Laugardagur, 26. júní 2010
Trúaðir, vantrúaðir og allir hinir sem er alveg nákvæmlega sama
Hann er mæðulegur, pistillinn á vef þeirra þrettán sem biðja og biðja um kristinn þjóðarflokk. Í pistlinum eru alþingismenn sakaðir um mikið hirðuleysi þegar kemur að málefnum Ríkiskirkjunnar. Það er mæðst yfir því að EKKI EINN alþingismaður greiddi atkvæði gegn nýlegu frumvarpi sem tryggði öllum Íslendingum jöfn mannréttindi hvað varðar hjónaband og talað um að fráhvarf þingmanna frá kristnum gildum.
En er þetta ekki bara lýsandi fyrir stöðuna í trúmálum hérlendis? Er þetta ekki í raun afar góð birtingarmynd þess áhugaleysis sem þjóðin öll hefur gagnvart trú og trúmálum? Þeir voru 49, þingmennirnir sem samþykktu frumvarpið. Ég ætla að vera afar höfðinglegur í garð hinn þrettán vongóðu um kristinn þjóðarflokk og gefa mér það að allir þeir 14 alþingismenn sem heima sátu séu sannkristnir, en hafi ekki þorað að sýna það í þessari atkvæðagreiðslu. Það merkir að 78% alþingismanna eru fráhverfir trú eða setja í það minnsta almenn mannréttindi ofar gömlum trúarkreddum. Við vitum þó vel að mun fleiri alþingismenn hefðu samþykkt frumvarpið, andstæðingar þess eru teljandi á fingrum annarrar handar.
Þannig tel ég að þessi atkvæðagreiðsla sýni í raun hversu lítið fylgi trúin hefur í raun og veru hérlendis. Í mínum huga eru trúaðir annars vegar og trúlausir/vantrúaðir hins vegar álíka stórir hópar, 10-15% hvor hópur. Á milli þeirra eru hins vegar hin 70-80% sem er alveg sama og hefur enga skoðun á málinu á hvorn veginn sem er.
Þetta er hin raunverulega staða í trúmálum hérlendis í dag. Nú geta trúaðir vitnað í Þjóðskrá og sagt að 80% Íslendinga séu skráðir í Ríkiskirkjuna og er það alveg rétt. Það segir hins vegar ekkert um hversu trúaðir þeir eru. Ég bendi t.d. á afar dræma þátttöku í Kristnitökuhátíð árið 2000 og pínlega lélega mætingu undanfarin ár í Bænagöngur. Þá eru kirkjur landsins sjaldan þéttsetnar. Það er hins vegar alltaf fullt upp í rjáfur á Hinsegin dögum :)
Staðan er í því þannig að við erum nokkur algjörlega forhert á sitthvorum jaðrinum sem höfum sitthvora skoðunina. Stórum meirihluta þjóðarinnar sem skrönglast þar á milli gæti hins vegar ekki verið meira sama :) og gildir einu hvort hann er skráðir í Ríkiskirkjuna eða ekki!
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Heyr heyr, tilheyri þessum 70-80% sem er bara nákvæmlega sama. Fer í þessar venjulegu kirkjuathafnir Jól, fermingar barnana ( sem er búið) og jarðafarir sem fer fjölgandi
Sigurður Sigurðsson, 26.6.2010 kl. 02:30
100% rétt greining þótt ég myndi nota aðrar prósentur í ágiskun minni á hlutföllin.
Sigurður Pétursson 26.6.2010 kl. 03:10
Þessar hlutfallstölur eru örugglega ekki réttar, en gefa þó ágæta vísbendingu um stöðu mála.
Óli Jón, 26.6.2010 kl. 10:21
Ég tek undir með Sigurði. Ég er reyndar hættur því að mæta í kirkju nema í jarðarfarir sem einnig fer fjölgandi. En ég tilheyri þessum miðjuhópi sem er alveg sama. Ætli ég fari ekki bara í að skrá mig úr þjóðkirkjunni bráðlega til að leiðrétta aðeins þessar tölur!
Lárus 26.6.2010 kl. 12:24
Getur þetta ekki þýtt að kirkjan hefur ekki staðið sig. Margir sem trúa á guð,eru feimnir við að viðurkenna það. Ég er t.d. drullufeimin við að fara upphátt með Faðirvorið í kirkjum, meðan allir í kringum mig gera það,enda er rödd mín eins og jóðl.
Helga Kristjánsdóttir, 26.6.2010 kl. 12:47
Helga: Ég tel að þetta sé að hluta til vegna þess að kirkjan hafi ekki staðið sig, en mest vegna þess að nútímamaðurinn hefur minni þörf fyrir trú en áður. Með aukinni upplýsingu hefur maðurinn fengið svör við flestum þeim spurningum sem á hann leita og því þarf ekki að leita skýringa í yfirnáttúrulegum orsökum.
Óli Jón, 26.6.2010 kl. 13:36
Enn er á ferðinni bloggari sem finnur köllun hjá sér innri knýjandi þörf að blogga gegn kirkju og kristni. Honum skal bent á að langflestir Íslendingar sem tilheyra þjóðkirkjunni er óvirkur og það eru ekki ný tíðindi. Það þarf auðvitað samt ekki að þýða að þeir trúi ekki á Guð. Kristnum fjölgar mjög hratt víða um heim þótt það sé ekki endilega að gerast í Norður Evrópu þannig að "nútímamaðurinn" virðist hafa mikla þörf fyrir kristna trú víða um heim og er það vel. En að ætla að setja eitthvað vísindalegt samasemmerki milli atkvæðagreiðslu um hjúskaparlög og kristna trú er fráleitt svo vægt sé til orða tekið. Svo eru til fleiri kristnar kirkjur á Íslandi heldur en þjóðkirkjan. Mikil fjölgun var í kaþólsku kirkjunni og margar smærri fríkirkjur eru til. Þá hefur verið mikil fjölgun hafi verið í Fríkirkjunni í Reykjavík. Prestar virðast almennt merkja aukingu á kirkjusókn eftir efnahagshrunið þannig að pistalhöfundur virðist vera í afneitun hvað þetta varðar.
Guðmundur St Ragnarsson, 27.6.2010 kl. 01:17
Guðmundur: Við erum á villigötum á meðan 80% þjóðarinnar eru skráð sem hvítvoðungar í Ríkiskirkjuna og sú tala síðan notuð sem andlag umræðu um hve sterk trúin er hérlendis. En ég get vel skilið mæðu þína varðandi blogg sem þetta og skal því telja upp hvað þarf að gera til þess að aldrei verður aftur þörf fyrir svona bloggfærslu.
Með þessu verði skilið á milli ríkis og Ríkiskirkju, en það er það eina sem þarf að gera til þess að gera út um allar bloggfærslur á borð við þessa í framtíðinni.
Ég hef fulla trú á því að kirkjan myndi þrífast vel eftir svona viðskilnað. Það er verst að trúaðir hafa ekki sömu trú.
Óli Jón, 27.6.2010 kl. 01:48
Kirkjan fær nú líka gott betur en bara félagsgjöldin. Í fyrra komu 2,9 milljarðar í kassann í formi sóknargjalda til Þjóðkirkjunnar, en hún fékk úthlutuðum 5-6 milljörðum. Þannig að allir eru að borga hvort sem þeim líkar betur eða verr.
Guðmundi St. líkar afa ílla þegar fólk andskotast yfir þessu og áttar sig engan veginn á óréttlætinu. Hann áttar sig heldur ekki á því að baráttumál hafa í gegnum tíðina ekki unnist þegjandi og hljóðalaust. Fyrir flestu réttlæti hefur þurft að berjast og er þessi barátta gegn kirkjunni og hennar stalli ekkert öðruvísi.
Guðmundur; Hvar er kristnum að fjölga umfram fólksfjölgun í viðkomandi landi? Geturðu nefnt einhver dæmi um þessa fullyrðingu þína á Vesturlöndum þar sem þekking, vísindi og lífsgæði eru best? Að því sem ég best veit eru trúleysingjar sá hópur sem vex hraðast og þar á eftir Islam. Þú hefur kannski einhverjar aðrar og betri upplýsingar en ég.
Aðskilnað ríkis og kirkju strax. Þeir sem vilja halda sérstrúarsöfnuðinum Þjóðkirkjunni gangandi geta gert það sjálfir með mánaðarlegum gíróseðlum.
Reputo, 27.6.2010 kl. 13:43
Hvet Guðmund til að kynna sér nýjustu trúarlífskönnun (reyndar frá 2004) sem ríkiskirkjan hefur látið framkvæma áður en hann fullyrðir að 80% landsmanna séu virkir meðlimir í kirkjunni.
Ef fólk væri ekki skráð sjálfkrafa og óafvitandi í ríkiskirkjuna þá er nokkuð örugglega hægt að fullyrða að allir þessir 'óvirku' meðlimir væru ekki meðlimir.
Arnar, 28.6.2010 kl. 11:47
Kirkjan og ríkið eiga að vera aðskilin! Það er alveg á hreinu í mínum huga. Finnst vera vegið að mannréttindum mínum þegar ég þarf að borga kirkjunni eða gefa ríkissjóði auknar skatttekjur. Aðskilnað strax
Bendi á áhugahóp um stofnun stjórnmálaflokks sem hefur aðskilnað ríkis og kirkju í stefnuskrá sinni.
http://www.facebook.com/#!/pages/Frjalslyndir-Demokratar/130164107024509?ref=ts
Sævar Már Gústavsson, 9.7.2010 kl. 16:42
Ekki það að ég sé ósammála því að ríki og kirkja eigi að aðskiljast.. en hvernig er það vegið að þínum mannréttindum, sem slíkum, að hluti af þínum skatti fer til kirkju eða ríkissjóðs, Sævar?
Ég hef bara aldrei vitað til þess að skattborgarar hafi eitthvað fengið að ráða því hvernig þeirra skattpeningum er ráðstafað.
Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 10.7.2010 kl. 00:27
Ég borga skatt af mínum launum eins og flestir aðrir. En síðan er settur auka skattur á mig sem á að fara í kirkjuna og ef ég vil ekki borga í kirkjuna þá tekur ríkissjóður peninginn. Þetta eru leyfar af tíundinni í gamla daga og ætti ekki að vera lengur til. Þetta er bara fáránlegt að ef ég vil ekki borga í kirkju þá borga í ríkinu bara í staðinn, ég á ekkert að þurfa borga þennan pening
Sævar Már Gústavsson, 10.7.2010 kl. 02:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.