Sunnudagur, 5. október 2008
Kvennafræðarinn Benedikt XVI
Benedictus XVI, oft nefndur Rottweiler Guðs, áréttaði nýlega þá afstöðu kaþólsku kirkjunnar að smokkurinn sé verkfæri djöfulsins. Hann orðaði það reyndar ekki þannig en meiningin er sú sama. Allt sem hindrar sæði karlsins í leit sinni að náttstað í innstu rökum konunnar er andstætt vilja kaþólsku kirkjunnar. Smokkurinn er þannig meðal óvina númer eitt í Vatikaninu. Sem er magnað, því hann káfar ekkert upp á alla kátu karlana sem þar búa! Sem gerir málið enn skrýtnara því af hverju hafa þeir svona sterkar skoðanir á hlut sem er þeim algjörlega framandi? Undarlegt!
Þetta er afar áhugaverð staðreynd, áréttingin, þegar litið er til aukinna umsvifa kaþólsku kirkjunnar í fátækrahverfum í bandarískum stórborgum sem og í Afríku. Linnulaus áróður kaþólskra presta þar gegn smokknum hefur aukið tíðni þunguna unglingsstúlkna í Bandaríkjunum og hert á útbreiðslu AIDS í Afríku. Þannig er þessi afstaða kaþólsku kirkjunnar ekki aðeins kjánaleg, heldur er hún einnig hreint og beint skaðleg og hættuleg almannahagsmunum. Þannig mætti réttilega skilgreina kaþólsku kirkjuna sem heilbrigðisvá sem greiðir með vísvitandi hætti fyrir útbreiðslu einnar hættulegustu veiru sem herjað hefur á mannkyn.
Sorglegt er að fjöldi fólks telur sig bundið af þessum kreddum sem sjálfskipaður kynlífssérfræðingurinn Benedikt XVI áréttaði um daginn. Fjörutíu ár voru víst liðin frá því að síðast var hnykkt á þeim og því nokkur von til þess að gamlir, hrumir og elliærir páfar hefðu hreinlega gleymt þeim. En það er öðru nær. Nú sýpur það fólk sem síst skyldi seyðið af þessari vondu ráðagerð. Kaþólska kirkjan beinir sjónum sínum aðallega að því fólki sem býr við hvað mesta eymd, enda er það auðmótanlegt og auðsveigt til hlýðni við kreddukenningar hennar. Þannig verða þeir verst úti sem síst skyldu!
En batnandi mönnum er best að lifa. Ég bind nú reyndar ekki miklar vonir við að Benedikt XVI geri leiðréttingu á þessu, en hver veit. Líklega er besti möguleiki þeirra fjölmörgu sem fara illa út úr þessu máli sá að nýr páfi sjái að sér og geri leiðréttingu.
Það er þó ekki líklegt ... því miður.
Fordæming getnaðarvarna staðfest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Er málstaður þinn virkilega svo slappur, Óli Jón, að þú þurfir á því að halda að sproksetja (karikatúrísera) páfann og málflutning hans? Hvað er t.d. til í því, að nota orðin "hrumir og elliærir páfar" um hann og Pál páfa VI (höfund Humanæ vitæ)? Ekkert! Hvers vegna ertu þá að nota þau orð? Þarftu á þeim að halda í áróðrinum, eða ertu bara svona reiður, að þú segir meira en fótur er fyrir? Benedikt páfi er einn gáfaðasti maður heims og hafði þegar fyrir sinn páfadóm skrifað fleiri bækur en nokkur páfi í sögunni.
Setningarnar: "Allt sem hindrar sæði karlsins í leit sinni að náttstað í innstu rökum konunnar er andstætt vilja kaþólsku kirkjunnar. Smokkurinn er þannig meðal óvina númer eitt í Vatikaninu," eru ennfremur hvor um sig dæmi um sproksetningu, og fleira mætti telja. Fyrri setningin stendur t.d. beinlínis gegn skýrri kenningu kirkjunnar um að kona, sem nauðgað er, hafi fullan rétt á að láta hreinsa sig af sæði árásarmannsins eða nota sæðisdrepandi krem.
Notirðu sproksetningu og léleg rök, ertu bara að gera sjálfan þig að auðveldu skotmarki andstæðinga þinna, þ.e.a.s ef einhver nennir að andmæla þér.
Jón Valur Jensson, 5.10.2008 kl. 01:22
Jón Valur: Það er gaman þegar einn helsti kennimaður sproksetningarinnar hérlendis hnýtir í mig fyrir þær sakir. Þegar slíkar aðfinnslur koma úr þeirri áttinni er engin ástæða til þess að gefa þeim nokkurt vægi. Annars leit ég aftur yfir pistilinn minn og get með engu móti fundið þessar sproksetningar.
En það sem upp úr stendur eftir lestur athugasemdar þinnar er að þú gerir ekki efnislegar athugasemdir við grein mína. Þú virðist ekki sár og svekktur yfir örlögum fórnarlamba kaþólsku kirkjunnar í Afríku sem fá ekki að nota smokkinn sökum kreddufestu hennar. Þú virðist ekki sár vegna örlaga allra þeirra unglingsstúlkna í Bandaríkjunum sem verða þungaðar sökum afturhaldssemi kaþólsku kirkjunnar. Nei, það sem spælir þig helst er að ég sprokset hinn háa og góða páfa. Það er leitt.
Kom virkilega ekkert annað upp í hugann þegar þú last þessa mikilvægu grein mína? Voru orð mín um páfana virkilega það eina sem kveikti hrærði upp í einhverjum tilfinningum innra með þér? Efnislega er ekkert að grein minni og það veistu. Hvað varðar hrumu og elliæru páfana, þá nægir að benda á forvera Benedikts XVI, hinn ágæta Jóhannes Pál II. Sá skarfur var nú ekki beint tákngervingur táps og fjörs á síðustu árum ævi sinnar. Líklega er það afar lýsandi fyrir kaþólsku kirkjuna að forstjóri hennar skuli geta verið maður í slíku ásigkomulagi ... eða hvað finnst þér?
Það er rétt hjá þér að Benedikt XVI, þá Joseph Ratzinger (Rottweiler Guðs, manstu?), hefur skrifað margt og mikið um sína daga. Meðal þess sem hann skrifaði voru ótölulegur fjöldi sendibréfa og minniblaða yfir tuttuga ára tímabil til kardinála, biskupa og presta um allan heim vegna Crimen sollicitationis, en það óhelga plagg hefur líklega valdið því að ekki hefur komist upp um nema lítið brot af þeim hroðaverkum sem fjölmargir kaþólskir prestar hafa í gegnum tíðina unnið gegn börnum, drengjum og stúlkum, í sóknum sínum. Vélráð Ratzingers og skrif hans hafa því bælt niður fjölda viðurstyggilegra mála sem aldrei munu líta dagsins ljós. Þú talar um að hann sé einn gáfaðasti maður heims. Sú staðreynd gerir gjörðir hans enn sorglegri og óafsakanlegri.
Að lokum langar mig til að draga saman nokkra punkta:
Þú gerir ekki athugasemdir við eftirfarandi:
Þú gerir athugasemdir við eftirfarandi:
Þetta er sorgleg forgangsröðun, eða hvað finnst þér?
Ég vil ljúka þessu með því að þakka þér kærlega fyrir athugasemd þína hér að ofan. Ég bendi á að þér er ávallt heimilt að setja hér inn athugasemdir og að þér verður aldrei meinað að nýta þann rétt þinn hér. En finnst þér þó ekki snautlegt að nýta þér þann rétt hér fyrst þú meinar mér um slíkt hjá þér? :) Hmmm ...
Óli Jón, 5.10.2008 kl. 02:18
Já :) Kallinn er býsna líkur Grinch með þessa flottu húfu, svona kátur og glaðlegur.
Óli Jón, 5.10.2008 kl. 11:33
Fékk Ratzinger ekki sakaruppgjöf hjá George Bush sem gerði hann ósakhæfan í málum sem tengdust barnaníði í Bandaríkjunum? Það segir meira en mörg orð um hversu flæktur Benedikt páfi var í þetta. Af hverju ætti saklaus maður að fá slíka undanþágu?
Efahyggjumaður 5.10.2008 kl. 15:21
Af einhverjum ótrúlegum ástæðum hafa mörg helstu trúarbrögð heims alltaf notað kynlíf almennings sem vopn til að geta beitt almúgan hafndarsvipunni og syndarefsingunni. Kynlíf er það eina sem allir hafa og því auðvelt að finna sameiginlegt refsiáhald á alla. Sérstaklega eru það Kristnir (helst kaþólikkar), Gyðingar og svo síðast en ekki síst sumar trúargreinar Íslamista, en þar má ekki setja allar greinar Íslam undir sama hatt.
Höldum okkur við Kaþólikkana. Íslenska ríkiskirkjan frá upphafi siðaskiptanna árið 1000 til ársins 1550 er Jón Arason byskup og synir hans voru hálshoggnir og kaþólisminn var lagður af, notast við hrossakjötsát sem refsi- og syndavöndinn í ofanálag við kynlífsbrot. Fólk sem lagði sér hrossakjöt til munns, mátti íslenska ríkiskirkjan bannfæra, þ.e., að útiloka frá himnavist og senda mæður sem gáfu börnum sínum hrossakjöt að borða í hungursneyðinni, ef þær höfðu fundið hrossahræ á víðavangi, til eilífrar vítivistar ásamt börnum sínum.
Slík hefur manngæska, fyrirgefningin og umburðarlyndið verið hjá kirkunni frá upphafi. Ef Kristur kæmi aftur til að vera okkar á meðal, held ég að hann hefði eitthvað við þetta að athuga. Allavega myndi hann ekki vilja að þessi krikja væri kennd við sig eða sitt nafn.
Ég held að Páfastóll hafi aldrei lesið eftirfarandi orð: "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum." Þessi orð voru sögð þegar konan bersynduga var leidd fyrir hann og múgurinn heimaði að hún yrði grýtt.
Munið frjálsu bloggsíðuna; http://blekpennar.com Kær kveðja, Björn bóndiïJðSigurbjörn Friðriksson, 5.10.2008 kl. 18:43
Óhönduglega kemst þessi Sigurbjörn að orði um hrossakjötsátið, fyrir utan misskilninginn sem er ber af orðum hans. Það, sem álitið var alvarlegt við það, var ekki matarsmekkurinn sem slíkur né að fæðan væri í sjálfri sér ill, því að Jesús lýsti alla fæðu hreina. Það illa eða vafasama var hitt, að áliti kristinna, að hrossakjötsát hafði tengzt heiðnum blótum og gat þannig verið til marks um heiðna goðadýrkun.
Svo var engin "íslenzk ríkiskirkja" til á miðöldum né fram á daga Jóns Arasonar, heldur kaþólska heimskirkjan. Og bann við hrossakjötsáti var ekki bundið við kaþólskan sið einan.
Vilji Sigurbjörn heimildir fyrir þessum atriðum, getur hann fengið þær.
PS. Sigurbjörn, áttu ekki nýrri mynd af þér?
Óli Jón reyndi að svara mér – reyndar fyrst og fremst að hreyta einhverju í mig fremur en að svara efnisatriðum mínum. Óli Jón var í pistlinum að ræða um Benedikt 16. og getnaðarvarnakenningu kirkjunnar, sem er sett fram í nútímalegu formi í páfabréfi Páls 6. páfa. Það var fullkomlega málefnalegt af minni hálfu að benda honum á, að hvorugur þessara páfa var hrumur né elliær, og Óli leysir ekki þann vanda sinn með því að tala um þriðja páfann, sem raunar var andlega hress fram á sína banalegu, þótt líkamsburðir hans væru orðnir veikir.
Langt mas Óla um aðra hluti leynir því ekki, að málstaður hans er ekki öflugri en svo, að hann virðist þurfa á því að halda að sproksetja páfann og málflutning hans.
Svo er kjánalegt að telja smokkinn "meðal helztu óvina Vatikansins," því að smokkurinn er ekki persóna eins og Satan eða illræðismenn, og kirkjan leyfir notkun smokksins í þeim tilgangi að hindra HIV-smit frá sýktum einstakling til maka hans.
Óli kveðst vera útilokaður frá vefsíðu minni; það er rétt. Eftir að hafa átt þar marga innkomu og athugasemdir, var hann orðinn brotlegur við skilmála vefsíðunnar; því fór sem fór. Ég hef hins vegar aðeins lagt inn nokkrar athugasemdir á þetta vefsetur hans og ætla ekki að brjóta neina skilmála og tel mig þar að auki hljóta að eiga talsverðan kvóta eftir!
Jón Valur Jensson, 5.10.2008 kl. 22:24
Jón Valur: Sannlega, sannlega fer ekkert fram hjá þér. Takk kærlega fyrir að leiðrétta þann misskilning minn um að smokkurinn sé persóna. Auðvitað er hann vígvél, dómsdagsmaskína, sívalningur Satans sem bruggar heilögu sæði karlsins launráð á krossferð þess að innstu rökum konunnar. Sem slíkur er hann Machina non Grata í Páfagarði. Sem er skiljanlegt, því menn, jafnvel páfar, hræðast það sem þeir ekki þekkja :) það eru einföld sannindi.
