Hvað gerir ráðherra sjálfur?

Auðvitað er fyrirsjáanlegt að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins tali mærðarlega til fulltrúa Ríkiskirkjunnar á Kirkjuþingi, það gera allir almennilegir stjórnmálamenn sem vita hvað til síns friðar heyrir. Hún er væntanlega að bera í bætifláka fyrir það að landsfundur flokksins hafnaði kristilegum gildum um daginn, en þá hentaði ekki að hafa þessi úrvals gildi sem mælistiku á rétt og rangt.

En hún vill að ríkið herði róðurinn í innsetningu trúar í hugi lítilla barna og í framhaldi af því væri áhugavert að sjá hvers konar trúarlífi innanríkisráðherra lifir með sínum börnum. Fer hún reglulega með þau í kirkju? Lætur hún þau fara með bænir reglulega? Ræðir hún trúmál við þau? Kannar hún hug þeirra til annarra trúarbragða? Segir hún þeim skemmtilegar dæmisögur úr Biblíunni, t.d. söguna um það þegar Guð drekkti nær öllum á jörðinni í syndaflóðinu, líka börnum og kettlingum? Fer hún með þau í sunnudagaskóla? Lætur hún þau biðja borðbænir? Lætur hún þau jesúsa sig þegar einhver hnerrar? Þetta eru eðlilegar og sjálfsagðar spurningar til stjórnmálamanns og ráðherra sem vill efla og treysta ríkisforsjá í málaflokki sem er líklega sá sem er best til þess fallinn að vera án afskipta ríkisins. Svo vitnað sé í orð Jesúss sjálfs þá eiga kristnir menn bara að vera heima hjá sér, lokaðir einir inni í herbergi, þegar þeir nálgast guð sinn. Í besta falli þarf að treysta húsnæðislánakerfið og leigumarkað til þess að fólk geti farið eftir þessum fyrirmælum.

Ég efast reyndar ekki um vilja innanríkisráðherra í þessum efnum, en mér þætti þó gaman og áhugavert að sjá hennar framlag til innsetningar á trú í hugi barna sinna, þ.e. innsetningu á þeirri barnatrú sem ráðherra telur svo frábæra og sanngjarnt að lesa inn í hugi barna sem hafa ekki vitsmunalegar forsendur til þess að vega og meta á eigin verðleikum. Það væri nefnilega nokkuð skondið ef hún ætlar sér að treysta alfarið á ríkið í þeim efnum!


mbl.is Ráðherrar virði mannréttindi allra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það væri allt í lagi ef hun hefði verið að tjá sína privat sannfæringu sem almennur borgari, en það er algerlega ólíðandi að hún geri það sem ráðherra.

Þetta er borderline stjórnsýslubrot að hún skuli hygla metafýsískri sannfæringu sinni og lífskoðun á kostnað annarra og lýsa vilja til að misbeita valdi sínu og misnota umboð sitt til trúboðs á vegum hins opinbera.

Ætli hún að leyfa trúboð og innrætingu í skólum landsins (nokkuð sem er ekki á verksviði rikisins og hefur ekkert með nám að gera) þá skal hun í okkar sundurleita fjölmenningasamfélagi brjóta allar menntastofnanir upp í trúarlega skilgreindar fraksjónir og leyfa öllum költum og söfnuðum aðgang að skólakerfinu. Truarlegt apartheit er eina leiðin.

Þetta eru rikisafskipti á sterum og getur ekki staðist lög um mannréttindi. Hér þarf að byrja að aðskilja ríki og kirkju með skýrum hætti.

Það er merkilegt á meðan kirkjuhírarkíið viðurkennir ekki að kirkjan sé ríkisstofnun þá skal rikið engu að siður með einhverskonar lögboði veita þeim frelsi til trúboðs og kosta það.

Þetta teboðslið sjálfstæðisflokksins er fullkomlega firrt og galið þegar að þessu kemur. Hvernig er hægt að setja truast sitt á leiðtoga, sem þykist vera í einhverskonar sambandi við yfirnáttúrlega veru og lúti valdi hennar.

Ætli menn tæku þessu jafn heilagt ef um Mormóna, múslima eða vísindakirkjumeðlim væri að ræða? Myndi það ekki vekja upp harmakvein um algeran galskap?

Hræddur um það, enda er þetta allt fullkominn galskapur.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2013 kl. 16:23

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Menn höfðu allat svo mikla tröllatrú á Þorgerði Katrínu, mér fannst hún alltaf viðsjálverður gripur, sama er að segja um Hönnu Birnu, þessar konur leika einhvern leik til að þykjast vera svo góðar, en eru ekkert annað en sleikjudýr við valdið, því miður.  Það þarf engan snilling til að sjá, og því meira sem þessi kona segir og gerir, því meira sannfærist ég um að ég hef rétt fyrir mig, snilldarpistill annars Óli Jón.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2013 kl. 18:53

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ert þú Óli virkilega að halda því fram að fólk í stjórnmálum noti kristna trú sér til framdráttar í pólitík? Hvort sem ,,gripir,, eins og Þorgerður ofl.Ásthildur eru sleykjudýr við valdið,og stundum við þá sem minna mega sín öryrkja,afbrotamenn t.d.,þá komast þeir ekki hjá því að taka afstöðu til þeirra,meðan þau eru í ráðherrastöðum. Jón Steinar.það sem þú kallat trúboð og innrætingu í skólum,hefur alltaf verið eins og það er í dag,mér vitanlega,án nokkurra aðfinnsla,þar til allra seinustu árin. Ég hugsaði það ekki sem einhver útlát af hálfu ríkisins,þótt Gidionfélag gæfi Nýjatestamenntið,eða að það breytti neinu um innrætingu. Kristni er einfaldlega lögboðin trú á Íslandi og gilda enn samningar milli kirkju og ríkis. því er það þá ekki jafn eðlilegt að ráðamenn þessa lands líti á kristna trú heilagri en múslima eða vísindakirkjumeðlim,eða mormóna (sem mig minnir að séu af kristnum meiði. Í þessum skrifuðu orðum velti ég fyrir mér,hvort ríkið styrki trúboð víða í Afríku og Kasastan,en þar vinnur þórir fyrrverandi fréttamaður á vegum RKí,hvort ríkið kemur að því man ég ekki en hef farið á áhugaverða myndasýningu hjá Þóri.

Helga Kristjánsdóttir, 19.11.2013 kl. 04:11

4 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

"Ert þú Óli virkilega að halda því fram að fólk í stjórnmálum noti kristna trú sér til framdráttar í pólitík?" Ég held nú reyndar að Óli hafi alveg rétt fyrir sér í þeim efnum Helga. Það hefði nú samt verið æskilegra að þessi þingmaður hefði boðað þessa skoðun sína fyrir kosningar. Þingmenn eiga að vera fulltrúar ákveðins hóps(ca.2500-3000) sem eru sömu skoðunar . Ef einhver hefur kosið hana sem er ekki sömu skoðunar og hún í þessum efnum þá hefur hún fengið kosninguna á fölskum forsendum. Í þessu máli kemur hún sem fulltrúi þjóðarinnar allra en hún hefur ekki umboð til þess. Ég reikna með að þú viljir hafa þinn fulltrúa á þjóðþinginu og hafir kosið þann en hefurðu fylgst með að sá fulltrúi standi við það sem þú hefur kosið hann til en sé ekki að sleikja upp flokkshagsmunina og fólk og þjóðfélagshópa sem eru með aðrar áherslur en þú?

Jósef Smári Ásmundsson, 19.11.2013 kl. 06:52

5 Smámynd: Skeggi Skaftason

Helga Kristjánsdóttir segir:

Kristni er einfaldlega lögboðin trú á Íslandi

Nei, sem betur fer er það ekki svo. Ótrúlegt að fólk skuli yfir höfuð taka svona til orða.

Skeggi Skaftason, 19.11.2013 kl. 08:48

6 identicon

Hanna Birna segir börnum sínum sögur fyrir svefninn: Nú ætla ég að segja ykkur kærleiksríka sögu um þegar uppáhalds galdrakarlinn okkar, Geimgaldrakarl ríkisins, söguna um það þegar hann drap allan heiminn vegna þess að honum líkaði ekki við einhverja menn...

Og krakkar, hvað segir Geimgaldrakarl ríkisins að eigi að gera við óþekk börn, jú það á að drepa þau..
Farið nú með bænirnar ykkar til kærleiksríka Geimgaldrakarlsins og góða nótt

DoctorE 19.11.2013 kl. 09:16

7 Smámynd: Óli Jón

Helga: Auðvitað fullyrði ég það. Ekki eru t.d. mörg ár síðan að allir þingmenn lufsuðust í Dómkirkjuna við setningu Alþingis, en það þarf engum blöðum um það að fletta að aðeins hluti þeirra játaði kristna trú. Í dag eru hins vegar til þingmenn sem láta það ekki yfir sig ganga að sitja undir trúarlegu tiltali frá fulltrúa trúfélags við setningu veraldlegs þings þjóðarinnar. Það er nefnilega þannig að hingað til hefur borgað sig fyrir stjórnmálamenn að gera kristnina að sinni því ítök hennar voru hreinlega það mikil. Í dag víkur hins vegar öðru við því trúin er á undanhaldi vegna þess að unga fólkið sér að tilboð hennar er innantómt og úr takt við tímann.

En að því sögðu þá er stóri punkturinn í færslunni vangaveltur um að hve miklu leyti fulltrúi einkavæðingarflokksins vill selja innrætingu trúar barna sinna í hendur ríkisins. Málið er nefnilega það að kristin trú er ekki bara kristin trú. Hún er eins og pizzustaður þar sem þú getur fengið lítinn, miðlungs eða stóran botn og svo sett á hann allt það sem þig lystir. Þess vegna eru til ótal afbrigði af trúnni, sum bragðmeiri en önnur. Skv. líkindareikningi eru litlar líkur á því að trú innanríkisráðherra fari saman við það afbrigði sem ríkið leggur inn hjá leik- og grunnskólabörnum.

Hér eru t.d. nokkrar spurningar sem innanríkisráðherra þarf að svara áður en hún lætur ríkið um trúarlegt uppeldi barna sinna. Þetta er síður en svo tæmandi listi, en hann gefur ákveðna vísbendingu um hvers konar villumýri kristin trú er.

  • Hvort er hvíldardagurinn á laugardegi eða sunnudegi? Þetta virðist léttvægt og kjánalegt, en er samt stór ásteytingspunktur hjá mörgum kristnum og magnað deiluefni.
  • Trúir hún því raunverulega að Jesús Jósepsson hafi dáið, en risið upp frá dauðum á þriðja degi? Sumir trúa þessu hikstalaust, flestir telja þetta dæmisögu.
  • Trúir hún því að syndaflóðið hafi átt sér stað? Drap Guð nær alla jarðarbúa án miskunnar eða er þetta bara hryllileg dæmisaga?
  • Trúir hún því að til sé helvíti þar sem trúlausir endi? Um þetta eru skiptar skoðanir.
  • Er hún sammála því að konur eigi að þegja í kirkjum? Þetta býður Biblían, en sumir kristnir kjósa að taka þetta ekki bókstaflega.
  • Telur hún að Biblían sé í raun bara Nýja testamentið eða er Gamla testamentið í henni líka?
  • Ef hún telur að Gamla testamentið tilheyri Biblíunni, gerir hún það þá undanbragðalaust eða undanskilur hún ákveðna kafla þess eins og svo margir?
  • Er hún sammála þeim orðum Jesúss að trúaðir eigi ekki að biðjast fyrir í margmenni, heldur eigi þeir að loka sig af inni í herbergi og biðja þar? Ef hún trúir þessu, þá ætti hún að sjá að kirkjubyggingar eru fjársóun.
  • Trúir hún því að samkynhneigð karla sé viðbjóðsleg synd?

Þetta eru bara nokkrar spurningar sem valdar eru af handahófi sem sýna glögglega hversu sundurleit kristin trú er. Hvað á að kenna í skólum? Að syndaflóðið hafi átt sér stað eða að þetta sé bara dæmisaga? Eiga konur að þegja í kirkjum eða var Páll postuli bara að bulla? Er í lagi að borða svínakjöt? Var sanngjarnt að guð sendi tvær birnur til þess að drepa 42 ungmenni fyrir þær sakir einar að kalla gamlan spámann sköllóttan?

Verðum við ekki að skilgreina hver túlkun ríkisins á kristinni trú á að vera áður en farið er í að innsetja hana í varnarlaus börn? Verður þessi túlkun ekki að liggja fyrir svo kristnir foreldrar geti sjálfir metið hvort túlkun ríkisins fari saman við þeirra túlkun. Þú hlýtur að sjá að þetta er botnlaus mýri þegar fólk hættir sér út í hana!

Svo er hitt að ef boðun kristinnar trúar er leyfileg í skólum, mætti ég þá hitta grunnskólabörn og ræða við þau um kosti trúleysis?

Óli Jón, 19.11.2013 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband