Ríkiskirkjan rýrnar enn

Þjóðskráin birti í dag nýjustu tölur um meinta trúfesti íslensku þjóðarinnar og sýna þær að nú eru innan við 2/3 hluti þjóðarinnar skráður í Ríkiskirkjuna. Þetta hlutfall hefur verið í frjálsu falli undanfarin ár og er engin ástæða til að ætla að það sé að breytast.

Þessi tölfræði segir ekkert til um raunverulega trúfesti þjóðarinnar því eini tilgangur hennar er að vera andlag fjárausturs til Ríkiskirkjunnar. Einhverjir hafa orðið spældir vegna margvíslegra hluta sem forsvarsmenn Ríkiskirkjunnar hafa gert, en ég hef enga trú á því að einhver mótmæli fólks í gegnum talnaleik í Þjóðskrá séu merki um breytingu á trú þeirra.

Hins vegar er ánægjulegt að geta vísað í þessa talnaleikfimi þegar það fólk tjáir sig um þessi mál með vísan í þessa talnasúpu. Ár hvert hefur það fólk þurft að lækka töluna sem einu sinni var nær 100% en 90% og nú styttist í að hún verði nær 50% eða 60%. Þegar 50% markinu verður náð hljóta allir að vera því sammála að þá er þessari björgunaraðgerð lokið. Hvernig sem þessu verður velt fram og til baka þá munu opinberar tölur sýna að minnihluti þjóðarinnar tilheyrir Ríkiskirkjunni og á þeim tímapunkti á hún ekkert tilkall til þess ríkisstuðnings sem í tíðina hefur verið hannaður svo hún þyrfti ekki að líða fyrir auman greiðsluvilji félaga sinna.

Í millitíðinni verður gaman að fylgjast með þessu hruni því við sem höfum ánægju af góðum staðtölum höfum alltaf fengið verk fyrir hjartað þegar þessu talnatrosi hefur verið hent á borðið eins og ónýtu þorskslori.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Óli Jón æfinlega - sem og aðrir gestir, þínir !

Óli Jón !

Líkast til: mega tryggir og einlægir meðlimir Þjóðkirkjunnar, þakka / og eða kenna Agnesi M Sigurðardóttur og fé- gráðugri hirð hennar, á hinni furðulegu Byskupsstofu og víðar, hversu komið er málum siðferðilega, innan þeirrar Kirkjudeildar, t.d.

Agnes - er sams konar óseðjandi sjálftöku druzla, og vinir hennar: Steingrímur J. Sigfússon húsnæðiskostnaðar þjófur (síðan 1983) og Ásmundur ökumaður Friðriksson Benzín þjófur, sem eru einna óbrigðuluztu þénarar Engeyjar Mafíunnar, undir leiðsögn Bjarna FALSONar- og Borgunar bandítts Benediktssonar.

En: sem kunnugt er, er Engeyjar ættin svona viðlika hryllingur landsmönnum, eins og Sturlungar reyndust vera,  á 12. og 13. öldunum ásamt Gissuri Þorvaldssyni, Óli Jón.

Með beztu kveðjum - sem endranær, af Suðurlandi /

Óskar Helgi Helgason 16.10.2018 kl. 12:43

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Óskar minn Helgi má nú ekki bölva svona eindregið höfundum Snorra-Eddu, Egils sögu, Heimskringlu, Íslendinga sögu o.fl. í Sturlungu, að ógleymdri Fyrstu málfræðiritgerðinni og dróttkvæðum mörgum Sturlunganna. Þá væri gríðarmikils misst, ef við hefðum ekki þennan bókmenntaarf frá ætt þeirra (og ég vil bæta við: frábært dróttkvæði eftir Gizur jarl að auki, hans helzta: Enn mank böl, þats brunnu ...).

En ekki kjósa margir að læka þessa grein þína, Óli; eru tennurnar jafnvel dregnar úr þínum Vantrúar-vinum? En Þórðargleði þín fær að njóta sín hér!

Ítrekað hefurðu tætt í þig skoðanakannanir Útvarps Sögu, en ég man ekki eftir neinni þar, sem kemst í hálfkvisti við þessa hér á síðu þinni, þ.e.a.s. um eindregið leiðandi og blekkjandi orðalag: "Er þörf á söfnuði strangtrúarkaþólikka hér, þeim sem þekktur er af margvíslegu ofbeldi gegn börnum hérlendis?"

Hvernig dettur þér í hug að segja, að SÖFNUÐURINN sé þekktur að slíku? Áttu ekki við einn prest (og ósannaðar sakir á hann) og eina þýzka kennslukonu í Landakotsskóla? (sem var m.a. mjög leiðinlega ströng við dóttur mína, f.1976, en þó ekki beinlínis með neinu ofbeldisverki).

Hvað kemur þetta óbreyttum (og núverandi) söfnuði kaþólskra við?

Hættu að spyrja svona leiðandi spurninga og blekkja lesendur þína!

PS. Svo eru kaþólskir á Íslandi ekkert meiri strangtrúarmenn en kaþólskir almennt!

Jón Valur Jensson, 17.10.2018 kl. 04:20

3 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Ég hef ekki séð þig á forsíðu blog.is í langan tíma, hvað veldur? Ertu í fríi frá forsíðunni eða hefur gamalt bannástand tekið sig upp? Þetta er nú leitt, en þú hefur nú samt alla hina bloggvefina þína til að dunda þér við og enginn þarf því að missa af mikilvægum og áríðandi skoðanapistlum þínum.

Skoðanakönnunin, segirðu :) Ólíkt þér, sem grípur í hvert fúasprek á meðan þú treður marvaðann í fúamýri fallandi trúar, þá hef ég ekki áhyggjur af framsetningu eða innihaldi þessarar könnunar minnar því ENGINN tekur mark á henni nema þú. Hún er brandari, léleg og ömurleg skopstæling á þessum sannleiksstílum sem þú medikerar þig daglega með í boði Útvarps Sögu þar sem *alternative facts* og Trumpisminn eiga sitt heimili og varnarþing hérlendis. Hafðu því ekki áhyggjur af þessari könnun, hún er snarklikkuð og ómarktæk því skv. henni eru um 16% þjóðarinnar á því að þörf sé á söfnuði strangtrúarkaþólikka sem þekktur er af margvíslegu ofbeldi gegn börnum hérlendis. Engin almennileg manneskja ætti að hafa merkt við *já* í svona könnun, en þar hafa einhverjir fanatíkerar verið á ferð sem gefa lítið fyrir hag barna, en meira fyrir baráttuna gegn smokknum.

Og talandi um kaþólsku kirkjuna: Páfinn sjálfur, m.a.s. þessi góði (þ.e.a.s. ekki urrandi Rottweilerinn froðufellandi), hefur þungar áhyggjur af henni og því hve lausgyrtir prestar hennar eru. M.a.s. Írar eru búnir að nóg. Hér heima hafa menn *predikað* fjálglega um margvísleg kaþólskuskotin mál, en horfið undarlega skyndilega af vettvangi. Hvað olli? Guð einn veit það.

Hafðu ekki áhyggjur af þessari könnun, hún er vonandi algjört rusl því ef ekki þá eru 16% þjóðarinnar á því að við eigum að hafa ofbeldiskirkju hérlendis.

Hafðu frekar áhyggjur af Ríkiskirkjunni sem sekkur nú æ dýpra í sæ gleymskunnar. Manstu þegar þú talaðir um hve ástsæl hún væri hér og bentir á rúmlega 90% skráningu hjá Hagstofu því til sönnunar? Eitthvað hefur nú breyst í millitíðinni :) og hið skondna er að þú ert einn helsti áhrifavaldurinn. Þú, með sleggjudóma og óbilgirni í boði kristinnar trúar, hefur fælt frá henni ótal margt fólk og fyrir það ber að þakka. Þú ert besti vinur trúleysis því þú ert mikilvirkasta verkfærið í baráttunni. Svo margir hafa lesið skrifin þín og drifið sig beint í að breyta skráningu sem, nota bene, þeir áttu enga aðild að því ríkið sá um hana við fæðingu þeirra. Spáðu í hve fáir væru skráðir í trúfélög ef fólk þyrfti að sjá um þetta sjálft?! Það er gott að láta ríkið um þetta.

Hafðu því bestu þakkir fyrir og plís, plís, plís ... ekki slá af. Enn eru 55% oftalin í trúarbókhaldi ríkisins og þú ert ein besta von mín um að undið verði ofan af því fljótt og vel. Þú ert reyndar í lakari stöðu núna þegar þú ert ekki velkominn á forsíðu blog.is, en ég veit að þú finnur leiðir því engum er jafn mikið mál að tjá sig og þér :) Þú ert, jú, eini bloggarinn sem heldur úti *best of* bloggi um eigin blogg og það er mjööööög kúl!

Óli Jón, 17.10.2018 kl. 10:05

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Í augum sumra má svo virðast, að þú hafir svarað hér vel fyrir þína parta, Óli Jón, en það er einungis svo á yfirborðinu, og óskýrir eru menn í hugsun eða auðblekktir, ef þeir sjá ekki í gegnum þetta hjá þér.

Þín vörn varðandi "skoðanakönnun" þína er í raun sú, að þetta hafi verið einber og augljós fíflagangur hjá þér, sem ekkert mark hafi verið takandi á frá byrjun, en ekki ber það vott um virðingu þína fyrir lesendum blog.is að bera slíka fíflagangs-gervikönnun fram á þeim vettvangi, og má undarlegt heita, ef þú færð ekki orð í eyra frá framkvæmdastjóra blog.is vegna þessa ósvífna tiltækis þíns.

Svo svarar þú ekki einu orði þeirri ábendingu minni, að þú lagðir lognar forsendur inn í þessa "skoðanakönnun" þína, þ.e. að "söfnuður strangtrúarkaþólikka hér" sé "þekktur af margvíslegu ofbeldi gegn börnum hérlendis". Þetta er ekkert minna en argasta níð um söfnuðinn, eins og ég hef bent hér á. Í honum er langt á annan tug þúsunda safnaðarmeðlima og ENGIN ásökun nokkurn tímann komið fram á opinberum vettvangi (fjölmiðla o.s.frv.) um að neinir þeirra hafi framið slíkt ofbeldi gagnvart börnum, að slepptum einum presti, hinum hollenzka séra Georg (sem er annað en söfnuður prestanna) sem dauður og grafinn var skyndilega ásakaður um slíkt, án þess að það væri nokkurn tímann sannað fyrir dómi; og áklaganir á Margr. Muller, þýzkan kennara Landakotsskóla, voru af heldur vægari gerð, a.m.k. ekki um kynferðislegt ofbeldi. En söfnuðurinn sjálfur er óáklagaður og hreinn af öllum þeim skít sem þú vilt setja á hann og hefur gert hér með grófum uppslætti sem sézt hefur jafnvel á blog.is!

En vandlátari ertu ekki gagnvart sannleikskröfunni en svo, að þú endurtekur hér í svari þínu refsiverðar ásakanir um kaþólska söfnuðinn: að hann sé "þekktur af margvíslegu ofbeldi gegn börnum hérlendis"!!! Ekki er hátt risið á virðingu þinni fyrir staðreyndum og fyrir samborgurum þínum, ef þú gerir þér að góðu slíka lygaframsetningu í málflutningi þínum. Fyrir löngu hefðir þú átt að biðjast afsökunar og draga þessa falsmælis-gervikönnun þína til baka.

Svo er hlálegt, að þú eignir mér einhvern nánast heiður af því að hafa fækkað í þjóðkirkjunni! Þú horfir alveg fram hjá innri vandamálum, sem alllengi hafa steðjað að þeirri kirkju og framan af einkum í Ólafs Skúlasonar-vandamálinu, sem mjög var fjallað um í fréttum og í samfélaginu og olli þúsundum úrsagna úr kirkjunni! Þá var ennfremur sótt hart að henni vegna m.a. samkynhneigðramála, róttæklingar níddu hana vegna þess að hún "viðurkenn[d]i ekki mannréttindi" þess þjóðfélagshóps og fengu ugglaust ýmsa til að segja sig úr kirkjunni þess vegna eða færa sig yfir í Fríkirkjuna. En síðar, þegar samkynhneigðra-sinnarnir höfðu náð fram fullkominni undanlátssemi Kirkjuþings og Prestastefnu og biskupa Þjóðkirkjunnar og þeir byrjað að vígja saman samkynja pör frammi fyrir altarinu, þvert gegn kenningu Nýja testamentisins, þá blöskraði mörgum hreintrúuðum, og hurfu þá ýmsir aðrir burt úr kirkjunni og inn í önnur trúfélög eins og Hvítasunnumanna og frjálsra safnaða, jafnvel inn í kaþólsku kirkjuna og rétttrúnaðarkirkjuna.

Á sama tíma var uppi skothríð allmargra (ekki sízt fjölmiðlamanna, sem eru gjarnan vinstri sinnaðir og trúlausir eða trúlitlir) á Karl biskup, eftirmann Ólafs, og ekki hefur ástand Þjóðkirkjunnar batnað með þeirri biskupsnefnu, sem þar er nú, með alls konar hringli hennar, stjórnleysi og hefur ítrekað farið yfir strikið í óleyfilegum stjórnlyndis-ákvörðunum, svo að almenna óánægju vekur og kurr í hennar eigin prestaliði, og er það hennar sjálfskaparvíti og sjálfskapaður vandi Þjóðkirkjunnar að taka ekki á því föstum tökum. Á ég þar engan hlut að því máli, og samt er mér ekkert sárt um, ef einhverjir hafa tekið pokann sinn úr þeirri kirkju með því að lesa t.d. hvassar gagnrýnisgreinar mínar eins og Á biskup Íslands að vera eins og vindhani í kenningarmálum? og Biskup í stríði við kristna trú og samþykktir Þjóðkirkjunnar --- já, því að einnig í málefnum ófæddra barna hefur Agnes brugðizt þeim gersamlega og gengið þvert gegn hátíðlegum samþykktum æðstu þinga hennar eigin Þjóðkirkju (1987 og 1988) um vernd barna í móðurkviði!

Ætli þetta nægi þér ekki í bili, Óli Jón!

Jón Valur Jensson, 17.10.2018 kl. 13:52

5 identicon

Mér finnst nú bara allt í lagi að fjalla um hrun þjóðkirjunnar og þessi umræða á fullt erindi til þjóðarinnar. málið er að það er skipt svolítið ójafnt spilunum milli þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og trúlausra þar með talið. Það má kannski réttláta það í póler lífsins fái menn mismunandi góð spil eftir gjöfina rétt eins annarri spilamennsku en ég kaupi það ekki. Tölur frá skoðanakönnunum sem ég hef séð frá Noregi sína að tæplega 45% þjóðarinnar telja sig vera trúaða svo þetta stemmir við þá fullyrðingu að sóknarmeðlimir þjóðkirkjunnar eru ekki þar allir af fúsum og frjálsum vilja. Það er allt annað þegar að kemur að öðrum trúfélögum. Þar skráir fólk sig sjálfviljugt inn. Við lifum á breyttum tímum þar sem trúrækni fer minnkandi. Það segir hinsvegar ekkert til um hvað satt og rétt er í þessum málum. Fólk hefur mismunandi skoðanir varðandi tilvist guðs eða einhvers æðri máttar sem stjórnar öllu. Sjálfur útiloka ég ekki tilvist æðri máttar og framhaldslífs þó ég byggi það á öðrum gögnum en trúarritum. Mér finnst þú Óli Jón og þið félagar Vantrúar fara stundum offari í umfjöllun ykkar um trúmál og kristna söfnuði. Trú manna er viðkvæmt mál. Varðandi misnotkun Kaþólsku kirjunnar á börnum víða um heiminn þá er það kannski ekkert sem kenur trúnni við nema það að kynferðisafbrotamennirnir nota kirjuna til að komast í aðstöðuna og skýla sér bak við trúarmúrana. Það er þekkt í öllum trúarfélögum, ekki bara kaþólsku kirkjunni og reyndar fleiri félögum líka , æskulíðsfélögum og íþróttafélögum. Er þetta ekki frekar fólkið sem gerir þennan verknað sem er óheilbrigt en ekki þessi félög. Þetta á sama við um hryðjuverkastarfsemi. Í Íslam og ríkistrúarfélögum er fólk fætt inn í siðina og trúnna og hefur engsa sök í þessu. Ég hef nú meira álit á bloggi Óla Jóns en skoðanakönnunum á Útvarpi Sögu , Jón Valur. Mannstu eftir skoðanakönnununum varðandi forsetakosningarnar síðustu þar sem Davíð Oddson fékk meirihluta fylgi og í alþingiskosningum þar sem þjóðfylkingin fékk 40 % atkvæða en fékk svo innan við 0,2 % fylgi í sjálfum kosningunum. .Eg held nú að þú ættir að hætta að birta skoðanakannanir Útvarps Sögu svo þú skaðir ekki þitt orðspor meira en orðið er.

Jósef Smári Ásmundsson 17.10.2018 kl. 13:58

6 identicon

Óli Jón; Hvernig nennir þú að eiga orðastað við jafn drepleiðinlegan mann og JJV er. Þér hlítur að líða illa.

DJS 17.10.2018 kl. 14:50

7 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Þau eru góð, ummæli Jósefs Smára um blæti þitt þegar kemur að vondum skoðanakönnunum. Þar verða 40% að 0,2% og það hefur engin áhrif á þig, enda trúaður mjög og bersýnilega ákafamaður þegar kemur að *alternative facts* í anda Trump.  Hvað varðar vísun í ofbeldi í kaþólskum söfnuði þá eru þær dagsannar og studdar staðreyndum:

Neitað um gögn og hótar að stefna kaþólsku kirkjunni
Ísleif­ur fær rúmar sex milljónir
Barnaníð í skjóli kirkjunnar
Biskup kaþólskra lét eyðileggja bréf

Það er sama hvernig þú hnoðar þetta, þetta átti sér stað innan vébanda kaþólska söfnuðarins eins og allra annarra hundruða kaþólskra söfnuða út um allan heim þar sem ung börn, mest drengir, voru beitt margvíslegu ofbeldi. Þetta ofbeldi er framið undir verndarvæng kaþólsku kirkjunnar og a.m.k. tveir biskupar tóku þátt í yfirhylmingu í meiri eða minni mæli. Ég get svo sem sett inn í nýja gervikönnun og spurt þess sama um kaþólsku kirkjuna í heild sinni. Ætli ég fengi ekki aftur 16,2% svarenda sem teldu rétt að hafa slíka ofbeldisstofnun hér.

En þú svaraðir ekki spurningunni um forsíðu blog.is og af hverju greinaflaumur þinn birtist ekki lengur þar. Hvað gerðist eiginlega? Þér hefur áður verið úthýst þar, en gaman væri að heyra hvað þú skandaliseraðir núna.

Annað sem þú tjáir þig ekki um eru snautleg örlög Ríkiskirkjunnar sem minnkandi frá ári til árs. Þú berð af þér þitt framlag til þessa hruns, en ljóst er að fornleg skrif þín hafa fælt marga frá kristinni trú. Telur þú að viðsnúningur sé í nánd? Að Ríkiskirkjan muni finna viðspyrnu og ná aftur hæstu hæðum? Predikarinn, sá sem þú mærðir oftlega, hefði ekki tvínónan við að stökkva út á foraðið, en ljóst er auðvitað að þar fóru ekki saman orð og gerðir.

Óli Jón, 17.10.2018 kl. 15:11

8 identicon

Sælir - á ný !

Jón Valur !

O- jú, Sturlungarnir: ásamt Gissurri Þorvaldssyni, hefðu betur ekki komið við sögu hérlendis, fremur en Rómversk- Kaþólska kirkjan (cirka 1000 - 1550) og Lúheranisminn, þaðan í frá.

Hollara hefði Íslendingum verið - að kynnast Rétttrúnaðar kirkjunni (Austurkirkjunni : Grísk-Rússnesku og Serbnesku), þrátt fyrir hennar, allt að 3 - 4 klukkutíma serimoníur hverju sinni: jafnvel.

Marteinn Lúther: var nú ekki beysnari að vitsmunum en svo, að það voru piltar, eins og : Filippus Melanchton og Jónas Jústus t.d., auk fjölda annarra, sem drógu Lúther að landi oftsinnis, þegar hann fór út um víðan völl / líkt:: og Jóhann Walther á Tónlistarsviðinu, ekki síður.

Jú - rétt er það, Ólafur Skúlason var rakinn drullusokkur og óþverri, og furðulegt má kalla, enn þann dag í dag, að skræfan Karl Sigurbjörnsson bar oftsinnis blak, af fíflinu, eins og við munum, frá 10. áratug síðustu aldar, sem og fram eftir þeim 1. þessarrar núlíðandi, a.m.k.

Þá: skyldum við ekki gleyma, smajðri Vigdíar Finnbogadóttur og Davíðs Oddssonar, fyrir Ólafi Skúlasyni, við hin ýmsu tækifæri, þegar þau sátu á sínum valda stólum.

Ítreka bara enn - Agnes M Sigurðardóttir, væri bezt geymd vestur í Gufufirði, hæfði henni einna bezt, miðað við hennar lítilmótlegu persónu að firðinum sjálfum ólöstuðum, að sjálfsögðu.

