Miðvikudagur, 29. maí 2013
Hækkum fermingaraldurinn, það segir kaþólskur prestur!
Ég get ekki annað en tekið undir með Paddy Byrne, nafntoguðum kaþólskum presti í Írlandi, þegar hann segir að ráð sé að seinka fermingunni fram á fullorðinsárin. Aðal ástæðuna segir hann vera þrýsting á fjölskyldur sem hneigjast ekki að trú að fara í gegnum þetta ferli.
Byrne tiltekur að þróunin í Suður-Ameríku sé sú að verið sé að seinka trúarlegum stiklum eins og fermingu til þess að viðtakendur hafi upplýstara og betra val og lætur að því liggja að börn á hefðbundnum fermingaraldri séu ekki í stakk búin til þess að taka sjálfstæða og upplýsta afstöðu til fermingarinnar.
Áhugavert er að sjá að Byrne segir að það ýti mikið undir þetta að 85% barna skili sér ekki aftur í kirkju eftir fyrstu altarisgönguna sem væntanlega er vegna þess að þau hafa ekki áhuga á kirkjunni og því sem hún býður. Þá nefnir hann sem dæmi um trúarhita nútímamannsins að meirihluti foreldra sem væflast þó í kirkju óski þess helst að þar sé þráðlaust netsamband svo þeir geti skoðað Facebook.
Er þetta ekki nokkuð sem trúfélög hérlendis ættu að skoða í stað þess að hella allt of ungum börnum í gegnum fermingartrektina? Ljóst er að börnin geta ekki tekið sjálfstæða ákvörðun um þetta mál og því er undarlegt að ekki megi bíða þar til þau eru orðin lágmark 18 ára svo valið verði raunverulega þeirra. Það er rétt að enda þennan pistil á orðum Byrn þar sem hann segir:
It's time for a wake-up call, to be pragmatic and honest in changing the way we do our business.
Amen!
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Ferming er ekki kristilegur siður. Hún var ekki til í frumkirkjunni og líkist í engu sambærilegu athöfnum hjá Hebreum heldur og kemur því ekki þaðan og tengist ekki Kristi á nokkurn hátt. Ekki heldur líkist hún heiðnum manndómsathöfnum. Mannfræðilega séð má tala um hana sem staðgengil alvöru manndómsvígslu, án þeirra kosta sem slík manndómsvígsla hefur verið ungmennið. Í alvöru manndómsvígslu, eins og tíðkaðist hjá forfeðrum okkar og tíðkast enn víða, þurfti ungmennið að horfast í augu við alvarleika lífsins til að verða tekið í fullorðinna manna tölu. Slíkt á ekkert sameiginlegt með því að fá ofgnótt gjafa eftir að hafa hlustað á prest nokkur kvöld og lesið agnarlítinn bækling. Fáránlegast er samt að trúleysingjafélög skuli apa upp þessa útþynntu siði eftir þeim og hermikrákufélagið Siðmennt stundi trúleysis-fermingar. Því færri sem fermast yfirhöfuð, því betra. Ferming er algjörlega óþörf, sama hverju þú trúir. Á Kristindóm, á Heiðindóm eða aðeins á mögulegt mannvísindalegt gildi manndómsvígslu af einhverju tagi. Fermingin er hvorki kristin, heiðin, né tekur neinn í fullorðinnamannatölu, í barnapíusamfélaginu þar sem færri og færri verða nokkurn tíman fullorðnir yfirhöfuð og ofvöxnum smábörnum fjölgar sífellt.
T 21.9.2013 kl. 03:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.