Þriðjudagur, 15. mars 2011
Tapararnir í Stjórnlagaþingskosningunni
Mér finnst óhemju skondið að fylgjast með málflutningi örfárra þeirra sem töpuðu í kosningu til Stjórnlagaþings. Daginn eftir að þjóðin hafnaði þessum einstaklingum, yfirleitt með afar afgerandi hætti, byrjuðu þeir að gera lítið úr Stjórnlagaþingi og voru svo ekki lengi að hoppa á Hæstaréttarskútuna og eru nú sammála því að kosningarnar hafi verið svo ólöglegar og svo bjagaðar að við ættum helst að leita ráðgjafar hjá gömlum austantjaldsþjóðum í þeim efnum í framtíðinni. Þetta er einstaklega kjánalegt og barnalegt.
Ég get vel skilið að það hafi verið sárt að vera hafnað, en þetta er bara kjánalegt og viðkomandi aðilum til hraklegrar minnkunar. Jafnið ykkur og snúið ykkur að verðugri málum!
Sjálfur vona ég að Stjórnlagaráð muni koma saman hið fyrsta og samþykkja að aðskilja skuli ríki og Ríkiskirkju hið snarasta, en það samband er grasserandi mein í samfélagi okkar.
Og svo mörg voru þau orð!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sem einn af "tapurunum" get ég ekki orða bundist um að það er ekki sárt að tapa í svona kosningu miðað við það að átta sig á að Ísland er bananalýðveldi, þar sem framkvæmdavaldið tekur mark á dómsvaldinu ef dómsvaldinu þóknast að gera eins og framkvæmdavaldið ætlast til.
Við skulum bara leggja niður dómsvaldið, það sparar óhemju pening og gerir framkvæmdavaldinu léttara um vik. Það er ekki gott til þess að vita að siðvæðing Íslands byggi á þessum grunni.
En það er gott að slíkur fjöldi snillinga skuli þrífast hér á landi, sem veit betur en þeir 6 Hæstaréttardómarar sem felldu samhljóða úrskurð um að kosningin hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem tilgreind eru í lögum. Svo velstödd þjóð þarf ekki endilega á löglærðum dómurum að halda.
Ég sé ekki af hverju er ekki hægt, ef Stjórnlagaþingið er svo aðkallandi að kjósa um það aftur, sem allra fyrst þannig að ekki þurfi að sniðganga æðsta dóm landsins. Ég á von á að stór hluti kjósenda taki sömu afstöðu og ég ef til kosninga kemur og kjósi ekki þá sem lýst hafa yfir að þeir séu á sama máli og Jóhanna Sigurðardóttir, og telji úrskurð Hæstaréttar ekki marktækan.
Kjartan Sigurgeirsson, 15.3.2011 kl. 16:39
Einn þeirra sem laut í lægra haldi í stjórnlagaþingkosningunum hefur farið mikinn eftir að úrslit urðu ljós, á bloggum sínum vítt og breytt um bloggheima, sem og í pistlum á Útvarpi Sögu. Og þá ekki hvað síst í innhringi tímum á þeirri stöð hefur hann útlistað fáránleika kosningakerfisins, sem hann þó gekkst inná og samþykkti þegar hann bauð sig fram.
Þá hefur hann ekki hvað síst farið hart gegn þeim björgunaraðgerðum sem íhugaðar hafa verið til bjargar klúðrinu. Ég tel að lagasetning um að þeir sem kosningu hlutu til stjórnlagaþings verði skipaðir til sama hlutverks með lögum sé lögleg en best hefði samt verið að endurtaka kosninguna.
Þá hefði vini okkar, sem viðurkenndi nauðbeygður að hafa ekki skilið kosningareglunar betur en svo að hann setti sjálfan sig í annað sætið á sínum seðli og útilokaði þannig möguleika sinn til kjörs, fengið tækifæri að "leiðrétta" kjörseðilinn.
En ég er hinsvegar ekki í minnsta vafa, að hefði Jón Valur Jensson náð kjöri til stjórnlagaþinga hefði hann talið allar tilraunir til að hindra að sú kosning stæði, vera verk hins illa.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 16.3.2011 kl. 21:16
Í raun skiptir engu máli hvað mönnum finnst um dóm hæstaréttar. Hæstiréttur dæmdi eins og hann dæmdi og ef framkvæmdavaldið er ekki tilbúið að hlíta þeim dómi þá hlýtur það að bera vott um valdníðslu og hroka af þess hálfu, eða hvað?
Eða er þrískipting valdsins bara ómarktækt orðagjálfur, sem hægt er að skreyta sig með á tyllidögum?
Að vísu er aðeins um tvískiptingu valdsins að ræða í dag - ef þá það. En á meðan dómsvaldið dæmir gegn framkvæmda- og löggjafarvaldinu í einhverjum málum, þá eygir maður örlitla von um að einhverskonar skipting sé til staðar, í það minnsta.
Menn mega svo rífast út í hið óendanlega um það hve umræddur dómur sé réttur eða rangur - svo lengi sem menn fara samt eftir honum.
Davíð Oddsson, 22.3.2011 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.