Fyrirsjáanleg og gleðileg þróun

Þrátt fyrir alla þá meðgjöf sem Ríkiskirkjan fær þá molnar stöðugt undan henni. Hún fær meginþorra barna sjálfkrafa skráð í félagatal sitt við fæðingu, algjörlega óverðskuldað, en samt fækkar börnunum sem henni eru eignuð.

Ekki er hægt að segja að grunnskólabörn séu trúuð eða trúlaus því þau hafa engar forsendur til þess að taka upplýsta ákvörðun um málið. Ef þetta er raunin, þá finnast að sama skapi mörg Sjálfstæðis- og Samfylkingarbörn í þeirra röðum, en fá Framsóknar, en það er nú bara kjánalegt því enginn heilvita maður gerir ráð fyrir því að börn tileinki sér sjálfkrafa stjórnmálaskoðanir foreldra sinna. Afstaða til trúar virðist þó vera það léttvæg að rétttrúuðum og hagsmunaaðilum finnst sjálfsagt að ætla að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag móður sinnar og teljist þannig trúa því sama og hún (en í raun er hún sama marki brennd og þau því áður fór hún í gegnum sömu hringekjuna). Þeim er ekki einu sinni treyst til þess að meta hvað þau geti verið lengi úti. Þau fæðast trúlaus og trúa svo í raun bara því sem fyrir þeim er haft.

Trúarskoðanaskráning ríkisins er svo sér kapítuli út af fyrir sig, enda ótrúlega sorglegt að í nútíma samfélagi haldi það Orwellska skrá um meintar lífsskoðanir fólks. Persónulega þætti mér nytsamara að halda registu yfir hvort fólk hafi gaman af Starcraft eða ekki.

En þetta er víst það sem þarf til þess að lengja líftíma Ríkiskirkjunnar. Skrá börn sjálfkrafa í trúfélög, keyra þau á skólatíma í bænahald í kirkjum af því þau kjósa frekar barnaefni í sjónvarpi, smala þeim í ferminguna, afhenda Nýja testamentið í skólanum o.s.frv. Ég tel eðlilegt næsta skref í þessum efnum vera að lögbinda hreinlega það að allir Íslendingar játi trú Ríkiskirkjunnar svo hægt sé að hætta þessum kjánalega skollaleik. Það er heiðarlegra og mun skilvirkara því þá komast sauðirnir ekki upp með að hafa skoðun á málinu og jafnvel segja sig frá apparatinu þegar þeir hafa aldur og skynsemi til. Þá sparar það stórar fjárhæðir í rútukostnaði.

Amen eftir efninu!


mbl.is Fimmtungur skólabarna utan kirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Gleðilega hátíð!

FORNLEIFUR, 17.12.2014 kl. 12:08

2 identicon

Hvers vegna er þér svona illa við kristni?

Fékst þú ekki að vera í KFUM, eða?

Hvorugir foreldrar mínir voru trúaðir og það var móðuramma mín, rasandi hneiksluð, sem kenndi mér Faðir vorið þegar ég var 1o ára.

Góður maður fór með mig í Betaníu á sunnudögum, þar sem við börnin fengum biblíumyndir og pönnukökur og svo var ég í KFUM.

Móðir mín var fullmeðvituð um, að þarna var gott fólk og ekki varð mér illt af þessu.

En þér líður mjög illa Óli Jón.

Valdimar Jóhannsson 17.12.2014 kl. 15:05

3 Smámynd: Óli Jón

Valdimar: Mikið ótrúlega er gott að sjá að þú finnir gleði í því að hafa farið í KFUM og Betaníu. Ég skynja það á skrifum þínum að þetta er þér mikilvægt og dýrmætt, sem er vel.

Hins vegar sé ég einnig á skrifum þínum að skólinn kom hvergi nærri þessu trúboði, heldur var það þessi góði maður sem sá um það án nokkurra ríkisafskipta. Það er líka stóri punkturinn, ríkið á ekki að vasast í þessu því þeir foreldrar (eða góðu menn) sem vilja þetta fyrir hönd barna sinna geta bara afgreitt þetta sjálfir.

En gleði þín og kristilegt innræti eru nú ekki meiri og betri en svo að þú gerir mér upp það ég mér líði illa. Hvað þú hefur fyrir þér í því veit ég ekki og eitthvað sem þú ættir að rannsaka innra með þér.

Hið rétta er að mér er slétt sama um kristni og kristna kirkju. Ef þessi fyrirbæri gagnast einhverjum, þá er það vel. Hins vegar er mér meinilla við það þegar kristni og kirkju er troðið upp á leik- og grunnskólabörn sem hafa ekki nein úrræði til þess að meta hvort þetta sé gott eða vont og verða því að treysta því að allt sem skólinn hefur milligöngu um sé gott. Það er ekki þannig. Þessi heimtufrekja Ríkiskirkjunnar er nokkuð sem ég þoli illa, en um stofnunina sjálfa er mér sama, eins og áður sagði.

Hugsaðu þig því vendilega um næst áður en þú segir eitthvað, Valdimar úr Betaníu, og gerðu ekki öðrum upp hluti sem engin innstæða er fyrir. Er það ekki sambærilegt við að bera ljúgvitni skv. siðaskrá þinni? Mér líður vel, hafðu engar áhyggjur af öðru!

Um ljúgvitni: http://lifdu.org/fraedsla-3/fraedsla/kaerleiksbodordin/9-thu-skalt-ekki-bera-ljugvitni-gegn-naunga-thinum/

Óli Jón, 17.12.2014 kl. 15:41

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ef aðeins þú værir glaður í Vantrú þinn þá gæti maður glaðst með þér. En þú verður sífellt súrari og kennir svo öðrum um ógleði þína.

Reyndu nú að eiga gleðileg Jól.

Ragnhildur Kolka, 17.12.2014 kl. 17:02

5 Smámynd: Óli Jón

Ragnhildur: Takk fyrir þetta, ég vona að ég nái því einhvern tíma að vera jafn ferskur í greinaskrifum og þú :)

Og takk fyrir frómar óskir um gleðileg jól, þær eru mér hvatning til dáða.

Óli Jón, 17.12.2014 kl. 17:08

6 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Óli Jón. Ef þér er slétt sama um kristni og kristna Kirkju, þá værir þú nú ekki að nöldra þetta. þú skalt bara passa þína, og láta okkur í friði sem viljum hafa eitthvað til að trúa á.

Eyjólfur G Svavarsson, 17.12.2014 kl. 18:03

7 Smámynd: Óli Jón

Eyjólfur: Æi, er ég að ónáða þig sem vilt trúa? Er trú þín bundin því að leik- og grunnskólabörn séu ferjuð í kirkjur þar sem tekið er á móti þeim af fulltrúum hinnar boðandi Ríkiskirkju? Raskar það trúfesti þinni að gerðar séu athugasemdir við þetta óeðlilega fyrirkomulag?

Get ég s.s. túlkað orð þín þannig að þú sér fyllilega sáttur við það að kristinni trú á viðhaldið fyrir atbeina ríkisins, m.a. með þeim aðferðum sem ég mótmæli í pistli mínum? Að pínulítil börn séu sett í hendur trúboðandi þjóna hinnar boðandi Ríkiskirkju sem hafa þá fyrstu og fremstu skyldu að safna sauðum inn á félagatal stofnuninnar?

Ef svo er, værir þú þá sáttur við að stærsti stjórnmálaflokkurinn* hverju sinni nyti álíka þjónustu? Ef stærsta fótboltafélagið? Eða er það bara Ríkiskirkjan sem þarf á þessari neyðaraðstoð að halda?

* Ríkiskirkjan er auðvitað bara stærst í skrám Hagstofunnar vegna þess að nýfædd börn hafa almennt verið skráð í hana af því að það er svo auðvelt að fá upplýst samþykki ómálga og nýfæddra barna. Það er ekkert erfitt að búa til 'stærsta' klúbb landsins með slíkri þjónustu frá ríkinu.

Óli Jón, 17.12.2014 kl. 22:43

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Hefur þetta ekki verið svona lengi,eða allt frá því að kristni var lögleidd? Þótt áður hafi ég ekki mikið hugsað um þetta,eða séð núna hvað þér gremst það,finnst mér það fullkomlega eðlilegt.Ég get ekki annað en tengt skrif þín pólitík,það má ráða af skrifum þínum,að þér er það fyrst og fremst þyrnir í augum að félagatal ríkiskirkna sé stærst í skrám Hagstofunnar.Ríkiskirkjan nýtur ekki neyðaraðstoðar,hún er brjóstvörn lýðræðisins og í dag mótvægi gegn stórhættulegum öfgaöflum.

Helga Kristjánsdóttir, 18.12.2014 kl. 06:17

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Fullkomlega eðlilegt að Ríkiskirkjan sé venduð og börn fái að kynnast helgihaldi hennar,einmitt að skólar heimsæki hana sérstaklega á jólum.

Helga Kristjánsdóttir, 18.12.2014 kl. 06:22

10 Smámynd: Skeggi Skaftason

Ríkisrekið trúfélag og "þjóðartrú" er jafn sjálfsagt og eðlilegt og hinn ríkisrekni kommúnistaflokkur Kína, þar sem kommúnískur kapitalismi er "þjóðarstjórnmálaskoðun". 

Skeggi Skaftason, 18.12.2014 kl. 09:16

11 Smámynd: Óli Jón

Helga: Ríkiskirkjan verður seint kölluð 'brjóstvörn lýðræðisins' og sem dæmi um það má nefna að afar stutt er síðan hún lagðist þver gegn því að konur gætu orðið prestar, en varð að bakka með þá afstöðu sína. Hún hefur ítrekað lagt stein í götu samkynhneigðra og er sorglegt að minnast þess þegar þáverandi biskup notaði orðið 'sorphaugar' í því samhengi. Hún stendur því ekki undir þessari nafnbót, ekki undir neinum kringumstæðum.

Og dagljóst er að hún er á gjörgæsludeild ríkisins þegar litið er til þess að

    • hún fær meirihluta nýfæddra barna skráð í félagatal sitt fyrir atbeina ríkisins

    • hún fær greiðan aðgang að leik- og grunnskólabörnum með trúboð sitt

    • ríkið innheimtir félagsgjöldin fyrir hana eftir að það kom í ljós að sauðirnir vildu ekki borga

    Ekkert annað fyrirbæri í íslensku samfélagi fær annan eins stuðning og aðra eins meðgjöf og hún og samt hriktir í stoðunum. Ekki þarf frjótt ímyndunarafl til þess að sjá hvað myndi gerast ef eitt af ofantöldu yrði hætt og fullvisst er að ef þetta þrennt yrði aflagt þá myndi Ríkiskirkjan skrælna og skreppa saman mun hraðar en hún gerir í dag.

    Nei, hún er engin 'brjóstvörn lýðræðisins', svo mikið er víst. Spáðu hlutlægt í málin og þá muntu sjá það líka.

    Óli Jón, 18.12.2014 kl. 10:26

    12 identicon

    Sæll Óli.

    Hver er þessi vá, voði og stórháski sem bíður
    handan hornsins við það eitt að börn fái notið
    þess að gleðjast og koma saman undir handleiðslu
    kirkjunnar manna og/eða kennara síns?

    Gerir þú þér grein fyrir því að verulegar líkur
    eru á því að þar með sé sú gleði upptalin meðal
    einstakra barna hvað varðar jól og áramót
    þegar herlegheitin eru drukkinn svo
    hressilega út að menn muna hvorugt að lokum?

    Sem betur fer er þjóðkirkjan og biskup hennar þar
    í fararbroddi farin að ná tökum á þessari fáheyrðu
    ósvinnu og vitleysu(vantrúargemlingunum!) með því
    að hundsa þá algerlega sem til þess hafa unnið,
    fámennar ofstækisklíkur sem gerðu vel í því að
    jóðla um jól og áramót í sínum ranni og meðal sinna
    en láta aðra í friði með trú sína.

    Húsari. 18.12.2014 kl. 16:03

    13 Smámynd: Skeggi Skaftason

    Húsari skrifar:

    " ... gerðu vel í því að jóðla um jól og áramót í sínum ranni og meðal sinna en láta aðra í friði með trú sína. "

    Húsari, þetta er NÁKVÆMLEGA það eina sem trúleysingjar eru að biðja um, og ekkert meira, að fá að VERA Í FRIÐI fyrir ykkur Jesúkvökurum,!

    Hefur einhver heimtað að senda þín börn eða barnabörn í trúleysiskirkju með skólanum að hlusta á trúleysispredikara?!

    Jísös Kræst, hvað fólk eins og þú getur verið óskaplega frekt og blint! 

    Skeggi Skaftason, 19.12.2014 kl. 11:39

    14 identicon

    Sæll Skeggi.

    Eins og þér er fullkunnugt þá er
    faðmur kirjunnar öllum opinn.
    Renna þar saman horn í horn jafnt,
    hið léttfætta Líbanonskið sem hin
    vambsíða Jórdanskýr og allir boðnir
    velkomnir og einnig þú.

    Ekki er við Þjóðkirkjuna að sakast þó
    menn hafi ekki hugsað fyrir sér um líf
    utan hennar og sízt að menn skaki skellum
    að henni þegar þeir ættu frekar að beina
    spjótum sínum að sjálfum sér.

    Húsari. 20.12.2014 kl. 00:01

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband