Kjósum einstaklinga, ekki lista!

SkjaldarmerkiUm nokkurt skeið hef ég velt því fyrir mér hvernig hægt sé að gera lýðræði beinna og skilvirkara hérlendis. Í mínum huga er ein leið best - að kjósa einstaklinga, ekki lista. Flokkar munu áfram velja fólk á lista sína með þeim aðferðum sem þeir kjósa, með uppstillingu eða prófkjöri, og þeir listar rata á kjörseðla. Hins vegar munu kjósendur merkja beint við nöfn þeirra frambjóðenda sem þeir telja hæfasta hverju sinni af einum eða fleiri listum. Þeir geta því kosið fólk af mörgum listum, hæfa einstaklinga sem þeir telja að geta gert gagn á Alþingi, óháð tengslum við stjórnmálaflokka.

Ég sé það fyrir mér að með þessu fyrirkomulagi geti kjósendur valið sér þann meirihluta sem þeir telja heppilegastan, en um leið geti þeir valið þann minnihluta sem þeir telji að muni veita meirahlutanum best aðhald. Í mínum huga er listakosning sambærileg við að fá dós af Quality Street súkkulaðikonfekti. Það eru nokkrir góðir molar í dósinni, en mest er þó um mola sem manni er sama um. Svo eru alltaf molarnir sem enginn vill og ganga aldrei út, sama hversu lengi dósin er á borðinu. Þannig verður maður að taka það slæma með því góða, en sumt af þessu slæma er bara svo virkilega slæmt.

Þetta kerfi þyrfti að útfæra betur, en helsta spurningin er sú hvort það eigi að vera einn atkvæðaseðill á landsvísu eða sér seðill í hverju kjördæmi. Persónulega líst mér betur á að einn atkvæðaseðill gildi fyrir landið, enda eiga þingmenn að starfa fyrir landið í heild sinni og því má segja að það sé óeðlilegt að þeir sé kosnir í kjördæmum. Það fyrirkomulag gerir það að verkum að þingmenn þurfa frekar að hygla sínu kjördæmi umfram önnur, en það býður heim hættunni á hrossakaupum og eiginhagsmunahyggju.

Í flestum flokkum er gott fólk sem mér hugnast að hafa á þingi, en að sama skapi er í öllum flokkum fólk sem ég vil ekki sjá á þingi undir neinum kringumstæðum. Sem barnfæddur Sjálfstæðismaður vil ég geta kosið flokkinn minn, en ef ekki verða róttækar breytingar á því framboði fólks sem á honum verður, þá sé ég það ekki ganga eftir. Með því að velja einstaklinga get ég valið það Sjálfstæðisfólk sem ég ber traust til og hafnað hinum. Þá vil ég einnig velja allt það frambærilega fólk sem er að finna í hinum flokkunum, annars vegar til þess að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum og hins vegar til að vera í þróttmikilli stjórnarandstöðu.

Nú spyrja flokksjálkarnir af hverju þeir geti ekki bara kosið listann sinn áfram; allar breytingar séu, jú, ekki nema til ills. Ég bendi þeim á að þeir geta eftir sem áður kosið listann sinn með því að merkja bara við fólk á þeim lista. Það er minnsta málið. Hins vegar er það afar sorglegt ef fólk er það fast í farinu að það sjái ekki einn eða tvö góða kosti á öðrum listum. En þannig er lífið.

Enn ein rökin fyrir því að hafa þetta fyrirkomulag og einn lista á landsvísu er jöfnun vægis kjósenda. Það er í hæsta máta óeðlilegt að atkvæði kjósenda á landsbyggðinni skuli hafa meira vægi en atkvæða okkar sem búum á höfuðborgarsvæðinu. Reglan á að vera einn kjósandi, eitt atkvæði.

Hvað á svo að velja mörg nöfn? Ég get ekki sagt til um það, en að mínu mati eiga þau að vera á milli 20 og 40 talsins. Það er þó það atriði sem erfiðast yrði að útfæra.

Hugsanlega getur þetta kerfi leitt til þess að hlutur kvenna færi minnkandi um stund, enda eru íslenskar þingkonur almennt hlédrægari en starfsbræður þeirra. Mér er sagt að þær séu almennt betri til vinnu á þingi en karlar, en það vegur ekki þungt ef enginn veit af því. Á því verður að taka.

Það verður magnað að geta kosið Pétur Blöndal, Steingrím J., Helga Hjörvar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Katrínu Jakobsdóttur, Össur Skarphéðinsson, Bjarna Benediktsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmund Jónasson.

Ég sleppi Framsókn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lýður Árnason

Sæll, Óli Jón.  Sammála þessu og tel þetta líka betra fyrir kvenpeninginn, vísa í því sambandi á prófkjörslista flokkanna í síðustu alþingiskosningum.  En hugmyndin er fín og mætti gjarna koma henni á framfæri.

LÁ 

Lýður Árnason, 2.11.2008 kl. 01:56

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sæll Óli Jón,

Haustið 2006 sendi ég alþingismönnum tölvupóst (og birti líka síðar á blogginu) sem útlistaði hugmyndir að kosningalögum í þeim anda sem þú ert að viðra aftur hér. Þér til fróðleiks ættirðu að kíkja á þær. Auðvitað þurfum við að færa kosningalögin að nútíma tækni sem leyfir okkur að sameina bæði prófkjör og kosningar í einn pakka. Ég er ennþá bara nokkuð ánægður með tillögurnar en auðvitað þurfa sem flestir að koma að hugmyndasmíðinni sem vilja leggja gott til málanna.

Haukur Nikulásson, 2.11.2008 kl. 10:20

3 identicon

Ég er þessu sammála, hef haft þessa skoðun um alllangt skeið.  Að kjósa lista í heild er einfaldlega gamaldags og ekki eins lýðræðislegt og það að kjósa einstaklinga.  Margir vilja sem dæmi að Steingrímur J. Sigfússon sé einn af ráðamönnum þjóðarinnar en vilja hins vegar ekki kjósa VG vegna annarra á þeim lista.

Hallgrímur Óskarsson 2.11.2008 kl. 10:31

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Það er rétt hjá þér að við eigum að kjósa einstaklinga ekki flokka eða lista.

En getur verið að við eigum að ganga enn lengra og hætta með fulltrúalýðræðið og fara að taka upp beinnt lýðræði, er einhver ástæða til að borga mönnum laun fyrir að sitja ábyrðarlausir við Austurvöll og benda á aðra þegar allt er hrunið?

Eða hafið þið heyrt um að nokkur flokkur ætli að skipta út öllum þeim mönnum sem voru hjá honum á lista til að láta þá axla ábyrð, það er rétt að muna að það er enginn á þingi núna sem ekki ber ábyrð á því hruni sem við núna stöndum frammi fyrir.

Mín skoðun er sú að við eigum að taka upp beinnt lýðræði og láta ESB eiga sig því þar er ekkert lýðræði í för heldur eingöngu hagsmunir fáeinna svo kallaðra ráðamanna og embættismanna í Brussel.

Einar Þór Strand, 2.11.2008 kl. 10:49

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að vera hér með jafnaðarmannaflokk þeirra sem vilja ekki ganga í ESB.

Maður er orðinn hundleiður á því að vera það eyland í pólitík að vilja ekki kjósa neitt af því sem er í boði:

Sjálfstæðisflokkurinn: Spilltur í gegn. Hefur ráðstafað ríkiseignum í hendur vina og vandamanna. Beitir brögðum til að koma sínum dæmdu þjófum á þing aftur.

Framsóknarflokkurinn: Minna afbrigði af spilltum flokki í úthlutun ríkisgæðanna. Skýlir sér enn á bak við löngu úrelta landbúnaðarstefnu sem er bull.

Samfylkingin: Sannarlega jafnaðarmannaflokkur, en er samt svo aumur og uppburðarlítill í minnimáttarkennd að vilja verða nýlenduþjóð stjórnað frá ESB í Brussel. 

Vinstri grænir: Öfga umhverfisflokkur sem vill ekkert í nýtingu auðlinda. Öfga feministaflokkur sem skilur ekki eðlismun karla og kvenna.

Frjálslyndi flokkurinn: Eins máls kvótaflokkur með rasistaívafi. Of lítill flokkur fyrir alla þá miklu valdabaráttu og sundurlyndi sem þar þrífst.

Íslandshreyfingin: Öfga umhverfisflokkur sem vill ekki snerta við neinu.

Hvar er flokkurinn okkar?

Haukur Nikulásson, 2.11.2008 kl. 11:15

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Frábær umræða og svo þörf. Ég hef einmitt fyrir löngu missst alla tilrú á flokkakerfinu og því að kjósa flokka. Ég vil fá að kjósa fólk sem ég treysti og er þekkt af góðum verkum sínum og heiðarleika..sama hvaða flokki þau svo tilheyra. Hægri og vinstri hugtökin held ég að séu líka börn síns tíma. Við verðum endilega að koma þessum hugmyndum á framfæri svo fólk geti í alvöru farið að skoða þessi mál og velta fyrir sér hugsanlegu fyrirkomulagi. Mjög mikilvægt núna!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.11.2008 kl. 11:23

7 identicon

Ágætis innlegg,  sem dæmi gæfi ég Steingrími Sigfússyni atkvæði mitt, aldrei kæmi mér til hugar að kjósa Kolbrúnu Halldórsdóttur eða Sóleyju Tómasdóttur og fyrir það líður Steini rauði.

Traviz 2.11.2008 kl. 11:24

8 Smámynd: Óli Jón

Takk kærlega fyrir góð innlegg. Þetta er sannarlega þörf umræða og tímabær.

Að kjósa eftir flokkslínum er úrelt, gamaldags og stríðir beint gegn hagsmunum þjóðarinnar. Við eigum að geta valið bestu berin af lynginu og látið hin eiga sig. Þetta er í raun besta ráðstöfunin í þessum efnum. Ég vil ekki láta hæfa fólkið líða fyrir alla draugana sem því fylgja.

En þeir sem geta ekki hugsað sér aðra tilveru en þá að kjósa eftir flokkslínunum rúmast vel innan þessa kerfis því þeir geta alltaf kosið að merkja við efsta fólkið á listanum sínum.

Óli Jón, 2.11.2008 kl. 11:38

9 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sammála þér Óli Jón.

Anna Karlsdóttir, 15.11.2008 kl. 19:11

10 identicon

Hjartanlega sammála, frábær hugmynd sem marga hefur lengi langað að sjá í framkvæmd. Hef gengið í nokkra flokka til að hafa áhrif í prófkjörum en ekki viljað bindast neinum, góður tími núna til að breyta þessu.

Gurrí 28.11.2008 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband