Mánudagur, 12. desember 2011
Færri börn í kirkjum, en fleiri fullorðnir með þeim ...
Dregið hefur úr heimsóknum í kirkjur borgarinnar þegar eðlilegar og sanngjarnar reglur hafa verið settar um aðkomu trúar í leik- og grunnskólum. Nú þykir ekki alveg sjálfsagt að skólarnir sturti krökkunum umorðalaust inn í kirkjur borgarinnar eins og Aðalkirkjuklerkur virðist vilja, heldur nýta þeir tímann í desember til þess að einbeita sér að hefðbundnum lærdómi og svo undirbúningi fyrir jólin í bland.
En Aðalkirkjuklerkur hittir naglann á höfuðið í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 þegar hann segir:
"Þá er svarið það að það er töluvert fleiri fólk sem kemur í barnamessurnar með börnin sín ..."
Þarna lýsir presturinn í Aðalkirkjunni hvernig trúaðir foreldrar taka á þessu máli, en þeir sjálfir flykkst í kirkjur með börnum sínum. Þarna sannast mál mitt og annarra í gegnum tíðina að trúaðir myndu sjálfir sjá um trúarlegt uppeldi barna sinna þegar á reyndi og er það ekki gleðilegri ráðstöfun* en vélræn færibandaafgreiðsla skólanna í gegnum tíðina? Þannig virðast nýjar reglur Reykjavíkurborgar vera að koma út á besta veg fyrir allmarga. Fyrir kirkjuna táknar þetta færri börn, en fleiri fullorðna.
Þó er ákveðinn hópur vesalings fólks sem tapar á þessu og það eru þeir 'trúuðu' foreldrar sem eru þó ekki nógu mikið trúaðir til þess að nenna að fara í kirkju með börnin sín. En eru það ekki bara sauðirnir sem hvort sem er voru og eru einskís virði? Hagstofutrúað fólk sem telur sig kristið og hreykir sér af því á sunnudögum í sófanum heima eða í bloggfærslum, en nennir svo ekki að lufsast í kirkju með börnin sín á meðan það telur t.d. ekki eftir sér að bregða sér í bíó eða á pöbbinn? Ég tel að þessi síun sé bara góð fyrir kirkjuna því nú má greina þá sem eru 'alvöru' trúaðir með kirkjusókn.
Loks er áhugavert að sjá hversu auðvelt það reynist Aðalkirkjuklerki að brigsla skólafólki um dómgreindarbrest þegar það dansar ekki í takt við hans tónlist. Lesa má úr orðum prests að hann telji stjórnendur skóla vitgranna vitleysingja sem geti ómögulega haft sjálfstæða skoðun í þessu máli. Sumir gætu kallað þetta hroka, en ég læt það vera og kenni því um að klerkur sé hálf smeykur við þessa vakningarbylgju sem bersýnilega kemur við kaunin á honum.
* Þetta breytir reyndar ekki þeirri skoðun minni að rangt sé að innræta ungum börnum trú, en foreldrar hafa vissulega til þess fullt og óskorað leyfi.
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Meirihlutinn er aldrei réttlætanlegur í að bora sínum einkamálum/trúmálum yfir minnihlutann... Þetta vita allir; Nema kannski trúaðir þegar þeirra eigin trú á í hlut.
En þarna voru ~38% á móti, sem er afgerandi í því að afnema þetta trúarstúss... Það þyrfti 100% samþykki landsmanna til þess að gefa trúarhóp X aðgengi að börnum.
Og svo verða krissar að athuga það að ef þeim er leyft að tröllast yfir börnum, þá mega aðrir gera það líka, þar með talið íslam.
So, það er hagur allra að foreldrar sjái algerlega um trúaruppeldi barna sinna.. allt annað er fáránlegt.
DoctorE 12.12.2011 kl. 15:11
Tókstu eftir því að á sama tíma og uppþotinu um Bjarna Randver og Vantrú var hleypt af stokkunum var samhliða farið í skoðanakönnun um það hvort kirkjan ætti að fá aðgang að skólum.
Þrátt fyrir það skildi aðeins um 1% á milli, en sá meirihluti vildi opinn aðgang. Þetta er alveg ótrúlega ógeðfelld vinnubrögð sem kirkjan er farin að beita. Spunafyrirtækin komu þessari herferð af stað bara til að ná út hagfelldri niðurstöðu í þessari skoðanakönnun. Það tókst þó ekki betur en þetta.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.12.2011 kl. 15:31
Þess er ekki langt að bíða þar til þessi prestur eða annar álíka drón skrifar grein þar sem kristnum og kirkjunnar mönnum er þakkaður sá árangur að börn fái nú að iðka trú sína með foreldrum sínum í stað þess sem áður var, þegar skólinn sá um þetta í óþökk trúaðra foreldra.
Annars fór ég í kirkju í dag ásamt börnum mínum og skólafélögum þeirra þar sem prestur fór snyrtilega í kringum það að ekki megi segja börnum að biðja bænir. Nú var hópþrýstingi beitt í stað beinna skipanna en brotaviljinn var vissulega jafn einbeittur og áður.
Björn I 12.12.2011 kl. 15:37
Jón Steinar: Þetta er reyndar afar gott tvist í þessu máli sem ég hafði ekki séð. Burtséð frá tilurð könnunarinnar þá sýnir hún að í það minnsta eru 40% þjóðarinnar á móti afskiptum kirkjunnar af leik- og grunnskólabörnum; það hlutfall er líklega mun hærra í venjulegu árferði. Slíkt er ekki hægt að hunsa, jafnvel þótt fólk gangi með Guð sér við hlið.
Björn: Ég bíð eftir þessari grein með öndina í hálsinum :) Hvað varðar heimsóknina, þá verður að virða prestum það til vorkunnar að þeir eru fulltrúar hinnar boðandi kirkju og sem slíkum ber þeim að leggja inn trú hjá öllum sem á vegi þeirra verða. Skólabörn í kirkjuferðum eru veiði rétt upp við landsteina í því tilfelli.
Óli Jón, 12.12.2011 kl. 15:55
Það er ábyggilega hreinasta tilviljun að Óli Stephensen & Co geri skoðanakönnun um þetta akkúrat núna í miðri aðventu, þegar Hagstofukristnum finnst einmitt voða kósí að börnin fari í kirkju og heyri um Jesú og jólasveinana.
Hér rakst ég á Framhaldsskoðanakönnun.
Skeggi Skaftason, 13.12.2011 kl. 14:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.