Af hlandsprengdum og villuráfandi sauð

Já, svona skulu þær vera!Sorglegt er að sjá hvernig Jón Valur heggur enn í sömu knérunn í nýjustu blogg-grein sinni, Falskenning til að réttlæta ranglæti gagnvart börnum, þar sem hann finnur fordómum sínum gagnvart einhleypum konum og lesbíum farveg. Það sést glögglega að hann klæðir þessa fordóma sína í búning kristninnar af því að hann skilgreinir andstæðinga sína í málinu sem 'rangtrúaða og andkristna'. Það virðist vera að ófáar konur séu óalandi og óferjandi í augum Jóns Vals sem einn virðist hafa réttan skilning á eðli allra mála og sem einn er blessaður með þeirri náðargáfu að hafa ávallt rétt fyrir sér. En virðing og gæska virðast naumt skammtaðar ef dæma má af þessum orðum prédikarans:

Myndi þetta fólk, sem samdi og samþykkti lögin fyrir þær einhleypu og lesbíurnar, ...


Úff, 'þær einhleypu og lesbíurnar', þessar konur sem enga náð hljóta fyrir augum hins réttsýna. Hvað vilja þessar fraukur eiginlega upp á dekk? Þekkja þær ekki sinn stað í gangverki lífsins? Hann tilgreinir einnig femínista og meinta offorsstefnu þeirra og gefur augsýnilega lítið fyrir hvort tveggja. Þá virðast 'viðhlæjendur' femínista ekki hótinu skárri pappírar en þær sjálfar. Æi, þessar konur, alltaf eitthvað að derra sig.

Nú þykist ég vita að Jón Valur telji mig á villigötum, enda er ég forhertur villutrúarseggur. Hann mun áminna mig um að hann sé ekki á móti konum heldur sé hann að standa vörð um rétt barnanna. Hann hreinlega elski lesbíur en leggi fæð á syndugt líferni þeirra! Jón Valur hefur oft mælt fyrir rétti barna sem fæðast í þennan heim með þyngri bagga á herðum en föðurleysi. Þannig er hann andvígur fóstureyðingum, en fyllilega fylgjandi fósturforvörnum. Og þó ekki ... við verðum að muna eftir óláns smokknum, því illa vélabragði Belsebúbbs! Norður og niður fari það lævísa apparat sem tálmar krossför hins heilaga sæðis karlsins í atlögu sinni að skauti konunnar. Svo vill Jón Valur spyrja þingmennina sem sömdu 'einhleyprakellingaoglesbíu'-lögin hvort þeir myndu vilja hafa fæðst föðurlausir, en ef við lifðum skv. lögmáli Jóns Vals væri ekki einu sinni hægt að spyrja suma þessarar spurningar, þ.e. föðurlausu eymingjana sem engan tilverurétt eiga í heimsmynd hans.

En hvað veldur þessu ókristilega viðhorfi séra Jóns Vals? Hvað veldur þessum eilífðar hlandspreng sem iðulega virðist plaga hann þegar málefni kvenna ber á góma? Getur verið að þegar konur standa ekki við eldavélina berfættar og barnþungar, réttilega og kyrfilega þungaðar af húsbónda sínum og herra, þá séu þær bara ekki alveg eins mikils virði og við karlar? Er ekki bara árans ónæði af þessum kellingum þegar þær eru að ybba gogg?

Já, þessar bévítans kellingar og þetta endalausa réttindaraus þeirra! Hvenær tekur það enda!?!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er nú mjög þakklátur honum Jóni Val, það finnst varla sá maður á íslandi sem færir betri rök fyrir því að vera trúfrjáls.
Fólk getur bara ímyndað sér hið biblíska samfélag sem Jón talar fyrir,  hann talar beint upp úr biblíunni, ég þori nú ekki að hugsa þá hugsun til enda ef ísland yrði biblískt samfélag með hann Nonna sem yfirmann.
Ég og þú færum beint á grillið.

DoctorE 23.6.2008 kl. 15:27

2 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Og svo týpist að viðkomandi þóknist ekki að fólk hafi athugasemdir. Því kýs hann að ausa sínu 'réttlæti' yfir aðra og engin má kommenta, bara þyggja lesningu

Aðalheiður Ámundadóttir, 23.6.2008 kl. 18:13

3 identicon

Ég hef oft spáð í því hvers vegna mbl flaggar Jóni Val, mér er til efs að Jón hafi verið aðvaraður þó hef ég fengið aðvörun a.m.k. 2, mér er handvirkt haldið utan við "Heitar umræður"
Ég get bara komist að þeirri niðurstöðu að stjórnendur mbl séu á sömu línu og Jón, að mbl stjórnist af ofurtrúarmönnum.

