Gígabæti hér og gígabæti þar!

millionaireHér kemur stutt saga um tvo stórkaupmenn sem seldu sams konar vöru á markaði. Varan þótti ætíð vera dýr, hvert stykki kostaði tvöþúsundogfimmhundruðkall, og báru stórkaupmennirnir það ætíð fyrir sig að þeir hefðu mikinn kostnað af því að útvega og selja vöruna og því gætu þeir ekki haft verðið lægra. Nú bar svo við að smákaupmaður nokkur hóf að selja sams konar vöru, nema hvað hann bauð hana þannig að viðskiptavinir hans borguðu lítið eitt meira en þess í stað gátu þeir tekið eins mikið af vörunni og þeir vildu. Þegar þetta var raunin gátu stórkaupmennirnir skyndilega boðið viðskiptavinum sínum það að þeir borguðu að sama skapi lítið eitt meira og gátu þá á móti tekið næstum því eins og þeir vildu af vörunni.

Það þarf ekki snilling til að sjá að sagan sem hér fór á undan er hryllingssaga og flestir lesendur eru væntanlega búnir að sjá að stórkaupmennirnir eru Síminn og Vodafone, en smákaupmaðurinn er Hive. Varan er svo niðurhal gagna frá útlöndum.

Það er stórmerkilegt að hugsa til þess að Síminn selur hvert gígabæti af útlandaniðurhali á tvöþúsundogfimmhundruðkall, Vodafone telur sig geta haft hagnað af því að selja það á helmingi þess verðs. Eftir að hafa varið þessa svívirðilega verðlagningu í langan tíma með því að bera sig aumlega geta þessir stórkaupmenn allt í einu selt lágmark 40 gígabæti á þúsundkall! Er ekki eitthvað skrýtið við þetta? Vara sem áður þurfti að kosta hundraðþúsundkall (40 x 2.500) selst nú á þúsundkall eða eitt prósent af því verði sem áður var sagt þurfa til að standa undir kostnaði og skila eðlilegri álagningu! Oft er munurinn reyndar mun meiri, því sk. öllu getur ótakmarkað niðurhal innifalið mun meira gagnamagn en þetta. Best er þó að nota 40 gígabætin sem viðmiðun. Hvernig víkur því við að allt í einu skuli þetta vera hægt?

Það er hald mitt að íslenskir netnotendur hafi um langan tíma verið hafðir að ginningarfíflum þegar stórkaupmennirnir Síminn og Vodafone gátu komist upp með það. Við borguðum hundraðfalt verð (sbr. dæmið hér að ofan) í skjóli þess að annað hvort höfðu þessi fyrirtæki með sér samantekin ráð eða með framtaksleysi sínu héldu niðri eðlilegri samkeppni. Í raun réttri er hér um að ræða mál sem líkja má beint við stóra olíusamráðsmálið, en samkeppnisyfirvöld og Póst- og fjarskiptastofnun hafa ekki haft döngun í sér til að kanna þetta. Netnotendur bjuggu við okurkjör í helköldum faðmi risanna þar til peðið Hive kom til skjalanna. Den tid, den sorg?

Skulda stóru símafyrirtækin netnotendum ekki afsökunarbeiðni vegna þessa? Ótakmarkað? Hmmm!!Ef ef svo er, er það líklegt að hún komi einhvern tíma fram?

Í lokin má einni spyrja hvort eðlilegt geti talist að fyrirtæki geti auglýst "ótakmarkaða" notkun sem síðan er í raun takmörkuð þegar á hólminn er komið? Eru þessi vinnubrögð ekki dæmi um svik og blekkingar af versta tagi í viðskiptum? Hvenær varð "ótakmarkað" að "svolítið mikið, en alls ekki ótakmarkað ef þú lest skilmálana til enda, sem við vitum að þú gerir bara alls ekki!"? Er endalaust hægt að slá upp slagorðum sem byggja á fölskum forsendum í grunninum og skáka endalaust í skjóli endalausra skilmála og sex punkta leturs?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Þetta er einhversskonar meinloka hjá fólki að halda áfram endalaust að láta Landssímann arðræna sig. Ekki þarf fólk lengur að halda sig þar vegna þess að þetta sé ríkisfyrirtæki. Þetta er bara gróðamaskína og OgVodafone hefur notið góðs af því og eflaust haft gott uppúr því að leggja sig á hálfvirði við Símann sem ekki hefur tapað nógu mörgum kúnnum yfir þrátt fyrir allt því ekki lækkaði hann verðið fyrr en Hive menn mættu.

Lifi virk samkeppni

Dauði yfir fákeppnina

Guðmundur Ragnar Björnsson, 10.3.2007 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband