Þriðjudagur, 22. desember 2015
Fjármagn frá ríkinu
Biskup Ríkiskirkjunnar á visir.is, 18. desember 2015
"En þetta er mjög sniðugt hjá þeim [Zúistum]. Þetta er klárt fólk, bráðsniðugt. Það sér þarna möguleika á því að fá fjármagn frá ríkinu."
Þarna lýsir biskup því hvernig trúfélag, sem er að fullu sambærilegt við Ríkiskirkjuna, er skipað snjöllu og bráðsniðugu fólki sem hefur séð möguleika á að fá fjármagn frá ríkinu. Ekki þarf að leita langt til að finna fyrirmyndir þess.
Vert er að halda til haga að biskup talar ekki um margumtöluð og ímynduð 'sóknargjöld' þarna, heldur talar hún um hlutina eins og þeir eru, fjármögnun frá ríkinu sem sniðugt, nei bráðsniðugt, fólk getur komist í.
PS. Munurinn á Zúistum og Ríkiskirkjunni er reyndar sá að Zúistar ætla að koma aurunum til sauða sinna á meðan Ríkiskirkjan getur hreinlega ekki fengið nógu mikið af peningum fyrir sjálfa sig eins og alþjóð veit.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Mánudagur, 7. desember 2015
Þegar biskup kveður Ríkiskirkjuna ...
Kjarninn skrifar í dag grein í hverri vitnað er í tal Pétur Kr. Hafstein um að Ríkiskirkjan sé beitt ofbeldi. Er hann þá að vísa í að ríkið hafi krafist þess að viðræður fari fram um ómegðarstyrki ríkisins til trúfélaga í tengslum við að styrkur ársins 2016 var hækkað hressilega. Pétur segir að samningar skuli standa og er það rétt. Hins vegar þarf eitthvað vit að vera í samnningum svo þeir séu pappírsins virði og er rétt að fara yfir einn lið jarðakaupasamningsins og bera hann saman við veruleikafirringarmælistikuna góðu.
Skoðum 60. grein samnings ríkis og Ríkiskirkju frá árinu 1997:
Launagreiðslur og réttarstaða starfsmanna.
60. gr.
Ríkið standi skil á launum biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar og 18 starfsmanna biskupsstofu.
Fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 skal ríkið greiða laun eins prests til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 lækkar tala starfandi presta í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.
Fjölgi prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., skal ríkið greiða laun eins starfsmanns á biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar tala starfsmanna á biskupsstofu í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.
Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, með áorðnum breytingum, eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með áorðnum breytingum, eftir því sem við getur átt.
Launagreiðslur annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar eru ríkinu óviðkomandi.
Ekki þarf flókinn útreikning til að sjá að þessi grein er gjörsamlega út í hött og hefur bara verið samin með hagsmuni Ríkiskirkjunnar í huga.
Árið eftir að samningurinn tekur gildi eru 244.893 sauðir skráðir í Ríkiskirkjuna og gef ég mér að fjöldinn árið 1996 hafi verið svipaður. Til einföldunar miða ég við töluna 245 þúsund og geng þá út frá því að . M.v. forsendur samningsins borgar ríkið undir einn biskup, tvo vígslubiskupa, 138 presta og prófasta og 18 starfsmenn Biskupsstofu. Með þetta í huga er hægt að byrja að reikna.
Breytingar á fjölda presta miðast við að fimm þúsund sauðir sæki að eða hverfi frá Ríkiskirkjunni. Ef fimm þúsund hverfa frá kirkjunni standa 240 þúsund og það fækkar um einn prest. Þetta getur alls gerst 49 sinnum þar til enginn er skráður í Ríkiskirkjuna og getur þannig fækkað um 49 presta m.v. þessa grein.
Breytingar á fjölda starfsfólks Biskupsstofu miðast við að það fjöldi eða fækki um tíu presta. Sé tekið mið af dæminu hér ofar hefur prestum fækkað um 49 og fækkar starfsfólki því um fjóra og standa þá 14 eftir.
Því er staðan sú ef/þegar enginn verður skráður í Ríkiskirkjuna munu eftirtaldir aðilar eftir sem áður verða á launaskrá ríkisins:
biskup (1)
vígslubiskupar (2)
prestar og prófastar (89)
starfsfólk (14)
Hafa ber í hug að ef/þegar þessi sviðsmynd verður að veruleika verður ekkert af þessu fólki skráð í Ríkiskirkjuna, en starfar samt fyrir hana. M.a.s. biskup mun hafa skráð sig úr Ríkiskirkjunni sem sýnir best hve vondur þessi samningur er og hve illa var að honum staðið.
Nú mun einhver benda á að þetta geti aldrei gerst, að sú stund muni aldrei renna upp að enginn verði skráður í Ríkiskirkjuna og er það líklega rétt. Samningurinn ætti hins vegar að miðast við þann möguleika á sama hátt og hann gerir ráð fyrir að ef skráðar sálir í Ríkiskirkjuna telji 500 þúsund verði prestum fjölgað í 189 og starfsfólki á Biskupsstof í 23. En af því að samningurinn gerir ekki ráð fyrir að kirkjan geti hreinlega lagst af er hann ekki í lagi.
Sökum þessa er eðlilegt að endurskoða þessi mál í víðu samhengi. Þau einkennast öll af ómöguleika á alla kanta og aðeins hagsmunum Ríkiskirkjunnar er þjónað með þeim. Þess vegna fagna ég því að ríkið krefjist viðræðna um fjárreiður Ríkiskirkjunnar, en hef svo sem ekki miklar væntingar til að eitthvað komi úr því. Ríkiskirkjan hefur aldrei plumað sig upp á eigin spýtur eftir að hún byrjaði að hrærast á frjálsum markaði og ríkið hefur alltaf skorið hana úr snörunni.
Engin ástæða er til að ætla að öðruvísi verði farið núna ... en það er samt verðugt bænarefni!
Miðvikudagur, 2. desember 2015
En hvað um að hún innheimti sóknargjöldin sjálf?
Nú er boltanum kastað upp í þeim viðræðum sem framundan eru. Fulltrúar Ríkiskirkjunnar hafa lengi kvartað yfir skörðum hlut úr núverandi kerfi í hverju hún fær ókeypis peninga án þess að þurfa að gera nokkuð.
Áhugavert er að sjá að biskup er fámáll þegar spurt er hvort Ríkiskirkjan taki yfir innheimtuna. Helst grunar mig að liðið hafi yfir biskup, enda er þetta ein ósvífnasta spurning sem hægt er að leggja fyrir hann. Allir vita að þetta hefur verið reynt og útkoman var skelfileg því sóknarbörnin borguðu ekki. Því er þessi möguleiki ekki á borðinu, ekki einu sinni fræðilega, svo hræðilegur er hann.
Nei, það skal vera ríkisins að baktryggja öll sóknargjöld án þess að hægt sé að verja það með haldgóðum rökum. Ríkiskirkjan þarf pening og það er ríkisins að skaffa hann. Annars slokkna öll ljósin og allir verða vondir.
PS. Lesendur verða að afsaka þessa myndafölsun, en ég fann bara ekki nógu stóra mynd sem gæti rúmað alla þá peninga sem árlega er sturtað í Ríkiskirkjuna.
Fjöldi presta eina sem má endurskoða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Föstudagur, 27. nóvember 2015
Endurskoðun á öllum fjárhagslegum tengslum ríkis og kirkju
Gleðitíðindi bárust í dag frá Alþingi í nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Fyrir utan þá niðurlægingu ríkisins að þurfa að borga Ríkiskirkjunni 370 milljónir aukalega þá er eftirfarandi texta að finna í álitinu:
Í öðru lagi hækkar framlag til Þjóðkirkjunnar um 370 millj. kr. og miðast hækkunin við að framlag ríkissjóðs verði reiknað samkvæmt upphaflegu kirkjujarðasamkomulagi og þar með að allar aðhaldskröfur sem gerðar hafa verið til Þjóðkirkjunnar frá og með árinu 2009 verði afturkallaðar árið 2015. Forsendur þessarar tillögu eru að ríkið gerir það jafnframt að skilyrði að kirkjan skuldbindi sig til þess að hefja þegar samningaviðræður um endurskoðun kirkjujarðasamkomulagsins sem feli í sér endurskoðun allra fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju (þ.m.t. hvað varðar sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, framlög til kirkjumálasjóðs og Kristnisjóðs) með verulega einföldun þessara samskipta og hagræðingu að markmiði.