DoctorE 23.6.2008 kl. 22:37

4 identicon

Það er hægt að reyna að fela sig á bak við kristnina alveg eins og önnur trúarbrögð.
Þeir sem mest misskilja boðskap kristninnar eru yfirleitt bókstafstrúarmenn og aðrir öfgahyggjumenn. Ég hef sjaldan mætt meiri mannvonsku en einmitt á meðal kaþólikka hér í Þýskalandi. Það er ekkert "elskaðu náungann" og umburðarlyndi. Miklu frekar egóismi og hatursáróður sem einkennir marga á þeim bæ.
En það er auðskiljanlegt þar sem það dugir þeim að mæta reglulega í kirkju til þess að fá "fyrirgefningu syndanna" og eilíft líf.
Fyrirgefiði en þarna er mikil hræsni á ferðum.
Þetta gengur ekki út á boðskapinn heldur að finna sig betri mann/konu en hinir.
Ég veit um hvað ég er að tala, eiginkona mín er kaþólsk.
En þar sem ég er mótmælandi, og ekki trúaður, þá er ég umburðarlyndur og fyrirgef henni :-)
Ég vona bara að þessi áróðursmaskína eitri ekki út frá sér.

Einar 23.6.2008 kl. 22:49

5 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Æ já ég líka... ég þoli ekki að horfa á stafsetningarvillur, og allra síst eftir sjálfa mig

Aðalheiður Ámundadóttir, 23.6.2008 kl. 23:18

6 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Fyrirgefðu að ég misnota bloggið þitt en JV gefur ekki séns á færslu. Ég skil ekki fólk eins og JV því hann lifir eingöngu í gamla testamentinu kannski hefur hann ekki fattað að Guð gaf okkur nýtt testamentið  og þar kemur Jesús til sögunnar. Elskum fólkið í kringum okkur eins og við viljum vera elskuð.

Mbk.  

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 24.6.2008 kl. 00:56

7 Smámynd: Óli Jón

Sæl, öllsömul

Það er óhætt að segja að við erum á sömu bylgjulengd í þessu máli. Svona viðhorfi og ljótum skrifum verður að veita viðspyrnu því annars er hætt við að þeim vaxi ásmegin.

Sólveig Þóra: Það er ánægjulegt að þú kjósir að skrifa hér. Vertu ávallt velkomin!

Óli Jón, 24.6.2008 kl. 01:28

8 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Ort um ÓJ (laun fyrir vísu)

Viðspyrnu nú veitir gegn

viðbjóðslegum skrifum.

Ekkert mun þeim þjóðfélagsþegn

standa fyrir þrifum.

Illa ort en vel meint

Aðalheiður Ámundadóttir, 24.6.2008 kl. 01:53

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér eru ljótu skrifin með sóðaorðbragðið – og affæringarviðleitnin auðsæ. Hins vegar eru grein mín og fyrri greinar, sem þar er vísað til um sama efni, næg hrakning á hatursskrifum í minn garð. Við þær greinar fylgja víðast hvar allmiklar umræður á báða bóga.

Ég geri þig, ofuræsti Óli Jón, ábyrgan fyrir innleggi hins hugdeiga nafnleysingja, sem hér skrifaði kl. 20:44 í kvöld, nema þú þurrkir það út.

Jón Valur Jensson, 24.6.2008 kl. 01:58

10 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Minn 'ofuræsti' Óli Jón

ábyrgur ert eigi,

þó sérann um það  biðji  bón,

menn hlusti á sig og þegi.  

Aðalheiður Ámundadóttir, 24.6.2008 kl. 02:27

11 Smámynd: Óli Jón

Hér með launast þetta.

Vísast getur vísu ort,
vífið norðan fjalla.
Líður engan andans skort,
Alla mín ágæta og snjalla.

Óli Jón, 24.6.2008 kl. 02:55

12 Smámynd: corvus corax

Það er víst lygilegt hvað skrattinn getur tekið á sig margvíslegar myndir til að villa um fyrir fólki og koma sínum boðskap á framfæri. Skyldi Jón Valur vera Jón Valur í raun og veru?

corvus corax, 24.6.2008 kl. 07:10

13 identicon

Já, það er ótrúlegt hvað ein manneskja getur verið "hötuð".

Í rauninni hata ég hann ekki, hef sem betur fer ekkert með hann að gera. Hef heldur ekki tíma og langar ekki að sóa kröftum í að hata.

Vona að hann sjái að sér.

Einar 24.6.2008 kl. 08:52

14 Smámynd: Sigurjón

Hahaha!   Bezta skýring á JVJ sem ég hef heyrt: ,,Tímaskekkja". Snillingur Þorvaldur!

Sigurjón, 24.6.2008 kl. 10:11

15 identicon

Ég bjóst nákvæmlega við svona "svari" frá Jóni: Ég hef hrakið, fyrri greinar.. ég er bestur, betri og gáfaðri en allir hér,  nafnleysingjar eru ómarktækir... og svo fer hann og sýslar í GT þar sem hann les skrif nafnleysingja, nafnleysingja sem segja guð skrifa í gegnum sig. :)

DoctorE 24.6.2008 kl. 10:18

16 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Óli Jón.

Hafi það verið ætlun þín að ræða efnislega og málefnalega pistil nafna þíns og afstöðu hans til þeirra málefna sem þar eru reifuð, mistókst þér það illa. Hér í athugasemdahalanum gengur maður undir mann við að ráðist að og hæða persónu Jóns Vals frekar en skoðunum hans sem þó er fullt rúm fyrir sértu þannig innréttaður.

Gagnrýni á skoðanir manna eru og verða að vera frjálsar, um það deilir enginn. Jón Valur hefur fullt frelsi til að tjá sig um skoðanir sínar án þess að eiga það á hættu að persóna hans sé nídd fyrir bragðið, einkum og sér í lagi ar sem skrif hans vor almenn eðlis þó hann hafi tiltekið ákveðna þjóðfélagshópa máli sínu til stuðnings.  

Það getur vel verið að ég sé að stinga höfðinu í gin ljónsins með þessu andmælum mínum hér, en mér finnst þetta fulllangt gengið.  

Kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 24.6.2008 kl. 19:33

17 identicon

Ég er sammála Svani, maður á ekki að vera endilega með mobb eða persónulegar árásir fyrir skoðanir.
Í rauninni er Jón Valur greinilega mjög sannfærður kaþólikki sem reynir að útbreiða þá afstöðu á netinu. Það er ekki nema allt gott um það að segja. Og það má alveg mótmæla honum í athugasemdum annarra blogga, þar sem ekki má skrifa athugasemdir hjá honum.
Það er bara greinilega ekki í anda Íslendinga að sinnast svona afturhaldssemi eins og kaþólismi er. Hvernig fór jú með nafna hans Arason? Það var náttúrulega einum of langt gengið.
Svo er líka hitt, að þeir sem eru að reka áróður í nafni einhverra trúarbragða, eru sjálfkrafa óvinsælir. Venjulegt fólk er nú yfirleitt ekki að skipta um trúarbrögð (þó að ég mundi gjarnan verða gyðingur, bara til þess að mótmæla þessu öllu saman).

Gangið á Guðs vegum (eins og Dave Allen sagði í gamla daga).

Einar 24.6.2008 kl. 20:11

18 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hvað sem segja má um ritskoðunartilburði og skoðanir Jóns Vals þá er svona skítmokstur eins og hann þarf að þola, sérstaklega í skjóli nafnleysis, það lágkúrulegasta sem maður sér í blogghemum og skoðanir hans og yfirlýsingar gefa mönnum ekkert skotleyfi á persónu hans.

Ég verð bara að votta JVJ samúð mína að þurfa að sitja undir svona skítkasti lítilmenna.

Theódór Norðkvist, 24.6.2008 kl. 21:05

19 identicon

Hvað segir þú Theódór, ef þú ert að labba úti á götu og einhver sem þú veist ekki hvað heitir segir að þú sért asni, særist þú þá meira bara vegna þess að þú veist ekki hver sagði þig vera asna.

Annars hefur Jón oft kallað mig hinum ýmsu nöfnum.. ætli ég finni ekkert fyrir því vegna þess að ég nota alias.. spurning.
Mitt blogg hefur verið útvaðandi í skítkasti á mig frá kristnum, með nafni og einnig nafnlaust, þeir hafa meira að segja sett upp sér blogg til þess að ráðast að mér, að ég sé hinn versti dópisti og ég veit ekki hvað og hvað.

Hugsanlega gruna ég þig Theódór því einn af þeim sem kastar skít í mig kallar mig allaf "Illmenni"

Svo tel ég nú að JVJ sé faktískt mesta illmennið af öllum, hann er með nefið í hvers manns koppi, vil hindra sjálfsögð réttindi fólks vegna þess að hann les skrif nafnleysinga úr biblíunni, nafnleysingja sem eru með vitnisburð enn annarra nafnleysingja, dylgjur um að einhver geimgaldrakarl vilji ekki að hinir ýmsu þjóðfélagshópar hafi full mannréttindi
Þetta er alveg klárlega mesta skítkastið, JVJ er meistari meistaranna í skítkasti enda er geimgaldrakarlinn hans svo rosalega slæm fyrirmynd.

DoctorE 24.6.2008 kl. 21:46

20 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll DrE. Erum við ekki sammála um að eitt "skítkast" réttlætir  ekki annað. Og erum við ekki sammála um að þótt fólk aðhyllist einhverjar skoðanir sem við álítum skít, eigum við ekki að ráðast að því með uppnefnum og háði?

Svanur Gísli Þorkelsson, 24.6.2008 kl. 23:48

21 Smámynd: Óli Jón

Ég er gagnrýndur fyrir að hafa ekki rýnt í grein Jóns Vals með málefnalegum hætti og því er ég ósammála. Ég fer í gegnum grein hans og tek á þeim atriðum sem ég tel ámælisverð. Meðal þeirra má nefna þann tón sem finna má í grein hans, sbr.:

  • 'þær einhleypu og lesbíurnar'
  • 'lesbíulögin'

Auðveldlega má lesa úr þessu og fleiri atriðum ákveðna vandlætingu sem ég get ekki sætt mig við. Jón Valur má vel uppnefna mig og kalla mig t.d. 'forhertan' og 'varnarleysissinna' (reyndar bara fyndið), en honum leyfist ekki að gera lítið úr einhleypum konum og lesbíum og gildir þá einu hvernig hann telur sig hafa umboð til þess.

Ég hef áður sagt að ég get vel tekið undir það að ekki sé ákjósanlegt að börn fæðist ófeðruð. Hins vegar get ég ekki skrifað upp á að það sé næg ástæða til þess að neita einhleypum konum um þann sjálfsagða rétt þeirra að verða þungaðar og ala barn. Það er réttur barnanna að fæðast í ástríkan faðm móður sem lengi hefur beðið eftir krílinu. Þá geri ég stórar athugasemdir við það að reynt sé að setja trúarlegan blæ á þetta mál. Málið er einfalt og þarfnast ekki einhverrar trúarlegrar skírskotunar.

Hvað varðar innlegg annarra bloggara þá hljóta þau að endurspegla hug viðkomandi og hef ég ekkert með þau að gera. Ég hvet ekki til þess að fólk tjái sig hér, þótt ég fagni því auðvitað að skrifað sé við færslur mínar, og vel þaðan af síður ekki orð þess. Geri einhver athugasemdir við það sem hér er skrifað getur viðkomandi vel kvartað til réttra aðila, hvort sem er mbl.is eða yfirvalda. Nýleg dæmi sanna að oft reynist einfalt að rekja skráðar athugasemdir og færslur á Netinu til ábyrgðaraðila. Þá geta aðilar sem vilja að ég fjarlægi færslur þeirra haft samband við mig og mun ég umsvifalaust verða við slíkum beiðnum. Ein ákveðin athugasemd hér að ofan hefur stungið sérstaklega og þar sem höfundur hefur beðist afsökunar á henni tel ég rétt að fjarlægja hana.

En á endanum verða nafntogaðir bloggarar að taka því að um þá sé rætt og geta auðvitað ekki vænst þess að allt sé jákvætt, en eiga auðvitað ekki að þurfa að sætta sig við óhróður. Sjálfur fordæmi ég níð, dónaskap og ruddalegt málfar og tel að slíkt dæmi sig sjálft. Hins vegar nota ég kaldhæðni óspart enda oft besta leið mín til að sýna hvernig mér er innanbrjósts hverju sinni. Sjálfur vona ég að ég hafi aldrei gerst sekur um beinan dónaskap í garð samferðafólks míns þótt ég geri athugasemdir, stundum meinlegar, við bloggfærslur.

Óli Jón, 25.6.2008 kl. 00:09

22 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég tek undir með Svan Gísla. Hér er þess hefnt í héraði sem hallaðist á Alþingi. Pistillinn afhjúpar málefnafátækt skrifarans. 

Ragnar Geir Brynjólfsson, 25.6.2008 kl. 08:21

23 Smámynd: Óli Jón

Varðandi innlegg tímasett 08.21: Í hverju felst sú málefnafátækt?

Óli Jón, 25.6.2008 kl. 13:49

24 Smámynd: Theódór Norðkvist

Jón Valur er að mínu mati ágætis samfélagsrýnir, kemur sínum sjónarmiðum vel á framfæri, en ég neita því ekki að hann gengur stundum nokkuð langt og lokar á athugasemdir andmælenda sinna. Ég hef sjálfur gagnrýnt þannig menn harðlega, samanber þar síðasta blogg mitt.

Kannski var það á gráu svæði að kalla einhverja lítilmenni úr hópi nafnleysingja. Ég skal draga það hér með til baka, þar sem ég þekki ekki umrædda menn, t.d. DoctorE og Hippókrates nógu vel til að fullyrða slíkt (þeir sveipa sig líka dulbúningi á þessum vettvangi,) en ítreka að málflutningur þeirra er þeim ekki til sóma.

Að lokum vil ég minna á að það fylgir því ábyrgð að fá að skrifa á þessum ágæta vettvangi sem bloggið er. Mér finnst það góð regla að skrifa undir nafni, en meðan það er leyfilegt að skrifa undir dulnefni hvet ég þá sem það gera að skrifa málefnalega og ekki án persónuárása. Að sjálfsögðu gildir sama um þá sem skrifa undir réttu nafni. 

Theódór Norðkvist, 25.6.2008 kl. 14:47

25 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Úff hvað menn þráttað um þetta, ég er alveg hætt að skilja

Aðalheiður Ámundadóttir, 25.6.2008 kl. 22:22

26 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég á ekkert orð um þetta annað en málefnafátækt því í innleggi 25.6. 2008 kl. 00.09 frá þér kemur fram að kveikjan að þessum pistli er að þú telur pistil Jóns Vals ámælisverðan vegna þess að þú telur að í texta Jóns Vals komi fram vandlæting sem þú getur ekki sætt þig við, og svarar í kjölfarið með orðalagi sem þú sjálfur hefur kallað kaldhæðni og er það ekki sannarlega ekki ofmælt að kalla pistilinn kaldhæðinn. Er þá nöpur kaldhæðni betri eða réttlætanlegri en vandlæting í pistlaskrifum? Ég get ekki séð annað en þú sért sjálfur fallinn í þá gryfju sem þú álítur að Jón Valur sé löngu dottinn í. Sé ég á rangri braut að kalla þetta málefnafátækt þá máttu endilega leiðrétta mig

B.kv.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 26.6.2008 kl. 22:52

27 Smámynd: Óli Jón

Sæll, Ragnar Geir

Ég stend fyllilega við það sem sem ég segi að ég telji mikla vandlætingu felast í orðum Jóns Vals þegar hann talar um "þær einhleypu og lesbíurnar". Það má hverjum vera ljóst að þetta er sett fram í niðrandi tón. Þannig hefur það sem þú kallar málefnafátækt bara málefninu ekkert við, en hefur mikið með að gera þann anda sem ég tel grein Jóns Vals skrifaða í.

Hins vegar tók ég efnislega á nokkrum punktum í grein minni og sé að þú kýst að minnast ekkert á það. Er það máské málefnafátækt af þinni hálfu?

Óli Jón, 5.7.2008 kl. 19:47

28 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Vera má að málefnafátæktin sé mín eftir allt saman Óli Jón, en mér sýnist þessi pistill þinn aðallega snúast um persónu Jóns Vals eða viðhorf þín til hans en ekki um þau málefni sem til umfjöllunar eru. Lái mér það hver sem vill. Þú kallar þetta sjálfur kaldhæðni, aðrir myndu hugsanlega kalla þetta níð og útúrsnúninga.  Ég ætla samt ekki að gera það þó mér finnist skrifin vera í miklum ýkjustíl og jaðra við að vera hatursfull.  Ég á þó kannski eftir að sjá eftir þessari hreinskilni minni því ef vænta má líkra viðbragða frá þér og Jón Valur fær þá má ég kannski eiga von á svipuðum ýkjuskrifum um mína persónu? En ég tek áhættuna því mér finnst mikilvægt að koma því á framfæri að ég tel að menn séu oft of fljótir til á blogginu að mála skrattann á vegginn og gera lítið úr málefnaandstæðingum sínum. Mér finnst mjög trúlegt að þegar upp er staðið þá standi þannig vinnubrögð í vegi fyrir málefnaumræðu og kæfi jafnvel umræðu sem annars hefði lifað og dafnað.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 9.7.2008 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband