Fimmtudagur, 21. janúar 2010
Af 'stuðningsfólki' og elsku þess ... taka tvö!
Ég hygg að varla sé til hviklyndara og vanþakklátara lið en svokallað 'stuðningsfólk' íslensku landsliðanna í handbolta og knattspyrnu. Þetta lið reigir sig og beygir þegar vel gengur og kallar íþróttamennina 'strákana sína', en um leið og á móti blæs verða óskabörnin að óhreinu börnunum hennar Evu. Ekki þarf nema einn eða tvo tapleiki í röð og þá er öll hollusta þessa liðs rokin út í veður og vind og upp hefst vandlætingarrausið. Iðulega er annað tveggja spurt hvort reka eigi þjálfarann eða þá bara hreint og beint sagt blákalt að nú eigi sá aumi þrjótur að taka pokann sinn og lyppast á brott.
Það vita þeir sem til mín þekkja að ég gef mig lítt að íþróttum og má það líklega mest rekja til vangetu minnar í þeim efnum. Það breytir því þó ekki að það stingur mig alltaf jafn mikið þegar 'stuðningsfólkið', iðulega með fréttamenn í fararbroddi, snýst gegn strákunum af þvílíku offorsi að ætla mætti að þeir hefðu drýgt ljótan glæp. Kann þetta fólk ekki að skammast sín? Getur það ekki sett málin í rétt samhengi og séð að þarna er bara um að ræða íþróttir þar sem mestu skiptir að vera með? Þar sem sigur er bara bónus, ef hann næst? Nei, þarna er um að tefla líf og dauða og nú er heimsendir í nánd sökum þess að þessir oföldu íþróttahjassar náðu ekki að sigra þá aumu sveit sem Lichtenstein (eða hvað það lið sem spilað var við síðast) tefldi fram hér á dögunum. Nú skal þjálfarinn kenna á heilagri og réttlátri reiði 'stuðningsfólksins', sá armi þrjótur skal finna til tevatnsins!
Illt er vanþakklæti 'stuðningsfólksins', en verri er þeirra innantóma elska!
PS. Þetta eru ekki nýjar fréttir því þetta er bara endurbirting á gömlum pistli frá því í júní 2007. Þá var elska stuðningsmanna jafn skilyrt velgengni og hún er í dag.
Meginflokkur: Íþróttir | Aukaflokkur: Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef nú alltaf verið mikið í kringum íþróttir og fylgist mikið með þeim, þó ekki öllum af miklum áhuga. Boltaíþróttir eru mikið áhugamál hjá mér og ég verð að sega að þetta sem þú lýsir finnst mér einhvernveginn ósköp eðlilegur hlutur.
Ég er stuðningsmaður KR og Liverpool. Hvernig er umræðan um t.d LFC í dag? eða hvernig hefur umræðan verið um KR undanfarin ár? Þetta er alveg rétt sem þú nefnir en á þetta ekki bara líka að einhverju leiti rétt á sér?
Ég get alveg sagt þér það Óli Jón að það dugar mér ekki að KR taki bara þátt í íslandsmótinu í knattspyrnu eingöngu til að hafa bara gaman af þessu ogúrslit leikja skipti ekki öllu máli.
Ef ílla gengur þá er eitthvað að og venjulega liggja skýringarnar hjá stjórn eða leikmönnum frekar en stuðningsmönnum.
Við höfum ekki náð að sýna góða leiki á þessu móti og mér finnst einhvernveginn bara eðlilegt að við ættum að ná uppúr þessum riðli án mikilla átaka.
Þeesir menn sem við höfum eru miklu betri en þeir sýndu í dag og það er bara vilji þjóðarinnar að þeir fari að sýna sitt rétta andlit.
S. Lúther Gestsson, 22.1.2010 kl. 01:57
Lúther: Það er stór munur á því að þykja það leitt þegar liðinu gengur illa og að sótbölva öllu og öllum. Ég sé margvíslegar athugasemdir á vefnum sem eru frá því að vera bara illkvitnar og niður í það að vera blátt áfram hatursfullar.
Það er ekki eðlilegur metnaður fyrir hönd liðsins!
Óli Jón, 22.1.2010 kl. 02:21
Ég er eitilharður stuðningsmaður íslenska landsliðsins í handbolta en ef þessir vesalingar rúlla ekki yfir Dani í næsta leik og bæta fyrir þá hörmulegu frammistöðu sem þeir hafa sýnt hingað til krefst ég þess að fálkaorðan verði rifin af þeim, öllum fjáraustri til HSÍ verði hætt í hvelli og krulla verði tekin upp sem þjóðaríþrótt.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 22.1.2010 kl. 11:11
Þá ertu nú ekki eitilharður stuðningsmaður Bergur. Það að kalla strákana vesalinga erum við kannski komnir að því sem Óli er að meina, við megum alveg örlítið gæta að orðavalinu. Eins þykir mér afar ólíklegt að við völtum yfir danina, það höfum við aldrei gert áður.
S. Lúther Gestsson, 22.1.2010 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.