Mánudagur, 5. júní 2023
Ríkiskirkjan á fallandi fæti
Árlega setti ég inn svona færslur, en svo varð þetta hætt að vera spennandi þegar græna línan fór bara æ meira niður á við. Ef þróunin verður eins og hún virðist ætla að verða, þá munu skráðir félagar í Ríkiskjunni fara undir 50% af heildarfjölda íslensku þjóðarinnar inna 5-6 ára. Þá má ímynda sér að rétt sé að staldra við og íhuga yfirburða stöðu hennar í trúfélagaflórunni hérlendis með það að markmiði að gera breytingar sem eru í takt við þá afgerandi þróun sem grafið sýnir.
Rétt er að benda á að hér er talað um skráða félaga frekar en kristna Íslendinga því ekki er hægt að setja jafnarmerki á milli þess að vera skráður í Ríkiskirkjuna og þess að taka mark á því sem hún boðar og býður.
Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 5. desember 2019
Bannkóngurinn bannar enn :)
Allir muna eftir grátstöfunum og ramakveininu sem bergmálaði hér á milli veggja í byrjun júní 2019 þegar Jón Valur Jensson henti sér í gólfið, grátsnöktandi, eftir að góðvinur hans hafði sett Bann-Jón á bannlista. Þetta þótti Bann-Jóni vera hin mesta svívirða og bar sorgir sínar og vandlætingu á torg í bloggfærslu sem hafði þá átakanlegu yfirskrift Halldór Jónsson verkfræðingur lokar á athugasemdir frá einum aðalbloggvini sínum!
Greinarhöfundur gerði þessa sorglegu uppákomu að umfjöllunarefni í þessari færslu.
Þetta var auðvitað meinfyndið því enginn er rússneskari eða kínverskari eða norður-kóreskri í sínum vinnubrögðum þegar kemur að bannlistnum en Bann-Jón. Þeir eru langir og voldugir, bannlistarnir sem hann viðheldur á þeim fjölmörgu bloggvefjum sem hann heldur úti, m.a. annars á aðdáendabloggvefnum jvj.blog.is sem mærir og birtir valdar af höfuðsetrinu jonvalurjensson.blog.is. En nóg um það, netheimar þekkja vel bannáráttu Bann-Jóns og greinarhöfundur þegar um langt árabil notið þess að vera færsla á þessum listum.
En sakir pólitísks rétttrúnaðar og, mögulega, andartaks meyrni opnaði Bann-Jón öllum aðgang að þeim ótal bloggvefjum sem hann heldur úti og má sjá hér að m.a.s. þessi textaskrifari gat sett inn viðskrif við harmvælið. Bann-Jón var ekki lengur Bann-Jón, Bann-Jón hafði breyst í Meyra-Jón eða Góða-Jón eða Frelsis-Jón eða Opinnfyriralla-Jón. Þetta voru mestu umskipti í veraldarsögunni síðan Berlínarmúrinn féll.
En Bann-Jón var þó aldrei langt undan. Bann-Jóni sveið það að vita að óhreinir gátu sett inn alls konar óverðug viðskrif við bestu blogggreinar í heimi. Bann-Jón var andvaka yfir þessu og bylti sér í næturhúminu, skelfingu lostinn vegna þeirrar tilhugsunar að Vantrúarúlfar, Evrópurottur og Útvarpssögugrínarar myndu nú gera sér gott úr þessum andartaks veikleikamerki og bresti í bannmúrunum miklu.
Og þá er komið að því. Greinarhöfundur ætlaði s.s. í dag að nýta sér frelsið sem Bann-Jón telur að hann eigi að njóta og ætla að leiðrétta smá misskilning sem Bann-Jón hefur þráast við að setja fram sem sönnun á dálæti þjóðarinnar í garð Ríkiskirkjunnar. Útkoman var þessi er reynt var að skrifa við þessa grein:
Bann-Jón hafði endurreist bannmúrinn mikla. Hann felldi í brestina og með tárum sínum herti hann múrinn svo að ekkert kæmist í gegnum hann, yfir hann eða undir hann sem ekki væri verðugt og réttsýnt.
Bann-Jón varð Séra Jón því það er mikill munur á Jóni og Séra Jóni. Séra Jón má gera alls konar á meðan Jón má sín lítils. Bann-Jón lifir, voldugri og máttugri en nokkru sinni fyrr. Bann-Jón stendur á bannmúrnum, búinn að endurskrifa söguna, og berst þar við barbarana sem sækja að úr öllum áttum með allar sínar röngu og vondu skoðanir.
Lengi lifi Bann-Jón! Lengi lifi maðurinn sem kvartar undan illri meðferð á meðan hann beitir sömu meðulum á aðra. Bara ef það hentar mér eru einkunnarorð Bann-Jóns sem á sér enga meiri gleðigjafa í lífinu umfram bannlistaskrifin en að setjast í volg strætósæti.
PS. Bann-Jón hefur alltaf mátt setja inn athugasemdir á þessu bloggi og hefur hann oft nýtt sér það, enda sjálfsagður hluti þess að búa í lýðræðissamfélagi.
Þriðjudagur, 5. nóvember 2019
Þetta myndi engu máli skipta
Skortur á trúarlegri innrætingu í leik- og grunnskólum er ekki það sem stendur Ríkiskirkjunni fyrir þrifum, síður en svo. Banabitinn er og verður afnám (að mestu) vélskráningar hvítvoðunga í trúfélög. Þessi ótrúlega og freklega ríkisaðstoð við Ríkiskirkjuna hefur verið hryggjarstykkið sem hefur haldið henni uppréttri. Jú, það og svo auðvitað að ríkið hefur nær alltaf séð um að skaffa henni pening af því að félagsmenn hafa aldrei verið áfjáðir í að greiða félagsgjöldin. Það má því vel setja kristinfræði sem skyldufag í skólum mín vegna. Það væri gamaldags og hallærislegt í veraldlegu nútíma samfélagi, en það myndi ekki skipta neinu máli. Það eina sem það myndi gera er að varpa ljósi á þá staðreynd að ef ríkið tyggur þetta ekki ofan í börnin, þá verður það ekki gert sem segir okkur að foreldrar eru afar latir til verksins í þeim efnum.
Hvað það varðar að kristin trú hafi verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi í þúsund ár, þá er nokkuð til í því. Má þar nefna sem dæmi stöðu konunnar og samkynhneigðra sem Ríkiskirkjan hélt niðri þar til fyrir stuttu síðan. Konur voru hálf réttlausar, fengu atkvæðisréttinn seint og illa og gátu ekki orðið prestar fyrr en langt var liðið á síðustu öld og þá aðeins með harðfylgi og seiglu. Samböndum samkynhneigðra var líkt við sorphauga sem er ekki fallegt, en skiljanlegt ef hrætt og illa innrætt fólk með ákveðna gerð hugarfars er vel að sér í Biblíufræðum. Þetta ber að hafa í huga þegar talað er um áhrif trúarinnar.
Þetta útspil popúlistanna í Miðflokknum kemur ekki á óvart. Það er kjánalegt og gamaldags, eins og Miðflokkurinn, en mun ekki skipta neinu máli.
Kristinfræði verði kennd á nýjan leik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 7. september 2019
Hver er ástæðan?
Nú er dagljóst að Ríkiskirkjan hefur skroppið saman undanfarin 20 ár og hefur sú hnignun orðið hraðari í seinni tíð. Skráðum fækkar ört; árið 1998 voru um 90% þjóðarinnar skráð í Ríkiskirkjuna, en það hlutfall er nú komið niður í 65%. Ekkert bendir til þess að þessari þróun verði snúið við og því er undarlegt að nú sé gengið frá samningi sem virðist miðast við þessar gömlu og úreltu forsendur. Á þessum tímapunkti ætti ríkið að horfa til vilja þjóðarinnar og minnka umfang ríkisstyrkja umtalsvert. Engin ástæða er til annars.
En ríkið hefur á öllum stundum verið pínlega meðvirkt þegar kemur að Ríkiskirkjunni. Hægt er að skera niður í heilbrigðisþjónustu og annarri nauðsynlegri kjarnastarfsemi ríkisins, en aldrei virðist vilji til þess að spara milljarðana sem fara í hítina sem flestir Íslendingar vilja ekki sjá.
Hér tapaðist sannarlega gullið tækifæri. Vonandi koma dugmeiri stjórnmálamenn að þessu máli næst.
Gengið skrefi lengra í aðskilnaði ríkis og kirkju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Mánudagur, 24. júní 2019
Nei, við þurfum í raun ekki að tala mikið um hana ...
Óskiljanlegt er það sem fram kemur í þessari frétt að ríkið beri siðferðislega ábyrgð gagnvart Ríkiskirkjunni vegna þess, að því er virðist, að það leyfði sér að halda henni uppi fjárhagslega í öll þessi ár sem hún hefur verið á framfæri þess. Að segja að ríkið verði að tryggja að eitthvað komi í staðinn fyrir ölmusuna er kjánalegt í besta falli því ef ríkið hefði ekki staðið vörð um hag Ríkiskirkjunnar væri hún löngu horfin og nær gleymd.
Ríkiskirkjan hefur ávallt glímt við það vandamál að ætlað félagsfólk hennar hefur ekki viljað borga félagsgjaldið. Þetta sama fólk hefur borgað fyrir aðild að alls konar félögum, en einhvern veginn hefur það ekki fengið sig til að borga trúartollinn og því hefur ríkið þurft að innheimta fyrir hana og, í seinni tíð, láta hana hafa aur eftir að formlegri innheimtu var hætt. Trúfélög hafa notið þess að fá pening fyrir alla þá sem skráðir eru í þau skv. Þjóðskrá og hefur aldrei orðið dráttur á þeim greiðslum. Aðeins trúfélög hafa notið þessarar þjónustu, sem í denn var sett á þegar Ríkiskirkjan hafði nær 100% hlutdeild á trúarmarkaðnum, ekkert annað félagsform hefur getað beðið ríkið um að innheimta fyrir sig. Ljóst er að gjaldkerar fjölmargra félaga hefði í gegnum tíðina vel þegið sömu innheimtu- og greiðsluþjónustu, en ekki fengið. Að segja að ríkið beri siðferðislega ábyrgð á Ríkiskirkjunni eftir áratuga meðgjöf gengur þvert á alla sanngirni og skynsemi.
Ríkið ber því ekki neina ábyrgð, lagalega né siðferðislega, á örlögum Ríkiskirkjunnar þegar kemur að því að hún þarf að standa á eigin fótum og raunverulega sækja styrk sinn í félagatalið. Fleiri, fleiri tugir milljarða hafa í gegnum tíðina og engin ástæða er til að bæta við það eftir fullan aðskilnað. Nú er kominn tími til að sjá hvernig hún plumar sig upp á eigin spýtur. Ráðafólk hennar ætti að fagna því að geta þá loksins sett sína upphæð á gíróseðilinn í stað þess að þurfa að sífra og væla utan í ríkinu um hana.
Og varðandi fækkun í Ríkiskirkjunni þá er skýrt að breyting á vélskráningu nýfæddra barna í trúfélag vegur býsna þungt þar. Áður var nýfætt barn vélskráð í trúfélag móður, en í dag þurfa báðir foreldrar að vera skráðir í sama félag til að það gerist. Þetta er skárra, en samt algjör óþarfi og í raun móðgun við nýfædda krílið að gera ráð fyrir að það muni taka trú skv. merkingu í Þjóðskrá. Þessi vélskráning hefur í marga áratugi verið lífæð Ríkiskirkjunnar. Þegar þar verður messufall er fyrirséð að fækki þegar færri börn koma inn á meðan eldri félagar hverfa á braut.
Innan sjá ára mun markaðshlutdeild Ríkiskirkjunnar, sem er í raun uppblásin og ómarktæk, fara undir 50%. Þegar það gerist verður nauðsynlegt að skera á alla þræði á milli hennar og ríkisins. Ef ekki, þá hlýtur sú krafa að öll félagi fái notið félagsgjaldaþjónustu ríkisins að fá byr undir báða vængi.
Nóg hefur verið tala um Ríkiskirkjuna í gegnum tíðina og langflestir komnir með dauðleið á því. Hættum því þessu masi, skerum á öll fjárhagsleg tengsl og lokum málinu. Jarðasamningurinn verður gerður upp og mismunurinn greiddur, en ekki er ólíklegt að Ríkiskirkjan standi í skuld fyrir ríkið vegna hans ef forsendur eru veraldlega reiknaðar. Hvernig sem allt fer, þá þarf að setja punkt fyrir aftan þetta Ríkiskirkjumál, tími er til þess kominn!
Við þurfum að tala um þjóðkirkjuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Þriðjudagur, 4. júní 2019
Bannkóngurinn í banni :)
Hann, sem heldur úti viðamestu bannlistum á blogginu hérlendis og þótt víðar væri leitað, suðar, grenjar og vælir yfir því að fá þessi skilaboð sem lunginn af netverjum sér þegar þeir ætla að leggja orð í belg á einhverjum af fjölmörgum bloggvefjum greysins.
Er þetta ekki kaldhæðnislega dásamlegt :)
Oft hefur Jón Valur fengið þessa spurningu, "Hvað hef ég gert af mér til að verða úthýst?", en sjaldnast svarar hann og þá sjaldan það gerist er það óskiljanlegt blaður.
Til hamingju, Jón Valur, yfirmarskálkur bannlistanna, þú ert ekki velkominn á forsíðu Moggabloggsins og svokallaðir vinir þínir setja þig á svarta listann. Heimur batnandi fer :)
PS. Mun þetta fá þig til að endurskoða þína bannlista? Ég spyr fyrir vin :)
Þriðjudagur, 14. maí 2019
Ríkistrú á fallandi fæti ...
Hér er örstutt samantekt á hagtölum síðasta árs þegar kemur að ríkissýninni á trúarlíf þjóðarinnar.
Fyrst er áhugavert að skoða hlutfallstölur. Í gegnum tíðina hafa fylgjur Ríkiskirkjunnar nefnt það sem sem helstu rök fyrir ríkisstyrkveitingu að svo margir séu í hana skráðir og yljar þetta fólk sér við það að einu sinni voru nær 100% þjóðarinnar lögskráð þar. Nú er þessi tala komin niður í 65% og hefur hún lækkað um tvö prósentustig árlega undanfarin fjögur ár. Miðað við það verður hlutfallið komið undir 50% innan 7-8 ára.
Auðvitað ættum við umsvifalaust að fara að skoða ríkisstyrkveitingar til trúfélaga nú þegar ljóst er að þetta apparat er á fallandi fæti. Þrátt fyrir höfðinglegar styrkveitingar frá ríkinu í gegnum tíðina hefur þróunin verið niður á við nær öll ár síðan 1998 og því er ljóst að þetta hrun verður ekki tengt við fjárhagslega kröm.
Svo er ekki síður áhugavert að skoða fjöldatölur sem auðvitað liggja allar niður á við hjá Ríkiskirkjunni. Þar hlýtur helsta áhyggjuefnið að vera jöfn og stöðug fækkun í hópi barna, en þau eru framtíðar andlag sóknargjaldanna góðu og þegar þeim fækkar verður gjöfin frá ríkin rýrari. Þessi þróun hefur verið niður á við frá árinu 1998 þegar börn voru 70.700 talsins, en teljast nú vera 54.250. Þetta er sérstaklega áhugavert þegar sést að í dag telur þjóðin tæplega 357 þúsund manns, en var rúmlega 272 þúsund árið 1998. Því hefur börnum fækkað um 16.500 á meðan landsmönnum fjölgar um 85 þúsund. Í það minnsta blæs ekki byrlega fyrir Ríkiskirkju framtíðarinnar þegar seiðastofninn skreppur jafn mikið saman og raun ber vitni.
Sú krafa meirihluta þjóðarinnar um aðskilnað ríkis og Ríkiskirkju er hávær og réttmæt. Þessar tölur sýna að ekki er hægt að hunsa þessar raddir mikið lengur því í dag er pínlegt hvernig reynt er að púkka upp á hnígandi fyrirbæri í íslensku þjóðlífi með öllum mögulegum leiðum.
Ríkiskirkjan mun vel lifa af aðskilnað. Hún mun skreppa saman niður í raunstærð sem er töluvert fyrir sunnan 50%, en þá væri auðvitað tekið mið af þeim fjölda sem tíma að borga félagsgjöldin í heimabankankanum. Greiðsluvilji þarf hins vegar ekki að vera forsenda trúar ekki frekar en að ríkisstyrkurinn í dag er það. Ríkiskirkjan myndi að mínu mati styrkjast við þetta því hún myndi með þessu reka af sér eymingjaímyndina sem hún hefur í huga margra; gömul ölmusustofnun sem er sífellt sífrandi, kvartandi og veinandi. Það hlýtur að vera eftirsóknarverð staða fyrir alla sem að koma og bera hlýjar tilfinningar til hennar.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 16. október 2018
Ríkiskirkjan rýrnar enn
Þjóðskráin birti í dag nýjustu tölur um meinta trúfesti íslensku þjóðarinnar og sýna þær að nú eru innan við 2/3 hluti þjóðarinnar skráður í Ríkiskirkjuna. Þetta hlutfall hefur verið í frjálsu falli undanfarin ár og er engin ástæða til að ætla að það sé að breytast.
Þessi tölfræði segir ekkert til um raunverulega trúfesti þjóðarinnar því eini tilgangur hennar er að vera andlag fjárausturs til Ríkiskirkjunnar. Einhverjir hafa orðið spældir vegna margvíslegra hluta sem forsvarsmenn Ríkiskirkjunnar hafa gert, en ég hef enga trú á því að einhver mótmæli fólks í gegnum talnaleik í Þjóðskrá séu merki um breytingu á trú þeirra.
Hins vegar er ánægjulegt að geta vísað í þessa talnaleikfimi þegar það fólk tjáir sig um þessi mál með vísan í þessa talnasúpu. Ár hvert hefur það fólk þurft að lækka töluna sem einu sinni var nær 100% en 90% og nú styttist í að hún verði nær 50% eða 60%. Þegar 50% markinu verður náð hljóta allir að vera því sammála að þá er þessari björgunaraðgerð lokið. Hvernig sem þessu verður velt fram og til baka þá munu opinberar tölur sýna að minnihluti þjóðarinnar tilheyrir Ríkiskirkjunni og á þeim tímapunkti á hún ekkert tilkall til þess ríkisstuðnings sem í tíðina hefur verið hannaður svo hún þyrfti ekki að líða fyrir auman greiðsluvilji félaga sinna.
Í millitíðinni verður gaman að fylgjast með þessu hruni því við sem höfum ánægju af góðum staðtölum höfum alltaf fengið verk fyrir hjartað þegar þessu talnatrosi hefur verið hent á borðið eins og ónýtu þorskslori.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Laugardagur, 19. maí 2018
... og enn gefur hún eftir
Nýjar tölur birtust nýlega á vef Hagstofunnar sem sýna að staða Ríkiskirkjunnar er sífellt verri. Árið 1998 var hún sögð vera dálæti 89,91% þjóðarinnar (allir vita þó að þessi tala var bara tilkomin vegna vélskráningar ríkisins á nýfæddum börnum í félagatal hennar). Nýjustu upplýsingar sýna að þessi tala er nú komin niður í 67,22% og er það lækkun um 2,67 prósentustig á milli ára. Annað merkilegt er að þetta er mesta lækkun á milli ára frá árinu 1998 og því er ekkert sem bendir til annars en að nú flæði enn hraðar undan Ríkiskirkjunni. Árið 1998 réttlættu sjálfskipaðir málsvarar Ríkiskirkjunnar forréttindastöðu hennar með því að í henni væru 90% þjóðarinnar (spurning er hvort Jesús Jósepsson hefði skrökvað svona, þekkjandi tilurð tölunnar?).
