Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Ríkisstyrkt innræting fyrir yngstu börnin: Trúarbrögðin okkar

Ég vek athygli á frábærri grein á vantru.is þar sem fjallað er um nýja bók, Trúarbrögðin okkar, sem Námsgagnastofnun gaf nýverið út og er ætluð til kennslu í yngstu bekkjum grunnskólanna.

Nú tek ég fram að ég hef ekki lesið umrædda bók, en sú eina setning sem vitnað er til í greininni á vantru.is er nægilega slæm ein og sér til að verðskulda þennan pistil:

Trúarbrögðin kenna okkur að þykja vænt um hvort annað og þau hjálpa okkur til að eignast vini. Ef allir færu eftir því sem trúarbrögðin boða gerðust færri slæmir hlutir í heiminum. Þá gætum við lifað saman eins og ein stór fjölskylda.

Einkaleyfi á almennu siðgæði?

Ergo: Af því að við trúum ekki öll á sama fyrirbærið, þá er í þessum heimi stríð og ófriður. Málið er líklega þó það að það er alltaf hinum að kenna, þeim sem ekki trúa því sama og þú!

Það er skelfilegt að þetta skuli vera haft fyrir smábörnum sem eru í þeirri stöðu að meðtaka allt sem sagt er í skólanum sem algjörum og endanlegum sannleik. Börn í grunnskóla eiga ekki að setja neinn fyrirvara við námsefnið, enda lítum við svo á að þar sé verið að kenna þeim vísindaleg fræði sem eiga að verða grunnur fyrir frekara námi. Það að segja að allt væri gott í heiminum ef allir færu eftir boðskap trúarinnar er hreinlega ósatt. Það er kórrétt sem greinarhöfundur, Óli Gneisti Sóleyjarson, ýjar að þegar hann spyr hvort trúin stuðli að friði eða ofbeldi. Helstu átakalínur í heiminum í dag eru dregnar skv. trúarlegum forsendum og svo hefur verið um árhundruð.

Ég hef sagt það áður að trúin sundrar frekar en sameinar þegar um tvenn eða fleiri trúarbrögð er að ræða. Trúaðir hafa alltaf rétt fyrir sér og því hljóta allir sem aðhyllast aðra trú að hafa rangt fyrir sér. Í besta falli hefur sá trúaði meðaumkun með hinum ræflunum sem sjá ekki rétta ljósið og í versta falli reynir hann að gera eitthvað í því. En nóg um það.

Margoft hef ég lýst því hvað ég hef mikla meðaumkun með trúuðum að þeir telji sig þurfa að sækja svo stíft í raðir smábarna sem raun ber vitni, sá þar purrkunarlaust fræi sínu meðan börnin eru algjörlega móttækileg. Frjáls hugsun er þarna til trafala, skilyrðislaus innræting er besta leiðin í þeirra huga. Í minum huga er hann lélegur, málstaður þeirra sem fara svona að.

Einskorðum kennsluefni grunnskóla við vísindalegt efni ... skiljum trú og önnur hindurvitni eftir við útidyrnar.

Krækja: Trúarbrögðin "okkar" á vantru.is


Snilli Ratzinger páfa ...

Benedikt XVIRatzinger páfi tekur þetta mál engum vettlingatökum. Hann hefur látið útbúa próf sem grisjar út menn með óheilbrigðar tilheigingar í kynferðismálum. Prófið mun vera sérstaklega hannað til þess að greina merki um hvers konar afbrigðileika skv. skilgreiningu kaþólsku kirkjunnar, en þar virðist hún vera á heimavelli ef marka má þá hrinu hneykslismála sem á henni hefur dunið skv. tengdri frétt. Þá er viðhorf verðandi presta til karlmennsku sérstaklega kannað, en auðvitað þarf að kanna slíkt vendilega áður en menn undirgangast (eða ekki, eftir atvikum) ævilangt skírlífi.

En verðandi prestar verða að samþykkja að undirgangast prófið. Úbbs!

Og ég veit að hraustir kaþólskir menn með tilhneigingar til samkynhneigðar, tvíkynhneigðar eða barnagirndar, fálæti gagnvart skírlífi og ranghugmyndir um karlmennsku munu svo sannarlega samþykkja að undirgangast prófið.

Af hverju ætti þeir ekki að samþykkja það?

Þetta er skothelt plan hjá Ratzinger páfa. Enginn nema einn fluggáfaðasti og snjallasti maður heims gæti fundið upp svona brilljant snilld.

Amen ... eftir efninu.


mbl.is Kynhvöt kaþólskra presta könnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvennafræðarinn Benedikt XVI

Benedikt XVIBenedictus XVI, oft nefndur Rottweiler Guðs, áréttaði nýlega þá afstöðu kaþólsku kirkjunnar að smokkurinn sé verkfæri djöfulsins. Hann orðaði það reyndar ekki þannig en meiningin er sú sama. Allt sem hindrar sæði karlsins í leit sinni að náttstað í innstu rökum konunnar er andstætt vilja kaþólsku kirkjunnar. Smokkurinn er þannig meðal óvina númer eitt í Vatikaninu. Sem er magnað, því hann káfar ekkert upp á alla kátu karlana sem þar búa! Sem gerir málið enn skrýtnara því af hverju hafa þeir svona sterkar skoðanir á hlut sem er þeim algjörlega framandi? Undarlegt!

Þetta er afar áhugaverð staðreynd, áréttingin, þegar litið er til aukinna umsvifa kaþólsku kirkjunnar í fátækrahverfum í bandarískum stórborgum sem og í Afríku. Linnulaus áróður kaþólskra presta þar gegn smokknum hefur aukið tíðni þunguna unglingsstúlkna í Bandaríkjunum og hert á útbreiðslu AIDS í Afríku. Þannig er þessi afstaða kaþólsku kirkjunnar ekki aðeins kjánaleg, heldur er hún einnig hreint og beint skaðleg og hættuleg almannahagsmunum. Þannig mætti réttilega skilgreina kaþólsku kirkjuna sem heilbrigðisvá sem greiðir með vísvitandi hætti fyrir útbreiðslu einnar hættulegustu veiru sem herjað hefur á mannkyn.

Sorglegt er að fjöldi fólks telur sig bundið af þessum kreddum sem sjálfskipaður kynlífssérfræðingurinn Benedikt XVI áréttaði um daginn. Fjörutíu ár voru víst liðin frá því að síðast var hnykkt á þeim og því nokkur von til þess að gamlir, hrumir og elliærir páfar hefðu hreinlega gleymt þeim. En það er öðru nær. Nú sýpur það fólk sem síst skyldi seyðið af þessari vondu ráðagerð. Kaþólska kirkjan beinir sjónum sínum aðallega að því fólki sem býr við hvað mesta eymd, enda er það auðmótanlegt og auðsveigt til hlýðni við kreddukenningar hennar. Þannig verða þeir verst úti sem síst skyldu!

En batnandi mönnum er best að lifa. Ég bind nú reyndar ekki miklar vonir við að Benedikt XVI geri leiðréttingu á þessu, en hver veit. Líklega er besti möguleiki þeirra fjölmörgu sem fara illa út úr þessu máli sá að nýr páfi sjái að sér og geri leiðréttingu.

Það er þó ekki líklegt ... því miður.


mbl.is Fordæming getnaðarvarna staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi Hóseason

Helgi HóseasonÁ leið minni til vinnu keyri ég reglulega fram hjá þeim stað þar sem Helgi Hóseason stendur vaktina staðfastlega og minnir á sjálfsagða kröfu sína þess efnis að skírnarsáttmáli hans verði ógildur. Það sést glögglega að karlinn er farinn að gamlast þar sem hann stendur tinandi í öllum veðrum með skiltið sitt.

Þegar ég sé kallinn spyr ég mig ætíð hvers vegna Ríkiskirkjan leysir hann ekki undan þessum sáttmála sem hann undirgekkst ómálga og staðfesti ólögráða, að eigin sögn, tilneyddur. Hún telur sig víst ekki þess umkomna að ógilda sáttmála á milli einstaklings og Himnafeðganna sem er merkilegt í ljósi þess að hún telur sig umkomna til þess að koma honum á. Þetta er illskiljanlegt.

Er það ekki kærleiksverk af hálfu Ríkiskirkjunnar og Þjóðskrár að leita allra leiða til þess að verða við ósk Helga Hóseasonar? Geta góðir og snjallir menn ekki sest niður og fundið leið til þess að verða við eðlilegri ósk gamals manns sem augsýnilega þráir fátt heitar en þetta? Að mínu viti þarf ekkert annað en gott hjartalag og einbeittan vilja til þess að þetta mál geti fengið farsælan enda fyrir alla aðila.

Mynd: Elvar Freyr
Nánar um málið.


Vantrú kristinna alþingismanna

OfríkiÉg er að horfa á Alþingisrásina núna og finn fyrir depurð þegar ég sé hvað kristnir alþingismenn virðast hafa mikla vantrú á sinni trú. Hvað þeir virðist treysta henni skammt til þess að halda sjó á eigin verðleikum. Hvað þeir virðast telja það klárt að þjóðin afkristnist í einni sviphendingu ef kristin trú fær ekki áframhaldandi ítök í leikskólunum og grunnskólunum.

Mér finnst það sorglegt hvað þeir virðast tengja áframhaldandi velgengni trúar sinnar því að hún fái greiðan og óheftan aðgang að litlu leikskólabörnunum og örlítið eldri grunnskólabörnunum. Mér finnst það sorglegt að þeir skuli ekki treysta trúuðum foreldrum fyrir því að sjá um trúarlegt uppeldi barna sinna. Mér finnst í raun skelfilega sorglegt hvernig vantrú þeirra virðist mun sterkari en trú.

En sorglegast er þó hversu auðvelt þeim reynist að troða á rétti allra þeirra sem ekkert vilja með trú hafa.


Kristilegt siðgæði - reiðarslag fyrir frjálst val?

Nú þurfa þeir sem unna frjálsu vali og vilja eðlileg mannréttindi að snúa bökum saman. Í bloggfærslu í dag segir alþingismaðurinn Sigurður Kári eftirfarandi:

Þau tímamót urðu í starfi okkar sem sæti eigum í menntamálanefnd Alþingis á föstudag að við afgreiddum fjögur frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntamál kennara og skólastjórnenda.

Menntamálanefnd þingsins haft þessi efnismiklu frumvörp til vinnslu síðan í desember og fengið á fundi sína fjölda gesta.  Nefndin leggur til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði.

Breytingatillögur okkar verða lagðar fram á Alþingi í vikunni.

Einkaleyfi á almennu siðgæði?Þarna virðist alþingismaðurinn gefa það í skyn að ákvæði um 'kristilegt siðgæði' verði áfram haldið inni í lögum um leik- og grunnskóla. Ef rétt er, þá er þetta sorgleg staða og snautleg afgreiðsla frá fulltrúa flokks sem telur sig setja einstaklinginn og frelsi hans í öndvegi. Þó ber að hafa í huga að þetta er flokkurinn sem rær að því öllum árum að einkavæða heilbrigðiskerfið á meðan hann treystir í sessi ríkisvæðingu trúarinnar.

Þetta er á skjön við alla skynsama hugsun og þá þróun sem er að verða í trúmálum á Vesturlöndum þar sem skynsemin er að verða trúnni yfirsterkari. En það er örugglega þetta sem veldur þessu krampakennda viðbragði. Trúin er á undanhaldi, en ríkir hagsmunir Ríkiskirkjunnar ohf. valda því að það verður að nýliða inn í hana með öllum leiðum, jafnvel með því að boða trúna leik- og grunnskólabörnum sem ekki eru í neinni aðstöðu til þess að gagnrýna það 'tilboð', heldur er uppálagt að taka öllu með opnum hug sem fólk í valdstöðu boðar í skólunum. Þetta er í hæsta máta ógeðfellt og sorglegt.

Sigurður Kári, alþingismaður, treystir því ekki að trúaðir foreldrar geti axlað þá ábyrgð að ala börn sín upp í trú. Því vill hann tryggja áfram greiðan aðgang Ríkiskirkjunnar að smábörnum landsins á þeim stað sem mest á að tryggja þeim hlutlaust umhverfi - í skólanum!

Það er aumt að Ríkiskirkjan þurfi á þessari meðgjöf að halda. En líklega er það mat manna á borð við Sigurð Kára að hún geti ekki lifað án hennar!


Marklausar staðtölur

*Þessi frétt fjallar um marklausustu staðtölur sem haldið er utan um hérlendis og eru þó til nokkrar býsna fánýtar. Þær segja ekkert til um trúfesti eða trúleysi íslensku þjóðarinnar meðan hvítvoðungar eru sjálfkrafa skráðir í trúfélag móður þeirra. Hið eina rétta í stöðunni er að hætta þeirri skráningu og taka upp það fyrirkomulag að trúfastir sjái sjálfir um að skrá sig og sína í trúfélag, hafi þeir þörf til þess.

Blaðamaður tiltekur í fréttinni að líklega gefi staðtölurnar ekki rétta mynd af ástandinu því einhverjir eigi eftir að skrá sig í trúfélag. Að sama skapi má spyrja um alla þá sem eiga eftir að skrá sig úr því trúfélagi sem þeir eru skráðir í, en ætla má að þeir séu umtalsvert fleiri.

Því er eðlilegast að skrá alla úr Ríkiskirkjunni sem nú eru til hennar taldir nema þá sem hafa að eigin frumkvæði óskað eftir vist þar. Líklega mætti undanskilja starfsmenn Rikiskirkjunnar, en þeir ættu svo sem ekki að telja eftir sér að ganga frá skráningunni sjálfir. Eftir það myndu trúfastir gæta þess sjálfir að Þjóðskrá endurspeglaði þeirra viðhorf í trúmálum. Þá loksins yrðu þessar staðtölur einhvers virði og þess verðar að haldið sé utan um þær.


mbl.is Hlutfallsleg fækkun í þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkirkjan - geistlegt fasteignafélag?

kirkjanÍ Kompás-skammti kvöldsins var merkilegt að sjá forstjóra 'Þjóðkirkjunnar' verja það gegndarlausa magn fjár sem árlega er ausið í þessa stofnun. Hann nefndi m.a. að 'Þjóðkirkjunni' væri falið að sjá um 200 hús og byggingar á þjóðminjaskrá um allt land og þótti mér það býsna merkilegt því ég hef aldrei séð 'umsjón fasteigna' nefnda sem eitt af kjarnaverkefnum hennar. Er það ekki við hæfi að Þjóðminjasafnið fengi þá fjármuni sem ætlaðir eru til þess arna og taki verkefnið að sér, enda má ætla að þar sé innanborðs betri þekking og kunnátta en innan 'Þjóðkirkjunnar'. Jesús Jósepsson var víst sonur trésmiðs, en það gerir ekki þjóna 'Þjóðkirkjunnar', fullmektuga fulltrúa hans, hæfa til þess að sjá um svona menningarverðmæti enda eru húsasmíðar og fasteignaumsjón líkast til bara valfög í guðfræðinni.

Þá nefnir biskup Vinaleiðina sem tilboð 'Þjóðkirkjunnar' og innlegg hennar í mikilvægum málaflokki. Ég tel það sama eigi við hér og gildir um umsjón fasteigna; er ekki betra að beina fjármunum til félagsþjónustunnar eða annarra hæfra aðila þar sem hægt er að fá sérfræðinga (sem ekki koma til fundar við krakkana okkar hoknir af trúboðaskyldum) til að taka þetta þarfa verkefni að sér? 'Þjóðkirkjan' tekur að sér að skilgreina verkefni fyrir sjálfa sig til að vernda hagsmuni sína meðan hún er í raun að taka fé frá stofnunum sem eru mun hæfari til viðkomandi starfa.

Í ljósi ofangreinds er reyndar gaman að velta fyrir sér 'tilboðs' líkingu biskups í þessu samhengi. Ég líki þessu 'tilboði' hans við það að ég færi í Bónus þar sem starfsmaður tæki af mér tíuþúsundkall við innganginn, en leyfði mér svo að velja úr pínulítilli tilboðskörfu það sem mér litist á óháð því hvort þar væri eitthvað sem mér litist á eða hefði þörf fyrir. Það er harla aumt tilboð sem neytandinn er þegar búinn að borga dýru verði óháð því hvort hann vill eða þarfnast þess sem í boði er.

Íslendingar eru í síauknum mæli að hafna 'Þjóðkirkjunni' með því að gera sér sérstaka ferð í Borgartúnið og skera á tengsl sín við hana. Ég þykist vita að þeir Íslendingar sem vilja ekkert með 'Þjóðkirkjuna' hafa séu umtalsvert fleiri en staðtölur segja til um, en flestir hafa bara hreinlega ekki fyrir því að skjótast í Borgartúnið og ganga frá skilnaðinum. Er ekki réttara að fólk þurfi að skrá sig í 'Þjóðkirkjuna'? Okkur þætti yfirgengilegt ef öll börn væru skráð í Val eða Víking við fæðingu, hví gildir ekki hið sama um 'Þjóðkirkjuna'?

Það er mitt mat að þjóðin ætti að sameinast um að gera tilraun í eitt ár. Skráum alla úr 'Þjóðkirkjunni' og í Háskóla Íslands. Þeir sem nú þegar hafa skráð sig úr 'Þjóðkirkjunni' hafa þegar gefið sitt svar og því eru þeir undanskildir í þessari tilraun. Skoðum svo eftir árið hversu margir hafa haft fyrir því að skrá sig í 'Þjóðkirkjuna', en það er mat mitt að þeir yrðu nokkuð færri en þeir örfáu sem lögðu leið sína til Þingvalla hér um árið á kómískasta flopp Íslandssögunnar. Þar kæmi glögglega í ljós hverjir tækju 'tilboði' 'Þjóðkirkjunnar' og þá væri hægt að skera úr hvort hún beri nafn með rentu eða hvort hún sé bara sá sértrúarsöfnuður sem ég tel mig vita að hún í raun er.

Þetta veit forstjóri 'Þjóðkirkjunnar' mætavel og því reynir hann finna kompaníinu framtíðarverkefni svo aurarnir haldi áfram að rúlla inn þótt sauðirnir hverfi frá jötunni. Það skiptir litlu þótt þessi verkefni séu ekki í neinum tengslum við áður skilgreinda kjarnastarfsemi 'Þjóðkirkjunnar'; hún getur vel verið fasteignafélag eða félagsþjónusta. Áhugavert verður að sjá hvar 'Þjóðkirkjuna' ber næst niður í verkefnavali sínu. Flugumsjón? Leigubílaakstur? Laxeldi?

Spyr sá sem ekki veit!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband