Mánudagur, 24. júní 2019
Nei, við þurfum í raun ekki að tala mikið um hana ...
Óskiljanlegt er það sem fram kemur í þessari frétt að ríkið beri siðferðislega ábyrgð gagnvart Ríkiskirkjunni vegna þess, að því er virðist, að það leyfði sér að halda henni uppi fjárhagslega í öll þessi ár sem hún hefur verið á framfæri þess. Að segja að ríkið verði að tryggja að eitthvað komi í staðinn fyrir ölmusuna er kjánalegt í besta falli því ef ríkið hefði ekki staðið vörð um hag Ríkiskirkjunnar væri hún löngu horfin og nær gleymd.
Ríkiskirkjan hefur ávallt glímt við það vandamál að ætlað félagsfólk hennar hefur ekki viljað borga félagsgjaldið. Þetta sama fólk hefur borgað fyrir aðild að alls konar félögum, en einhvern veginn hefur það ekki fengið sig til að borga trúartollinn og því hefur ríkið þurft að innheimta fyrir hana og, í seinni tíð, láta hana hafa aur eftir að formlegri innheimtu var hætt. Trúfélög hafa notið þess að fá pening fyrir alla þá sem skráðir eru í þau skv. Þjóðskrá og hefur aldrei orðið dráttur á þeim greiðslum. Aðeins trúfélög hafa notið þessarar þjónustu, sem í denn var sett á þegar Ríkiskirkjan hafði nær 100% hlutdeild á trúarmarkaðnum, ekkert annað félagsform hefur getað beðið ríkið um að innheimta fyrir sig. Ljóst er að gjaldkerar fjölmargra félaga hefði í gegnum tíðina vel þegið sömu innheimtu- og greiðsluþjónustu, en ekki fengið. Að segja að ríkið beri siðferðislega ábyrgð á Ríkiskirkjunni eftir áratuga meðgjöf gengur þvert á alla sanngirni og skynsemi.
Ríkið ber því ekki neina ábyrgð, lagalega né siðferðislega, á örlögum Ríkiskirkjunnar þegar kemur að því að hún þarf að standa á eigin fótum og raunverulega sækja styrk sinn í félagatalið. Fleiri, fleiri tugir milljarða hafa í gegnum tíðina og engin ástæða er til að bæta við það eftir fullan aðskilnað. Nú er kominn tími til að sjá hvernig hún plumar sig upp á eigin spýtur. Ráðafólk hennar ætti að fagna því að geta þá loksins sett sína upphæð á gíróseðilinn í stað þess að þurfa að sífra og væla utan í ríkinu um hana.
Og varðandi fækkun í Ríkiskirkjunni þá er skýrt að breyting á vélskráningu nýfæddra barna í trúfélag vegur býsna þungt þar. Áður var nýfætt barn vélskráð í trúfélag móður, en í dag þurfa báðir foreldrar að vera skráðir í sama félag til að það gerist. Þetta er skárra, en samt algjör óþarfi og í raun móðgun við nýfædda krílið að gera ráð fyrir að það muni taka trú skv. merkingu í Þjóðskrá. Þessi vélskráning hefur í marga áratugi verið lífæð Ríkiskirkjunnar. Þegar þar verður messufall er fyrirséð að fækki þegar færri börn koma inn á meðan eldri félagar hverfa á braut.
Innan sjá ára mun markaðshlutdeild Ríkiskirkjunnar, sem er í raun uppblásin og ómarktæk, fara undir 50%. Þegar það gerist verður nauðsynlegt að skera á alla þræði á milli hennar og ríkisins. Ef ekki, þá hlýtur sú krafa að öll félagi fái notið félagsgjaldaþjónustu ríkisins að fá byr undir báða vængi.
Nóg hefur verið tala um Ríkiskirkjuna í gegnum tíðina og langflestir komnir með dauðleið á því. Hættum því þessu masi, skerum á öll fjárhagsleg tengsl og lokum málinu. Jarðasamningurinn verður gerður upp og mismunurinn greiddur, en ekki er ólíklegt að Ríkiskirkjan standi í skuld fyrir ríkið vegna hans ef forsendur eru veraldlega reiknaðar. Hvernig sem allt fer, þá þarf að setja punkt fyrir aftan þetta Ríkiskirkjumál, tími er til þess kominn!
Við þurfum að tala um þjóðkirkjuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Ég hef fyrir löngu bent þér og öðrum á það, Óli Jón, að í raun er það ríkisvaldið sem lengst af hefur arðrænt kirkjuna á Íslandi, ekki öfugt. Hversu námfús þú ert, er hins vegar önnur saga.
Öllum hinum verðmætu klaustrajörðum rændi konungur með siðaskiptunum, og þær gengu síðan (eftir nokkra sölu úr þeim, mest í kringum aldamótin um 1800) allar til íslenzka ríkisins.
Eins fórst konungi við eignir biskupsstólanna, sem voru einnig geysimiklar (t.d. átti Hólastóll fjölda jarða í Skagafirði og hverja einustu jörð í Viðvíkurhreppi árið 1713), en af þessum jörðum var margt selt (ekki sízt af Skálholtsjörðum syðra), eins og af klaustrajörðum, en meirihlutinn gekk samt til íslenzka ríkisins, þegar það tók við hlutverki konungs.
Jafnvel eftir kirkjujarða- og prestlaunasamkomulagið 1907 hélt veraldlega valdið áfram að seilast í kirkjujarðir, til misnotkunar, til að selja þær, iðulega til kunningja ráðherra í óleyfi, og svo hefur ríkið nú í fjölda ára svikizt um að skila safnaðargjöldunum óskertum til kirkjusafnaðanna, þar sem þau eiga að standa undir viðhaldi og rekstri kirkna og hinni marháttuðu þjónustu sem þar fer fram, allri nema prestslaununum einum saman, en hver kirkja er með marga starfsmenn, meðhjálpara, organista, kóra, hreingerningarfólk, starfsfólk við mömmumorgna, barnagæzlu, unglingastarf, aðstoð vegna sorgarþjónustu, fátækrahjálp o.m.fl.
Af safnaðargjöldunum hefur ríkisvaldið klipið svo ótæpilega, að margir söfnuðir nálgast gjaldþrot, og hefur m.a. sr. Gísli Jónasson, prófastur í öðru Reykjavíkurprófastsdæminu, skrifað upplýsandi blaðagreinar um málið, og eins gæti ég vísað á greinar á Krist.blog.is um þessi mál öll.
Óli Jón ætti hins vegar að beina spjótum sínum að Ríkisútvarpinu, sem hirðir marga milljarða úr ríkissjóði, án þess að landsmenn fái rönd við reist. Meðlimir Þjóðkirkjunnar geta sagt sig úr henni, en landsmenn geta ekki losað sig undan skylduáskrift að Rúv, um eða yfir 20.000 kr. á ári!
Jón Valur Jensson, 24.6.2019 kl. 17:41
Jón Valur: Gerum bara upp þetta jarðamál. Ríkið tekur til sín jarðir í samræmi við þær greiðslur sem það hefur inn af hendi og málið er dautt. Líklegt er að fáar jarðir lendi Ríkiskirkjumegin því ríkið er búið að borga það mikið fyrir eignir sem eru í raun ekki svo mikils virði þegar heildarmyndin er skoðuð. Hér er hægt að sjá málefnalega og góða úttekt á raunvirði eignasafnins sem aldrei var verðmetið eða í raun tekið saman þegar samningurinn var gerður á sínum tíma því þeir sem um véluðu vissu að sú samantekt kæmi ekki vel út fyrir ölmusuþegann.
Óli Jón, 25.6.2019 kl. 11:57
Þú ert hvorki að ræða þarna um klaustrajarðir né biskupsstólajarðirnar, heldur jarðir í eigu sóknarkirkna landsins, sem ríkið fekk að nýta frá 1907 og greiddi í staðinn laun þjóðkirkjuprestanna. (Frá 1997/8 fekk ríkið jarðirnar til eignar, gegn áframhaldandi launum presta úr ríkissjóði. Það sæmir ekki ríkinu að rjúfa það samkomulag -- ekki frekar en það sæmir því að ræna stórum hluta safnaðargjaldanna!)
Þetta voru um 1907 1/6 allra jarða á landinu, og það var alls ekki ofmetið þá (né síðar), að arðurinn af þeim gæti staðið undir launum um 150 presta. Vitaskuld geta sex sinnum fleiri jarðir (900) staðið undir launum fjölda manns, og ekki hafa þær lækkað í verði síðan þá.
Jón Valur Jensson, 25.6.2019 kl. 13:52
Vonandi misminnir mig ekki að landareignin sem Garðabær stendur á sé ein þeirra ríkiseigna.
Helga Kristjánsdóttir, 25.6.2019 kl. 22:39
Það að land sem heilt bæjarfélag stendur á skuli hafa verið í eigu kirkjunnar sýnir bara vitleysuna í þessu. Auðvitað á þjóðin þessar eignir í raun. Það voru soknarmeðlimir kaþólsku kirkjunnar sem áttu þessar kirkjueignir í den. Kirkja getur aldrei átt neitt. Við siðaskipti færðust þessar eignir ekki til lúthersku kirkjunnar. Það væri stuldur frá hendi einnar kirkju frá annarri ef skilgreiningar Jóns Vals eiga við. Nei, Sóknarmeðlimir kaþólsku kirkjunnar færðust einfaldlega yfir til þeirra lúthersku og eignirnar áfram í þeirra eigu. Á þeim tíma var öll þjóðin skyldug til að vera meðlimir. Á 19. öld komu fram sjálfstæð trúfélög t.d. mormónar og á þeirri tuttugustu hvítusunnumenn, aðventistar o.fl. og ekki má gleyma kaþólikkum og trúleysingjum. Meðlimir þessara félaga eiga að sjálfsögðu sinn hlut áfram. Þannig að einungis 65% þjóðarinnar geta ekki átt heimtingu á því að arður þessara kirkjueigna " fyrrverandi" eigi að vera þeirra eingöngu. þessi samningur milli ríkisins og kirkjunnar er málamyndarsamningur sem ætlað var að tryggja að ríkið greiddi allan kostnað þjóðkirkjunnar. Jón Valur talar eins og ekkert samband sé á milli ríkisins og þjóðarinnar sem er að sjálfsögðu skekkja í heilabúinu. Ríkiskassinn er einungis geymsla fyrir skatta þjóðarinnar sem á síðan að deila til málefna sem nauðsynleg eru fyrir þjóðina alla.
Jósef Smári Ásmundsson 26.6.2019 kl. 09:34
Sæll Óli.
Mig langar til að taka hjáveg með þeirri
aðalleið sem þú velur sem gerir þó hvorugt
að tala þér í vil eða í mót né nokkrum sem
hér ritar.
Eignir kirkjunnar voru þrenns konar:
eignir biskupsstólanna,eignir klaustranna
og eignir hinna einstöku kirkna.
Hinn 24. feb. 1963 birtir Mbl. viðtal við
rómversk-kaþólska biskupinn þar sem hann lýsir því yfir
að hann sé andsnúinn því að Skálholtsstaður
sé gefinn annarri kirkju (lútherskri) í framhaldi af umræðum
um ráðstöfun þessa höfuðseturs kirkjunnar.
Látum kyrrt liggja að öðru leyti en því að
siðbót var til að bæta siðina en ekki ný trúarbrögð.
Kirkjuskipan Kristjáns 3. var í anda Lúthers, lögboðin
3. sept 1537, 13 árum fyrir dauða Jóns Arasonar.
Gott samband var í milli Jóns, niðja hans og fyrsta lútherska
biskupsins Gizurar Einarssonar.
Konungur gaf Gizuri skriflegt loforð fyrir því að eignir
klaustranna skyldu notaðar til skólastofnunar.
Þetta var svikið og konungsvaldið hafði klaustrin að féþúfu;
eyðing bókasafna klaustranna bein afleiðing þar af,
óbætanlegt tjón.
Siðbótin virðist hafa brotið hlekki hugarfarsins og andleg
orka leystist úr læðingi: Nýja testamentið 1540
og Biblía Guðbrands 1584, húslestrar, Passíusálmar Hallgríms 1666.
Það sem hér er reifað nánast í slitrum er öllu meira
það sem snýr að því sem mölur og ryð fá eigi grandað.
Húsari. 27.6.2019 kl. 00:37
Örstutt aðeins í bili:
Jón biskup Arason var ekki í neinum hugarfarshlekkjum, og andleg orka hans var sannarlega mikil (sjá Ljóðmæli hans í nýjustu útgáfu (Rv.2006) Ásgeirs Jónssonar hagfræðings og Kára Bjarnasonar handritafræðings). Það var HANN, Jón biskup, sem fyrstur flutti inn prentverk til Íslands og lét fyrstur prenta Nýjatestamentisrit (þótt áður væri allnokkuð til af ýmsum brotakenndum Biblíuþýðingum í handritum). En Fjóra guðspjallamenn gaf Jón biskup út, og siðskiptamenn nýttu síðan prentverkið til meiri útgáfurita, þótt aukið væri við prenttólakostinn með tímanum. Báðir þessir forfeður allra 20. aldar Íslendinga, Jón og Guðbrandur, voru framfaramenn í bóklegum menntum og Jón mesta skáld 16. aldar.
Jón Valur Jensson, 27.6.2019 kl. 05:14
Sæll Óli.
Það má segja að sú glansmynd sem menn hafa
gert sér af Jóni Arasyni brotni sem gler
ásjónu sinni sem ekki stenst samanburðinn.
Katólsku biskuparnir voru lítt menntaðir
umfram það að geta sungið helgar tíðir
og dúllað sér yfir ljóðagerð sem í tilfelli
Jóns voru einna helst níðvísur og er hann þekktastur
fyrir þær og skýrist þá kannski að kaþólska kirkjan hefur
fátt gert til að halda minningu hans á lofti
enda engin ástæða til.
Jón Arason hefst uppúr sárri fátækt og með harðfylgi,
dugnaði en oftast ójafnaði til valda innan kirkjunnar.
Guðrækni og lærdómur er eins og hvert annað spaug
í þessu sambandi.
Hvergi á byggðu bóli telja menn Jón til skálda
en minnast þeim mun frekar Einars Sigurðssonar í Eydölum.(1539-1626)
Enn syngja menn jólasálm þessa skálds, Nóttin var sú ágæt ein.
Það er eftirtektarvert að í Eimreiðinni 2. tbl. 1911 skrifar
Matthías Jochumsson lofgrein um Jón Arason og þar er ekkert
til sparað en víkur ekki einu orði að öðrum kveðskap en Jón Arason var þekktastur fyrir þ.e. níðvísur.
Húsari. 27.6.2019 kl. 13:49
"Húsari" þessi gerist hér einkar lágkúrulegur og hefur reyndar fulla ástæðu til að fela hér sitt rétta nafn, ekki aðeins vegna lágkúrunnar, heldur vegna beinna lyga og níðskrifa.
Vanþekkingin blasir við, þegar þessi auli ritar hér svo um kveðskap Jóns biskups: " ljóðagerð sem í tilfelli Jóns voru einna helst níðvísur". -- Þetta er fráleit vitleysa, lausavísur biskupsins eru (að meðtöldum dróttkvæðum) ekki nema 25 talsins þekktar (hvert erindi talið) og 5 vísubrot að auki. Hins vegar eru sex miklir trúarljóðabálkar eignaðir biskupi, í alls 228 erindum. Já, vanþekking "húsara" blasir hér við!
Og rangt er af honum að segja veraldlegan kveðskap Jóns biskup "helzt níðvísur", í raun væri fremur hægt að tala um góðlátleg gamanmál hans um andstæðingana heldur en "níð". Það er einna helzt að Daði í Snóksdal (og ólögmæt fylgikona hans) hafi sætt gagnrýni hans, en Marteinn biskup léttri stríðni fremur en níði. Og sízt voru ádeilukvæði Jóns biskups óverðskulduð um samstarfsmenn Dana, sem fóru um klaustur rænandi og ruplandi. En "húsaranum" er kannski verst við gagnrýni biskups á trúvilluhætti Marteins biskups (og eru bæði hann og Daði sömuleiðis forfeður flestra eða allra síðustu alda Íslendinga).
Jón samdi í raun miklu fremur góðlátleg gamanmál um sjálfan sig (m.a. á síðustu dægrunum í lífi hans í Skálholti) heldur en eiginlegt níð um aðra og talaði t.d. um sig sem "stafkarl", sem þó hafði í fullu tré við Martein Einarsson.
Dr. Finnur Jónsson hrósar trúarljóðum Jóns í Ágripi af bókmenntasögu Íslands II (1892), 22-23, og segir m.a.: "Á öllum þessum kvæðum er málið hispurslaust, hreint og einfalt, framsetningin ljós og áhrifamikil, og bera þau langt af öllum öðrum samtímakvæðum."
Um kveðskap Jón biskups er fjallað í XV. kapítula í riti dr. Páls Eggerts Ólasonar, Mönnum og menntum siðskiptaaldarinnar á Íslandi, I. bindi, undir kaflaheitinu: "Skáldskapur og ritstörf Jóns byskups", bls. 415–445. Þar í upphafi segir dr. Páll Jón biskup hafa verið "hið helzta skáld, sem uppi er á Íslandi á 16. öld." Stærstu verk hans, andlegu kvæðin, ..." (o.s.frv., sjá samantekt mína Jón Arason biskup og ætt hans = http://www.kirkju.net/index.php/jon_arason_biskup_og_att_hans_1?blog=10 ).
Og fjarri fer því, að Jón Arason hafi verið lítilla ætta, þótt ""húsari" virðist gefa svo í skyn, en Finnur Jónsson segir um hann: "Hann var af fátækum foreldrum, en af göfgum ættum" (op.cit., 22, sbr. nánar tilvísaða netgrein mína).
Ennfremur má geta þess, að Jón biskup hafði mjög farsæl áhrif á andlegan kveðskap á Íslandi, fór að dæmi Eysteins munks, höfundar Lilju, að hlaða ekki flóknum Eddukenningum inn í ljóðmálið, og einnig var hann undir áhrifum af léttleika danskvæðanna, sem þá höfðu verið í góðu gengi; og sjálfur séra Hallgrímur Pétursson varð líka fyrir áhrifum af trúarljóðum Jóns, sem nánar er rakið í Ljóðmælum hans áðurnefndum.
Jón Valur Jensson, 27.6.2019 kl. 19:10
Sæll Óli.
Það er tímanna tákn að það eru nánast
sömu hlutir í samtímanum sem verða kirkjunni
að falli sem er botnlaus fégræðgi.
Um þetta vitnar Páll Eggert Ólason
í bókum sínum Saga Íslendinga.
P.E.Ó. getur þess í þessum bókum sínum
að almenningur hafi orðið fráhverfur kirkjunni
vegna ósæmilegs framferðis kaþólsku biskupanna,
Ögmundar og Jóns, nánar segir P.E.Ó. svo:
"...hlaut harðstjórn hinna fyrri biskupa að hrinda mörgum
frá kirkjuvaldinu og katólskum sið, en ýmsir, bæði
lærðir og leikir, voru af sannfæringu horfnir til
hinna nýju trúbreytinga."
P.E.Ó. segir einnig: "Höguðu þeir sér (biskuparnir)sem
heiftúðugir hervíkingar og heituðust hvor við annan að
hittast á Alþingi með herflokka, búnir til bardaga."
Þessu var afstýrt 1527.
Jón Arason var ekki annað en menntunarsnauður oflátungur
sem fór um af ofríki og slíkri botnlausri fégræðgi að
menn sáu sér þann kost grænstan að reka hann af höndum sér.
Mesta happ Íslendinga var að losna við þessa kaþólsku
biskupa.
Það segir sitt að jafnvel Matthías Jochumsson skyldi ekki
víkja einu orði að kveðskap Jóns en að tiltaka níðvísurnar.
