Miðvikudagur, 16. september 2015
Leyfum Gideonistum að heimsækja grunnskólana
Hin þróttmiklu stjórnmálasamtök, Íslenskir krossmenn, sendu frá sér álit um daginn í hverju talað var um að leyfa ætti Gideonistum að fara með trúboð sitt í leik- og grunnskóla. Krossmennirnir gerðu reyndar enga kröfu um að leyfilegt yrði að fara í framhalds- og háskóla því þar eru sauðirnir ekki eins meðfærilegir, en það er annað mál.
Ég er því sammála að hleypa eigi Gideonistum í skólana og mega þeir þá hafa með sér gítar og spila og tralla með krökkunum. Þeir mega segja að Jesús sé besti vinur barnanna og að án hans lifi börnin innantómu og holu lífi. Þeir mega segja að án Jesúss muni þeim ekki farnast vel í handanlífinu, en með Jesús sér við hlið muni þau eiga eilífðarvist á himnum með liðsmönnum Kristilega krossfestingarbandalagsins undir glymjandi harmonikkuspili allan daginn, alla daga.
Það eina sem þeir geta ekki gert er að afhenda bláa kverið, en þess í stað mega þeir afhenda gjafabréf á hverju stendur að handhafi bréfsins eigi tilkall til Nýja testamentisins hja Gideonistum og sé handhafinn ávallt velkominn í heimsókn til þess að heimta þessa himnagjöf.
Ef börnin gera aðsúg að höfuðstöðvum Guðs á Íslandi við Langholtsveginn svo þau geti sefað hungur sitt í orð Guðs er ljóst að þessa tilraun mætti gera aftur að ári. Verði mæting hins vegar dræm er að sama skapi ljóst að Gideonistar eiga ekkert erindi til ungu kynslóðarinnar og sé þeim því best að spara trén, þessa fallegu sköpun Guðs, og láta af þessari þráhyggjuhegðun.
Er þetta ekki fín leið til þess að skerá úr um þetta leiðindamál í eitt skipti fyrir öll?
PS. Fyrir öll börnin sem þetta lesa og geta ekki beðið eftir þessu flotta nýmæli: Þið getið heimsótt Gideonistana að Langholtsvegi 111 alla virka daga á milli kl. 12-15:50 og fengið ykkar eigið eintak af Nýja testamentinu. Athugið þó að eftir klukkan 14 getur framkvæmdastjórinn þó brugðið sér af bæ og því er betra að vera fyrr á ferðinni!
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Þurfa þeir bara ekki að gefa þeim link á testamentið á netinu? Þar væru þeir hip og cool og modern. Öll hin lesblinda æska hefur hætt að lesa bækur sér til gagns og ógagns, hvað þá bækur með títuprjónaletri.
Enn kúlara væri testamentisappið. Þau fengju það frítt og þá gætu þau svissað yfir á guðsorðið milli borða í GTA á Ipadinum.
Jón Steinar Ragnarsson, 16.9.2015 kl. 17:02
Það er alveg ljóst að hið góða og heilaga orð í bláu bókinni hefur leitt þig að dyrum þessa góða félags enda þekking þín á opnunartíma Gídeonfélagsins ákveðin opinberun. Næst væri upplagt fyrir þig að vera ekki feiminn og ganga alla leið; ná þér sjálfur í eintak og lesa þér það til gleði og yndisauka. Ég tel næsta víst að tilreiknir þú þér boðskapinn í litlu bláu bókinni, kærleiksboðskap Krists, munir þú verða enn betri maður en þú ert í dag. Þá ferðu hreint út sagt að elska alla menn ekki síst þá sem þú hatast á við og lítur niður til.
Guðmundur St Ragnarsson, 16.9.2015 kl. 20:51
Guðmundur: Maður þarf að kynna sér hina hliðina, svo mikið er víst, en nóg veit ég um Nýja testamentið til að vita að það myndi ekki bæta neinu við fyrir mig enda skáldsaga sem er skrifuð fyrir aðra tíma.
En leitt er að sjá að þú teljir að ég hatist út í einhverja og líti niður til þeirra, en það er ekki rétt. Ég er vissulega andvígur þrásækni Gideonistanna í litlu börnin vegna þess að þeir telja sig vera mannaveiðara Guðs, en velja sér auðveldustu bráðina. Mér finnst erfitt að bera virðingu fyrir svoleiðis veiðimennsku og vildi óska að þeir hefðu metnað til þess að fara með tilboð sitt í háskólana þar sem þeir þyrftu að hafa fyrir sölu- og veiðimennskunni.
Er ekki vinsælt að segja í þinni kreðsu þegar amast er út í hommana að maður eigi að elska syndarann og hata syndina? Ætli ég gera þau orð ekki að mínum.
Óli Jón, 16.9.2015 kl. 23:28
Hver eru rök þín fyrir því, að Nýja testamentið sé "skáldsaga"?
Svo talarðu hér um útsent "álit" samtaka, sem þú kallar ýmist Íslenska krossmenn eða Kristilega krossfestingarbandalagið, en þegar menn fara inn á vefslóðina, sést, að álitið er sjálfs forsætisráðherra okkar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Er framsetning þín til orðin í frustation yfir því, að Sigmundur Davíð sér glögglega gildi þess framlags sem Gídeonfélagið hefur gefið þjóðinni með sínu fúsa sjálfboðaliðastarfi áratugum saman?
Jón Valur Jensson, 17.9.2015 kl. 00:59
Þessi bók sem þú kallar "skáldsögu" boðar ekkert annað en kærleiksboðskap Jesú Krists. Auðvitað ertu ekki sammála því og getur sjálfsagt hent í nokkur vers því til "sönnunar" að þínu mati og hóps skoðanabræðra þinna. Og hvað með það? Við getum haft á þessu ólíkar skoðanir. Og hvað?
En til hvers þessi illi hugur þinn gegn afmörkuðum hópi manna sem kristallast í skrifum þínum Óli Jón? Lestu pistlana þína aftur gegn íslenskri kirkju, kristinni trú og kristnu fólki og þín "komment" hjá öðrum þar sem þú tjáir þig um þessi málefni kristninnar af miklum móð. Sannarlega talarðu niður til kristinna, íslenskrar kirkju og kristinnar trúar. Einelti? Rætni? Hatur? Allavega ekki virðing eða umburðarlyndi svo mikið er víst. Og þú skrifar náttúrulega lítið um annað en íslenska kirkju. Heillandi áhugamál?
Og sniðugt hjá þér að enda þetta með stæl og segja kreðsu kristinna að amast út í homma. Ég hef akkurat ekkert á móti samkynhneigðum hvorki í hinum veraldlega heimi né trúarlega. Kristnir mega hafa ólíkar skoðanir um trú (skoðanafrelsi, manstu?) eins og ég geri ráð fyrir að trúleysingjar séu ekki endilega sammála um allt t.d. hvort leggja skuli Gídeonfélagid eða Bjarna Randversson í einelti eða ekki. Eða hvort tala skuli niður til kristinna eða ekki.
Elska náungann, syndarann? Visslega. Þú ert heppinn að vera á Íslandi og búa við þau forréttindi að hér ríkir málfelsi og kristin trú er umburðarlynd þótt mennirnir séu misjafnir. Það skyldi þó ekki að einhverju leyti vera þessari "skáldsögu" og hennar kærleiksboðskap að þakka?
Gangi þér vel.
Guðmundur St Ragnarsson, 17.9.2015 kl. 01:33
Jón Valur: Er þetta sami forsætisráðherrann og þú kallaðir einu sinni 'óforbetranlegan monthana' og sagðir um hann að aldrei myndir þú trúa honum nema að hafa 'lygamæli' meðferðis? Forsætisráðherrann sem þú kallaðir 'hrossakaupmann' og hvers 'hjal' þér klígjar við? Þú gerir þér sannarlega dælt við alls konar fólk, væni minn, svona þegar það hentar þér :)
En það er reyndar rétt að tiltaka að venjulega áttu ekkert nema eldheita og karlmannlega ást í brjósti til Sigmundar Davíðs og hlýtur því iðulega að vera með bilaðan lygamæli í fórum þínum þegar þú mælir hjalið í hrossakaupmannslega monthana.
Guðmundur: Já, ég tjái mig um kristni vegna þess að þetta tómstundagaman örfárra er að kosta þjóðina allt of mikið. Þetta er deyjandi afþreying gamals fólks því unga fólkið er ekki að slást með í för, jafnvel allt það fólk sem í gamla daga þurfti að taka við Nýja testamentinu þegar Gideonistarnir héldu heilu skólabekkjunum í herkví uns hver og einn nemandinn á 6-12 ára aldri hafði tekið við kverinu.
En það er skondið að sjá að þið gefið ekkert út á tilraunina sem ég sting upp á í pistli mínum. Ástæðan er auðvitað sú að inneignarbréfin yrðu í fæstum tilfellum innleyst og myndu líklega gera mest gagn sem snýtubréf. Þetta vitið þið og þetta hræðist þið. Börnin vilja ekki guð ykkar, hvort sem er með eða án milligöngu Gideonistanna, og það getið þið ekki sætt ykkur við.
Málið er nefnilega það að þið vitið mæta vel að kirkjan er að gefa upp öndina og lífdagar hennar eru aðeins lengdir með þeim eymingjastyrk sem ríkið hefur veitt henni í allt of mörg ár í formi óskiljanlegra jarðasamninga og gjafafjár í sóknargjaldaformi. Þess vegna styðjið þið rányrkju veiðiklúbbs Gideonistanna þegar þeir safnast saman í kringum tunnurnar og reyna að moka veiðinni, sem ætti að vera gefin, upp í dragnót Drottins. En eitthvað er möskvastærðin í nótinni þeirri skrýtið því ungseiðin finna sér ávallt leið út þrátt fyrir að hafa verið lamin í hausinn með Bláa kveðlingnum.
Já, ekkert veiðifélag fær meiri ríkisaðstoð en Ríkiskirkjan og engu þeirra tekst jafn hörmulega að fiska. Mikill fjöldi barna er skráður í Ríkiskirkjuna við fæðingu (sem þau velja auðvitað sjálf, nokkurra daga gömul), en samt fækkar í henni sem táknar að sá gleðihringur (þið myndið væntanlega kalla hann vítahring) stækkar bara því börn sem fullorðnast utan trúfélags eignast börn utan trúfélags :)
Já, ég er sannarlega heppinn að kristin trú er umburðarlynd. Við þekkjum, jú, öll söguna um ungmennin, Elísa og birnurnar.
Óli Jón, 17.9.2015 kl. 02:51
Blessaður, ríkiskirkjan er vel að þessu framlagi komið,enda byggt á gömlum eignaskiptum við ríkið. Hvað sem þér finnst,þá eru svo miklu fleiri sem horfa til óþurftar á þvingandi gjald einstaklinga til framfærslu Ríkisútvarpsins.Það er rekið eins og pólitísk áróðursstöð og er flestum til ama.Börn vilja frekar fara á barnasamkomur kirkjunnar og mæður fara með ung börn sín á svokallaða mömmumorgna í kirkjur.--Óli Jón! Fyrr frýs á sjóðsvélum frégræðginnar,en að kirkjan líði undir lok.
Helga Kristjánsdóttir, 17.9.2015 kl. 07:26
Sæll Óli.
Ég ber lof á þig óendanlegt fyrir að
vera svo útausandi af gjafmildi á báðar
hendur að morgni dags!
Þú tekur heljarstökki framar Menningarráði Reykjavíkur
og telur það í besta lagi að Gideonmenn komi í skólana
og flytji boðskap sinn undir dynjandi "...harmonikkuspili
allan daginn, alla daga."
Ég vona að þú hafir bakland til að standa við þetta því
ég efast ekki um að Gideonmenn munu taka þig á orðinu
enda veit ég að þú munt ekki liggja á liði þínu við
að opna þessar dyr sem flestir ef ekki allir töldu luktar.
Ég lýsi yfir andstöðu minni við allar athugasemdir hér
því fáir hafa sýnt slíkt eðallyndi í garð íslenskrar kirkju
sem þú.
Nú hefur þú tekið að þér að leiða söfnuð Guðs yfir
eyðimörk Menningarráðs Reykjavíkur, opna skólana uppá
gátt fyrir boðskap Gídeonmanna með því eina skilyrði
að þeir útdeili ekki bláu bókinni.
Gídeonmenn til starfa undir leiðsögn Óla Jóns, megi
stafur hans sópa því hyski til beggja handa sem hingað til
hefur sett sig upp á móti allri kristni:
Áfram Kristmenn krossmenn!
Húsari. 17.9.2015 kl. 09:53
Ég tel leyfa ætti Landsbankamönnum að fara með trúboð sitt í leik- og grunnskóla. Einnig Nóa Síríus, Eimskip, Aðventistum og Góu. Að ógleymdum Vífilfelli, Apple, Ásatrúarmönnum, Múslimum og Grænfriðungum. Síðan, ef einhver tími er eftir, má nota kennslustundirnar til að kenna námsefnið.
Vagn 17.9.2015 kl. 09:56
Því miður Vagn minn góður, Gídeonfélagar
sjá um þetta hér eftir "...allan daginn, alla daga."
Húsari. 17.9.2015 kl. 10:08
Helga: Auðvitað líður Ríkiskirkjan ekki undir lok því á endanum verður hún það 5-15% trúfélag sem hún í raun er. Svo mun ríkið halda lífinu í henni ad infinitum með styrkjum og eymingjaframlögum. Þannig mun hún skrönglast áfram um aldir alda, pínulítið fyrirbæri í allt of stórum hökli.
Húsari: Ég þakka kærlega fyrir þetta góða innlegg sem saltað er með kaldhæðni í hlutföllum sem ég kann vel að meta. Ég bendi þó á að Gideonistarnir munu vonandi ekki kynna vöruframboð sitt undir ljúfum tónum dragspilsins, þeir eru best geymdir fyrir himnaríki hvar þeir óma allan daginn, alla daga, allt árið um kringum þúsöldunum saman. Það væri hreinlega ekki sanngjarnt að beita seiðandi áhrifum nikkunnar á börnin því þá ættu þau sér engrar undankomu auðið.
Vagn: Nákvæmlega. Þú ert búinn að draga upp fína mynd af markaðstorgi skólanna hvar fyrirtæki, stofnanir, stjórnmálaflokkar og trúfélög geta selt vörur sínar með lágmarks tilkostnaði.
Óli Jón, 17.9.2015 kl. 11:53
Boðskapur Sússa
DoctorE 17.9.2015 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.