Þriðjudagur, 31. maí 2011
Um samband ríkis og kirkju
Þegar fjallað er um samband ríkis og kirkju í tengslum við endurskoðun á stjórnarskrá, þá er eitt atriði sem vegur lang þyngst og það er réttur hvers einstaklings til trúfrelsis, hvort sem er til trúar eða vantrúar.
Með því að fjarlægja úr stjórnarskrá öll ákvæði sem varða þjóðkirkjuna sérstaklega, en halda inni og styrkja þau ákvæði sem tryggja öllum þetta frelsi, er verið að stuðla að heilbrigðara þjóðfélagi sem einkennist af jöfnuði. Að hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá brýtur á réttindum þeirra sem annað tveggja trúa ekki eða taka ekki afstöðu til trúar. Slíkt ákvæði þjónar bara þeim hluta þjóðarinnar sem trúir, en hver er tilgangurinn? Af hverju þarf eitt afbrigði átrúnaðar sérstaka vernd ríkisins? Gegn hvaða öflum stendur þessi átrúnaður svo veikur fyrir að hann þarf fulltingi ríkisvaldsins í vörnum sínum? Ég fullyrði að helstu meinsemd þjóðkirkjunnar sé í raun að finna innan vébanda hennar sjálfrar í hópi þess fólks sem telur hana svo veika, hefur í raun svo litla trú á henni, að henni verði ekki lífs auðið nema undir verndarvæng ríkisins. Þetta fólk er helsti dragbítur þjóðkirkjunnar í dag og það á ekki að binda birtingarmynd fordóma þess og vantrúar í stjórnarskrá.
Ég bendi á áhugaverða mynd á wikipedia.org, en hún sýnir yfirlit yfir þau lönd sem enn hafa þjóðkirkjur. Þetta er fámennur klúbbur og það fækkar óðum í honum. Íslendingar eiga að skipa sér í raðir þeirra sem meta trúfrelsi að verðleikum og skera á tengsl ríkis og kirkju því trúfrelsi er ekki einungis frelsi til þess að velja sér yfirnáttúrulegan átrúnað, það er í jafn ríkum mæli frelsið til þess að hafna öllum átrúnaði eða hreinlega standa algjörlega á sama um trú. Stjórnarskrárverndaður átrúnaður gagnast aðeins hluta þjóðarinnar á meðan fullkomið trúfrelsi gagnast henni allri.
Þess vegna er mikilvægt að við tökum upp nútímalegt viðhorf þegar kemur að trúmálum og fylgjum í fótspor þeirra þjóða sem stigið hafa það heillaskref að koma á fullkomnu trúfrelsi. Það væri nöturlegt og ömurlegt hlutskipti að daga uppi sem nátttröll í samfélagi þjóðanna með ríkisverndaðan átrúnað á meðan framsæknar þjóðir hafa tryggt þegnum sínum eðlilegt frelsi í trúmálum.
---
Erindi á vef Stjórnlagaráðs: http://stjornlagarad.is/erindi/nanar/item33633/
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst Benjamin Franklin orða þetta vel:
Mofi, 31.5.2011 kl. 15:12
Mofi: Góður :)
Óli Jón, 31.5.2011 kl. 15:29
Thumbs up fyrir góða grein Óli og vonandi ákveður stjórnlagaráð að setja trúfrelsi og jafnfræði á oddinn og taka ríkis styrkta kirkju úr stjórnarskránni.
Mofi, 31.5.2011 kl. 15:48
Ótrúlegt, en ég er sammála ykkur báðum í þessu efni.
Mæli með pistli eftir stjórnmálafræðingnum Indriða um lesefni stjórnarskrá-nefndarinnar (From an Assembly to a Council).
Arnar Pálsson, 31.5.2011 kl. 17:07
Já, kemur alltaf skemmtilega á óvart þegar maður er sammála Mofa um eitthvað :)
En að festa ríkiskirkjuna í stjórnarskrá er auðvitað mismunun gagnvart öllum smærri trúfélögunum. Ekkert þeirra hefur mótmælt því af einhverju viti svo ég hafi tekið eftir nema Fríkirkjan í Reykjavík.
Arnar, 1.6.2011 kl. 10:03
Ég er viss um að ríkiskirkjuprestar telja sig vera svona stoppara gegn mönnum eins og Mofa.
Trúfélög á að reka eins og fyrirtæki, sömu skattar og alles. Þetta eru jú ekkert nema fyrirtæki sem selja rugl og bull. Einnig eiga þeir ekki að getað auglýst eilíft líf eða neitt slíkt, fyrr en þeir koma með sannanir fyrir því sem þeir eru að halda fram.
Ríkiskirkjan er svartur blettur á íslandi, hrópandi misrétti og peningaplokk upp á þúsundir milljóna á ári... já og nú væla prestar yfir því að fá ekki aukapeninga fyrir að jarða sauðina... biblískt alveg
DoctorE 2.6.2011 kl. 16:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.