Í framhjáhlaupi án þess að tengja það nafni Jóns nefnir hann
m.a. vikivaka eða danskvæði en vitanlega gera menn ekkert með
þetta frekar en annað sem tengist nafni Jóns.
Óli! Þú ættir að athuga með að loka á þá sem treysta sér ekki
til að skrifa nema að fara fram með persónuníði sem Jón
leyfir sér hér.
Húsari. 27.6.2019 kl. 21:46
Nafnleysinginn "húsari" reynir að "tala um eitthvað annað", þegar hann er lentur í ógöngum með augljósa fáfræði sína og fráleitar fullyrðingar um kveðskap Jóns biskups -- hefði allt eins getað sagt: Eigum við ekki að tala um veðrið?
Svo nefnir hann ekki eitt einasta dæmi um "níðvísur" Jóns Arasonar, sem hann jafnvel ímyndar sér, að hafi verið hans ær og kýr. Ekki er ég smeykur við að skora á hann að koma með þau 1, 2 eða 3 dæmi sem hann hyggur verst í þeim efnum. En sem betur fer var Jón Arason skemmtilegri aflestrar en "húsari" þessi!
Að kalla Jón Arason "ekki annað en menntunarsnauðan oflátung" er ekki í samræmi við álit samtíðarmanna hans og vinsældir hans, sem lifðu margar aldir, og Jón sjálfur Sigurðsson hafði hann í hávegum. "Húsari" ætti, til að rétta sig af, að kaupa sér Ljóðmæli Jóns, með fræðilegu ritgerðunum þar eftir Ásgeir og Kára, til að rétta sig af.
"Að sjá sinn kost grænstan" (sic) að reka Jón af höndum sér var EKKI nein sjálfvakin hreyfing meðal Norðlendinga, heldur aðferð konungs til að komast yfir tvo þriðju allra kirkjueigna hér á Íslandi (klaustra- og biskupsstóla-eignirnar), en aldrei var það stefna kaþólsku biskupanna að sölsa undir sjálfa sig kirkjueignirnar, þeir virtu eignarréttinn, en meðhaldsmenn siðskiptanna gerðust hins vegar undirlægjur konungs í þessu efni, og enn sjáum við einn veslinginn hér, sem réttlætir siðbyltingu konungs og arðrán hans óskaplegt.
Jón Valur Jensson, 27.6.2019 kl. 22:23
Sæll Óli.
Engu er líkara en tíminn hafi staðið í stað
hjá Jóni í heil fimmtíu ár; ekkert hafi gerst.
Jón er svo seinheppinn þegar kemur að ljóðaföndri
Jóns Arasonar að hann tekur sérstaklega til
vitnis Finn Jónsson.
Nú hvet ég Jón til að hafa samband við þá í Háskólanum
um þetta og fleira því ýmislegt er breytt frá því sem
áður var.
Læt skrifum þessum lokið.
Húsari. 28.6.2019 kl. 08:26
Já, gott hjá þér að bæta hér engu fleira við án ábyrgðar!
Jón Valur Jensson, 28.6.2019 kl. 10:51
Jón Valur: Þú segir:
"Húsari" þessi gerist hér einkar lágkúrulegur og hefur reyndar fulla ástæðu til að fela hér sitt rétta nafn,
Manstu þegar þú varst K1 á bloggsvæði Kristilega trúarbandalagsins og faldir með því þitt rétta nafn? Þá varst þú þó ekki einkar lágkúrulegur, er það?
Óli Jón, 10.9.2019 kl. 14:20
Nei, aldeilis ekki, góði, enda stóð alltaf til að birta nafn mitt þar, eins og við gerðum þrír stofnendur samtakanna, áður en langt um leið. Við vorum bara að vekja forvitni manna um samtökin með því að gera þau leyndardómsfull í byrjun, svo að menn færu að spyrja: "Hver eru þessi Kristnu stjórnmálasamtök, og hvaðan koma þau?"! Og ekki þarf ég að fyrirverða mig fyrir neitt sem ég skrifaði þar, hvergi nein lygimál né rógur.
Jón Valur Jensson, 10.9.2019 kl. 16:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.