Af 'stuðningsfólki' og elsku þess!

Stuðningsmaður?Ég hygg að varla sé til hviklyndara og vanþakklátara lið en svokallað 'stuðningsfólk' íslensku landsliðanna í handbolta og knattspyrnu. Þetta lið reigir sig og beygir þegar vel gengur og kallar íþróttamennina 'strákana sína', en um leið og á móti blæs verða óskabörnin að óhreinu börnunum hennar Evu. Ekki þarf nema einn eða tvo tapleiki í röð og þá er öll hollusta þessa liðs rokin út í veður og vind og upp hefst vandlætingarrausið. Iðulega er annað tveggja spurt hvort reka eigi þjálfarann eða þá bara hreint og beint sagt blákalt að nú eigi sá aumi þrjótur að taka pokann sinn og lyppast á brott.

Það vita þeir sem til mín þekkja að ég gef mig lítt að íþróttum og má það líklega mest rekja til vangetu minnar í þeim efnum. Það breytir því þó ekki að það stingur mig alltaf jafn mikið þegar 'stuðningsfólkið', iðulega með fréttamenn í fararbroddi, snýst gegn strákunum af þvílíku offorsi að ætla mætti að þeir hefðu drýgt ljótan glæp. Kann þetta fólk ekki að skammast sín? Getur það ekki sett málin í rétt samhengi og séð að þarna er bara um að ræða íþróttir þar sem mestu skiptir að vera með? Þar sem sigur er bara bónus, ef hann næst? Nei, þarna er um að tefla líf og dauða og nú er heimsendir í nánd sökum þess að þessir oföldu íþróttahjassar náðu ekki að sigra þá aumu sveit sem Lichtenstein tefldi fram hér á dögunum. Nú skal þjálfarinn kenna á heilagri og réttlátri reiði 'stuðningsfólksins', sá armi þrjótur skal finna til tevatnsins!

Illt er vanþakklæti 'stuðningsfólksins', en verri er þeirra elska!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli Jón

Vá! Fimmnúll í Svíþjóð! Eiga landsliðið eða þjálfarinn sér nokkra von núna? Verða þessir landráðamenn ekki grýttir við opinbera athöfn á Lækjartorgi úr þessu?

Óli Jón, 6.6.2007 kl. 23:38

2 Smámynd: Óli Jón

Rétt í þessu voru Íslendingar að ná jafntefli við Austurríki í handbolta. Það verður áhuga vert að sjá hvernig landinn tætir liðið í sig núna. Mogginn lítur t.d. á þetta þannig að liðið hafi klúðrað stigi meðan hægt er að segja að það hafi náð jafntefli.

Í blíðu og stríðu ... en þó mest bara í blíðu!

Óli Jón, 21.1.2010 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband