljótt augun í það að með henni er hægt að grenna viðfangsefni hennar. Já, það er komin myndavél sem grennir það sem hún fangar!

Áhugasamir geta kynnt sér þessa stórmerku nýjung í ljósmyndaheiminum með því að smella hér. Héðan í frá þarf ekki að bíða uns ljósmyndin er komin í tölvu og Photoshop til að "gera lítið" úr myndefninu, nú er hægt að ganga frá því strax í vélinni. Nú geta allir virst þvengmjóir og glæsilegir nokkrum sekúndum eftir myndatökuna. Nú verður gaman að lifa!


Kæfisvefn

SvefnvanaÉg hef ekki grun um hvað hefur gerst þarna og mun því ekki tjá mig um það. Hvernig sem allt veltur er það grafalvarlegt ef fólk er að sofna eða dotta undir stýri. Mitt innlegg í umræðuna er að benda á kæfisvefn sem mögulega orsök, en þetta er vandamál sem hrjáir býsna marga. Það leiðir af sjálfu sér að eitthvað hlýtur að gefa eftir ef fólk fær ekki eðlilega hvíld í svefni.

Áhugasamir geta kynnt sér prýðilega grein um þetta ástand á doktor.is. Ég hvet loks alla þá sem finna fyrir þrálátri dagsyfju að hyggja að kæfisvefni sem orsök. Það er nokk auðvelt að greina hana og meðhöndla.


mbl.is Dottaði undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf ábending

GlugginnÉg var í boði áðan og tók þar nokkrar ljósmyndir sem ekki er í frásögu færandi. Myndavélin er iðulega nálæg, enda ómissandi hluti af daglegum farangri mínum. Málið er að ég smellti af nokkrum myndum eins og ég geri iðulega og líklega eru margar þeirra alveg prýðilega. Punkturinn er hins vegar sá að meðal gesta í boðinu var einn fremsti ljósmyndari sem lýðveldið hefur alið og kom hann að máli við mig þegar ég var að fara. Hann benti mér afar kurteisislega á það að maður verður að sýna verkfærinu og iðninni þá lágmarks virðingu sem tilheyrir. Í mínu tilfelli líkaði honum það ekki að ég tók nokkrar myndir án þess að líta í gegnum glugga myndavélarinnar. "Maður á að líta í gegnum vélina og bíða eftir rétta andartakinu", sagði þessi snillingur.

Málið er að þetta er auðvitað laukrétt. Engin stórkostleg uppgötvun eða ný sannindi. Aðeins ábending varðandi grunnatriði sem maður hefur ekki í raun hugað mikið að, líklega vegna þess að maður kemur á ská inn í ljósmyndunina eins og laumufarþegi sem læðist um borð í skjóli nætur.

Gætum að grunninum í öllu því sem við gerum. Ef grunnurinn er réttur verður yfirbyggingin yfirleitt góð. Í framtíðinni mun ég altént gæta að því að horfa í gegnum vélina þegar ég tek myndir og virða þannig þetta verkfæri eins og vera ber.


BBC World Service

BBC World ServiceUndanfarin tvö ár hef ég nær einungis hlustað á BBC World Service fyrir utan stutta hörmungartíð þegar rof varð á endurvarpi hennar hérlendis. Þar er að finna fjölbreytta og afar vandaða umfjöllun um margvíslegustu málefni.

Hvern einasta dag síðan Alan Johnston, fréttaritara BBC á Gaza-svæðinu, var numinn á brott hefur BBC World Service fjallað um hann og haldið máli hans á lofti. Umræðan hefur verið hófstillt og málefnaleg og hefur farið um völlinn víðan og endilangan. Ég hygg að það sé ekki síst þessari þrautseigju að þakka að þessi árangur skuli vera að nást.

Ég hvet alla til að stilla á FM 94,3 (í Reykjavík) og hlusta á útvarp eins og það verður best. BBC World Service heldur einnig úti einum besta fréttavef sem í boði er, slóðin að honum er bbc.co.uk/worldservice.


mbl.is Fulltrúi Hamas heitir lausn Johnstons
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband