Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Bensínlítrinn á 250 kall!
Orkumálaráðherra Qatar lætur hafa eftir sér að ekki sé útilokað að olíufatið fari á $200 fyrir lok þessa árs. Slíkt myndi gera það að verkum að bensínlítrinn færi í 250 krónur hérlendis. Þetta ætti, fyrir utan alla aðra áhrifaþætti, að reka stjórnvöld og málsmetandi menn hérlendis til þess að íhuga aðrar leiðir í orkumálum fyrir landann.
Við höfum nokkrar leiðir og allar góðar:
- rafmagn
- vetni
- metan
Rafmagn
Það eru gömul sannindi og ný að nú eru til rafmagnsbílar sem myndu henta landanum prýðilega. Góð reynsla er af hinum norska Think City sem frændur vorir nýta sér í æ ríkari mæli innanbæjar. Þegar ég var í Osló nýverið sá ég þessa smáu og lipru bíla þeytast um í umferðinni, hljóðláta og lausa við mengun. Ef einhver þjóð á að geta nýtt sér rafmagn þá er það sú íslenska.
Vetni
Þróun vetnisbíla er komin það langt á veg að þeir eru að verða tilbúnir til fjöldaframleiðslu og sölu. Íslendingar hafa barið sér á brjóst og bent á þessa einu áfyllingarstöð sem er að finna hér, en betur má ef duga skal. Það þarf að setja upp net vetnisstöðva þannig að það sé raunhæft fyrir almenning að kaupa slíka bíla. Stjórnvöld þurfa að koma að því máli með ívilnunum og styrkjum, enda er þetta þjóðþrifamál.
Hvað varðar framleiðslu vetnisins þá gerum við það með því að virkja í Breiðafirði. Þar býr gríðarlega mikil orka í sjávarföllunum, en sá galli er á gjöf Njarðar að flæði hennar er óstöðugt, enda fylgir það flóði og fjöru. Þá er besta leiðin í stöðunni að forða orkunni sem virkjuð er í vetnisformi. Þannig ætti að myndast nægt framboð vetnis til innanlandsnotkunar auk þess sem hægt væri að flytja út grænasta vetni í heimi, auðvitað í vetnisknúðum flutningaskipum.
Helsti gallinn við vetni er sá að nokkur hluti orkunnar fer forgörðum þegar rafmagni er snúið yfir í vetnið. Hins vegar má reikna með því að hægt verði að ráða einhverja bót á því í framtíðinni. Það sem eftir stendur er að við erum með orku sem daglega fer í súginn; orku sem er sú grænasta og besta sem völ er á. Það er betra að forða henni í vetni í stað þess að láta hana renna út í sandinn, í orðanna fyllstu merkingu.
Metan
Hvernig þætti þér, lesandi góður, að borga 84 krónur fyrir bensínlítrann í dag? Það er það verð sem eigendur metan-knúinna bíla eru að borga í dag. Að eiga og reka metanbíl hlýtur að vera eins og keyra um á tímavél, í hverri þú ferðast langt aftur í tímann í hvert skipti sem þú fyllir á - til tíma þar sem bensín var á skikkanlegu verði. Þá er metan vænn kostur fyrir náttúruna 113 metanbílar menga eins og einn bensínbíll!
Úr sorphaugunum í Álfsnesi er hægt að vinna nægjanlega mikið metan-gas árlega til að knýja um 4 þúsund bíla. Það munar um minna! Auðveldlega er hægt að auka þessa framleiðslu, ef vilji er fyrir hendi. Nánari upplýsingar má finna á metan.is.
Er þetta er draumur sérhvers Íslendings? Að við getum orðið sjálfstæð í orkumálum og séum ekki háð fáránlegum sveiflum í orkuverði á erlendum mörkuðum? Búum við ekki best í haginn fyrir börnin okkar með því að grípa til aðgerða strax í dag og vinna að því að gera þessa drauma að veruleika. Í besta falli gengur allt upp og við lifum hamingjusöm um aldur og ævi og í versta falli losnum við við trukkabílstjórana af götunum.
Það er til nokkurs að vinna!