Er ekki: ferill Agnesar rannsóknarverður, líkt og Bragga þvæla Dags B. Eggertssonar og vina hans, að ógleymdri Þingvallaveizlu Steingríms J. Sigfússonar og attaníossa hans, þann 18. Júlí, s. l. ? 

Svo: ekkert sé skafið utan af hlutunum, piltar.

Ekki síðri kveðjur - hinum fyrri, vitaskuld / 

Óskar Helgi Helgason 17.10.2018 kl. 17:47

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Dæmigert er fyrir þig, Óli Jón, að sneiða hjá allri gagnrýni minni á þína leiðandi og blekkjandi spurningu um "strangtrúarsöfnuð [sic] kaþólskra" og meint ofbeldi hans gagnvart börnum!!! Þarna átti í hlut aðeins EINN prestur, hugsanlega (ósannað þó), ekki söfnuðurinn, og Ísleifsmálið, sem þú vísar þarna í, varðar einmitt þann eina hollenzka prest og Margréti þýzku í Landakoti, en ekki hirti þessi Ísleifur um að heimta skaðabætur fyrr en þau bæði voru látin! Og ekki hefurðu skýrt hér fullyrðingu þína um "staðreyndir", en finnirðu eitthvað slíkt, skaltu ekki oftúlka það að eigin vild, helur nefna hlutina konkret og nákvæmlega í stað þess að smyrja óljósum hlutum á jafnvel fólk sem hvergi kom þar nærri.

Allsendis augljóst er, að enn er kaþólski söfnuðurinn að ósekju níddur og sproksettur á þessu Moggabloggi þínu; skammastu þín fyrir það!

Eins máttu, félagi í Vantrú (herskáum guðleysingjasamtökum), sleppa því að ímynda þér, að mark sé tekið á þér sem óvilhöllum álitsgjafa um mig og mín skrif og orðainnlegg í Útvarpi Sögu um kristna trú. Þau hefur fjöldi manna þakkað mér, trúað fólk vitaskuld öðrum fremur, þó að kjaftforir róttæklingar með trúleysisviðhorf hafi ráðizt á mig á Moggabloggi alveg frá því að ég dirfðist að andmæla hér þeirra pólitíska, andtrúarlega "rétttrúnaði". Olnbogafrekir voru þeir þá á blog.is, frá því um 2007, og hefur síðan sljákkað í þeim mörgum, en á dv.is og visir.is leika þeir enn lausum hala í niðurrífandi neikvæðni um kristna trú og siðferði og hlakka jafnvel mjög yfir nýrri stefnu heilbrigðisyfirvalda á sem allra flest fósturvíg í móðurkviði, allt að 18. eða jafnvel 22. viku í móðurlífi og það beinlínis að geðþótta mæðranna, án nokkurra tilgreindra ástæðna! En af verkunum og ávöxtunum skulu menn dæma þá.

Það hefur ekkert lát verið á því, að ég er hér á blog.is, enn og áfram, bæði á mínum prívatbloggum (merktum nafni mínu eða jvj, sem og á bloggi upplýsingaþjónustu minnar, Lífsréttar) og með þátttöku í öðrum bloggvefjum.

Hitt gerði líklega vinstri maðurinn Árni Matthíasson hjá Árvakri mér til vanvirðu að taka mig úr stórhausadeild (efri parti) blog.is-síðunnar í desember 2016, þegar ég var ákærður fyrir meint lögbrot í umræðu minni um "hinseginfræðslu" (vorið 2015) í Hafnarfirði og víðar, en þegar í ljós kom, að ég hafði ekkert lögbrot framið, heldur var sýknaður 100% af öllum ákæruliðum í dómsúrskurði héraðsdóms á liðnu ári (og þeim úrskurði ekki áfrýjað til hæstaréttar), þá sýndu forráðamenn blog.is mér EKKI þá virðingu, þrátt fyrir beiðni, að setja mig aftur í stórhausahópinn, þar sem ég ætti þó með réttu að vera í mínum gamla bloggfélagahópi. Í staðinn hefur blog.is svo sett þangað inn bitran andstæðing og öfundarmann kirkju og kristinnar trúar, sem ber lognar sakir á m.a. mín kaþólsku trúsystkini! Og merkilegt er með þetta blogg þitt, Óli Jón, að það virðist allt ganga út á kirkjuárásir, að það sé þín helzta hugsjón, sem og að gera lítið úr Guði skapara þínum!

Hlustendur Útvarps Sögu studdu margir Íslensku þjóðfylkinguna, enda fengu raddir hennar að hljóma þar, ólíkt ríkisfjölmiðlinum; skoðanakönnun á vef ÚS var þó vitaskuld engin áreiðanleg ábending um niðurstöðu kosninganna meðal alls almennings, og þegar tvö alvarleg áföll riðu yfir flokkinn: að lykilmenn klufu sig út úr honum haustið 2016 og eyðilögðu þá framboð í þremur kjördæmum, sem og að stuðningsmannalistar voru að einhverju leyti falsaðir árið 2017 og þess vegna mjög víða talað gegn flokknum í fjölmiðlum og honum spáð litlu fylgi, þá reyndist líka verða svo, enda tókst ÍÞ ekki að bera fram framboðslista á öllu höfuðborgarsvæðinu vorið 2017, einungis tvo landsbyggðarlista (á Suðurlandi og í NV-kjördæmi), og varð vitaskuld úr því harla lítið atkvæðahlutfall þegar dreift var á allt landið.

Jón Valur Jensson, 17.10.2018 kl. 17:49

10 identicon

Sælir - enn !

Jón Valur !

Virðing Árna Matthíassonar fyrir þér: er nú ekki minni en það, að hann dreif merki Kristinna stjórnmálasamtaku upp á Stjörnuhiminn stór- hausa deildarinnar::  samtaka, þar sem þú ert jú, einn höfuð forvígismanna, sem og harðfylginn lóðs, þinna hugsjóna.

Ekki satt ?

Ekki - ekki hæla Útvarpi Sögu um of, fjölmiðill: sem gefur þvælunni í Vigdísi Hauksdóttur og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sívaxandi rými, en sem kunnugt er eru meðlimir Miðflokksins Sjálfstæðis- og Framsóknar flokka menn í felulitum, að allri hugmyndafræðilegri uppistöðu = einskonar útibú frá Myrkra kompum Engeyinganna (Bjarna Benediktssonar og hans liðs).

Hvað: hina ágætu Íslenzku þjóðfylkingu varðar, þarf hún að skerpa mjög allar línur, á sviðum veraldarhyggjunnar / trúarkenningar og skírskotanir í þá áttina (hvaðan sem koma) eiga einfaldlega ekki upp á pallborðið hjá yngra fólki í dag (á aldursbilinu cirka 20 - 45 ára, t.d.) hvort sem okkur líkar betur, eða þá verr.

Þá - mætti Þjóðfylkingin mun fremur, herða á Hernaðarlegum áherzlum (t.d. í anda EOKA hreyfingar Georgiasar Grivas á Kýpur / eða Kúómingtang, hinnar Kínversku:: í anda Chiangs Kai- shek Herstjóra (1887 - 1975)) til framtíðar litið enda fer tiltrú fólks / yngra sem hins eldra ört hrörnandi, til hinna hefðbundnu stjórnmála::: sem hegðan íslenzkra alþingismanna, sem og Sveitastjórnarmanna vottfestir rækilega, víðs vegar um landið.

Stigmögnun lóða- og fasteignagjalda (í Sveitarfélögum: víðs vegar um landið t.d.) er bara EIN birtingarmynd vibjóðslegrar græðgi stjórnmálamanna hérlendis, sem og stigmögnun sjálftöku, þess fyrirlitlega liðs.

Aðeins: kominn út fyrir umfjöllunarefni Óla Jóns, hins snjalla síðuhafa, en mátti til, að koma inn á þessa braut, fyrst Íslenzku þjóðfylkinguna bar á góma hvort eð var, í hinu víðara samhengi, á lands vísu.

Sízt lakari kveðjur - hinum fyrri, sem áður / 

Óskar Helgi Helgason 17.10.2018 kl. 20:50

11 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Já, Íslenska þjóðernisfylkingin hefði örugglega unnið stórsigur á landsvísu ef allt hefði gengið henni í hag :)

Af hverju áttu tilkall til þess að vera á forsíðu blog.is? Meirihluti bloggara ná ekki þangað og hafa aldrei gert, hvaða tilkall átt þú til þess umfram þau? Og hvaða *öfundarmaður kirkju og kristinnar trúar* er þetta sem þú minnist á? Innkoma þessa einstaklings hlýtur að hafa verið happafengur fyrir slappan málstað Ríkiskirkjunnar.

Ég svaraði reyndar aðfinnslum þínum um kaþólska söfnuðinn og þú verður að taka þeim svörum eins og þau eru.

Þetta er svo gott í bili. Ég mun setja inn annað innlegg þegar næstu 1-2% hrynja af Ríkiskirkjunni og vonandi muntu hnýta eitthvað við það. Það er nefnilega áhugavert að sjá hvernig þessi nýja heimsmynd er ekki að raungerast fyrir augum þínum og hvernig þú nærð að skreyta hlutina þannig að svo virðist sem Ríkiskirkjan sé enn í miklum blóma og að myljandi eftirspurn sé eftir vörulínu hennar.

Þar til næst ...

Óli Jón, 17.10.2018 kl. 22:17

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi *öfundarmaður kirkju og kristinnar trúar* ert þú sjálfur, Óli Jón, ég lít á eilíft væl þitt út í sóknargjöld trúfélaga og eðlileg framlög ríkisins til Þjóðkirkjunnar (á grunni hins gamla jarðeignasafns kirkjunnar) sem öfund yfir fjármunum annarra; en ekki otarðu spjótum þínum að Rúv-herskaranum, sem er með afar mikið starfsmannahald, jafnvel yfir 400 manns á stundum, og sýgur milljarða út úr skattgreiðendum að þeim forspurðum!

En undir lokin: Gleymum ekki alveg ummælum Jósefs Smára hér ofar:

"Mér finnst þú Óli Jón og þið félagar Vantrúar fara stundum offari í umfjöllun ykkar um trúmál og kristna söfnuði. Trú manna er viðkvæmt mál."

Annars þakka ég fyrir umræðurnar hér og bið að heilsa Óskari og Jósef báðum.

Jón Valur Jensson, 17.10.2018 kl. 23:21

13 identicon

"eðlileg framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar ( á grunni hins gamla jarðeignasafns kirkjunnar  )".Það er nú einmitt þetta ,sem ég dreg í efa, sem veldur ví að ég er alfarið á móti þjóðkirkjunni. Annars vegar dreg ég í efa að kirkjan hafi eignast þessar jarðeignir með réttmættum hætti.Annars vegar: Þjóðkirkjan eignaði sér eignir Kaþólsku kirkjunnar við siðaskipti og engir pappírar eru til um kaup eða eignaafsal. Síðan:  Kirkjan getur aldrei átt neinar eignr. Það er sameign safnaðarmeðlima.Á þeim tíma sem þjóðkirkjan yfirtók þessar eignir var öl þjóðin í söfnuðinum.Annað var ekki leyfilegt. Þessvegna: Ef eðlilegt er að þjóðkirkjan yfirtaki eignir kaþólsku kirkjunnar við siðaskiptin kringum árið 1500, þá hlýtur það að gilda jafnframt að við seinni tíma siðaskipti, t.d þegar hvítasunnuhreifingin og aðrir " Sértrúarsöfnuðir komu til og söfnur trúleysinga þar á meðal og múslimar, að meðlimir þeirra eigi tilkall til þess hluta sem hlutfall þeirra meðal þjóðarinnar segir til um. Bið að heilsa þér til baka, Jón Valur.

Jósef Smári Ásmundsson 18.10.2018 kl. 12:12

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Takk, Jósef, en reyndar þarf að leiðrétta lykilhluti í þessu hjá þér, vissar sögulegar skekkjur, og kem ég aftur til þess eftir að hafa klárað blogggrein um annað.

Jón Valur Jensson, 18.10.2018 kl. 13:18

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jósef: "Þjóðkirkjan eignaði sér eignir Kaþólsku kirkjunnar við siðaskipti og engir pappírar eru til um kaup eða eignaafsal."

SVAR: Hugtakið þjóðkirkja varð ekki til fyrr en nokkrum öldum eftir siðaskiptin (sjá viðauka). Kirkjulegum eignum til 1550 mátti skipta í 3-4 flokka:

Eignir biskupsstólanna (biskupsstólarnir sjálfir og afar mikill fjöldi stólsjarða, m.a. voru ennÞá allar kirkjur í Viðvíkurhreppi í Skagafirði eign Hólastóls).

Kirkjustaðirnir (beneficia) og aðrar sjálfseignar-kirkjur.

Klaustrin og mikill fjöldi klausturjarða (sjá viðauka).

Kristsfjárjarðir, sem voru í umsjá hreppanna, til hjálpar fátækum.

Bændakirkjur voru hins vegar eign bænda (nýjasta dæmi um slíka er Úthlíðarkirkja, en eldri dæmi t.d. Ögurkirkja við Ísafjarðardjúp og Eyrarkirkja í Seyðisfirði litlu vestra). Voru prestaköllin þar kölluð þingabrauð og tekjur prestsins ekki af neinum kirkjustað.

Um 1550 er það að gerast að konungur hrifsar til sín hluta kirkjulegra eigna, ekki þó kirkjustaðina (nema, síðar, veitingavaldið yfir því hver tæki við sem prestur á nokkrum helztu stöðum) og ekki bændakirkjurnar. 

Konungur hrifsar til sín öll klaustrin og gríðarmiklar jarðeignir þeirra og setti þar umboðsmenn sína (klausturhaldara) til að innheimta fyrir hann tekjur af þeim, og runnu þær í fjárhirzlur konungs, en hluti þeirra varð tekjur klausturhaldara. 

Ennfremur tók konungur sér allt vald yfir biskupsstólunum og þar með biskupstíundina og þar að auki sektargreiðslur, en lét nokkru síðar lítinn hluta þeirra tekna ganga til skólahalds á biskupsstólunum.

Það, sem eftir var af votti af sjálfstæðri kirkju á Íslandi aftir 1550, var ekki með neinum hætti að "eigna sér" neitt, heldur héldu kirkjustaðirnir einfaldlega áfram að vera sjálfseignarstofnanir, reknar af prestunum þar, en þó undir (vísitasíu)eftirliti biskupanna.

Auk siðbyltingar sinnar í trúarefnum (kenningar- og siðferðismálum) og ráns síns á eignum biskupsstjóla og klaustra lét konungur útsendara sína (m.a. hermennina sem komu hingað á herskipum í Eyjafjörð 1551, sem og aðra sem farið höfðu ránshendi um Viðeyjar- og Helgafellsklaustur) ræna hér ógrynnum öllum af silfur- og gullmunum úr klaustrum og úr dómkirkjunum tveimur og bræða upp sjálfum sér til tekna í Kaupmannahöfn!

Kirkjan hefur löngum verið arðrænd af veraldlega valdinu, og aldrei fekk HÚN aftur klaustraeignirnar miklu né stólsjarðirnar, jafnvel ekki sjálfa biskupsstaðina; það var ekki fyrr en um miðja 20. öld sem Þjóðkirkjan eignaðist Skálholt.

Konungur hafði árlegar tekjur af jarðeignum sínum í áðurnefndum tveimur flokkum klaustra- og stólsjarða, en þegar komið var fram undir 1800, hóf hann að selja úr þeim eignasjóði "sínum", vegna móðuharðindanna sem hér höfðu þá ríkt, og gátu allmargir þá keypt jarðeignir á uppboðum og orðið sjálfseignarbændur. Kaupverðið rann í konungsmötu, en lítið varð úr vegna mikillar verðbólgu á tíma Napóleonsstyrjaldanna.

Allar eftirstöðvar klaustra- og stólsjarða "konungs" gengu síðan loksins, með innlendri stjórn hér, undir vald Stjórnarráðsins, urðu sem sé íslenzk ríkiseign, og hefur ríkið síðan haft af þeim bæði arð og sölutekjur. Aldrei hafa okkar kirkjumenn, þótt sumir telji þá freka til fjörsins, krafizt þess, að kirkjan fengi aftur þær eignir!

Þriðju hluti kirkjulegra eigna, sjálfseignarkirkjurnar og útjarðir þeirra, voru árið 1907 einn sjötti hluti allra jarða á Íslandi. Það eru þær eingöngu, sem eru grunnur þess samkomulags ríkis og kirkju, að ríkið fyrst í stað skyldi annast þær og hafa af þeim tekjur, en Þjóðkirkjuprestar fá í staðinn laun úr ríkissjóði, en frá 1997 eða ´8 er svo verið að gera þær jarðir formlega að ríkiseign, en breyta í engu um, að Þjóðkirkjuprestar séu ríkislaunaðir.

Vitaskuld hefði mátt leysa þessi mál með öðrum hætti, þó ekki þeim að ræna Þjóðkirkjufólk kirkjustöðum sínum og eignum þeirra bótalaust.

Jón Valur Jensson, 18.10.2018 kl. 16:45

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

V I Ð A U K I

1) Um jarðeignir klaustranna (með tölu þeirra), sjá stutta samantekt mína: Klaustrin á Íslandi og jarðeignir þeirra  (http://www.kirkju.net/index.php/klaustrin-a-islandi-og-jareeignir?blog=10)

2) Dr. Björn Karel Þórólfsson skipti (um 1955) "níu alda sögu biskupsembættis á Íslandi" í "fimm tímabil eftir þeim stjórnarháttum, sem kirkjan hefur búið við á hverju þeirra", þ.e. tvö í kaþólskri tíð og þrjú í lútherskri, en í örstuttu máli voru þau þessi:

i) goðakirkjan,

ii) hin algjöra páfakirkja,

iii) lúthersk landskirkja (t.d. í tíð Brynjólfs biskups),

iv) ríkiskirkja (eftir að einvelddið komst á 1662 og enn hér t.d. um 1800),

v) þjóðkirkja. "Ríkiskirkjunni var breytt í þjóðkirkju með stjórnarskránni 1874, en fyrst í stað mun þeirrar breytingar lítt hafa gætt í lífi þjóðarinnar. Þó leið ekki á löngu þar til tekið var að breyta stjórn kirkjumála í lýðræðis átt, og hefur því stöðugt verið haldið áfram. -- Þrátt fyrir allt, sem skilur einveldisstjórn og lýðræði, er þjóðkirkjutímabilið síðan 1874 líkara tímum ríkiskirkjunnar en eldri tímabilum í kristnisögu Íslands." (B.K.Þ.: Inngangur að Biskupsskjalasafni, Skrár Þjóðskjalasafns - III, Rv.1956, s. 68). En við þau orð Björns má bæta, að síðan hafa tekið við ný lög um Þjóðkirkjuna og sjálfstæðari skipan hennar mála, og fer ég ekki nánar út í það hér, nema hvað ljóst er, að rangt er nú orðið að tala hér um "ríkiskirkju".

3) Þetta var of glannalega orðað hjá mér: "Ennfremur tók konungur sér allt vald yfir biskupsstólunum", því að kirkjuskipanir Kristjáns III og Kristjáns IV gerðu ráð fyrir, "að biskupar skyldu kjörnir af prestum, þótt veitingavald á biskupsembættum væri hjá konungi". (BKÞ, op.cit. 42). Ennfremur sst.: "Í Skálholtsbiskupsdæmi hélzt sú venja úr kaþólskum sið óslitið heila öld eftir siðaskipti, að biskupar voru skipaðir samkvæmt kjöri landsmanna ..." 

4) Lagfæring ásláttarvillu: Eyrarkirkja í Seyðisfirði litlu vestra ---> vestar.

Jón Valur Jensson, 18.10.2018 kl. 17:44

17 identicon

Sæll Óli.

Undarlega kemur mér það fyrir sjónir að
þú skulir sjá þig tilneyddan til að reisa
kaþólska söfnuðinum á Íslandi þá níðstöng
að vera "þekktur er af margvíslegu ofbeldi gegn börnum hérlendis".

Þetta er viðvarandi vandamál í samfélagi okkar og reikna má með
að allt að 1/3 hluti landsmanna mætti athuga sinn gang hvað þetta 
varðar sem á mannamáli merkir einfaldlega að þú gast valið 
hvern þann hóp sem þú sjálfur tilheyrir og skipt kaþólikkum út 
fyrir hann.

Í Grettissögu gefur þetta að líta: "að svo skal böl bæta að bíða annað meira".
Kaldhæðni þessara orða er augljós og fullljóst hvað þau merkja.

Ég höfða til skynsemi þinnar um að fella þessa könnun þína út 
því hún er í sínu versta formi skálkaskjól gerenda sem þannig sjá að 
syndahafurinn er vitanlega kaþólski söfnuðurinn og þeirra verk rétt 
við fæðingu eftir slíka snöfurmannlega syndakvittun og það af hendi þess
sem margoft hefur lýst yfir stuðningi sínum við börn öðrum fremur.

Ég hef ekki efast um einlægan vilja þinn til góðra verka þar til nú.

Húsari 20.10.2018 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband