Þriðjudagur, 18. október 2011
Sóknarnefnd íhugar að kæra Reykjavíkurborg
Í viðtali við nefndarmann í sóknarnefnd Grafarvogskirkju í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að nefndin ætli að leggja fram stjórnsýslukæru á hendur Reykjavíkurborg vegna nýlegrar ákvörðunar um að greina á milli trúarlífs og almenns skólastarfs í leik- og grunnskólum borgarinnar.
Þessi ágæti maður barmaði sér yfir þessu, enda veit hann sem er að á undanförnum áratug, og jafnvel lengur, hefur fjarað hratt undan kristinni trú. Þá er ég ekki að tala um að þjóðin sé að afkristnast heldur er að koma í ljós að þjóðin hefur aldrei verið almennilega kristin því henni hefur aldrei verið gefið færi á því. Það hefur nefnilega verið svo um hnúta búið í langan tíma að þjóðin hefur ekki haft frjálst val þegar kemur að kristinni trú. Þetta er hægt að rekja í nokkrum megin atriðum:
Þjóðin er, með ofbeldi og yfirgangi, neydd til þess að taka kristni árið 1000. Þannig eru nær allir Íslendingar taldir kristinnar trúar frá upphafi, en það var öðru nær.
Kristin kirkja ríkti hér með ægivaldi í gegnum aldirnar og sölsaði m.a. undir sig eignir og varð ótrúlega valdamikil í gegnum undirlægjuhátt íslenskrar þjóðar gagnvart henni.
Á vorum tímum hefur staða kirkjunnar verið svo treyst með m.a. eftirfarandi ráðstöfunum:
- Börn eru við fæðingu skráð í trúfélag móður (sem venjulega var skráð í Ríkiskirkjuna). Þetta hefur ekkert að gera með trú þessara nýfæddu barna, þarna er bara verið að raða framtíðar greiðendum sóknargjalda á garðann. Það er máské plús ef börnin taka trúna í alvöru seinna meir, en það skiptir í raun ekki máli.
- Ríkiskirkjan fékk greiðan aðgang að leik- og grunnskólabörnum þar sem hún lagði inn sk. 'barnatrú'.
- Nær undantekningarlaust var öllum börnum sópað, í skólatíma, í gegnum fermingarferlið og með því 'staðfest' að þau væri sannkristin. Allar gjafirnar höfðu auðvitað aldrei nein áhrif á börnin.
- Félagsgjöld í Ríkiskirkjuna (og önnur trúfélög) hafa verið innheimt í gegnum skattkerfið þótt það sé undarlegt til þess að hugsa að stærsti félagsskapur á Íslandi skuli ekki treysta sér til þess að sjá um þá innheimtu sjálfur, en svarið er auðvitað það að það var vitað frá byrjun að einungis örfáir myndu borga félagsgjöld í Ríkiskirkjuna sjálfviljugir (sjá bréf frá biskupnum sjálfum).
Ef Höttur á Egilsstöðum fengi sömu meðgjöf og Ríkiskirkjan fær, þá væri það langstærsta fótboltafélag landsins á pappírunum. Hins vegar væru laumu KR-ingar og Framarar út um allt, en mest þó fólk sem engan áhuga hefði á fótbolta :)
En svona hafa þjónar kirkjunnar vanist því að vera í sjálftökustöðu og þeirri hugsun að þeim beri allt. Í raun er þeim bara vorkunn, greyjunum, því þeir eru í raun eins og geirfuglar eftir aldalangt uppihald á kostnað þjóðarinnar.
Nú víkur því hins vegar við að þessari ömurlegu sjálftökustöðu er ógnað. Ég get vel sett mig í spor agenta Ríkiskirkjunnar þegar þeir horfa fram á eftirfarandi hamfarir:
Nýfædd börn verða ekki skráð sjálfkrafa í trúfélög. Verði þessar áætlanir innanríkisráðherra að veruleika, verður grunninum kippt undan ömurlegri tölfræði sem Ríkiskirkjan hefur grímulaust notað í gegnum tíðina eins og hækju. Í áðurnefndu viðtali sagði sóknarnefndarmaðurinn t.d. að 90% barna væru í Ríkiskirkjunni. Það er ósatt á tvo vegu. Fyrir það fyrsta eru 79% barna skráð í Ríkiskirkjuna skv. tölum Hagstofu og risastór meirihluti þeirrar skráningar er vegna vélrænnar jötuskráningar ríkisins. Það er því vottur um mikið metnaðarleysi hjá Ríkiskristnum að hampa þessari tölu.
Kirkjan á ekki greiðan aðgang að leik- og grunnskólabörnum fyrir trúboð sitt. Lengi býr að fyrstu gerð og það veit Ríkiskirkjan. Ef það næst að leggja 'barnatrúna' inn hjá litlum börnum, þá lifir hún sterkt með þeim. Þetta þekki ég sjálfur því ég var illa haldinn af barnatrúarvírusnum í langan tíma. Það er nefnilega afar áhrifaríkt þegar litlum leikskólabörnum er sagt að Jesús sé besti vinur barnanna. Af hverju ættu þau að rengja það? Hressi presturinn í skólanum sagði þeim það og þau eiga að trúa öllu sem haft er fyrir þeim í skólanum.
Syndir kirkjunnar eru nú miskunnarlaust bornar á torg. Hver ömurleg fréttin upp af annarri úr ranni kirkjunnar rekur nú aðra og svo hefur verið lengi. Þessi meinti handhafi og verndari almenns og góðs siðferðis stendur ekki sjálfur undir þeim kröfum sem hann gerir til annarra. Hvers er þá að vænta?
Íslenska þjóðin treystir ekki Ríkiskirkjunni. Aðeins 29% þjóðarinnar sögðu bera yfir meðallagi traust til kirkjunnar og þar af lítil 5% sem bera til hennar fullkomið traust. Aðeins 19% segja vera ánægð með störf núverandi biskups, en það er reyndar annað mál. Þessar tölur lýsa ekki þeirri meintu undirstöðu íslensks samfélags sem Ríkiskirkjan er sögð vera. Þær lýsa mun frekar stofnun sem veldur úlfúð og sundurþykkju í samfélaginu og sundrar þjóðinni frekar en hitt. Þær lýsa stofnun hverra innviðir eru fúnir og feysknir. Og ef rýnt er í tölurnar sést að það er eldra fólkið sem helst treystir kirkjunni, fólkið sem er verst haldið af barnatrúarvírusnum, yngra fólkinu stendur meira á sama.
Þjóðin vill aðskilnað ríkis og Ríkiskirkju. Skv. Þjóðarpúlsi Capacent-Gallup vilja 3/4 Íslendinga að skilið verði á milli ríkis og kirkju. Þetta er auðvitað ömurleg staða fyrir stofnun sem hefur byggt alla sína tilveru á því að vera í öndunarvél hjá ríkisvaldinu. Hvernig er hægt að ætlast til þess að svona stofnun geti plumað sig á eigin forsendum? Þetta vita forstjórar Ríkiskirkjunnar og þetta hræðast þeir ósegjanlega mikið.
Þetta er ekki fögur upptalning ef þú ert agent Ríkiskirkjunnar. Hins vegar er þetta nokkuð rétt lýsing á stöðunni hjá þjóð sem er að vakna af trúardoðanum og byrjuð að taka sjálfstæða afstöðu til trúar. Þjóðar sem ekki lætur sér lengur það að góðu verða sem að henni var rétt þegar hún var í leikskóla.
Það eru spennandi tímar í hönd. Ríkiskirkjan mun minnka til mikilla muna, en hún mun síður en svo hverfa því þrátt fyrir allt er töluverður fjöldi Íslendinga sem telur sig eiga samleið með henni (þótt Ríkiskirkjan sjálf trúi því ekki). Aðrir Íslendingar munu binda trúss sitt við önnur trúfélög, sem er alveg ágætt. En sá hluti þjóðarinnar sem opinberlega verður talinn sem vantrúaður eða trúlaus mun stækka óðfluga. Röng tölfræði Hagstofunnar verður leiðrétt og allir munu vel við una :)
Amen.
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Þeir einu á íslandi sem kannski væri hægt að segja kristna, það er pakkið á Omega og svo trúarforkólfar.
Aðrir eru bara svona "kúltúr" kristnir.. á þá leið að láta skíra/ferma og svona; Menn gera þetta vegna gjafa, fyrir ömmu og afa.
Það eru ekki margir að fara í þetta með því hugarfari að kristni sé sönn.. enda vita fæstir kúltúr krissar nægilega mikið um kristni til að taka einfaldasta próf.
Menn eiga ekkert að vera að láta ömmu/mömmu ráða því hvort menn eru skráðir í trú X; Ég er búinn að fara í gegnum trúarpakkann með minni fjölskyldu, mamma alveg steinhissa á að hún hafi trúað á Jesú.. eftir að ég fór að segja henni hvað biblían segði: Mamma alveg: Hvaða vitleysa er þetta, þetta stendur ekki neitt í biblíu.. svo sýni ég henni. Hún er samt smá að halda í að það sé einhver Guddi þarna úti.. bara ekki sá sem var forritaður í huga hennar þegar hún var barn.
Hætta svo, allir að skrá sig út; Sérstaklega prestar, sýnið af ykkur manndóm og hættið þessari bölvuðu vitleysu, já ég sagði vitleysu:
DoctorE 18.10.2011 kl. 14:21
Mikið innilega er ég sammála.
Púkinn, 18.10.2011 kl. 14:44
Ég setti inn hneykslunarsvar til Snorra Óskarssonar eða heitir hann Óskar Snorrason hvítasunnuprest, þar sem hann er að leggja upp með að einn ísraeli sé jafngildur 1000 palestínumönnum. Það var strikað út. Það hafa fleiri "andans" menn strikað út það sem ég svara ekki í þeirra anda. Þessir menn eru gjörsamlega óhæfir til að taka þátt í umræðum, ef það er ekki einhver halelújasvarasamkunda þá er það strikað út. Slíkt er umburðarlyndið og sannleikurinn sem þeir eru að heykja sér af ofan af prédikunarstólnum. Þvílíkt and. pakk. Segi og skrifa.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.10.2011 kl. 21:37
Já góða Ásthildur, við mætum ýmsu ef skrifum um trú,en mér finnst hverskonar öfgar óþolandi.Svo er miklu betra að tala um hana en skrifa,það þarf svo oft að staldra við, fá skýringar. M.b.K.v.
Helga Kristjánsdóttir, 19.10.2011 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.