Mánudagur, 5. maí 2014
Nokkur gullkorn úr stefnuskrá Kristna trúarbandalagsins
Jæja, það er gaman að sjá að Jón Valur hefur nú loksins staðið upp af koppnum, hysjað upp um sig brókina og tilkynnt um framboð sitt í öllum kosningum hérlendis sem í vændum eru nema auðvitað sveitarstjórnakosningunum eftir mánuð því hann hefur, jú, ekki haft nema 2-3 ár til þess undirbúa þetta. En dagljóst má telja að þessi þróttmikli einleikur á stjórnmálasviðinu myndi sópa að sér atkvæðum og myndi örugglega fá 50-100 hér í Reykjavík á góðum degi.
Ég gerði mér það til skemmtunar að fara í gegnum þá stefnuskrá Jóns Vals sem hengd var við frétt um framboðið á visir.is, en þar má margt misjafnt finna. Þar má finna nokkur skondin atriði eins og t.d. þetta gullkorn um trúfrelsi á Íslandi (áhugavert er að sjá að hinn sannkristni Moggi er ekki að flýta sér að birta þessa mikilvægu frétt):
Löghelgað verði í stjórnarskrá, að þrátt fyrir trúfrelsi á Íslandi njóti kristinn siður hér forgangs ...
Dagljóst er að kristinn siður mun auðvitað ekki eiga neinn uppdrátt hérlendis nema hann njóti forgangs á öllum sviðum. Auðvitað samræmist slíkt fullu trúfrelsi í heimi þeirra sem lifa nú síðustu góðu daga þess siðs. Við hin sjáum bara óttablandna ofsahræðslu í þessum orðum.
Svo kemur þessi sykurmoli um mál sem tengjast fjölskyldunni:
Fjölskyldumál [Aths.: byrja skal hér á pósitífum áherzlum.]
Kristin stjórnmálasamtök hafna hjúskaparvígslu samkynhneigðra í kristnum kirkjum, þar sem hún gengur gegn orði Guðs og fyrirmælum frelsarans.
Kristin stjórnmálasamtök taka afstöðu gegn hinum fráleitlega kostnaðarsömu útgjöldum ríkisins til "kynbreytingar".
Ég get ekki einu sinni byrjað að ímynda mér hvers konar svartagallsraus hefði ratað inn í þennan hörmungakafla ef ekki hefði verið athugasemd þess efni að þarna skyldi teflt út pósitífum áherslum. En þetta ku allt vera afar jákvætt og dejligt í heimi sannkristinna. En manni hryllir við þeirri hugsun um hvernig þessi kafli hefði getað litið út ef Jón Valur hefði ekki áminnt sjálfan sig um að hafa hann á jákvæðu nótunum.
Svo kemur Jón Valur að einhverjum opinberum styrkveitingum til Samtakanna 78 sem miða að því að rétta af hallann sem verður til vegna fordómarauss hans og skoðanabræðra hans:
Bannað verði að opinbert fé sé notað til að kosta útsendingu fólks úr Samtökunum 78 eða öðrum slíkum samtökum til að hafa áhrif á afstöðu unglinga í kynferðismálum; foreldrafundir fái a.m.k. neitunarvald í þeim málum ...
Mig grunar að Jón Valur hafi nú ekki verið jafn snöggur til mótmæla og andstöðu þegar Gídeón-kónarnir seildust í ríkiskassann hér í denn og snöpuðu peninga, en það var allt önnur Ella, ægilega gagnkynhneigð, karlmannleg og innblásin Guðlegu testosteróni. Það er ekki sama hver á í hlut, Guðs útvaldir eða Guðs útkastaðir!
Um ríkiskerfið segir Jón Valur:
Ríkiskerfið
Fækka ber ríkisstarfsmönnum og draga úr rekstri óarðbærra ríkisstofnana; að leggja sumar þeirra niður kemur vel til greina, en fyrst ber að kanna, hve mjög þetta kerfi hefur þanizt út á síðustu áratugum og hvort eða hverju það hefur skilað, með hliðsjón af útgjöldunum.
Þeir rétti upp hönd sem sjá fyrir sér Ríkiskirkjuna þegar talað er um óarðbærar ríkisstofnanir! Það er gott að Jón Valur skuli sjá þessa matarholu í sparnaðarmálum og mun ég styðja hann með ráð og dáð í því að skera duglega niður í þeim óarðbæra bissniss (fyrir þjóðina, altént) sem rekstur Ríkiskirkjunnar er.
Í allri þessari upptalningarþulu saknaði ég þess að það gleymdist að telja upp það sem ætti að vera aðal baráttumál Kristilega stjórnmálaaflsins, nefnilega lögbindingu þeirrar heilögu skyldu Rúv að sýna þættina um Bibleman í öll mál. Það myndi sannarlega fá unga fólkið til þess að biðja um bláu bókina í skólanum :)
PS. Og hvernig er hægt að fullyrða að Jón Valur hafi einn haldið um fjaðurstafinn við samningu téðrar stefnuskrár? Jú, hin tilgerðarlega 'z' er fangamark hans, andlegu spörðin sem koma upp um kauða. Þeir sem nenna að plægja í gegnum þetta manifesto sjá að enginn annar hefur nennt að koma að samsetningu þess því zetan ríður þar þvers og kruss um héröð.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Sveitarstjórnarkosningar, Trúmál, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Þetta er vitaskuld ekki "stefnuskrá Jóns Vals", heldur Kristinna stjórnmálasamtaka og samþykkt í þeim 14 manna hópi. En rangfærsla Óla Jóns um það grundvallarmál er af sama toga og aðrar rangfærslur og útúrsnúningar hans hér -- fleiri en tekur því að ræða hér í stuttri aths.
Þótt ég sé ekki Gídeon-félagi (en það er hins vegar einn í samtökunum), vil ég leiðrétta þessa fullyrðingu Óla Jóns: "Gídeón-kónarnir seildust í ríkiskassann hér í denn." Það hafa þeir EKKI gert, mér vitanlega, en fengu óáreittir að gefa börnum í skólum Nýja testamentið áratugum saman, þar til Gnarristar tóku hér völd og hafa í liði með sér vantrúarmenn úr eigin röðum og borgarkrata. En þetta starf Gídeonmanna er ólaunað hugsjónarstarf.
Jón Valur Jensson, 5.5.2014 kl. 02:23
Ég segi það enn og aftur: Leyfum þessu blessaða ræfli að gaspra. Því meir sem hann gasprar því fleiri fælir hann frá.
Svipað og þegar Sjálfstæðismenn reyna að stöðva Hannes Hólmstein Gissurason fyrir kosningar, því að í hvert skipti sem hann opnar þverrifuna þá hríðfellur gengi FLokksins í skoðanakönnunum.
thin 5.5.2014 kl. 10:00
Þrátt fyrir að ég setji spurningarmerki við að blanda saman trúarbrögðum og pólitík þá óska ég þér Jóni Valur og öllum öðrum til hamingju. Ég er að sjálfsögðu ekki sammála allri "stjórnarskránni" en tek undir að hafa "kristna" siði hér áfram gildandi,þar sem sennilega er átt við að sniðganga- drepa mann og annan,fara með ósannindi og heiðra skaltu föður þinn og móður-svo eitthvað sé nefnt. Það sem ég er hinsvegar á móti er að öll þjóðin eigi að borga brúsann fyrir þjóðkirkjuna,og þá er ég að tala um laun starfsmanna. Ég tel að eignarhald kirkjunnar á hinum svokölluðu "kirkjujörðum" standist engan veginn og nægir þar að nefna að þjóðkirkjan hirti velflestar "kirkjujarðir" kaþólikka við siðaskipin og þó þér finnist það kannski allt í lagi er ég ekki viss um að kaþólikkarnir á þeim tímum hafi verið sáttir. Og þessi gjörningur var að sjálfsögðu ekki löglegur. Það eiga einungis skráðir meðlimir þjóðkirkjunnar að sjá fyrir sínu liði á hverjum tíma eins og er með öll önnur trúfélög. Það er trúfrelsi. varðandi skólanna þá eiga þeir að sjá um kennslu í fagfögum-ekki trúarlegum. Þaö eiga trúfélögin og kirkjurnar að sjá um. Ég er einnig á móti því að trúarbragðafræði eigi að vera þar innanborðs. Ég tel það ekki þjóna neinum tilgangi- fordómar og stríð milli trúarbragða verða alltaf meðan trúarbrögðin eru til staðar. Þess í stað á að styrkja annað nám í skólunum eins og tungumál og raungreinar.
Jósef Smári Ásmundsson, 5.5.2014 kl. 10:33
Jón Valur: Ó, þá hlýtur þessi gamla betlibeiðni frá hinum ofsalega gagnkynhneigðu og karlmannlegu Gídeónum á vef Alþingis að vera ómark. En auðvitað standa þessir rækilega gagnkynhneigðu og glæsilegu Gídeónar á allt öðrum stað en syndum hlöðnu hommarnir og lesbíurnar, er það ekki?, og eiga því allt annan rétt til opinbers fjár. Munum, jú, að kristin trú á að hafa forgang umfram hinar villutrúrnar, annars líður hún hraðar undir lok en ella!
Hvað stefnuskrána varðar, þá er hún hreinlega afrituð upp úr blogginu þínu. Ég þori að veðja að þarna sé ekki að finna eitt einasta atriði sem þú ert ekki fullkomlega sáttur við, en að svo sé ekki hægt að segja um huldufólkið sem aldrei hefur sést og ku vera með þér í þessum samtökum. Þetta er þitt plagg, þú samdir það og hinir höfðu afar lítið með það að gera, ef nokkuð, nema að rétta upp loppurnar þegar æðstipresturinn krafðist þess. Ég skil ekki metnaðarleysi hinna meintu þrettán að láta þetta yfir sig ganga.
Hvenær fáum við kjósendur annars að sjá lista með nöfnum þeirra þrettán sem, að sögn, standa að þessu með þér? Þú gerir þér væntanlega grein fyrir að þú verður, þótt ekki sé nema fyrir sakir málamynda, að tefla fram heilstæðum lista fólks, það nægir ekki að þú sért þarna einn þótt þetta sé auðvitað þitt 'show'.
Annars skora ég á þig að finna nokkrar mínútur í að hrekja það sem ég færi fram í mínum pistli. Sem stjórnmálamaður hlýtur þú að vilja leiðrétta allar þessar rangfærslur og útúrsnúninga. Nú ertu ekki bara almennur borgarinn Jón Valur, þú ert nú fullmektugur leiðtogi samtaka kristinna hérlendis og verður því að breyta þínum háttum hér á blogginu sem hingað til hafa einkennst af bannfærslum, þöggun, undanfærslum og rangfærslum.
PS. Er mitt nafn ekki örugglega ennþá á langa, svarta listanum þínum yfir óvini kristinnar trúar? Er mér ekki enn meinað að setja inn athugasemdir á bloggvef stjórnmálamannsins Jóns Vals sem ætti að standa fyrir opinni og frjálsri umræðu í lýðfrjálsu samfélagi, en heldur frekar úti þöggunar- og bannbloggi eftir forskrift frá Kínverska kommúnistaflokknum?
Óli Jón, 5.5.2014 kl. 10:51
Sé ekki að JVJ sem kristinn maður geti staðið með lýðræði, málfrelsi, það er jú ekkert slíkt að finna í kristni; himnaríki er lýst nokkurn veginn eins og hverju öðru einæðisríki, þar er ekkert málfrelsi.. skilst að sjálfstæð hugsun eigi ekki upp á pallborðið hjá Dear Leader himnaríkis...Hann Guddi Geimeinræðisgaldrakarl klippir allar hugsanir út, eina sem kemst að er: Dear Leader Uber Alles
DoctorE 5.5.2014 kl. 11:25
Það er náttúrulega vont fyrir Sjallaflokk ef hann ætlar að margklofna svona.
Fyrst Viðreisn.
Síðan klýfur þessi armur sig frá.
Sjallaflokkur fer bara að verða í algjörum molum.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.5.2014 kl. 14:29
Þessi eins mannsfurðuflokkur hefur verið til a.m.k. frá maí 2007, ef marka má openbert málgagn hans og hafa, held ég, frá upphafi boðað framboð í þarnæstu kosningum. En vandamálið er að aldrei hefur náðst að manna einn lista hvað þá fleiri. "Almættið" er nú ekki öflugra en þetta.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 5.5.2014 kl. 17:15
Ekki byrjar það vel! Nokkur stór nöfn í íslensku trúarkreðsunni gefa ekki mikið fyrir þetta Guðlega framtak í frétt á visir.is sem hefur yfirskriftina Trúarleiðtogar vantrúaðir á kristilegt framboð.
En máské sannast hið fornkveðna að fall sé fararheill. Ég myndi þó ekki veðja á það!
Áhugavert er að skoða nokkur ummæli sem birtast í greininni:
Svona er þetta þá :)
Óli Jón, 5.5.2014 kl. 17:27
Óli Jón.
Hér sannast máltækið; Ekki rífast við heimskingjann, hann dregur þig niður á sitt vitsmunaplan og vinnur á reynslunni.
Kjartan 6.5.2014 kl. 08:20
Kjartan: Líklega er nokkuð til í því.
Óli Jón, 6.5.2014 kl. 10:13
Má ekki reikna með því að þessi frétt, Alvarlegur kynjahalli innan kirkjunnar, verði Kristilega trúarsambandinu ögrun til aðgerða? Þessum þróttmikla einstaklingi sem að sambandinu stendur hlýtur að renna blóðið til skyldunnar því dagljóst er að konur eiga nákvæmlega sama rétt og karlar til þess að þjóna sem prestar ... eða er það ekki annars?
Óli Jón, 6.5.2014 kl. 12:38
Óli Jón ég sá að þú varst að minnast á Zetuna sem ku vera einkenni Jóns vals. En er þetta bara ekki þá hinn íslenski Zorro. Það er nú ekki leiðum að líkjast. Sennilega á þessi einmenningsflokkur(kannski er þetta samt postularnir 14 eða jólasveinarnir 1 og 13) eftir að vera í fararbroddi fyrir lítilmagnann svo þú ættir kannski að taka manninn í sátt. En Zorro starfaði alltaf einn svo Jón Valur þarf ekkert fleiri.
Jósef Smári Ásmundsson, 6.5.2014 kl. 15:05
Hef nú ekkert verið að fylgjast með þessari umræðu hér síðustu dagana. Miklu áhugaverðari umræða er t.d. hér á Eyjunni á þessum nýliðna fimmtudegi o.áfr.:
eyjan.pressan.is/frettir/2014/05/08/verdur-ekki-truad-ad-kona-gangi-sjalfviljug-til-lids-vid-thennan-hop/ (umræðurnar á eftir grein um Moggapistil Kolbrúnar Bergþórsdóttur).
En það reynist rétt hjá þér, Óli Jón, að Gídeonfélagar hafi sótt um 25.000 króna styrk til Alþingis vegna bókagjafaferða sinna í skólana. Það fylgir hins vegar ekki sögu þinni, hvaða ár þetta hafi verið (sennilega á 20. öld, sýnist mér þó) né hvort þeir fengu styrkinn.
En það er eins gott fyrir þig að geta bent á eitthvað til mótvægis (þótt örlítið væri) gegn öllum þeim milljónatuga styrkjum, sem Samtökin 78 o.fl. samtök og verkefni að þeim málum hafa fengið sl. 15-20 ár (sbr. þessa grein mína 2007). Ég hygg, að þeir styrkir nemi nú samanlagðir (þ.m.t. gjöf hússins á Laugavegi til þeirra) langleiðina í 100 milljónir króna!
Jón Valur Jensson, 9.5.2014 kl. 00:58
Jón Valur: Skiptir máli hvenær þeir sóttu um styrkinni, hvort þeir fengu hann eða þá hvaða upphæð þeir sníktu? Það sem stendur upp úr er að Gídeónið er, eins og öll trúarleg samtök hérlendis, félag sem treysti sér ekki til þess að 'gefa' blessuðum börnunum Nýja testamentið án niðurgreiðslu frá ríkinu. Staðan er því sú að ekki aðeins þarf að sitja um börnin í skólastofum svo þau fáist til þess að móttaka Bláa kverið heldur þarf líka ríkisstuðning til þess arna því ekki hvarflar að neinu foreldri að bera sig sjálft eftir bókinni, hvað þá að borga fyrir hana! Bókapeningum á flestum heimilum er frekar eytt í kómíkblöð um Súperman og Batman. Væri þetta vara á almennum markaði þá væri löngu búið að hætta framleiðslu hennar, en af því að þetta er trúartengt þá gilda aðrar reglur.
Hvað styrkveitingar til Samtakanna 78 varðar þá átt þú stóra sök í því máli. Ef ekki væri fyrir það eitraða fordæmingarraus sem kemur úr þínum meinta gagnkynhneigða og ofsatrúaða ranni þá væri ekki þörf fyrir sérstaka fræðslu um að samkynhneigð og samkynhneigðir eigi sinn sjálfsagða rétt í samfélaginu eins og hvert annað almennilegt fólk. Ef ekki væri fyrir þráhyggjukenndar ofsóknir þínar á hendur samkynhneigðra, í hverjum þú skirrist t.d. ekki við að tengja kynhneigð þeirra beint við barnagirnd, þá myndi það veikgeðja fólk sem fylgir þér að málum í þessum efnum ekki fá þessar undarlegu flugur í höfuðið. Það má því segja að styrkveitingar til Samtakanna 78 séu aðeins skaðabætur og fórnarkostnaður þjóðfélagsins fyrir að umbera þau hatursfullu og fornaldarlegu, en sannkristnu, viðhorf sem þú og skoðanasystkin þín spýið allt í kringum ykkur.
Svo er holur hljómur í pípinu frá þér þegar þú talar um gjafafé til húsnæðismála Samtakanna 78 því í það minnsta er að finna líf og fjör í því húsi ólíkt flest öllum þeim kirkjum sem finna má hérlendis. Hálftómar standa þær hlið við hlið út um allt land, 1-2 í hverju póstnúmeri (liggur við), en það nægir ekki til þess að fólkið nenni.
En burtséð frá öllu þessu þá ætti þessi grein Kolbrúnar ásamt öllum þeim fjölda greina sem birst hafa undanfarið að hafa leitt þér það fyrir sjónir að engin, alls engin, eftirspurn er eftir framlagi Kristilega trúarsamlagsins. Þvert á móti hefur tilkynningin um þetta klak ekki uppskorið neitt nema andúð, fordæmingu og hræðslu. Að sögn ku fjórtán manna hópur standa að þessu brölti, en dagljóst er að þetta er bara enn einn vettvangurinn fyrir þig að láta ljós þitt skína. Þú virðist hafa mikla þörf fyrir það því þú heldur að lágmarki úti 7 bloggsvæðum og er krist.blog.is aðeins eitt af þeim þar sem þú átt um 92% allra innleggja þegar nafnlausu innleggin eru eignuð þér.
Hættu því öllu pípi um hin sómakæru Samtökin 78 og líttu frekar í eigin barm. Hafðu viðbrögð undanfarinna daga til hliðsjónar þegar þú metur gildi þess sem þú stendur fyrir þegar þjóðin öll virðist umsvifalaust hafna tilboði þínu með hálfgerðum hryllingi.
PS. Svona fyrir forvitnis sakir:
Áhugavert væri að fá svör við þessum einföldu spurningum því þau myndu gefa vísbendingu um hversu víðtækt húsbóndavald þitt er innan bandalags Krossmanna Guðs.
Óli Jón, 9.5.2014 kl. 15:16
Jón Valur: Áhugavert er að sjá hve mikla ímugust þú virðist hafa á samkynhneigðum sem sýnir sig m.a. í því að þú heldur úti viðamiklum efnisflokki á 1/7 bloggsvæða þinna sem ber yfirskriftina Samkynhneigð og þau mál þar sem þú hefur m.a. beintengt samkynhneigð við barnagirnd. Það er ekki nema von að Þjóðlega kristniboðssambandinu, sem nýverið kynnti framboð sitt til kosninga eftir 15 ár, sé mikið mál þegar kemur að þessum hópi fólks í þjóðfélaginu okkar.
Þú birtir í dag grein með yfirskriftinni Misskipting þar sem þú mæðist yfir því að gott fólk skuli styðja við málstað samkynhneigða sem eiga undir högg að sækja, einmitt vegna fordóma, andúðar og áróðurs fólks eins og þín. Í greininni barmar þú þér yfir því að þeim fjármunum sem fara í þessar aðgerðir skuli ekki renna til fátækra og er það í sjálfu sér góð spurning.
Þess vegna er gott að rifja upp að þú hafðir ekkert slæmt um 500 milljóna óráðsíu að segja árið 2009 þegar gert var við himnaspíruna á Hallgrímshæð, en hafðir allt á hornum þér varðandi 12 milljóna króna framlag Reykjavíkurborgar til eins gleðilegasta og flottasta viðburðar ársins hér í borg, Gleðigöngunnar og Hinsegin daga. Ekki lá þér á að benda á að þessi hálfi milljarður gæti vel gagnast fátækum og svöngum, en líkega trúir þú að heimsókn í uppgerða kirkju sé á við vambarfylli af feitu keti.
Þessi meinta hugulsemi þín í garð fátæks fólks er því býsna samhengisháð. Þú grætur 12 milljónir sem fara fram hjá fátækum til samkynhneigðra, en segir ekkert um 500 milljónir sem fara fram hjá þeim og í steypuvinnu.
Er það ekki svolítið kaþólskt?
Óli Jón, 14.5.2014 kl. 15:42
Er fyrst nú að líta hér inn aftur og mun svara andmælum Óla Jóns, en ekki nú á 4. tíma nætur.
Jón Valur Jensson, 20.5.2014 kl. 03:07
Jón Valur: Já, við vitum öll að svona loforð frá þér um svör eru gulls ígildi og hafa ætíð staðið óbrigðullega áður :)
En það verður gaman að sjá frá þér svör um bannlista Kristilegu þjóðræknisfylkingarinnar annars vegar og aðal vefjar þíns hins vegar. Eitthvað segir mér að þeir séu keimlíkir, en auðvitað er það bara Guðleg tilviljun ein.
Óli Jón, 20.5.2014 kl. 11:26
Núna SEX vikum eftir feitar yfirlýsingar bólar ekkert á auglýstum andsvörum Jóns Vals. Engan skal undra það enda maðurinn markleysan uppmáluð!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 29.6.2014 kl. 18:32
Líklega duga Jóni Val ekki tæpir þrír mánuðir til þess að svara :) ætli hann þurfi ekki aðra þrjá til viðbótar sem munu þó ekki duga heldur.
Óli Jón, 14.8.2014 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.