Laugardagur, 21. ágúst 2010
Um skriftir
Nokkur umræða er nú um skriftir og vægi þeirra. Allur meginþorri almennings telur að heill barna eigi að hafa forgang umfram trúnaðarskyldu presta við sóknarbörn sín meðan nokkur ólíkindatól vilja að sakbitnir misyndismenn njóti fulls trúnaðar. Forstöðumaður Kaþólska þjóðarflokksins skrifar t.d. pistil í dag á bloggsvæði flokksins þar sem hann tekur undir þau orð Geirs Waage að glæpamenn eigi að njóta fulls trúnaðar óháð því hverjar syndir þeirra eru.
Það leiðir mig hins vegar að því að íhuga hvaða gildi skriftir (eða játning gagnvart sálusorgara) hafa í dag. Í mínum huga eru skriftir hálfgerður óskapnaður sem komið var á laggirnar til þess eins að auka vægi og ítök presta í lífum sóknarbarna sinna. Ef sakbitinn einstaklingur kemur til prests á auðvitað að hvetja viðkomandi að fara til lögreglu og játa þar misgjörðir sínar fyrir veraldlegu valdi í stað þess að leggjast flatur fyrir presti sem í raun gefur viðkomandi upp sakir gegn því að hann iðrist. Nei, kirkjan vill síður að þessi glæpamaður neyðist til að fara til lögreglu og því hefur hann þennan góða kost sem hann getur valið í staðinn, kost sem er Guði í raun betur þóknanlegur en veraldlegt réttlæti.
Hver sem er getur gert sér upp iðrun, sé hann nógu sakbitinn og því hef ég trú á því að margir ótíndir glæpamenn hafi gengið keikir frá fundum sínum með prestum í gegnum þar sem þeir röktu syndaregistu sína og fengu aflausn í staðinn. Prestur á ekki að dæma í veraldlegum málum; hann á að koma allri vitneskju um saknæmt athæfi til veraldlegra yfirvalda.
Með því að hylma yfir með glæpamönnum og sparsla í brotna samvisku þeirra er kirkjan að setja sig ofar landslögum. Hún setur einn mann í sæti dómara og böðuls þar sem presturinn leggur línurnar fyrir glæpamanninn svo samviska hans geti orðið hrein og tær að nýju.
Kirkjan hefur þannig engan rétt til þess að bjóða glæpamönnum upp á valkost við veraldlega réttvísi, en í dag bjóðast 'sannkristnum' glæpamönnum tveir kostir:
- farðu til lögreglu, játaðu og taktu út veraldlega refsingu gagnvart allra augum (sekt og/eða fangelsi)
- farðu í leyni til prests, játaðu í leyni gagnvart einum manni og taktu út þá leynilegu refsingu sem þú velur þér sjálfur (bænabeiðsla og/eða flengingar?)
Er þetta ekki dásamlegur valkostur fyrir 'sannkristna' glæpamenn? Iðrast pínulítið, biðja ögn og jafnvel flengja sjálfan sig ... og þú kemur út eins og nýhreinsaður hundur, klár í leðjuslaginn að nýju?
Í raun má segja að það sé helber dónaskapur við réttlætiskennd þjóðar að þessi seinni valkostur skuli vera í boði. En þetta hentar kristinni kirkju prýðilega, að því er virðist, enda býður hún þennan kost áfram, 'sannkristnum' glæpamönnum landsins til þæginda og hægðarauka.
Þagnarskyldan er algjör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkar: Löggæsla, Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir frábæra lesningu. Hverju orði sannara og þjóðkirkjunni til skammar.
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 21.8.2010 kl. 21:47
Smá tengt, ég minnist þess alltaf þegar Árni Jonhsen stóð í pontu með biblíu og lofsamaði handþvottakennslu hennar.... gott að getað haft hreinar hendur eftir að bera óhreinan varning og svona...
Ef mönnum finnst þeir extra skítugir þá er fátt betra en að tala einfaldlega við gaura í grímubúningum.. fá sakaruppgjöf frá master of the universe; Samviskan nagar mann víst ekkert eftir slíktan gjörning.
DoctorE 21.8.2010 kl. 23:34
Brynja 21.8.2010 kl. 23:38
Anna Dóra: Takk kærlega :)
Brynja: Geðlæknar hafa auðvitað ríkar skyldur gagnvart sínum skjólstæðingum sem fagmenn, en þeir bjóða ekki upp á syndaaflausn eins og prestar getað boðið. Hins vegar þekki ég ekki vel samband geðlækna við skjólstæðinga þeirra svo ég get illa tjáð mig um það, því miður.
Hins vegar tel ég að sambands prests og syndasels sé býsna óeðlilegt þegar það innifelur möguleika á því að syndaselurinn geti fengið aflausn synda sinna með því að iðrast því það getur hann svo sannarlega ekki. Áður en hann stendur Guði skil gjörða sinna þarf hann að standa skil á því sem hann skuldar þjóðfélaginu. Þar liggur skuldin, ekki hjá Guði, og þar er hún gerð upp :)
Óli Jón, 21.8.2010 kl. 23:52
Taktu þessa Prozac töflu því hún er fóturinn á föður geðlækninga.... Segðu svo Geðlæknafélag íslands rúlar 10 sinnum.. og þú ert laus allra mála.
DoctorE 22.8.2010 kl. 00:17
Mér þykir þú nú grófur að setja alla kristna svona í einn flokk. Og þessi flokkur virðist nú vera flokkur kaþólikka sem eru þó ekki svo margir hér á landi.
Það er ekki þörf á neinum presti til þess að fá fyrirgefningu frá Guði fyrir kristinn mann. Enda dó Jesús m.a. til þess að ekki þyrfti lengur prest til að sinna prestsþjónustu. Í framhaldi kallaði Páll postuli alla kristna menn og konur heilagt prestafélag.
Í þeim skilningi eru allir kristnir prestar.
Það geta því allir sem iðrast fengið fyrirgefningu, hvort sem það er fyrir framan prest eða bara heima í stofu.
Ég held nú að sá maður sem fer að segja presti frá svona málum sé ekki endilega að reyna að fá fyrirgefningu, heldur að létta af hjarta sínu. Ég held ekki heldur að slíkur maður fari svo heim og láti eins og ekkert hafi gerst af því hann hefur spjallað við prestinn.
Þó ég sé sjálfur á þeirri skoðun að prestur þurfi að segja yfirvöldum frá slíku þá skil ég vel afstöðu þeirra presta sem telja það ekki vera rétt. Það er nokkuð ljóst að enginn fer að segja presti frá syndum sínum ef hann veit að hann segir löggunni svo allt. En ef trúnaður prestsins er pottþéttur þá gætu glæpamenn viljað létta af sér við prestinn og presturinn haft hvetjandi áhrif á hann að gera það rétta.
Erfið staða...
Andri 22.8.2010 kl. 00:27
Andri: Þú segir:
Og hvað með það? Ef þessi möguleiki væri ekki til staðar þá myndu líklega fleiri snúa sér beint til veraldlegra yfirvalda og fá sektarkennd sinni útrás þar, ef þeir iðrast gerða sinna í raun og veru. Ég gef því ekki mikið fyrir þetta samband prests og stigamanns. Það þjónar engum nema þeim tveimur.
Hvað varðar að setja alla kristna í einn flokk, þá er ég saklaus af því :) og hvað þá að setja þá í Kaþólska þjóðarflokkinn því hann telur bara forsvarsmanninn og tólf postula (þó ekki alvöru postula, reyndar, því það eru konur þarna innanborðs líka).
Óli Jón, 22.8.2010 kl. 00:35
Þetta er erfitt og vægast sagt ömurlegt mál en að sama skapi lýsir það barnslegri einfeldni þegar skoðun eins prests af færð upp á hina rúmlega 130 presta sem starfa hérlendis og erlendis.
Svo það sé á hreinu þá er það mín skoðun að ef prestur verður þess var að hann fái í hendurnar upplýsingar um ofbeldi gegn barni að þá skuli hann tilkynna það, hinsvegar er þetta ekki svo einfalt ef horft er t.d. á 230. gr almennra hegningarlaga sem fjalla um friðhelgi einkalífsins:
230. gr. Ef maður, sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segir frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varðar það sektum eða [fangelsi allt að 1 ári]. Sömu refsingu varðar einnig sams konar verknaður þeirra manna, sem aðstoðað hafa ofangreinda menn í starfi þeirra.
Magnús V. Skúlason, 22.8.2010 kl. 07:58
Ágæti Magnús: Þetta er bara ekki skoðun eins prests, því kirkjan hefur starfað skv. þessu þagnarheiti og þöggunarþráhyggju um langt skeið. Þetta sýna viðbrögð hennar í nokkrum málum á undanförnum árum þar sem þögnin og þöggunin hefur verið valin umfram annað.
Hvað varðar þennan lagabókstaf sem þú vísar í, þá tel ég að barnaverndarlög upphefji þetta ákvæði. Hins vegar er þetta ekki einu sinni málið því kirkjur um allan heim, með kaþólsku kirkjuna í broddi þeirrar klénu fylkingar, hafa ítrekað valið þögnina og þöggunina til að tryggja eigin hag á kostnað hag umbjóðenda sinna.
En í mínum huga snýst þetta mál þó helst um það hversu gallað þetta skriftafyrirkomulag er og hef ég rökstutt þá skoðun mína hér ofar. Hún hefur ekki breyst.
Óli Jón, 22.8.2010 kl. 14:25
Ég er ekki viss um að þú hafir alveg nóg vit á skriftum, eftir að hafa lesið greinina þína. Prestur sem skriftað er fyrir gefur enga syndaaflausn fyrir brot gegn öðrum, ekki í nafni kirkju né Guðs. Hann aftur á móti svarar viðkomandi og hvetur hann til að bæta fyrir brot sitt, viðurkenna það og gefa sig fram við löglegu ef um lögbrot er að ræða. Það sé eina leiðin til að öðlast fyrirgefningu Guðs og kirkjunnar og presturinn nær oft að pressa nægilega á og styðja viðkomandi til að sá hinn sami geri hið rétta, iðrist fái sinn dóm, taki hann út og eftir það fái sína aflausn. Annað óskylt: Þú segir Prestur á að koma allri vitneskju um saknæmt athæfi til lögreglu. Ef prestur verður þess var í fermingar undirbúningi að foreldrar eins fermingarbarnsins eru í sambúð en ekki skráðir á hann þá að hlaupa með það í lögregluna, nú eða ef að pabbi þess er í svartri vinnu. Alhæfingar geta verið varasamar.
Áhugamaður 22.8.2010 kl. 14:57
Þó eg hafi áttað mig á að kaþólskur siður ætti lengi ítök á Íslandi eftir siðaskipti - reyndar ótrúlega lengi - vissi eg eigi að skriftir væru enn ríkjandi. Og ennfremur er framandi fyrir mér að heyra að prestur geti stundum beisiklí verið í hlutverki eða verið ígildi Krists.
Mér finnst yfirleitt svona meginlínan í mótmælendatrúnni vera að prestur væri alltaf venjulegur maður sem sinnti þessu hlutverki eða embætti o.s.frv. Jú jú, auðvitað væri hægt að leita til prests i sorgum og vandræðum og trúnaður gilti almennt séð - en að hann væri þessa eðlis sem Geir lýsir er framandi fyrir mig að heyra sem aðila, að vísu frekar óvirkann, að þjóðkirkju.
Þetta hlýtur að vereinhver sérviskuskoðun hjá umræddum aðila. Þetta getur ekki verið meginlínan innan kirkju.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.8.2010 kl. 17:33
Flott íslenska. Gaman að sjá að enn eru til menn sem byrja ekki allar setningar á það, klína frumlaginu einhvers staðar aftast í setninguna og troða inn allskyns orðatiltækjum og málsháttum sem þau ráða ekkert við.
Þú gladdir mig mikið! :-)
Hildur Sif 25.8.2010 kl. 09:28
* þeir ráða ekkert við ;)
Hildur Sif 25.8.2010 kl. 09:39
Áhugamaður: Veltu fyrir þér upplýsingaskyldu sem hvílir á almennum borgurum þessa lands, t.d. varðandi hjónin í óskráðu sambúðinni eða manninn í svörtu vinnunni. Sem almennur borgari ætti presturinn að upplýsa um almenn lögbrot enda er engin ástæða til þess að lögbrjótar geti létt á sér andlega hjá presti. Ef þeir þurfa að tala um sín brot þá geta þeir farið til lögfræðings. Hvað varðar það er væntanlegt fermingarbarn gloprar þessu út úr sér, þá hlýtur það sama að gilda og ef það hefði misst þetta út úr sér við aðrar kringumstæður. Þetta eru lögbrot og ber að tilkynna sem slík.
Prestur ríkiskirkjunnar veitir máské ekki aflausn synda, en það hlýtur að vera gott fyrir andlegt geð hins brotlega að tala um sín mál. Þannig fær hann máské aflausn synda sinna í eigin huga. Kaþólskir ganga reyndar afar hreint til verks og spúla sál viðkomandi svo hún verður tandurhrein og Guðtæk að nýju.
En af hverju ætti brotafólki að bjóðast sá kostur að geta talað um sín mál í fyllsta öryggi. Minnkar það ekki bara líkurnar á því að sektarkennd þess reki það til veraldlegra yfirvalda þegar sektarkenndin er sefjuð með heimsóknum til presta?
Ómar: Ég er sammála þér þarna. Það er munur á því að trúa presti fyrir persónulegum vandamálum eða almennum lögbrotum. Í því samhengi gildir þá hin almenna regla um að maður á að gæta þess sem manni er trúað fyrir. Það gildir jafn mikið um mig og þig eins og presta.
Hildur: Takk kærlega :) Ég á reyndar í stöðugum vandræðum með að byrja ekki allar setningar á 'það', en reyni hvað ég get að forðast það :)
Óli Jón, 25.8.2010 kl. 10:43
Sæll Óli,
Skriftir innifela ekki endilega syndaaflausn og eru ekki bundnar við kristindóm - þær eru líka hluti af búddisma, íslam, gyðingdómi og fleiri trúarbrögðum. Í íslam og gyðingdóm eru skriftir gerðar beint til Guðs án milligöngu trúarleiðtoga. Hlutverk sálusorgara sem fólk getur talað við án þess að óttast að viðkomandi beri á torg það sem um er rætt er sterkt í nútíma þjóðfélagi. Prestar og trúarfólk er þar aðeins hluti. Fólk í heilbrigðisstéttum, lögfræði og fjármálum er inni í þeirri mynd líka. Ég hef mjög sterkan grun um að fleiri misyndismenn hafi leitað til réttvísinnar eftir að hafa talað við presta og/eða aðra sálusorgara heldur en þú vilt vera láta. Það eitt að játa brot fyrir öðrum en sjálfum sér er fyrsta skrefið til játningar. Ég þekki lítið til skrifta en persónulega finnst mér að þær eigi að vera milli einstaklings og sálusorgara og það sem fer þar á milli á ekki að fara lengra. Ég er nokkuð viss um að prestar og aðrir ýti mjög sterklega á einstaklinga, sem þeir telja að hafi gerst brotlegir við lög, að gefa sig fram og játa brot sín.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 28.8.2010 kl. 08:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.