Sunnudagur, 22. apríl 2007
Brandari á alþjóðlegri stærðargráðu!
Áður en farið er í að spyrja hvort það eigi að styrkja varnir landsins, er þá ekki nær að kanna hvort það sé yfir höfuð nauðsyn að halda uppi vörnum? Er þetta sífellda varnarhjal ekki bara afleiðing kalbletta í sálarlífi manna sem enn telja möguleika á því að aftur geti skollið á kalt stríð? Hverjir eru líklegir til að sitja úti í heimi og gera áætlanir um fjandsamlega yfirtöku íslenska ríkisins? Rússar? Talibanar? Ég er á því að niðurstaða úr skoðanakönnun sem þessari sé 'pöntuð', þ.e. að spurningar séu þannig fram settar að það sé býsna erfitt að svara þeim á nema einn veg án þess að líta út fyrir að vera landráðamaður. Var spurt í þessari könnun hvort svarendur teldu virkilega þörf á varnarliði? Var viðhorf almennings til þess grundvallarþáttar rannsakað nægilega?
Í mínum huga á að styrkja löggæslu hérlendis, en það á ekki að gera með kvartþúsund manna hópi sem hleypur um víðan völl í Henson-göllum með ullarhúfur. Ef við höfum efni á slíkum hópi á bakvakt (orðið 'varalið' ber það með sér að það er einungis kallað út endrum og sinnum), höfum við þá ekki jafn mikið efni á því að bæta t.d. 50 föstum stöðugildum í aðallið lögreglu? Það er ljóst (í mínum huga, altént) að þetta er fyrsti vísir að hervæðingu hérlendis og er til nokkuð fyndnara en tilhugsun um íslenskan her? Er hugmyndin um íslenskan her ekki það arfavitlausasta sem nokkur maður hefur látið út úr sér? Ég hvet lesendur til að segja eftirfarandi upphátt:
- í réttstöðu, fyrsti flokkur Hlíðarendadeildar
- fram og hægri snú, Þorbjörn majór
- hentu þér á jörðina og gerðu fimmtíu armbeygjur, óbreyttur Friðrik
- mundaðu skammbyssuna rétt, Friðfinnur liðþjálfi
- skv. skipun frá Gunnari ofursta ...
- Björn marskálkur mun fylgjast með hersýningu dagsins
- kemur þú frá Raufarhöfn, majónes?
- taktu fimm menn með þér, Ingvar stórskotaliði, og verðu Bakarabrekkuna til síðasta manns!!!!
Íslenskur her verður líklega eini hvatinn fyrir óvinveitta aðila að ráðast á okkur því þeir munu væntanlega vilja sjá það skemmtiatriði sem þessi herdeild mun verða. Grínið er þó grátt því reynslan sýnir að það er ekkert til sem kalla má "passlega stór og hagkvæmt rekinn" her. Her sogar til sín fjármagn og til gamans má geta að skv. Wikipedia fara 17% af fjárlögum BNA í hernaðarstúss. Skv. því myndi íslenskur her taka til sín 60 milljarða sem líklega færu í skriðdreka í sauðalitunum.
Það væri nú samt býsna flott að vera í hernum og heyra: "Þetta veltur allt á þér, Ólafur sérsveitarselur ... þú verður að koma í veg fyrir að óvinurinn geti komist á land við ylströndina! Þú mátt beita öllum ráðum til að það gerist ekki!".
Þvílík sæla!
Meirihluti hlynntur stofnun varaliðs lögreglu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:46 | Facebook
Athugasemdir
Á 19.öld voru íslenskar hersveitir starfræktar í Vestmannaeyjum og á Stykkishólmi við góðan orðstýr. Hví ætti ,,hersveit'' því að vera eitthvað hlægilegri í dag heldur en þá?
Svo ætla ég að benda þér að lesa herfræði ýmis áður en þú ferð að halda einhverju fram eins og að það geti verið hvati fyrir innrásarlið til að ráðast á Ísland, að her sé því til varnar.
Það yrði nefnilega ekkert grín fyrir nokkurn innrásaraðila að ráðast á Ísland, verðu Íslendingar heilum 60 milljörðum til varnarmála ári, sérstaklega að þeir hörðustu í varnarmálunum hafa ekki lagt til meira en 2% þjóðarframleiðslu sem viðmið eins og í Evrópu.
En að lokum er staðreyndin samt sú að þetta varalið er lögregluvaralið og ekki beint ætlað ytri vörnum Íslands rétt eins og aðrar öryggisstofnanir Íslands. Þannig að ef þér finnst varaliðið vera her, þá er lögreglan einnig her og landhelgisgæslan líka.
Pétur Guðmundur Ingimarsson 22.4.2007 kl. 14:13
Í könnuninni er sérstaklega tiltekið að téð varalið muni koma að vörnum landsins, enda hefur það ætíð verið skilgreint sem eitt meginhlutverk þessarar herdeildar frá upphafi.
Það þarf svo engan lestur í herfræði til að sjá að ef einhver er svo vitlaus að vilja ráðast hér inn að þá er fælingarmátturinn fólginn í NATO-aðild okkar, ekki kvartþúsund manna léttsveit í Henson-göllum og gúmmískóm með hvítri rönd!
Ég þekki ekki til hersveitanna í Vestmannaeyjum eða í Stykkishólmi, en altént virðist árangur þeirra og frægðarljómi ekki meiri en svo að tilvera þeirra er ekki vitorði almennings. Máské hafa þetta verið sérsveitir í anda Grænhúfudeildanna í BNA ... Lopahúfuliðið?
Hvað varðar þessi hóflegu 2% sem þeir hörðustu hafa lagt til að verði hámark útgjalda til hermála hérlendis, þá er það nú bara býsna há upphæð eða 7,4 milljarðar. Sé farið í fjárlög má sjá eftirfarandi útgjaldaliði sem komast nærri þessari upphæð:
Hingað til hefur það verið slitið með harmkvælum að hækka ofangreinda liði og leiða má að því líkum að sá slagur verði ekki auðveldari ef íslenski herinn verður að veruleika. Hættum þessari vitleysu og hækkum frekar barnabætur og aukum félagaslega aðstoð! Er það ekki eitthvað sem allir geta verið sammála um?
Óli Jón, 22.4.2007 kl. 18:36
Allt lið á landinu kemur að vörnum landins á einn hátt eða annan, hvort sem það er Landhelgisgæslan, lögreglan, heilbrigðiskerfið o.s.fr.v.
Hvað varðar fælingarmáttin, þá átti ég við þann mátt sem Ísland byggi yfir ef 60 milljörðum yrði varið árlega til varnarmála, eins og þú bentir á að væri mögulegt. Það þarf kannski þekkingu til að sjá út hver hann yrði og hlutfallslegt afl hans miðað við mögulegar stæðir innrásarherja og aðra getu þeirra. Það segir sig sjálft að markmiðið með varaliðinu er ekki að koma á fót sérhæfðu hernaðarlegu varnarliði. Með 60 milljörðum á ári mætti vel halda úti um 2500 manna fastaher með allt að 30 þúsund manna varaliði, fjölda öflugra varðskipa, t.d. 10 skip og loftvarnareftirliti. Innrásaraðili yrði þá að tefla fram flota skipa og kannski 100 þúsund manna innrásarliði gegn slíkum vörnum ætlaði hann að hafa sigur. Það yrði seint mikill brandari, fjárhagslega og í mannfórnum talið fyrir nokkra þjóð að ráðast á Ísland við slíkar aðstæður..
Þekkingarleysi á hernaðarsögu Íslands er vissulega útbreitt og er það hálf sorglegt miðað við hversu tiltölulega glæst hún er á köflum. En ef menn ætla að fjalla um varnarmál er nauðsynlegt að menn kynni sér hana út í hörgul. Ég myndi nú samt halda að herfylkingin í Vestmannaeyjum væri tiltölulega vel þekkt, en litlum sögum hefur farið af sveitinni í Stykkishólmi.
Þessi hóflegu 2% af þjóðarframleiðslu eru 20 milljarðar á ári. Þjóðarframleiðsla er sem betur fer meiri en velta ríkissjóðs og því hærri tala.
Eins og þú veist þá er það grundvallarhlutverk hvers ríkis að tryggja öryggi þegna sinna og í raun ástæðan fyrir tilveru þess. Því er upptalning á aukaverkefnum og gæluverkefnum ekki til annars fallin en að sýna fram á hversu litlu er í raun varið til þessa grundvallarverkefnis.
Pétur Guðmundur Ingimarsson 22.4.2007 kl. 21:12
Sæll, Pétur
Takk fyrir þann áhuga sem þú sýnir skrifum mínum og þá helst vegna þess að við erum hreiðrum um okkur á sitthvorum enda spýtunnar! :)
Ég verð því miður að segja að það er ægilegt þegar hin hóflega tala hækkar nær þrefalt eða úr 7,4 milljörðum í um 20 milljarða. Ef maður reynir aftur að setja hana í samhengi má líta á nokkra af eftirfarandi útgjaldaliðum:
Ofangreindar tölur eru teknar af fjárlagavef fjármálaráðuneytisins.
Ég efast ekki um það að við gætum byggt upp afar glæsilegan her fyrir 20 milljarða árlega, en það er í raun ekki málið. Aðalmálið er það hvort við þurfum á því að halda og í mínum huga er ekkert fjær lagi. Gefum okkur það að það steðji alvöru vá að landinu þá er næsta víst að hún verður ekki í líki skilgreinds hers eins og við þekkjum í dag. Sérfræðingar eru m.a.s. sammála um að herir eru næsta gagnslitlir í dag sökum uppbyggingar sinnar því þeir eru ekki hannaðir til að taka staðbundið á málum. Bruce Willis, sá mikli snillingur, orðaði þetta ágætlega í myndinni 'The Siege' þegar hann sagði að herinn væri þungt höggsverð frekar en skurðhnífur og sem slíkur ekki hentugur í orrustur nútímans sem flestar eru háðar í bæjum og borgum. Menn hafa horft mikið til hinnar ítölsku Carabinieri sem þykir um margt afar vel skipulögð til að glíma við verkefni á borð við Íraksklúðrið.
En burtséð frá því þá erum við, sem betur fer, ekki Írak. Á okkur mun ekki nokkur ráðast nema í versta falli vitleysingur með sprengjubelti og gegn slíkum manni dugar enginn her. Þannig þurfum við ekki að vígbúast gegn vá sem ekki er til þegar hægt er að nota fjármunina í þarfari hluti. Léttsveit lýðveldisins er því ekki aðeins óþörf heldur væri hún að taka fjármuni frá málaflokkum sem ekki mega við frekari rýrnun í framlögum.
Ég er því sammála að það sé eitt af hlutverkum ríkisins að tryggja öryggi borgaranna. Hins vegar fylgir sú ábyrgð því hlutverki að meta aðstæður með hófstilltum hætti og líta raunsæjum augum á stöðu mála. Ég get ekki skrifað upp á að barnabætur og félagsleg aðstoð séu skilgreind sem auka- og/eða gæluverkefni þegar þau eru skoðuð í samhengi við hervæðingu. Auðvitað eru þetta kjarnaverkefni sem eru ofar á forgangslistanum en vígbúnaður. Ef við værum staðsett við hliðina á Norður-Kóreu, þá væri líklega eðlilegt að hækka forgang varnarmála á kostnað barnabóta, en ógnin er nú ekki mjög skýr og sýnileg þegar Færeyjar og Grænland eru næstu grannlönd okkar. Síðast þegar ég vissi höfðu Grænlendingar ekki slitið stjórnmálasambandi við okkur, en maður veit reyndar aldrei. Varnarhlutverk Landhelgisgæslunnar markast mest af því að vernda lögvarða hagsmuni okkar í landhelgi og vera sjómönnum okkar til aðstoðar sem sést best af því að fallstykkin á dekki skipaflota Gæslunnar myndu varla ná að granda gamalli Sóma trillu, hvað þá skipaflota einbeitts innrásarhers. Lélegar fallbyssur hafa þó ekki hindrað Gæsluna í að sinna verkefnum sínum; skortur á fé til eldsneytiskaupa hefur vegið þyngra þar.
Hvað varðar það að heilbrigðiskerfið sé hluti af vörnum landsins, þá er nú helst til of langt seilst þar og skv. þeirri skilgreiningu er hægt að segja að allir landsmenn tengist vörnum lýðveldisins á einn eða annan hátt. Ég á góða vinkonu í hjúkrunarstéttinni og hún skrifar líklega seint upp á að hún sé hluti af gisinni varnarlínu landsins. Þetta er allt skilgreningaratriði sem verður að skoða með hófstilltum hætti.
Hins vegar er best að láta söguna skera úr um nauðsyn þess að hér verði sett á laggirnar Léttsveit lýðveldisins. Hvenær á síðustu hundrað árum (og þá eru harðvítugar árásir á Vestmannaeyjar og Stykkishólm sem og Gúttó-slagurinn góð dæmi) lentu landsmenn í aðstæðum þar sem tilvist hers hefði skipt sköpum? Hvenær voru borgararnir almennt sammála um að það hefði verið betra að setja 2% landsframleiðslu í hervæðingu frekar en vegagerð eða uppbyggingu í heilbrigðiskerfi? Hvaða ríki eða hópur einstaklingar hefur í seinni tíð gert sig líklegan til að ráðast hingað inn? Hvaðan hafa okkur borist afarkostir um uppgjöf eða hernám?
Þegar stórt er spurt ...
Óli Jón, 23.4.2007 kl. 18:31
hehehehe fannst rétt si svona þetta geta verið skipanir sem ég gæti notað mér til hins ýtrasta á mínum litla vinnustað.....blessaðir piltar......áfram gakk....
BLopez 23.4.2007 kl. 22:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.