Athugasemdir
Morgunljóst er að það er miklu ódýrara að framleiða alla þessa hluti á Íslandi en að kaupa olíu að utan.
Rafmagnið er sennilega ódýrst, þetta litla metan sem við getum fengið frá Álfsnesi þarf bara að safna saman. Vetnið er ekki dýrt en dýrara en rafmagn, það er líka lengra í að vetnisbílar komi á viðráðanlegu verði, ef það gerist þá nokkurtíman.
Rafmagnsbílar ljóta að vera framtíðin.
Halldór 30.4.2008 kl. 16:07
Þetta er kórrétt hjá þér. Á meðan lítraverð olíu heldur áfram að hækka þá verður að vinna í því að koma með raunhæfan valkost við bensín. Ef líterinn fer í 250 kall, eins og allt bendir til að hann geri á næstu mánuðum, þá er ekki galið að vinna í því að koma með orkugjafa unninn úr rafmagni, etanóli, metan eða vetni.
Það er morgunljóst að framtíðin er rafmagn, en hvernig það verður búið til í framtíðinni er ekki ljóst. Ef kjarnasamruni verður einhverntíman að veruleika þá er búið að leysa flest mál. Kjarnasamruni yrði þá hreinasti orkugjafi sem til er,svo til mengunarlaus og nóg af honum.
Rafmagn er framtíðin
Helgi Jónsson, 30.4.2008 kl. 16:22
Við verðum að horfa til þess að við erum í aðstöðu til þess að framleiða næga græna raforku og nægt grænt vetni til að anna allra eftirspurn innanlands og rúmlega það. Hagurinn af ofangreindum ráðstöfunum er margvíslegur:
Það væri ekki ónýtt í mengaðri heimi að geta kynnt litla Ísland sem fullkomlega grænt samfélag þar sem við nýtum aðeins endurnýjanlega orkugjafa. Auðvitað yrðu álverin hér áfram, en knúin grænni orku ólíkt flestum þeim álverum sem finna má hér á jörð. Þetta er mögnuð framtíðarsýn og það besta sem við getum gert fyrir börnin okkar og barnabörn.
Óli Jón, 30.4.2008 kl. 16:29
Ef spurningin snýst um hvort er meira sexí, rafmagn eða bensín, þá myndi bensínið líklega vinna skv. ofangreindum forsendum. Hins vegar vita þeir sem reynt hafa að skynsemin er iðulega víðs fjarri þegar sex er annars vegar.
Óli Jón, 30.4.2008 kl. 16:33
Það er auðvitað hálfgert þjóðarmein að hér skuli fólk ekki telja sig geta farið út í búð á þurru malbiki nema á rándýrum og risastórum jeppum. En það verður gaman að sjá hversu sexí það verður að reka slíkan bensínhák þegar/ef eldsneytislítrinn fer í 200+ krónur, hvað þá 250 kall. Þá hygg ég að margur jeppaeigandinn muni gefa rafmagnsbíl undir fótinn ef þeir verða almennt í boði hér. Það verður lítið sexí að borga tæplega 5 þúsund kall fyrir eldsneyti sem dugar í 100 kílómetra akstur. Hmmm, ekki nema mönnum finnist það sexí að þurfa að borga fyrir það? Slíkt þekkist.
Menn geta svo auðvitað haft sínar skoðanir á því hvort það sé gott eða slæmt að dæla kolefni út í andrúmsloftið eða hvort það skipti í raun engu máli. Mitt mat, sem ólærður leikmaður, er að við hljótum að finna fyrir því fyrr en síðar þegar 70 milljónum tonna af kolefni er dælt daglega út í andrúmsloftið og önnur 25 milljón tonn renna í sjóinn. Mánaðarlega eru þetta 2,1 milljarður tonna í andrúmsloftið og 750 milljónir tonna í sjóinn.
En það skiptir okkur svo sem engu máli ... þetta lendir bara á börnunum okkar.
Óli Jón, 30.4.2008 kl. 16:54
kommon... olíuverðsþróunin núna er sennilega ekki tímabundin og þig Faire vantar tvö ár... olían er mjög takmörkuð og heldur áfram að verða dýrari
halldór 30.4.2008 kl. 21:10
Vera má að það verði næg olía til næstu ára og áratuga, en eftirspurnin eftir henni mun verða meiri en eftirspurnin. Sérfræðingar spá því reyndar að framleiðsla muni ná hámarki innan 5-10 ára og það þrátt fyrir bætta tækni í djúpborun.
En ekkert breytir því að við eigum að setja okkur metnaðarfull markmið í orkumálum. Við höfum efni á því og það sem meira er, við munum stórgræða á því. Það er bara góður 'bissniss' fyrir Íslendinga að vera grænir í dag.
Óli Jón, 30.4.2008 kl. 22:05
Það hefur aldrei verið til meira af þekktum olíulindum en í dag. Olíuverð á eftir að detta niður aftur.
Þorsteinn Sverrisson, 30.4.2008 kl. 22:33
Eg er þér sammála að öllu leit Óli Jón, nú horfir svo að benzínllíterinn fari yfir 200 kr í sumar, og ekki væri ég undrandi að hann nálgaðis 300 næsta sumar, því þrátt fyrir allt er olía ódýr miðað við orkuinnihald. Mín skoðun er sú að við höfum náð toppi í bílaeign hérlendis, og er því nær óskyljanleg umræðan um byggingu mislægra rándýrra gatamóta, og tvöföldun þjóðvega ein og austur Hellisheiði. Mér fynnist nær að stjórnvöld samgönumála færu strax í að skipuleggja leiðakerfi fyrir rafmagnslestir, hér á Reykjavíkursvæðinu og austur fyrir fjall og á Reykjanesið. Það er einungis spurning um tíma að fólk er býr í úthverfum og dreifbýlisstöðum hefur ekki ráð á að keyra sig til vinnu á einkabíl.
Hugmynd þín um sjávarfallavirkjun er athyglisverð, og hefur mér komið til hugar að nýta hluta raforkunar til framleiðslu á Vetni, en í stað þess að koma ekki á bíla þá nota hana til að framleiða raforku á liggjandnum.
Það er sjálfsagt rétt hjá ykkur að aldrei hefur verið meira að þekktum olíulindum en í dag, en spurninginn er sú hversu mikið er eftir í þeim, og hvað kosta að ná ólíunni upp. Nær öll auðvinnanleg og ódyr olía er þegar búið að brenna, og nú í dag er vandfundinn það olíusvæði er hægt er að framleiða undir 50 dollara tunnuna.
haraldurhar, 30.4.2008 kl. 23:33
Þó allar þessar lausnir sem þú listar upp séu vissulega góðar og það sé auðvitað draumur hvers manns að Ísland geti orðið sér nógt um orku (jafnvel farið að flytja hana út) er langt í að nauðsynleg uppbygging eigi sér stað til að vetni og metan verði álitlegir kostir og flestir rafmagnsbílar eru ennþá mjög takmarkaðir bæði hvað afl og drægni varðar.
Það sem ég er að bíða eftir eru svokallaðir "Plug in Hybrid" bílar. Þessir bílar vinna þannig að þegar maður kemur heim til sín stingur maður bílnum í samband og hleður upp rafhlöðurnar í honum. Þegar kemur svo að því að keyra í vinnuna getur maður keyrt á rafhlöðunum eingöngu uþb 15 kílómetra (sem myndi rétt rúmlega passa fyrir mig niður í vinnu) svo myndi maður stinga bílnum í samband uppí vinnu og keyra aftur heim á rafhlöðunni. Í vinnuna og heim aftur án þess að eyða einum bensíndropa. Af hverju þá ekki bara rafmagnsbíl? Ef ég vil fara út fyrir bæjinn til að hitta frændfólk dugir rafmagnsbíllinn ekki til nema ég stoppi á leiðinni og hlaði bílinn (sem gæti tekið drykklanga stund þar sem flestir rafmagnsbílar nota NiMH rafhlöður sem tekur svakalegan tíma að hlaða. Hybrid bíllinn hinsvegar brennir bara smá bensíni og ég þarf ekkert að stoppa.
Gunni 1.5.2008 kl. 10:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.