En svona lítur hnignun Ríkiskirkju út á veraldlegu grafi:
Þarna má greinilega sjá spíralinn niður á við. Eftir eru 17,23% í að þetta hlutfall fari undir 50% og skv. þessum tölum lækkaði hlutfallið um það á síðustu 14 árum. Því má gera því skóna að Hagstofukristið fólk muni telja minnihluta þjóðarinnar innan þess tíma þrátt fyrir alla meðgjöfina, hjálpina, stuðninginn og bellibrögðin í gegnum tíðina.
Hvernig munu málpípurnar hljóma þá? Hvernig munu þær finna réttlætingu á þessu öllu saman þegar óhappafleyið er sokkið undir 50% markið?
PS. Áhugavert er að velta vöngum yfir því hvenær Ríkiskirkjan raunverulega fellur undir 50% markið. Ég reiknaði meðaltal fækkunar síðustu fimm og tíu árin og framreiknaði hnignunina m.v. það. Ef stuðst er við meðaltal síðustu tíu ára gerist það árið 2032, en ef horft er til meðaltals síðustu fimm ára mun bjallan glymja 2028.
Hvernig sem allt veltur þá er ekki langt í þetta og þessu virðist ekki verða afstýrt nema með guðlegri íhlutun.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Mánudagur, 7. maí 2018
Fjórðungur skilaði sér til baka
Frásögn Rúv af hremmningin íslenska safnaðarins í Noregi er áhugaverð að því leyti að hún sýnir hversu bjöguð og vitlaus ríkisvædd trúar- og lífskoðanaskráning er. Í fréttinni er talað um að söfnuðurinn hafi mest talið tíu þúsund félaga, en þegar norska ríkið krafðist þess að allir yrðu skráðir úr honum svo hægt væri að sjá raunverulega hversu margir skiluðu sér til baka voru það 2-3 þúsund manns sem skiluðu sér aftur á endanum eða 20-30%. Líklegt má telja að forsvarsfólk safnaðarins hafi lagt nokkuð á sig til að fá fólk til að skrá sig, en það virðist ekki hafa skilað árangri.
Hvernig væri útkoman hér heima ef hið sama væri gert hér. Öll trúfélagaskráning yrði þurrkuð út og þeir sem vildu myndu skrá sig aftur. Að mínu mati þyrfti bara að núllstilla skráningu þeirra sem ríkið vélskráði í trúfélag við fæðingu, sem er mikill meirihluti skráðra, engin ástæða er til þess að rugla í fólki sem hefur haft fyrir því sjálft að hlutast til um skráningu sína, en það fólk er í litlum minnihluta.
Mig grunar að heimtur yrðu rýrar. Fáir myndu hafa fyrir því að skrá sig aftur og fjárhagslegum stoðum yrði kippt undan Ríkiskirkjunni sem reiðir sig hvað mest á ölmusu ríkisins. Hún myndi þurfa að senda út eigin gíróseðla og bíða svo í eftirvæntingu um hvað kæmi inn á reikninginn.
En það mun ekki gerast. Ráðamenn eru meðvitaðir um hversu háð Ríkiskirkjan er fjárhagsstuðningi ríkisins og þrátt fyrir fögur fyrirheit flestra flokka um algjöran aðskilnað ríkis og kirkju virðist enginn þeirra hafa dug né kjark til þess að drífa það mál í gang.
Samt gerist það ár frá ári að það fækkar hlutfallslega í Ríkiskirkjunni og brátt fer að gæta margföldunaráhrifa þeirra fækkunar. Þá munu þessar tölur breytast hraðar og hraðar, trú á Íslandi í óhag.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)