Hvað varðar meintan hreytinginn, þá getur hver dæmt fyrir sig :)
Það sem eftir stendur er að Jón Valur hefur ekki reynt að hrekja nein efnislegt atriði í mikilvægri grein minni um samsæri - einelti, eiginlega - Páfagarðs gegn smokknum. Það sem stingur mest í augu hjá honum er að ég lýsi nokkrum páfum á þann hátt sem honum finnst ekki sæmandi. Aumingja páfarnir.
Á meðan gerir Jón Valur ekki athugasemdir við eftirfarandi:
En að kalla páfa hruma og elliæra er auðvitað mun verri synd en þetta sem hér er að ofan upp talið og ég biðst einlæglega forláts á þeirri höfuðsynd. Get ég ekki keypt aflátsbréf einhvers staðar vegna þessa? Hefur enginn fundið slíkt hagræði upp? Viðkomandi gæti jafnvel grætt pening á útgáfu svona bréfa?!
Óli Jón, 6.10.2008 kl. 16:06
Brynja Dan; Hann Jón Valur er að gefa í skyn að rithöfundurinn sem ritaði allar bækurnar um Ísfólkið hlyti að vera gott páfaefni, hún er svo gáfuð, hún ritaði svo margar bækur.
Munið frjálsu bloggsíðuna; http://blekpennar.com
Kær kveðja, Björn bóndiïJð
Sigurbjörn Friðriksson, 6.10.2008 kl. 18:54
Brynja: Þetta er gott innlegg. Það verður að segjast að kaþólska kirkjan er þekkt að flestu öðru en víðsýni. Þetta sanna dæmin mæta vel. Í gegnum tíðina hafa víðsýnir menn átt erfitt uppdráttar innan vébanda hennar, en þeim farnast vel sem halda sig að kreddunni.
Sigurbjörn: J.K. Rowlings er þá líklega einnig gott páfaefni m.v. afköst hennar í ritmálum, eða hvað? Æi, nei ... Harry Potter er andkristilegur og kirkjunni lítt þóknanlegur. Jæja, það gengur betur næst hjá J.K. Ó, já ... svo er hún líka kona!
Óli Jón, 6.10.2008 kl. 20:05
Brynja Dan; Heldur þú, að ef Jesú Kristur kæmi til okkar í dag og gengi inn í Vatikanið, skoðaði sig um, gengi inn í Sixtusarkapelluna, gengi um alla skrautgangana, að hann kynni vel við sig? Hvað gerði hann aftur í Musterinu? Fleygði hann ekki með ofbeldi víxlurunum úr húsi Drottins? Jú, það held ég nú. Smurði hann ekki fætur lærisveina sinna með olíu eftir að hann hafði þvegið fætur þeirra og þurrkað með hári sínu. Sæir þú Páfann eða Jón Val í slíkum gjörðum? Sjalfsréttlætingarsinnana sjálfa? Einhver sjálfsréttlætingarsinninn sagði: "Guð, ég þakka þér fyrir að vera ekki eins og aðrir menn." Hvort var það Faríseinn, Tollheimtumaðurinn, Jón Valur eða Páfinn? Ég man það ekki. Kannski getur einhver góðhjartaður mynnt mig á?
Munið frjálsu bloggsíðuna; http://blekpennar.com
Kær kveðja, Björn bóndiïJð
Sigurbjörn Friðriksson, 6.10.2008 kl. 21:33
Óli Jón. Ég ætla að gera athugasemdir við eftirfarandi:
Hvernig má það vera þegar boðun kirkjunnar til ógifts fólks er skírlífi. Kynlíf er aðeins heimilt hjónum og því er verjubanninu sérstaklega beint til hjóna? Hvaða heimildir (t.d. tölur eða félagsfræðirannsóknir) hefurðu fyirir þessari fullyrðingu?
Áttu við að þú sért með tölur undir höndum sem sýna aukið hlutfall AIDS meðal kaþólskra í Afríku miðað við aðra trúarhópa á sama landsvæði? Hlýtur það ekki að felast í fullyrðingu þinni því varla fara þeir sem ekki eru kaþólskir að fylgja boðum páfans.
Ertu með heimildir fyrir þessari fullyrðingu?
Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.10.2008 kl. 21:59
Ragnar Geir: Takk kærlega fyrir að vekja máls á þessu. Þú sýnir mér mikinn velvilja með því að leggja mér þetta lið í máli mínu og fyrir það er ég þakklátur. Auðvitað er bara sjálfsagt að vísa í nokkrar vefslóðir þessu til staðfestingar, enda er af nægu að taka.
AIDS í Afríku og ábyrgð kaþólsku kirkjunnar
Neðar eru tilvísanir í nokkrar greinar sem fjalla um þetta. Kaþólska kirkjan er nær alfarið á móti notkun smokksins (enda eru menn iðulega á móti því sem þeir þekkja ekki og skilja ekki). Þó er kirkjan víst að íhuga það að miskunna sér yfir hjónum þar sem annar aðilinn er sýktur af kynsjúkdómi, en ég er ekki viss um að það sé gengið í gegn ennþá. Mikil er mildi og náð kirkjunnar í þessum efnum. Í nokkrum tenglanna eru nokkrar fréttir af prestum og biskupum kirkjunnar sem hafa snúist gegn henni hvað varðar afstöðu hennar til smokksins, enda gerir allt viti borið fólk sér grein fyrir því að besta forvörnin felst í því að hindra sýkinguna.
Kaþólska kirkjan er ekki aðeins á móti smokknum því prelátar hennar heyja heilagt stríð gegn honum. Í því skyni segja þeir t.d. óupplýstum pöplinum í Afríku að smokkurinn sé alls ekki öruggur því hann sé alsettur götum og því hriplekur. Á hreinni íslensku kallast þetta lygi og í mínum huga þarf verulega þráhyggju til þess að halda slíku fram.
Nú veit ég að einhverjir muni segja að langbesta forvörnin sé sú að gera bara ekki neitt og auðvitað er það rétt. Hins vegar vita þeir sem reynt hafa að mannskepnan á oft erfitt með að hemja sig þegar lendaskjálftinn gerir vart við sig. Þá er nú betra að vera með smokkinn við höndina en ekki.
Ótímabærar þunganir unglingsstúlkna
Hinn virti fréttaþáttur, 60 Minutes, gerði þátt fyrir 2-3 árum um vaxandi ítök kaþólsku kirkjunnar í fátækrahverfum stórborga Bandaríkjanna. Hún hefur markvisst keypt upp heilsugæslustöðvar í þessum hverfum og gert á þeim margvíslegar breytingar. Margt gerir kaþólska kirkjan vel, en alls staðar hefur það sama gerst: smokkar fást ekki lengur þar né 'daginn eftir' pillan. Fréttamaður 60 Minutes komst að þeirri niðurstöðu að áhrif kirkjunnar væru afar neikvæð í þessu tilliti. Í grein tímaritsins Time kemur fram að þungunum unglingsstúlkna fækkaði um 40% í skólum þar sem boðið er upp á smokkinn í heilsugæslu. Könnun, sem vitnað er í í sömu grein, sýnir a þungunum fækkaði um 30% í skólum þar sem boðið var upp á getnaðarvarnir nærri skólum meðan þunganir jukust um 57% þar sem það var ekki gert. Time segir um þessa könnun:
Þessi þráhyggjulega sókn kaþólsku kirkjunnar í að stjórna kynlífshegðun sóknarbarna sinna er afar undarleg. Ég mun aldrei skilja hvers vegna karlar þar á bæ setja sig upp á móti smokkinum og vilja kenna hina meingölluð 'rhythm' aðferð. Þeir telja sig augsýnilega vita betur en sauðirnir sem þeim fylgja, iðulega í sjálfvalinni blindni.
Þöggun Ratzingers
Um 20 ára skeið var Joseph Ratzinger, nú Benedikt XVI páfi, forstöðumaður (e. Prefect) fyrir stofnun sem ber heitið Congregation for the Doctrine of the Faith sem rekur sögu sína beint til Rannsóknaréttarins, þeirrar hugljúfu stofnunar. Á þessum tíma minnti Ratzinger biskupa og kardinála um allan heim á það að þeir skyldu halda trúnað við kirkjuna um margvísleg málefni sem m.a. snertu barnaníð. Alræmt er bréf hans ritað í maí árið 2001 með yfirskriftinni Crimen Sollicitationis þar sem hann áréttar þann meinta rétt kaþólsku kirkjunnar til þess að rannsaka mál í kyrrþey og þann meinta rétt að halda málsgögnum leyndum í tíu ár eftir að brotaþoli nær fullorðinsaldri. Þarna hvatti Ratzinger með beinum hætti til þess að barnaníð yrði þaggað niður innan kirkjunnar og tók sér vald langt umfram það sem honum bar. Þegar kaþólskir reyna að bera í bætifláka fyrir Ratzinger er vert að geta þess að í bréfi sínu tilgreinir hann að þar að bréfið " fjalli um afar alvarlegar syndir" eða "concerning very grave sins". Ratzinger vissi því nákvæmlega hversu alvarlegt málið er.
Ratzinger heldur því blákalt fram í bréfinu að kaþólska kirkjan eigi lögsögu í slíkum málum umfram veraldlegar stofnanir og að þessi mál varði eitthvað sem kallast páfaleg leynd. Þá segir Ratzinger að upplýsingar um öll barnaníðsmál skuli send skrifstofu hans þar sem hann muni ákveða hver verði frekari framgangur þeirra.
Af ofangreindu er dagljóst að Ratzinger, núverandi páfi, er algjörlega samsekur þeim ótal mörgu kaþólsku prestum sem níddust á börnum um allan heim. Í mínum huga er glæpur hans þó verri því það má leiða líkum að því að prestarnir hafi átt við andlegan krankleika að stríða meðan ákvarðanir Ratzingers sýna blákalda yfirvegun, meinlegt kaldlyndi og einbeittan vilja til þess að þagga málin niður. Þegar tekið er með í reikninginn að fremsti agent kaþólskra hérlendis segir að Ratzinger sé "einn gáfaðasti maður heims" (sjá fyrstu færslu í þessum athugasemdaþræði) verður ásetningur Ratzingers enn meðvitaðri, ljótari og hryllilegri.
Er því ekki óhætt að fullyrða að glæpamaður sitji nú á páfastóli í skjóli friðhelgi þjóðhöfðingja? Bandarískir lögmenn hafa ítrekað stefnt Ratzinger fyrir þessar sakir, en þarlent utanríkisráðuneyti hefur ávallt skorist í leikinn og bjargað páfalegum gumpi hans á elleftu stundu. En ég reikna með að samviska Ratzingers sé hrein og tær því hann hefur líklega prentað út aflátsbréf fyrir sjálfan sig. Þau hafa dugað kaþólskum vel í gegnum tíðina.
Ragnar Geir! Takk kærlega fyrir þetta vinarbragð að minna mig á þetta. Þú hefur gert mikið gott með þessari góðu athugasemd þinni því auðvitað var nauðsynlegt að ofangreint kæmi fram. Ég þykist vita að þetta svar mitt hafi sannfært þig um hið rétta í málinu. Ef ekki, þá sannast hið fornkveðna að enginn er blindari en maðurinn sem vill ekki sjá :)
Óli Jón, 14.10.2008 kl. 20:19
Óli Jón, takk fyrir málefnalegt svar og ítarlegt. Ég viðurkenni þó að ég fór ekki inn á tenglana þar sem þetta eru tenglar á fréttavefi. Ég hef fylgst nokkuð með umræðunni á undanförnum árum og þekki sumt af þessu en annað af afspurn. Mér er t.d. vel kunnugt um afglöp Chimoio erkibiskups í Mósambik en um þau skrifaði ég þennanpistil. Mér er einnig kunnugt um umdeild ummæli Trujillo erkibiskups sem hann sagði í viðtali við Panorama þátt BBC fyrir nokkrum árum. Þá umræðu tók ég við Vantrúarmenn 2005 eins og sjá má hér. Mér er líka vel kunnugt um þá skoðun sem fram kom í áður nefndum Panorama þætti um að boð páfans hafi orsakað fjöldadauða vegna HIV sýkinga, en ég hef aftur á móti aldrei séð tölfræði sem styður þá fullyrðingu og sé hana ekki hér hjá þér Óli Jón. Fullyrðinguna að kaþólska kirkjan [í heild] sé vitorðsaðili [svo] að útbreiðslu Aids í Afríku sé ég því ekki sannaða. Sér í lagi vegna þess að sumar kaþólskar hjálparstofnanir t.d. bresku hjálparsamtökin CAFOD hafa t.d. gagnrýnt stefnu páfastóls í þessum efnum. Hinu dettur mér ekki að neita að sumir prelátar kaþólsku kirkjunnar, t.d. áðurnefndur Chimoio hafi gert alvarleg mistök með óviturlegri áherslu á þessi atriði.
Hvað varðar fullyrðingu um þunganir í USA þá sé ég að fyrsti tengillinn er inn á grein í Time frá 1986 þar sem m.a. er vitnað í Bernard Law þáverandi kardínála í Boston þar sem hann lýsir mótstöðu við heilsugæslustöðvar, en þú veist væntanlega hver hann er. Hann var felldur úr sessi af kaþólskum prestum Boston vegna níðingsmála og þurfti að flýja land. Ég held ég geti varla tekið viðhorf þessa de facto fallna kardínála sem viðhorf kirkjunnar í heild. Síðari tenglarnir tveir eru inn á vef Planned Parenthood sem eins og þú veist hefur hagsmuni af fósturdeyðingum. Hagsmunaðili er því varla marktækur sem álitsgjafi hvað þetta varðar eða dæmigerður fyrir almenn viðhorf né fræðilegar niðurstöður. Hinu verður ekki neitað að kirkjan predikar staðfastlega skírlífi fram að hjónabandi og til að meta heildaráhrif hennar á þessu sviði þarf meira til en álit Planned Parenthood, eða álit fréttamanna hversu virtir þeir eru. Það þarf félagsfræðirannsóknir.
Síðasta atriðið hef ég heyrt um og ég hef haft afspurn af þessu skjali þar sem meint viðhorf eiga að hafa komið fram og ég veit að síðustu misseri hefur átt sér stað mikil umræða um þessi mál í Bandaríkjunum. Ég hef ekki sett mig mikið inn í hana, hef ekki haft tíma til þess. En ég veit að biskuparáð Bandaríkjanna hefur gripið til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir kynferðisbrot eða að brot verði þögguð niður. Ég held að núna dugi aðeins ein ásökun til þess að presti sé vikið úr starfi og það hefur vakið nokkuð sterk viðbrögð meðal þeirra því þeir telja sig ekki njóta mannréttinda á borð við aðra Bandaríkjamenn. En þessi mál eru auðvitað víðar í gangi en þar og hugsanlega þarf kirkjan að fara í mun meiri innri skoðun en gert hefur verið því auðvitað verður bæði hún sem og yfirmenn hennar að vera hafnir yfir allan grun í svona málum.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 14.10.2008 kl. 21:08
Ragnar Geir: Orðið 'vitorðsaðili' er vissulega óheppilega valið hjá mér. Góð þýðing á enska orðinu 'enabler' kemur frekar í hugann sökum þess að ég tel kaþólsku kirkjuna stuðla að útbreiðslu AIDS í Afríku með viðhorfi sínu gagnvart smokknum og þeim virku aðgerðum sem hún hefur beinlínis gripið til gegn honum. Í mínum huga er fyllilega hægt að líkja gerðum hennar við það þegar vegfarandi sér manneskju í nauð og kemur henni ekki til bjargar.
Hvað varðar tölur þá ætla ég að láta mér nægja að vitna í greinar virtra fréttamiðla, enda tel ég einsýnt að þeir hafi sjálfir rannsakað staðreyndir bak við skrif sín.
Óli Jón, 14.10.2008 kl. 21:34
Hafðu það eins og þú vilt Óli Jón. Þó ég beri virðingu fyrir fjölmiðlum og umræðu í þeim þá tel ég nú samt að heilbrigðisskýrslur séu eina örugga heimildin sem sannað getur jafn afdráttarlausa fullyrðingu eins og þá að kaþólska kirkjan stuðli að útbreiðslu AIDS. Ég held því fram að svona setning verði ekki sönnuð nema hægt sé að sýna fram á að manntjón af völdum HIV sýkinga sé merkjanlega meira hjá kaþólsku fólki en öðru á sama landsvæði. Það er venjan í nútíma samfélagi að byggja þekkingu á heimildum sem studdar eru vísindalegum athugunum en ekki flökkusögnum í fjölmiðlum, áróðri hagsmunaaðila eða skoðunum stjórnmálaafla eða álitsgjafa hversu virtir sem þeir annars eru.
Við megum ekki gleyma því að lítt grundað ámæli um páfann og kaþólsku kirkjuna er gamall ósiður sem óx að líkindum fiskur um hrygg á mótmælendatímanum og í nútímanum hefur þessi ósiður verið áberandi í sumum hópum mótmælenda nútímans svo sem hjá aðventistum sem eiga þó að heita kristnir bræður og systur okkar kaþólskra. Ég vil jafnvel ganga svo langt að segja að lítt ígrundað ámæli af þessu tagi sé eitt af költ einkennum sértrúarhópanna. Og hvað segir það okkur ef hreyfing herskárra trúleysingja heggur mjög í þennan knérunn? Er það ekki ótvírætt költ einkenni? Hvað sem því líður þá er nánast öruggt að þar sem drepsótt geisar mun óhjákvæmilega koma upp sökudólgaleit. Það að benda á páfann sem sökudólg og draga fram gagnrýni byggða á bjagaðri túlkun á boðun kirkjunnar er ekki vænlegt til aukins skilnings milli hópa í samfélaginu heldur vinnur það frekar í þá átt að byggja veggi og ala á tortryggni. Mér finnst að herskáir trúleysingjar ættu að íhuga þetta mjög vandlega og taka þetta atriði ásamt ýmsum öðrum til rækilegrar endurskoðunar ef þeir vilja halda sjó í umræðunni.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 14.10.2008 kl. 23:12
Ragnar Geir: Hvað í ummælum mínum um páfann er lítt ígrundað? Veldu eitt eða fleiri atriði úr listanum:
Í mínum huga er ekkert að því að atyrða fólk sem á það skilið. Ratzinger á það skilið. Klárlega!
Hvað varðar drepsóttina, þá benti ég ekki á páfa í því samhengi heldur kaþólsku kirkjuna í heild sinni og þráhyggju hennar varðandi stjórn á kynhegðun almennings. Það breytir því þó ekki að páfi er ábyrgur sökum þess að hann framfylgir þessari furðulegu stefnu.
Óli Jón, 15.10.2008 kl. 00:25
Það var og tenging hjá mér þarna Óli sem þýðir að ég átti við kirkjuna og páfann. Ég gæti tekið þessi ummæli sem dæmi:
Varla er ofmælt að kalla þessi ummæli lítt grunduð hafandi engar heilbrigðisskýrslur til að byggja á. Þú tekur einnig upp skammaryrðið "Rottweiler Guðs" og segir að hann hafi áréttað þá afstöðu kirkjunnar "að smokkurinn sé verkfæri djöfulsins [svo]" en bætir við að þó orðalagið hafi ekki verið þetta þá sé meiningin sú sama. Ég held að það sé vægt til orða tekið að kalla þetta lítt ígrunduð ummæli. Ég var reyndar í vafa hvort ég ætti að leggja inn athugasemdir því rökræður duga gjarnan skammt gagnvart stóryrðum og ofmælum og í þeim tilfellum er oft heppilegra að reyna ekki að ganga inn í eld reiðinnar. En ég hef stundum lesið það sem þú skrifar Óli, t.d. inn á síðu Jóns Vals og ég hef séð að þrátt fyrir allt að þá ert þú ert stilltur maður þegar kemur að rökræðum og ákvað því að láta reyna á rökræðuna, og sé ekki eftir því núna.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 15.10.2008 kl. 21:48
Ragnar Geir: Takk kærlega fyrir ágætt svar þitt. Hvað varðar athugasemdaþráð þennan og framhald hans, þá verðum við að vera sammála um að vera ósammála. Ég hygg að lesendur hans hafi nú fengið nægilegt magn upplýsinga til að ákveða hvort þeir vilji kanna þessi mál frekar, en ég vona sannarlega að þessi skrif okkar vekji upp spurningar hjá einhverjum.
Þá þakka ég hlý orð í minn garð varðandi stillingu og sný þeim til baka á þig. Allur málflutningur þinn hér hefur verið hóflegur og kurteis og væri óskandi að fleiri myndu temja sér slíkan stíl. Þetta merkir auðvitað ekki að ég sé sammála þér um allt, frekar en þú mér, en við eigum ávallt að geta sýnt lágmarks kurteisi og virðingu þrátt fyrir að hafa andstæðar skoðanir.
Óli Jón, 16.10.2008 kl. 00:12
Takk sömuleiðis Óli. Við erum alla vega sammála um að það er mikilvægt að geta rætt hreinskilnislega og opinskátt saman á rólegu nótunum. Þannig er bæði hægt að eyða misskilningi og byggja upp gagnkvæman skilning og umburðarlyndi milli ólíkra hópa þjóðfélagsins. Hvernig okkur hefur tekist verða samt aðrir að leggja dóm á.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 18.10.2008 kl. 08:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.