Ekki hef ég mikla trú á að agentar ríkisins standi í lappirnar í þessum viðræðum, en ef ég gæti beðið Guð um einn hlut þá væri það að gerð yrði ítarleg kostnaðar- og tekjugreining á því undarlega ofbeldissambandi sem ríkið er í með Ríkiskirkjunni. Bara sá einfaldi og þarfi gjörningur myndi varpa ljósi á þá ótrúlegu meðgjöf sem dælt hefur verið í þetta apparat í gegnum tíðina og ekkert lát virðist á.
Ég veit að litlar líkur eru á að ég verði bænheyrður, en það sakar ekki að reyna :)
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
Miðvikudagur, 28. október 2015
150 milljóna króna smölunarleiðangur Ríkiskirkjunnar
Ríkiskirkjan nagar nú skjaldarrendur og heitir því að fjölga í sauðatali sínu með öllum ráðum. Ekki virðist duga að fá flest nýfædd börn 'gefins' inn á félagatalið fyrir tilstuðlan ríkisins því í fjöldatölum rétt nær hún að halda sjó, en gefur eftir hlutfallslega eftir því sem Íslendingum fjölgar.
Íslendingar eru nefnilega svo vitlausir að ótilneyddir taka þeir ekki við boðskap kirkjunnar. Ótilneyddir borguðu þeir ekki félagsgjöldin, ótilneyddir skrá þeir sig ekki í félagatal hennar, ótilneyddir fara fæstir í kirkju, ótilneyddir fræða fæstir börn sín um kristni og ótilneyddir biðja fæstir bænirnar sínar reglulega.
Eitthvað er stórkostlega mikið að og það veit nefndin þegar hún segir: "Verði ekki brugðist við er líklegt að þróun til fækkunar í þjóðkirkjunni haldi áfram næsta áratug og sígi niður undir 60% af mannfjöldanum eins og virðist stefna í víðast hvar annars staðar á Norðurlöndum." Hún mun reyndar fara miklu neðar en það, en á meðan nýfæddum börnum er raðað í jötuna gerist það bara hægt.
En í stað þess að skoða vöruna, fyrirbærið sem fólk er að hafna, og kanna hvort hún eigi yfir höfuð erindi við þjóðina sem hafnar henni verður farið í fáránlega dýra markaðssókn fyrir Guð, Jésús og heilagan anda hérlendis. Eins og segir í skýrslu útbreiðslunefndar eru tækifærin fjölmörg:
Mikill meirihluti þjóðarinnar tilheyrir enn Ríkiskirkjunni
Já, gögn Þjóðskrár sýna eitt falsaðasta félagstal sem fyrirfinnst í heiminum, en það er grundvallað á því að ríkið hefur í gegnum tíðina skráð nokkurra daga börn í trúfélög. Þeir sem gera sér slíkar trakteringar að góðu er lítilþægasta og metnaðarminnsta fólk sem fyrirfinnst.
Trú á Guð er enn almenn (yfir 70%)
Nýleg könnun Gallup sýnir að 51% þjóðarinnar telur sig trúað og þá ekki bara á gamla Guð. Miðað við þessa könnun eru kristnir komnir í minnihluta þjóðarinnar.
Meirihluti telur enn að trú sé mikilvæg í lífi sínu
Þetta er stórmerkilegt því hvar er þá þetta fólk? Ekki mætir það í kirkju, ekki biður það bænirnar sínar og ekki vill það borga trúartollinn. Þetta er eins og að segjast vera harður aðdáandi Liverpool en horfa aldrei á leik, eiga ekki treyju, spila ekki FIFA 2015 og þekkja ekki leikmennina.
Meirihlutinn lætur fermast
Krakkarnir græða stórt á því að fermast, nóg um það sagt :)
Mikil meirihluti telur enn að kirkjulegar athafnir við fæðingu og dauða séu mikilvægar
Gaman væri að sjá gögn þess efnis, þau eru ekki birt í skýrslunni. Mig grunar þó að fólk telji mikilvægt að fagna nýjum einstaklingum og kveðja á gömlu. Sjá betur næsta lið.
Skírnin er almenn og mikil þáttaka er í útfararþjónustu kirkjunnar
Að sama skapi má benda á fánýti trúarinnar með því að benda á þá staðreynd að í veraldlegum athöfnum mætir jafn mikið af fólki, enda fer fólk í þessar athafnir til þess að fagna nýjum einstaklingi eða kveðja brottfarinn. Þetta veit nefndin vel þegar hún segir að "fáir stunda 'persónubundna kirkjusókn'", þ.e. að fáir fari í kirkju fyrir sig.
Áhugavert verður að sjá hvernig þessi stórsókn Ríkiskirkjunar fer. Hún vill fara inn í skólana skv. skýrslunni, enda eru gjöfulustu miðin þar. Og til áréttingar þá er ekki verið að tala um framhalds- og háskóla. Nei, þar er fólk orðið of upplýst og gagnrýnið. Leik- og grunnskólarnir gefa best því þar þurfa áheyrendur að þegja að meðtaka allt sem fyrir þá er lagt sem, hmmm, heilögum sannleik.
Getum við ekki þó verið sammála um að ef hún klikkar er orðið dagljóst að Íslendingar vilja þetta ekki og ef hún lukkast bara pínulítið að slíkur árangur sé of dýru verði keyptur?
En ljóst er að nefndin telur framtíðina dökka því í skýrslunni segir: "Starfshópurinn telur að það liggi beint við að kirkjan vinni út frá þeim styrkleika sem felst í þessari stöðu á meðan hún er fyrir hendi." Já, hún hefur ekki mikla trú á því að núverandi staða mun halda og því þurfi að reiða til höggs á meðan þetta er þó svo gott því þetta er eins gott að það verður.
PS. Mér líst vel á þetta sem nefndin segir: "Haldinn verði einn stór viðburður á hverju ári sem með einhverjum hætti er táknrænn fyrir starfið og tengist áhersluatriði þess árs." Er ekki til skipulag frá árinu 2000 sem er í raun alveg ónotað?
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (73)
Föstudagur, 25. september 2015
Brandari gærdagsins
"Ef farið væri í mál við þjóðkirkjuna þá kæmi það í ljós að hún hefur barist fyrir réttindum samkynhneigðra og er þar í fararbroddi."
# Gísli Gunnarsson, fulltrúi vígðra í kirkjuráði, árið 2015.
"Hjónabandið á það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana."
# Karl Sigurbjörnsson, þáverandi biskup Ríkiskirkjunnar, árið 2006.
Ekki myndi ég fá Ríkiskirkjuna til þess að berjast fyrir mig ef þetta er það sem hún gerir þegar hún er í fararbroddi.
Er ekki kominn tími á leiðréttingu á trúfélagaskráningu einhvers staðar?
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Föstudagur, 18. september 2015
Útvarp Saga og ISIS hryðjuverkamennirnir þar
Gaman er að sjá niðurstöður nýlegrar könnunar í hverri var spurt hvort ISIS hryðjuverkamenn gætu leynst í hópi starfsfólks Útvarps Sögu. Niðurstaðan er afgerandi, 92% svarenda telja að svo sé.
En þessi könnun á reyndar það sameiginlegt með þeim könnunum sem Útvarp Saga stendur fyrir að hún er gjörsamlega marklaus. Úrtakið valdi sig sjálft og það eitt og sér gerir hana ómarktæka. Síðan er hægt að skoða öryggismál netkannana og hvernig hægt er að fara í kringum þau.
Stóri punkturinn er að það er ábyrgðarmál að birta illa gerða skoðanakannair og láta sem niðurstöður þeirra séu marktækar. Það getur bara flokkast sem ísköld lygi og vísvitandi afbökun á sannleikanum. Málið er nefnilega að fjöldi fólks er móttækilegt fyrir því sem matreitt er ofan í það og sjái það kökurit með niðurstöðum úr könnun líta margir svo á að engin ástæða sé til þess að efast um það. Það gerir engan greinarmun á t.d. ruslinu frá Útvarpi Sögu og alvöru könnunum sem gerðar eru af alvöru fyrirtækjum sem nota gott vinnulag.
Því þurfa álitsgjafar að vera meðvitaðir um ábyrgð sína þegar þeir nota niðurstöður skoðanakannana til stuðnings málstað sínum. Ef málstaðurinn er góður er hann studdur með niðurstöðum góðra kannana, en vondur málstaður á sér yfirleitt bara bólfestu í skoðanaruslinu sem Útvarp Saga togar út úr skutnum á sér.
Miðvikudagur, 16. september 2015
Leyfum Gideonistum að heimsækja grunnskólana
Hin þróttmiklu stjórnmálasamtök, Íslenskir krossmenn, sendu frá sér álit um daginn í hverju talað var um að leyfa ætti Gideonistum að fara með trúboð sitt í leik- og grunnskóla. Krossmennirnir gerðu reyndar enga kröfu um að leyfilegt yrði að fara í framhalds- og háskóla því þar eru sauðirnir ekki eins meðfærilegir, en það er annað mál.
Ég er því sammála að hleypa eigi Gideonistum í skólana og mega þeir þá hafa með sér gítar og spila og tralla með krökkunum. Þeir mega segja að Jesús sé besti vinur barnanna og að án hans lifi börnin innantómu og holu lífi. Þeir mega segja að án Jesúss muni þeim ekki farnast vel í handanlífinu, en með Jesús sér við hlið muni þau eiga eilífðarvist á himnum með liðsmönnum Kristilega krossfestingarbandalagsins undir glymjandi harmonikkuspili allan daginn, alla daga.
Það eina sem þeir geta ekki gert er að afhenda bláa kverið, en þess í stað mega þeir afhenda gjafabréf á hverju stendur að handhafi bréfsins eigi tilkall til Nýja testamentisins hja Gideonistum og sé handhafinn ávallt velkominn í heimsókn til þess að heimta þessa himnagjöf.
Ef börnin gera aðsúg að höfuðstöðvum Guðs á Íslandi við Langholtsveginn svo þau geti sefað hungur sitt í orð Guðs er ljóst að þessa tilraun mætti gera aftur að ári. Verði mæting hins vegar dræm er að sama skapi ljóst að Gideonistar eiga ekkert erindi til ungu kynslóðarinnar og sé þeim því best að spara trén, þessa fallegu sköpun Guðs, og láta af þessari þráhyggjuhegðun.
Er þetta ekki fín leið til þess að skerá úr um þetta leiðindamál í eitt skipti fyrir öll?
PS. Fyrir öll börnin sem þetta lesa og geta ekki beðið eftir þessu flotta nýmæli: Þið getið heimsótt Gideonistana að Langholtsvegi 111 alla virka daga á milli kl. 12-15:50 og fengið ykkar eigið eintak af Nýja testamentinu. Athugið þó að eftir klukkan 14 getur framkvæmdastjórinn þó brugðið sér af bæ og því er betra að vera fyrr á ferðinni!
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fimmtudagur, 13. ágúst 2015
Lífæð Ríkiskirkjunnar fyrir gerðardóm?
Ég vona að þetta mál (Rúv: Kirkjan líklega með ríkið fyrir gerðardóm) fari snarlega fyrir gerðardóm og fái þar málefnalega meðferð. Þessi ömurlegi gjörningur, sem vélað var um af hópi gamalla fermingardrengja í denn tíð sem ekkert vit virðast hafa á samningagerð, hefur reynst íslenskri þjóð allt of dýr og tímabært er að vinda ofan af honum. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um verðmæti jarðanna hefur Ríkiskirkjunni aldrei tekist að lifa af gæðum landsins og ítrekað þurft að leita til ríkisins til þess að fá pening. Þegar jarðirnar gáfu lítið af sér var farið til ríkisins og þegar sauðirnir hættu að borga sóknargjöldin var ríkið látið sjá um innheimtuna á trúartollinum.
Þessir fjármunir eru notaðir til þess að byggja og viðhalda, að mestu, tómum kirkjum um allt land og borga laun presta sem fá rúmlega hálfa milljón á mánuði sem er 200 þúsund krónum meira en læknakandidat fær.
Ríkið þarf að segja upp jarðasamningnum, taka til sín ákveðinn hluta jarðanna sem það er sannarlega búið að borga upp í topp og skila afgangnum. Síðan þarf að afleggja sóknargjaldakerfið því engin skynsamleg rök eru fyrir því að hverju ríkið þurfi að borga félagsgjöld í einni gerð félaga (gjöldin eru ekki innheimt lengur, þetta er bara greiðsla úr ríkinu pr. sauð).
Aðeins þá kemur í ljós hver raunverulegur hugur þjóðarinnar er til Ríkiskirkjunnar, en það má hafa í huga við þær vangaveltur að hlutdeild hennar á trúarmarkaðnum hefur rýrnað um rúmlega prósentustig árlega undanfarin fimmtán ár og það þrátt fyrir að enn tíðkast sjálfvirkar skráningar nýfæddra barna í trúfélag.
Guð blessi Ísland :)
PS. Ég veðja á að Ríkiskirkjan muni ekki fara með þetta mál fyrir gerðardóm því þrátt fyrir allt getur hagur hennar aldrei orðið betri en hann er nú. Peningarnir flæða inn frá ríkinu og hún veit að hún fengi ekki nema brot af þeim fjárhæðum ef hún þyrfti að reiða sig á sóknarbörn sín.
PSS. Þrátt fyrir meintar fjárhagslegar hremmingar slær Ríkiskirkjan ekkert af og byggir nýja kirkju í Hafnarfirði. Er það merki um kröm að streðast við að auka við fitulagið? Ég held ekki. Einhvers staðar hlýtur að vera til dæmisaga um ráðsmanninn sem eyddi umfram efni. Kannski þekkja ráðsmenn Ríkiskirkjunnar ekki þessa sögu? Kannski þyrfti Gideon að beina spjótum sínum að Biskupsstofu í stað 5-6 ára barna? Kannski?
Trúmál | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
Föstudagur, 10. júlí 2015
... þarf hún ekki að endurspegla trúarskoðanir einstaklinga.
Í þessari frétt Moggans kemur fram að enn hriktir í fúnum stoðum Ríkiskirkjunnar því þrátt fyrir linnulausa ríkisvélskráningu nýfæddra og trúlausra barna í trúfélög þá fækkar sauðum í félagatali hennar. Ég hef svo sem oft tjáð mig um þessi mál og ætla ekki að bæta í það núna fyrir utan það að segja hve bjartsýnn ég er á framtíðina í þessum efnum og hversu jákvæð þessi þróun er því með þessu er í það minnsta verið að leiðrétta kolrangar staðtölur í opinbörum gagnagrunnum.
Það er nefnilega þannig að merking í Þjóðskrá segir ekkert til um trúarhneigðir þess fólks sem skráð var í trúfélag við fæðingu. Þetta sér blaðamaður Moggans þegar hann segir:
"Þar sem að skráningin byggir einungis á tilkynningum til þjóðskrár þarf hún ekki að endurspegla trúarskoðanir einstaklinga.
Því má leiða traustum líkum að því að fjöldi þess fólks sem skráð er í trúfélög í dag séu þar algjörlega að tilefnislausu. Þetta sýnir sig í því að í dag skrá sig t.d. fleiri úr Ríkiskirkjunni en fæðast inn í hana og það án þess að fólk hafi af því fjárhagslegan ávinning að skrá sig úr samvistum við þessa stofnun.
En eins og ég sagði, þá er ég bjartsýnn og jákvæður vegna framtíðarinnar. Leiðréttingin hvað varðar Ríkiskirkjuna er rúmlega prósentustig árlega og þótt hún gangi of hægt fyrir sig sökum þess að ekki má hrófla við þessum tekjustofni hennar, þá er þetta samt að bíta hægt og rólega. Haldi áframhaldandi þróun áfram verður skráð félagatal hennar komið undir 50% innan 20 ára, en sú þróun mun þó verða hraðari því fólk skráir sig úr eða deyr frá henni hraðar en hægt er að ríkisvélskrá litlu börnin í hana.
Já, það er því full ástæða til bjartsýni og jákvæðni :)
Fækkar í Þjóðkirkjunni en fjölgar í Siðmennt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)