Miðvikudagur, 2. nóvember 2011
Spor í rétta átt, en letilega gengið ...
Ég var of fljótur á mér að fagna þessu frumvarpi og læt bréf sem ég sendi rétt áðan til Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, hingað inn í staðinn fyrir upprunalegu færsluna sem er auðvitað bara kjánaleg og mér til vansa þegar hún er lesin núna. Hún er hins vegar hér neðar fyrir þá sem vilja kætast aðeins yfir vitleysunni í mér. Í færslunni geri ég grín að Rögnu Árnadóttur, en það má þó segja henni til hróss að hún ætlaði að leiðrétta þetta mál alla leið og ekki gefa neinn afslátt frá sjálfsögðum mannréttindum nýfæddra barna.
--- Nýtt innlegg, sett inn 2. nóvember kl. 22:31 ----
Sæll, Ögmundur.
Ég var að fara yfir lýsingu á nýju frumvarpi til laga um lífsskoðunarfélög og hnaut um þetta:
Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess. Sama gildir ef foreldrar eru utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.
Það er enginn rökstuðningur fyrir því í frumvarpinu af hverju þetta eigi að vera svona. Af hverju er rétt að ætla barni það að verða múslimskt eða kristið bara vegna þess að foreldrar þess játa þá trú? Að sama skapi mætti taka gömlu klisjuna um af hverju nýfætt barn tveggja vinstri grænna foreldra er ekki skráð beint í flokkinn, en ég sleppi því. Að sama skapi sleppi ég því að taka gömlu klisjuna um nýfædd börn tveggja sjálfstæðismanna því ég veit að þér finndist fátt fáránlegra en að þau væri vélrænt skráð í flokk foreldra þeirra.
Ég tel að með þessu frumvarpi sé hvort tveggja verið að
- gera lítið úr trú og lífskoðunum fólks með því að kenna ómálga börn við þær og
- gera lítið úr eðlilegum og sjálfsögðum mannréttindum nýfæddra barna
Frumvarpið gerir nefnilega ekki ráð fyrir því að eðlilegur réttur barnsins hafi hingað til verið brotinn með þessu gallaða fyrirkomulagi, heldur að áður hafi bara verið brotið gegn rétti föður sem ekki var í sama trúfélagi og móðirin. Þetta gengur gegn Réttur barnsins er þarna fyrir borð borinn, því miður. Ég hafði vænst þess að það yrði fastar stigið í lappirnar í þessum efnum, en þarna er bara stigið hálft skref og frekar máttleysislega til jarðar stigið! Ég leyfi mér að vitna í orð lögfræðings Mannréttindastofu sem ég tek upp úr frétt á mbl.is:
Í áliti Ingibjargar Elíasdóttur, lögfræðings Jafnréttisstofu, um málið kemur fram að ekki sé að sjá að neinir hagsmunir felist í því, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag. Þetta snýst ekki um rétt móðurinnar eða rétt föðurins til að barnið sé skráð með öðru hvoru þeirra í trúfélag. Hagsmunir barnsins eiga alltaf að vera hafðir að leiðarljósi fram yfir hagsmuni foreldranna, og það er erfitt að sjá að sé hagsmunamál fyrir barnið að vera skráð í eitthvert tiltekið trúfélag við fæðingu.
Þarna er lögfræðingur Jafnréttisstofu á því að verið sé að brjóta á rétti hins nýfædda barns. Eins og áður sagði, þá virðist frumvarp þitt aðeins gera ráð fyrir að brotið hafi verið gegn rétti föðurins, sem er miður.
Ég vona að þetta séu bara fyrstu drög og að í næstu mynd frumvarpsins verði betur hugað að rétti hins nýfædda barns til þess að vera ekki merkt kristið, múslimskt eða hverju öðru tagi sem hengja má á það. Því neita ég að trúa að þú sért fylgjandi því að skrá einstaklinga félög án þess að þeir hafi nokkuð um það að segja! Með því er lítið gert úr einstaklingnum sjálfum, sem og því félagi sem hann er, fyllilega óviljugur, skráður í.
Við vitum reyndar báðir að ástæða þess að börn hafa hingað til verið skráð í trúfélög er sú að með því er myndaður grunnurinn að framtíðartekjustofni þjóðkirkjunnar. Það er bara ekki næg ástæða til þess að brjóta á rétti nýfæddra barna.
Það er engin rík og knýjandi ástæða, sé hagsmunagæsla gagnvart trúfélögum undanskilin, til þess að skrá nýfædd börn í trúfélag. Ef svo er, þá þarf sú rökfærsla að fylgja með frumvarpinu. Innanríkisráðuneytið setur niður við svona frumvarpsgerð, því miður. Einhvern veginn vaknar sú tilfinning að réttur nýfæddra barna hafi verið skiptimynt í einhverjum pólitískum hrókeringum. Vonandi er það ekki raunin!
Með baráttukveðjum og von um að réttur allra nýfæddra barna verði réttur en ekki bara þeirra sem eiga trúarlega ósamstíga foreldra!
- Ólafur Jón Jónsson
--- Upprunalega færslan ----
Þetta er sannkallað gæfuskref sem þarna er stigið enda hreint og klárt brot gegn ómálga börnum að skrá þau í félög hvers konar og þá sér í lagi félög sem eru jafn gildishlaðin og trúfélög.
Ég vona að ráðherra standi fastur fyrir og láti þetta mál ekki daga uppi líkt og gerðist í tíð Rögnu Árnadóttur, þv. dómsmálaráðherra, en hún hafði lofað þessari sjálfsögðu og eðlilegu mannréttindabót. Mannréttindi barnanna voru þó ekki meira virði en svo að þessu einfalda, en mikilvæga, máli var kippt út á elleftu stundu vegna annarra og mikilvægari hagsmuna.
Ótilgreind staða við fæðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:32 | Facebook
Athugasemdir
því miður er skráningu einungis hætt ef foreldrar eru í sambúð/hjónabandi og ekki í sama trúfélagi.
þannig að vissulega skref í rétta átt en einungis lítið skref í þetta sinn!
BJÖRK , 2.11.2011 kl. 19:32
Hvers vegna er þetta á höndum lögjafans að ákveða og setja lög um? Mér er algerlega fyrirmunað að skilja það.
Jón Steinar Ragnarsson, 2.11.2011 kl. 21:45
"Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga." stendur í 64 grein. Gefur það ekki til kynna að þessi skráning sé bundin sjálfsákvörðunarrétti?
Á meðan þetta fyrirkomulag líðst þá er ekki öllum frjálst að standa utan trúfélaga. Þetta er stjórnarskrárbrot.
Sjálfsákvörðunarréttur miðast við væntanlega við að vera sjálfráða eða 18 ára. Engin skylda er lögð á skráningu í trúfélög eins og t.d. skólaskylda sem forráðamönnum ber að framfylgja. Trú byggir á persónulegri sannfæringu. Hvernig getur nokkur maður ákveðið fyrir annan hver þessi sannfæring mun verða?
Þessi 7 orð í stjórnarskrá eru næg. Þau segja raunar að hér er verið að fremja mannréttindabrot.
Jón Steinar Ragnarsson, 2.11.2011 kl. 22:00
Flott bréf hjá þér, og punktar Bjarkar og Jóns einnig.
Spurning hvort að einhver geti farið í mál við ríkið - ef ríkið skráir viðkomandi í trúfélag þegar hann/hún er barn?
Arnar Pálsson, 9.11.2011 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.