Færsluflokkur: Sjónvarp

Gúrka?

Ötul fréttakonaEr það virkilega fréttnæmt að varningur hér heima sé oft á tíðum dýrari en tíðkast erlendis? Er það réttlætanlegt að fréttastofa (Stöðvar 2 í þessu tilviki sem oftar) taki fyrir eitt fyrirtæki á frjálsum markaði og flytji slíka frétt framarlega í aðalfréttatíma? Ég þekki ekki þetta mál með IKEA en ég hef aldrei gert mér nokkrar grillur um að IKEA hér heima geti alla jafna boðið verð sem er sambærilegt við það sem sjá má á stórum milljónamörkuðum erlendis, hvað þá að hægt sé að bjóða lægra verð. IKEA býður varning sem seint verður talið til nauðsynjavöru og því er enginn neyddur þangað í viðskipti. Fjölskyldur á Íslandi gætu afar vel komist af án þess að leggja nokkurn tíma leið sína í verslun IKEA, en þær kjósa engu að síður að versla þar. Væri ekki tilhlýðilegra að Stöð 2 horfði í eigin rann, en þar þykir mönnum ekki tiltökumál að eyða á rúmlega milljarði króna í nokkrar fótboltamyndir! Er það ekki hreinlega mesta klikkun sem um getur?

En aftur að IKEA sem hefur hingað til verið þekkt að því að bjóða góða vöru á góðu verði. Sjálfur hefur ég nokkrum sinnum lagt leið mína í Kauptún til að borða þar hádegismat, en hann er óvíða ódýrari m.v. gæði. Ég mun renna í IKEA bráðlega og kaupa mér fatahengi enda treysti ég þeim afar vel til þess að skaffa mér slíkt á góðu verði.

Ég hugsaði reyndar um það sem kom fram í niðurlagi upptalningar fréttakonunnar ötulu. Þar sá hún að einhver skápur kostaði 6% minna hér en í milljónalandinu Svíþjóð, en fannst það augsýnilega afar ómerkilegt og lítt fréttnæmt. Er það þó ekki stóra fréttin?

Líklega, en ógeðslega er það leiðinleg frétt!


Bannað innan 18?

Jáhá!Ég skora á þá ágætu menn sem taldir eru upp í þessari frétt að leggja nú metnað sinn í að gera góða og vandaða grínþætti sem hægt verður að sýna á besta tíma í íslensku sjónvarpi. Hingað til hefur grínframleiðsla á Stöð 2 iðulega verið mörkuð af afar klúru hugarfari aðstandenda og hafa afurðirnar verið þannig að fjölskyldan hefur ekki getað sameinast við tækin. Nekt, fúkyrðaflaumur og grátt grín hafa verið einkennandi hingað til, en vonandi verður breyting á. Það má reyndar snúa dæminu við og leyfa þessum mönnum að fara sínu fram, en þá verður líka að sýna þættina seint að kvöldi þegar yngri kynslóðin hefur tekið á sig náðir.

En því miður grunar mig að það sama verði upp á tengingnum nú sem endranær. Botninn í ósómatunnunni verði skafinn þannig að upp komi óþverri sem Stöð 2 mun enn og aftur sýna, sér til minnkunar. Það sýnir reynslan altént!


mbl.is Nýir gamanþættir í bígerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband