Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Lygar, fjárans lygar og lélegar skoðanakannanir!

GosiUm daginn vældi bloggari nokkur og var eymingjalegur vegna þess að fram kom skoðanakönnun hverrar niðurstöður voru ekki í samræmi við hans sýn á málin. Skoðanakönnun þessi var unnin af markaðsrannsóknafyrirtækinu MMR, en það gefur sig út fyrir að beita viðurkenndum aðferðum og vanda vinnubrögð sín.

Máli sínu til stuðnings vísaði bloggarinn aumi á könnun sem Útvarp Saga framkvæmdi á vef sínum. Þeirri könnun svaraði væntanlega sú hjörð fólks sem hlustar á þá stöð og er á engan hátt þverskurður íslenskrar þjóðar. Þetta gerir bloggarinn oft þegar niðurstöður kannana Útvarps Sögu falla að hans sjónarmiðum og einnig fá niðurstöður kannanna Íslands í dag á visir.is að fljóta með.

Vandamálið er að skoðanakannanir Útvarps Sögu og Íslands í dag eru gjörsamlega ómarktækar. Þær ganga gegn öllum góðum venjum og starfsháttum við gerð skoðanakannana og eru þannig skaðleg innlegg í umræðuna því þær bera á borð bjagaðar og rangar niðurstöður sem skekkja umræðuna. Sumpart hafa þær kannski gott skemmtana- og afþreyingargildi, en er þá ekki bara betra að segja góðan brandara?

Ég hef áður gert þessum ruslkönnunum skil í pistli, en tel rétt að ítreka þetta aftur. Almenningur er oft berskjaldaður þegar kemur að upplýsingum og margir taka því sem birtist t.d. á bloggvefjum sem áreiðanlegum sannleika. Fátt gæti þó verið fjær sannleikanum þegar kemur að svona netkönnunum.

Því er ráð að biðja bloggara og aðra að gæta hófs þegar kemur að því að birta niðurstöður netkannana sem staðreyndir. Það má að sumu leyti líkja þessu við hreinar og klárar lygar, enda veit þetta fólk innst við beinið að það er að færa hálfsannleik á borð, en gerir það samt því hann þjónar tilgangi sínum vel.

En kannsi er stundum leyfilegt að ljúga? Kannski helgar tilgangurinn stundum meðalið?


Af 'stuðningsfólki' og elsku þess ... taka tvö!

Stuðningsmaður?Ég hygg að varla sé til hviklyndara og vanþakklátara lið en svokallað 'stuðningsfólk' íslensku landsliðanna í handbolta og knattspyrnu. Þetta lið reigir sig og beygir þegar vel gengur og kallar íþróttamennina 'strákana sína', en um leið og á móti blæs verða óskabörnin að óhreinu börnunum hennar Evu. Ekki þarf nema einn eða tvo tapleiki í röð og þá er öll hollusta þessa liðs rokin út í veður og vind og upp hefst vandlætingarrausið. Iðulega er annað tveggja spurt hvort reka eigi þjálfarann eða þá bara hreint og beint sagt blákalt að nú eigi sá aumi þrjótur að taka pokann sinn og lyppast á brott.

Það vita þeir sem til mín þekkja að ég gef mig lítt að íþróttum og má það líklega mest rekja til vangetu minnar í þeim efnum. Það breytir því þó ekki að það stingur mig alltaf jafn mikið þegar 'stuðningsfólkið', iðulega með fréttamenn í fararbroddi, snýst gegn strákunum af þvílíku offorsi að ætla mætti að þeir hefðu drýgt ljótan glæp. Kann þetta fólk ekki að skammast sín? Getur það ekki sett málin í rétt samhengi og séð að þarna er bara um að ræða íþróttir þar sem mestu skiptir að vera með? Þar sem sigur er bara bónus, ef hann næst? Nei, þarna er um að tefla líf og dauða og nú er heimsendir í nánd sökum þess að þessir oföldu íþróttahjassar náðu ekki að sigra þá aumu sveit sem Lichtenstein (eða hvað það lið sem spilað var við síðast) tefldi fram hér á dögunum. Nú skal þjálfarinn kenna á heilagri og réttlátri reiði 'stuðningsfólksins', sá armi þrjótur skal finna til tevatnsins!

Illt er vanþakklæti 'stuðningsfólksins', en verri er þeirra innantóma elska!

PS. Þetta eru ekki nýjar fréttir því þetta er bara endurbirting á gömlum pistli frá því í júní 2007. Þá var elska stuðningsmanna jafn skilyrt velgengni og hún er í dag.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband