Traust þjóðar til Ríkiskirkju dalar enn

RíkistrúÍ nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sést að Ríkiskirkjan nýtur stuðnings 33% þjóðarinnar sem hlýtur að teljast áfellisdómur yfir stofnun sem fær jafn mikla meðgjöf frá ríkinu og raun ber vitni. Á sama tíma vilja 75% þjóðarinnar aðskilnað á milli ríkis og Ríkiskirkju.

Áhugavert er að skoða þessar tölur í samhengi við það að ekkert fyrirbæri á Íslandi nýtur jafn mikilla forréttinda og Ríkiskirkjan. Vert er að hafa eftirfarandi í huga:

Langflestir Íslendingar voru skráðir í Ríkiskirkjuna við fæðingu. Þetta hefur þó ekkert með trúarstaðfestu að gera, enda fer þessi skylduskráning eftir trúfélagi móður sem að sama skapi hafði ekkert um hana að segja.

Ríkið innheimtir ófáa milljarða á ári fyrir Ríkiskirkjuna í klúbbgjöld. Hún er því afar vel fjármögnuð og líður ekki skort, svona veraldlega séð. Almenn samstaða virðist þannig vera um það að trúaðir muni aldrei borga félagsgjöld í trúfélag sitt og þess vegna eru þessir trúarskattar innheimtir með almennum sköttum. Þó er undarlegt að hugsa til þess að fólk greiðir sjálfviljugt félagsgjöld í íþróttafélögum, spilaklúbbum, félagasamtökum o.s.frv.

Ríkistrúin er beinlínis boðuð í leik- og grunnskólum. Möguleikar Ríkiskirkjunnar til þess að innræta litlum börnum trú hafa í gegnum tíðina verið fáheyrðir. Hún hefur notið þess að geta, fyrirvaralaust, fullyrt það við leik- og grunnskólabörn að Jesús sé besti vinur barnanna, einmitt á þeim aldri þegar þau gagnrýna ekkert sem fyrir þeim er haft, sérstaklega í skólanum. Hafa ber í huga að Ríkiskirkjan hefur aldrei barist fyrir því að fá að fara í tíma hjá háskólastúdentum og boða Ríkistrúna þar, enda yrði eftirtekjan rýr og það veit hún. Nei, ómótaðir hugar leik- og grunnskólabarna henta best fyrir trúarlegt innræti, það vita allir.

Börnum er smalað í ferminguna. Á ákveðnum tímapunkti í lífi grunnskólabarna hefur þeim verið smalað saman, purrkunarlítið, og troðið í gegnum fermingarfræðslu. Ekki er langt síðan að þessi fræðsla fór m.a.s. fram á skólatíma í mörgum tilfellum. Ég man t.d. þegar ég bægslaðist um á þessu færibandi að okkur var gert að mæta minnst 10x í kirkju á tímabilinu og taka helst foreldra með. Það er ekki nema von að enn mælist einhver kirkjusókn þegar stórum hópum barna og foreldrum þeirra er gert að mæta.

Ríkismessur í Ríkisútvarpi. Á Íslandi nýtur Ríkiskirkjan þeirra forréttinda að geta komið áróðri sínum til pöpulsins í gegnum ríkisstyrktan fjölmiðil. Það er nefnilega þannig að það nægir ekki að hafa kirkju í hverju hverfi þar sem kirkjubjöllur valda ónæði og óyndi í tíma og ótíma. Nei, það þarf líka að útvarpa messunum.

Í ljósi alls þessa er það stórmerkilegt að einungis þriðjungur þjóðarinnar skuli treysta Ríkiskirkjunni. Sjálfur hefði ég haldið að þessi tala ætti að vera 60-70%, eingöngu vegna þess hve öflug áróðurs- og innréttingarmaskína hennar er. En þrátt fyrir þessa maskínu eru 67% þjóðarinnar á því að Ríkiskirkjan sé ekki traustsins verð og 75% þjóðarinnar vilja rjúfa tengsl hennar við ríkið.

Ef ég væri forstjóri Ríkiskirkjunnar þá hefði ég miklar áhyggjur af þessu og myndi íhuga það vel að krefjast þess að allir væru látnir játa Ríkistrúna með lagaboði og jafnvel e.k. trúarlögreglu. Það virðist vera það eina sem gæti mögulega bjargað henni og í raun eina ríkisúrræðið sem Ríkiskirkjan hefur ekki nýtt sér hingað til.

En auðvitað ætti hann frekar að hlusta á þjóð sína og verða við óskum hennar. Væri það ekki hið kristilega í stöðunni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Auðvitað hefur hann áhyggur af þessu, þess vegna er trúboð í leikskólum, þess vegna er börnum smalað í fermingar og þess vegna er messum útvarpað í ríkisútvarpi.

Ríkiskirkjan er í bullanndi markaðsátaki, allt til að halda einhverjum 150 manns eða svo á ríkisspenanum.

Arnar, 22.2.2011 kl. 11:21

2 identicon

33% þjóðarinnar er snarvitlaus, trúir því að gaur hafi verið drepin fyrir 2000 árum, til að fyrirgefa þeim syndir og skaffa aðengi að alsælu að eilífu.
Ég segi það og skrifa, hver sá sem trúir þessu og setur traust sitt á eitthvað sem boðar þennan fáránleika, sá hinn sami er snargeðveikur á kolgeggjaðan máta.

doctore 22.2.2011 kl. 13:22

3 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Það væri kannske athugandi að fara að tala um "hagsmunafélag evangelísk-lúterskra presta" frekar en ríkiskirkjuna.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 22.2.2011 kl. 13:51

4 identicon

Já, eins og hann Þórhallur ofurmegajesúfanboy; Hleypum Gudda aftur inn í skóla.. sem þýðir; Hleypið mér inn í skóla svo ég geti verið öruggur í mínu starfi til æviloka, með millu á mánuði, já og konan mín líka.
Hellelujah

doctore 22.2.2011 kl. 14:58

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir góða samantekt á þessu. Til viðbótar má bæta því við að þegar fólk var spurt (Gallup)að því fyrir nokkrum árum hvað það væri sem það mætti alls ekki missa voru mannréttindi í fyrsta sæti en trúfélagið í 9. sæti.

Önnur forréttindi ríkiskirkjunnar eru m.a.:

A. Aðgangur í leik- og grunnskóla þar sem skólastjórar gæta ekki að hlutleysi og það er því miður nokkuð víða.

B. Messa yfir og hátíðleg ganga með þingmönnum fyrr setningu Alþingis hvert ár.

C. Alls kyns styrkir frá ríki og bæjarfélögum til bókagerða, ungliðastarfs (KFUM/K), miðbæjarprests og fleira.

D. Sex stöður sjúkrahúspresta hjá Lsh háskólasjúkrahúsi (Á meðan skortur er á sálfræðingum þar og í heilsugæslunni)

E. Sérstaka háskólaskor fyrir guðfræðina, sem undirbúning fyrir prestskap. Ekkert annað lífsskoðunarfélag fær þetta.

F. Sóknargjöldin eru í raun skattur því að ríkið greiðir trúfélögunum gjöld fyrir hvern öryrkja, atvinnulausan eða lífeyrisþega sem er skráður í trúfélagið. Þannig eru það aðrir safnaðarmeðlimir og fólk sem er skráð utan trúfélaga í raun að greiða sóknargjöld fyrir þetta fólk.

Fleira má eflaust tína til.

Bestu kveðjur

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 22.2.2011 kl. 21:20

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Fyrirgefðu þú varst búinn að nefna þetta með skólana. kv. Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 22.2.2011 kl. 23:11

7 identicon

Ef biskup myndi fara hina kristilegu leið þá myndi hann krossfesta son sinn á Arnarhóli til að fyrirgefa öllum fyrir gjörðir forfeðra.. segja svo fólki að dýrka son sinn eða verða pyntað.

P.S. Reyndar er Jesú pabbi sjálfs sín, og sonur sinn líka.. þannig að það er flókið að gera þetta algerlega í takt við geðveiki biblíu

DoctorE 23.2.2011 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband