Færsluflokkur: Íþróttir
Fimmtudagur, 21. janúar 2010
Af 'stuðningsfólki' og elsku þess ... taka tvö!
Ég hygg að varla sé til hviklyndara og vanþakklátara lið en svokallað 'stuðningsfólk' íslensku landsliðanna í handbolta og knattspyrnu. Þetta lið reigir sig og beygir þegar vel gengur og kallar íþróttamennina 'strákana sína', en um leið og á móti blæs verða óskabörnin að óhreinu börnunum hennar Evu. Ekki þarf nema einn eða tvo tapleiki í röð og þá er öll hollusta þessa liðs rokin út í veður og vind og upp hefst vandlætingarrausið. Iðulega er annað tveggja spurt hvort reka eigi þjálfarann eða þá bara hreint og beint sagt blákalt að nú eigi sá aumi þrjótur að taka pokann sinn og lyppast á brott.
Það vita þeir sem til mín þekkja að ég gef mig lítt að íþróttum og má það líklega mest rekja til vangetu minnar í þeim efnum. Það breytir því þó ekki að það stingur mig alltaf jafn mikið þegar 'stuðningsfólkið', iðulega með fréttamenn í fararbroddi, snýst gegn strákunum af þvílíku offorsi að ætla mætti að þeir hefðu drýgt ljótan glæp. Kann þetta fólk ekki að skammast sín? Getur það ekki sett málin í rétt samhengi og séð að þarna er bara um að ræða íþróttir þar sem mestu skiptir að vera með? Þar sem sigur er bara bónus, ef hann næst? Nei, þarna er um að tefla líf og dauða og nú er heimsendir í nánd sökum þess að þessir oföldu íþróttahjassar náðu ekki að sigra þá aumu sveit sem Lichtenstein (eða hvað það lið sem spilað var við síðast) tefldi fram hér á dögunum. Nú skal þjálfarinn kenna á heilagri og réttlátri reiði 'stuðningsfólksins', sá armi þrjótur skal finna til tevatnsins!
Illt er vanþakklæti 'stuðningsfólksins', en verri er þeirra innantóma elska!
PS. Þetta eru ekki nýjar fréttir því þetta er bara endurbirting á gömlum pistli frá því í júní 2007. Þá var elska stuðningsmanna jafn skilyrt velgengni og hún er í dag.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 28. júní 2009
Dónaskapur og íþróttablæti hjá Rúv!
Rétt í þessu ætlaði ég að stilla á fréttir á Rúv, en gríp í tómt. Það er nefnilega fótboltaleikur einhvers staðar í heiminum sem er augljóslega mun merkilegri og fréttnæmari en staðan í íslensku þjóðfélagi þennan dag. Þessi dagur er svo ekkert einsdæmi því þetta gerist merkilega oft.
Það er óskiljanlegt að fótboltaleikur skuli trompa fréttir í dagskrá Rúv. Íþróttablæti Ríkisvarpsins er með þvílíkum endemum að það er ekki fyrir fákunnandi og fréttaþyrstan mann að skilja. Það má ekki maður hlaupa, henda spjóti eða sparka bolta einhvers staðar án þess að dagskrá Rúv riðlist fram og til baka svo hægt sé að sýna beint frá.
En það er svo sem ekkert að gerast hér heima sem jafnast á við kappleik Bandaríkjanna og Brasilíu. Auðvitað er ekkert merkilegra í dag en þessi æðislegi fótboltaleikur. Boltinn trompar Icesave hvaða dag sem er! Icesave verður hvort eð er ekki nema hálf billjón króna á endanum sem er hverfandi mál meðan fótboltinn lifir að eilífu!
Þetta er helber dónaskapur og kolvitlaus áhersluröðun hjá forsvarsmönnum Ríkisvarpsins. Hafi þeir mikla skömm fyrir!
Fimmtudagur, 7. júní 2007
Hringleikahús nútímans
Ég á örfáa vini, en gæði þeirra eru algjörlega í öfugu hlutfalli við fæðina. Einn þeirra hringdi rétt í þessu og vakti athygli mína á því að vitnað hefði verið í Blogg schmogg í Blaðinu í gær (takk fyrir, Blað!). Ég fékk kökk í hálsinn og hálf táraðist vegna þessa enda sannar svona birting að maður er á leið í uppsali bloggheima. Bloggari meðal bloggara. Alltént vil ég trúa því!
Engan þekki ég sem hefur betra innsæi þegar kemur að mannlegu eðli en þennan vin minn. Hann er yfirburða hæfileikamaður á flest öllum þeim sviðum sem hann snertir. Undantekningin frá þessari reglu er nútímatækni, en hún virðist einhvern veginn fara yfir ofan garð og neðan hjá kalli, en það er efni í aðra bloggfærslu. Í samtali okkar leiddi hann mig í allan sannleika um hvernig aðdáendaheimur íþróttanna væri í raun hringleikahús nútímans.
Til forna voru hringleikahúsin byggð svo pöpullinn gæti fengið gleði sinni og gremju útrás við að tilbiðja eða bölva hetjum sínum. Þetta virðist vera það sem aðdáendur íþróttaliða sækja í. Tilfinningar ráða iðulega för og skammt er á milli hæstu hæða og lægstu dala. Íþróttamennirnir gegna hlutverki skylmingaþrælanna sem berjast fyrir lífi sínu í hvert skipti sem haldið er út á vígvöllinn. Þegar vel gengur vísa þumlar aðdáendanna upp, en um leið og blæs á móti eru þeir fljótir að vísa þrælunum til leiðar í neðra. Sigurvegarar eru baðaðir rósablöðum og elsku þegar vel gengur, en blæðir út á vígvellinum þegar illa hefur árað. Þumallinn ræður för og segir til um hvort íþróttamaðurinn eigi náttstað í himnasæng eða Heljargreip.
Líklega er þetta gott mál fyrir marga og dagljóst er að íþróttamennirnir velja sér sitt hlutskipti. Hins vegar myndi ég ekki kæra mig um að eiga svo mikið undir því að andstæðingar mínir hverju sinni væru lélegri en ég!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 4. júní 2007
Af 'stuðningsfólki' og elsku þess!
Ég hygg að varla sé til hviklyndara og vanþakklátara lið en svokallað 'stuðningsfólk' íslensku landsliðanna í handbolta og knattspyrnu. Þetta lið reigir sig og beygir þegar vel gengur og kallar íþróttamennina 'strákana sína', en um leið og á móti blæs verða óskabörnin að óhreinu börnunum hennar Evu. Ekki þarf nema einn eða tvo tapleiki í röð og þá er öll hollusta þessa liðs rokin út í veður og vind og upp hefst vandlætingarrausið. Iðulega er annað tveggja spurt hvort reka eigi þjálfarann eða þá bara hreint og beint sagt blákalt að nú eigi sá aumi þrjótur að taka pokann sinn og lyppast á brott.
Það vita þeir sem til mín þekkja að ég gef mig lítt að íþróttum og má það líklega mest rekja til vangetu minnar í þeim efnum. Það breytir því þó ekki að það stingur mig alltaf jafn mikið þegar 'stuðningsfólkið', iðulega með fréttamenn í fararbroddi, snýst gegn strákunum af þvílíku offorsi að ætla mætti að þeir hefðu drýgt ljótan glæp. Kann þetta fólk ekki að skammast sín? Getur það ekki sett málin í rétt samhengi og séð að þarna er bara um að ræða íþróttir þar sem mestu skiptir að vera með? Þar sem sigur er bara bónus, ef hann næst? Nei, þarna er um að tefla líf og dauða og nú er heimsendir í nánd sökum þess að þessir oföldu íþróttahjassar náðu ekki að sigra þá aumu sveit sem Lichtenstein tefldi fram hér á dögunum. Nú skal þjálfarinn kenna á heilagri og réttlátri reiði 'stuðningsfólksins', sá armi þrjótur skal finna til tevatnsins!
Illt er vanþakklæti 'stuðningsfólksins', en verri er þeirra elska!
Íþróttir | Breytt 21.1.2010 kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)