Lausn fundin á risavöxnu umhverfisvandamáli?

PlastpokarÁ vefnum wired.com er að finna áhugaverða frétt um sextán ára kanadískan vísindamann sem vann mikið afrek á dögunum. Venjulegir innkaupapokar úr plasti eru mikið skaðræði í umhverfinu, enda  tekur það náttúruna afar langan tíma að brjóta þá niður, jafnvel þúsundir ára. Daniel Burd hafði lengi velt þessu fyrir sér og þóttist viss um að það væru bakteríur sem ynnu á plastinu, jafnvel þótt það tæki svo langan tíma. Hann gerði því röð tilrauna þar sem hann gróf tætta plastpoka í ólíkum gerðum jarðvegs íblönduðum geri og vættum með venjulegu kranavatni. Með þessu gat hann einangrað tvær gerðir baktería sem voru einstaklega áfjáðar í að japla á plastinu.

Burd fann út að við ákjósanlegar kringumstæður hakka þessar bakteríur plastið í sig á þremur mánuðum í stað þúsunda ára. Úrgangurinn verður vatn og örlítið kolefni. Vísindamaðurinn ungi fullyrðir að einfalt sé að útbúa afkastamikla 'akra' þar sem plast er grafið í hentugan svörð svo það geti horfið á þremur mánuðum. Ég hvet forráðamenn Sorpu til þess að kynna sér þetta mál og gera tilraunir með þetta hér heima. Þetta gæti verið áhugavert samstarfsverkefni með einhverjum háskólanna.

Innkaupapokar eru afar fjandsamlegir umhverfinu, en líklega hagkvæmasta lausnin á því vandamáli sem þeim er ætlað að leysa, þ.e.a.s. fyrir utan endurnýtanlega taupoka. Ég heyrði í þætti á BBC World Service um daginn að nú ætti að banna þá alfarið í Úganda, en þar er akurlendi víða orðið ónothæft vegna mikillar plastmengunar. Undir þunnri moldarhulu er þykkt lag af plasti sem einangrar jarðveginn frá súrefni, regni og ljúfu faðmlagi sólar. Nokkur önnur lönd eru að feta þennan sama veg og er þess skemmst að minnast að Kína hefur nú bannað að plastpokar séu ókeypis í verslunum. Fyrir utan umhverfismengun sem hlýst af pokunum sjálfum fara 37 milljón olíutunnur árlega í framleiðslu innkaupapoka fyrir kínverskan markað.

Plast er líka löngu orðið stórt vandamál í hafsvæðum jarðar. Dæmi um þetta er Kyrrahafssorpeyjan, en hún er að mestu leyti úr plastúrgangi sem hefur safnast fyrir í miðju Kyrrahafinu eftir að hafa borist þangað með hafstraumum. Menn greinir á um stærð hennar, en að lágmarki er hún tvöfalt stærri en Texas-fylki sem er sjöfalt stærra en Ísland! Þessi sorpfláki eru orðinn svo stór að mannkyn hefur ekki efni á því að taka á vandanum, enda verkefni af óþekktri stærðargráðu að ná í sorpið og koma því fyrir kattarnef. Áætlað er að þessi sorpeyja muni stækka veldislægt á næstu árum. Óljóst er hvaða áhrif hún hefur á umhverfið, en það eitt að hún varnar sólinni að lýsa upp gríðarlega stóran hafflöt er mál sem krefst rannsóknar. Við, sem neytendur, getum gert tvennt til að vinna gegn þessu vandamáli; minnkað plastnotkun og komið því plasti sem við notum fyrir kattarnef.

Vísindamaðurinn ungi fékk fjölda verðlauna fyrir uppgötvun sína og er vel að þeim kominn. Hann er skýrt dæmi þess að það er hægt að leggja mikið til umhverfisins og ekki þarf endilega til þess mikið fjármagn eða dýra aðstöðu. Það sem mestu máli skiptir er einbeittur hugur og góður vilji til verka!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Þetta er tvímælalaust vandamál sem þarf að taka á og þessi ungi snillingur á hrós skilið.  Maður sér plast út um allt. T.d. rúllubaggaplast í sveitum landsins sem grefst niður í jarðveginn.

Þorsteinn Sverrisson, 25.5.2008 kl. 22:40

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

mér er um og ó að lesa um sorpeyjuna

Hólmdís Hjartardóttir, 26.5.2008 kl. 03:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband