Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nýfæddu börnin hunsa Ríkiskirkjuna

Ef rýnt er í tölur sem innanríkisráðherra sendi frá sér nýverið sem svar við spurningum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög kemur margt sniðugt í ljós. Af gögnunum má ráða að nýfædd börn kjósa í æ ríkari mæli að standa utan trúfélaga og þá sér í lagi Ríkiskirkjunnar og er það þróun sem vart hefur orðið undanfarin ár.

Grafíð sýnir fjölda lifandi fæddra barna hérlendis [gult], útreiknaðan fjölda nýfæddra barna sem ættu að hafa valið sér Ríkiskirkjuna sem trúarlegt athvarf m.v. hæsta hlutfall árið 2006 [rautt], raunverulegan fjölda nýfæddra barna sem kjósa skráningu í Ríkiskirkjuna [blágrænt] og loks fjölda barna sem Ríkiskirkjan hefur orðið af í gegnum tíðina vegna óþekktar í þjóðinni [appelsínugult].

Hvað veldur þessum hörmungum sem munu valda Ríkiskirkjunni fjárhagslegum erfiðleikum í framtíðinni þegar ríkið skal rukkað um trúarölmusuna og sálnaregistan hefur styst? M.v. upphæð ölmusunnar í ár mun þetta uppátæki kosta Ríkiskirkjuna tæpar 39 milljónir árlega þegar full áhrif hafa komið fram. Það munar nú um minna hjá stofnun sem keppist og streðast við að safna í kornhlöðurnar þótt á endanum ekkert safnist saman þar. Þetta eru ógnvænleg tíðindi fyrir þetta meinta fjöregg þjóðarinnar sem, að sögn, á svo mikla inneign í þjóðarsálinni, en virðist aldrei geta innleyst hana með nokkrum hætti.

Áhugavert verður að fylgjast með þróun appelsínugulu línunnar í framtíðinni, en mér segir svo hugur að vegur hennar fari vaxandi um leið og blágræna línan muni hníga í djúp trúleysis og andlegrar örvæntingar.


Og enn flýtur undan henni ...

Í athygliverðri frétt Kjarnans frá í gær kemur í ljós að 56% þjóðarinnar, marktækur meirihluti, er andvígur ríkisfjármögnun Ríkiskirkjunnar á meðan um 27% vilja ríkisfjármögnun. Eins og við er að búast þá er yngra fólkið meira andvígt gjafafé frá ríki til kirkju og eldra fólk fyllir upp í minnihlutahópinn sem vill ríkjandi fyrirkomulag ölmusunnar. Það segir okkur enn og aftur að hin gránandi kirkja á litla peningalega inneign hjá þeim sem munu byggja Ísland og að fjárhagsleg hnignun hennar er jafn óumflýjanleg og gangur tímans fram á við.


Ritskoðun og þöggunarlistar

Kristileg stjórnmálasamtök, betur þekkt sem Jón Valur Jensson, spyrja réttilega af hverju það megi ekki lengur setja athugasemdir við greinar á vefjum Ríkiskirkjunnar í bloggpistli hans á vef Jóns Vals. Þetta kemur úr hörðustu átt því Jón Valur heldur úti stærstu ritskoðunar- og þöggunarlistum sem um getur hérlendis á öllum sínum bloggvefjum þar sem aðeins fáeinir útvaldir fá að tjá sig.

Í framhaldi af þessu leyfi ég mér að gera spurningar hans að mínum og beini þeim beint til hans. Ástæða þess að ég geri þetta hér er sú að nafn mitt í á þessum risavöxnu lokunar- og þökkunarlistum Jóns Vals og get ég því ekki spurt hann beint undir þessari fínu grein hans.


Hvað í Biblíunni er marktækt og hvað ekki?

Ég tel afar mikilvægt að með Biblíunni fylgi ítarlegt yfirlit yfir þá kafla hennar sem ekki standast skoðun og þarf því ekki að taka bókstaflega. Í fjölda mörg ár var Nýja testamentinu t.d. dreift til ungra skólabarna sem hefðu örugglega þegið slíkt yfirlit í stað þess að vera sagt að þarna væri um óhrekjanlegan sannleik að ræða. Hefðu börnin haft svona yfirlit til hliðsjónar þegar þau lásu Nt af áfergju, þá hefði það máské sparað þeim það hugarvíl sem til verður þegar fólk reynir að sætta órökrétta og ósanna hluti í huga sér.

Nú er það svo að meginþorri almennings hefur ekki haft færi á því að mennta sig í Guðfræði til margra ára og hefur því hreinlega ekki þá miklu þjálfun og reynslu sem þarf til þess að greina í sundur uppspunann og hið sanna. Því er ósanngjarnt að þeir sem betur vita útbúi ekki svona yfirlit fyrir þetta fólk til þess að koma í veg fyrir ranga túlkun á þessu gamla skrifelsi manna sem fólki hefur í gegnum tíðina verið uppálagt að taka sem sannleik, jafnvel heilögum sannleik.

Mér sýnist liggja lóðbeint við að presturinn í Bústaðakirkju hefji þessa vinnu því hann virðist hafa þetta á hreinu. Það liggur auðvitað beint við að setja trúarjátninguna efst á listann og semja svo fyrirvara sem lesinn er upp áður en farið er með hana því bersýnilega er ekkert að marka hana.


mbl.is Prófið sé í Vantrúarkristni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttinn heldur áfram ...

... en hvernig væri þetta ef fólk hefði af því fjárhagslegan ávinning að segja sig úr Ríkiskirkjunni? Látum fyrri biskup svara þeirri spurningu:

"... munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda þá árlegu fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ.á.m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun."

Jæja, fækkun um eitt prósentustig árlega er líklega bara það besta sem gefst :)


mbl.is Fækkar enn í þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkiskirkjan er ríkiskirkja

Leitt er að sjá spámann, stofnanda, formann, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og (næstum því) eina félagsmann Kristilega framboðsbræðingsins fara með rangt mál og það vísvitandi. Veit hann ekki af því að á himnum ku vera yfirnáttúrulega súpervera sem heldur utan um svona syndir og neitar fólki um inngöngu í óðalssetur sitt ef nægilega mikið fleipur safnast saman?

Þannig fer spámaðurinn með ægilega mikið rangt mál þegar hann geysist fram á ritvöllinn á einum af fjölmörgum bloggvefjum hans (lágmark sjö talsins) undir yfirskriftinni 'Þjóðkirkjan er ekki "ríkiskirkja"'. Það er í eftirfarandi tveimur meginatriðum sem spámanninum verður helst fótaskortur á sannleiksbrautinni:

Einhverjir kunna nú að spyrja hvers vegna þessi leiðrétting á ranghugmyndum spámannsins sé ekki hnýtt við upphaflega grein hans. Skýringin er einföld og er hún sú að spámaðurinn hefur hreinlega lokað á alla þá sem reynt hafa að leiðrétta rausið í honum í gegnum tíðina og iðulega rekið hann á pínlegt gat. Spámanninum finnst nefnilega best að lifa eins og Guðslastslögin verndi hann líka og býr sér því til þennan undarlega veruleika með því að útiloka alla þá sem veita honum minnstu viðspyrnu.

PS. Þeir sem vilja kynna sér betur ömurlegustu, og um leið stórkostlegustu, eymingjagjöf sem þekkist í sögu lands og þjóðar ættu að kynna sér frábæra greinaröð Brynjólfs Þorvarðarsonar. Hún segir allt sem segja þarf um hve vondur og óskiljanlegur gjörningur jarðakaupasamningur ríkis og Ríkiskirkju raunverulega er.


Fyrirsjáanleg og gleðileg þróun

Þrátt fyrir alla þá meðgjöf sem Ríkiskirkjan fær þá molnar stöðugt undan henni. Hún fær meginþorra barna sjálfkrafa skráð í félagatal sitt við fæðingu, algjörlega óverðskuldað, en samt fækkar börnunum sem henni eru eignuð.

Ekki er hægt að segja að grunnskólabörn séu trúuð eða trúlaus því þau hafa engar forsendur til þess að taka upplýsta ákvörðun um málið. Ef þetta er raunin, þá finnast að sama skapi mörg Sjálfstæðis- og Samfylkingarbörn í þeirra röðum, en fá Framsóknar, en það er nú bara kjánalegt því enginn heilvita maður gerir ráð fyrir því að börn tileinki sér sjálfkrafa stjórnmálaskoðanir foreldra sinna. Afstaða til trúar virðist þó vera það léttvæg að rétttrúuðum og hagsmunaaðilum finnst sjálfsagt að ætla að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag móður sinnar og teljist þannig trúa því sama og hún (en í raun er hún sama marki brennd og þau því áður fór hún í gegnum sömu hringekjuna). Þeim er ekki einu sinni treyst til þess að meta hvað þau geti verið lengi úti. Þau fæðast trúlaus og trúa svo í raun bara því sem fyrir þeim er haft.

Trúarskoðanaskráning ríkisins er svo sér kapítuli út af fyrir sig, enda ótrúlega sorglegt að í nútíma samfélagi haldi það Orwellska skrá um meintar lífsskoðanir fólks. Persónulega þætti mér nytsamara að halda registu yfir hvort fólk hafi gaman af Starcraft eða ekki.

En þetta er víst það sem þarf til þess að lengja líftíma Ríkiskirkjunnar. Skrá börn sjálfkrafa í trúfélög, keyra þau á skólatíma í bænahald í kirkjum af því þau kjósa frekar barnaefni í sjónvarpi, smala þeim í ferminguna, afhenda Nýja testamentið í skólanum o.s.frv. Ég tel eðlilegt næsta skref í þessum efnum vera að lögbinda hreinlega það að allir Íslendingar játi trú Ríkiskirkjunnar svo hægt sé að hætta þessum kjánalega skollaleik. Það er heiðarlegra og mun skilvirkara því þá komast sauðirnir ekki upp með að hafa skoðun á málinu og jafnvel segja sig frá apparatinu þegar þeir hafa aldur og skynsemi til. Þá sparar það stórar fjárhæðir í rútukostnaði.

Amen eftir efninu!


mbl.is Fimmtungur skólabarna utan kirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfs árs uppgjör Kristilega þjóðarbandalagsins

Nú eru réttir sjö mánuðir síðan Kristilega þjóðarbrotið geystist fram á völlinn og tilkynnti með miklu írafári að loksins væri biðin á enda. Jón Valur og nafnlausu postularnir hans tólf hefðu loksins hrist af sér slyðruna og slenið og tilkynnt um formlega stofnun hinna einu sönnu kristilegu stjórnmálasamtaka hérlendis eftir margra ára þrotlausan undirbúning myrkranna á milli.

Mikið væri nú gaman að fá yfirlit yfir gengi þessara þróttmiklu samtaka á þessum tíma sem liðinn er, en miðað við gegndarlausan áhuga íslensku þjóðarinnar á málefnum samtakanna ætti þeim nú að hafa vaxið fiskur um hrygg og félagatalið bólgnað hraustlega. Ég giska á að í samtökunum hljóti nú að vera í kringum 10-15 þúsund manns sé tekið mið af þeirri eftirvæntingu sem ríkti eftir útspili þeirra á sínum tíma. Því vona ég að samtökin upplýsi nú um hvernig mál hafa skipast þar á bæ og hvort bölbænir þjóðarinnar og afneitun Ríkiskirkjunnar hafi nokkuð haft teljandi áhrif.

Það er líklega nokkur ósigur ef fjöldi félaga nær ekki að fylla 10 þúsund, en óhugsandi er að hann sé minni en 5 þúsund, slíkt væri eiginlega hálfgert rothögg fyrir þessi elskulegu samtök sem þjóðin hefur beinlínis beðið eftir.

Ég þori varla að hugsa til þess hve sárt það væri fyrir málstaðinn ef félagatalan næði ekki 3 þúsund sálum, sem er reyndar alveg óhugsandi. En samt, það gæti auðvitað gerst í þjóðfélagi sem hefur fjarlægst gildi Jóns Vals og harðlínustefnu í hinum ýmsu málum. En 3 þúsund? Nei, fjárinn hafi það.

En fyrst maður er byrjaður að fabúlera, þá er auðvitað áhugavert að velta því fyrir sér hvers konar niðurlæging fælist í því ef félagatalið næði ekki þúsund sauðum. Þetta er auðvitað óhugsandi, en samt. Þúsund? Hmmm.

Færri en fimm hundruð? Er það raunverulega möguleiki? Getur það verið að félagatal Kristilega örflokksins telji innan við fimm hundruð? Það er, jú, handhafi sannleikans og umboðsaðili hinn sönnu kristilegu gilda hérlendis. Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekkert með þau hafa og því eru samtök Jóns Vals síðasta vígi hinna réttsýnu. Þeir hljóta að vera fleiri en fimm hundruð!

Og þá er það möguleikinn sem við þorum varla að nefna, en nefnum hann þó samt. Hvað ef sauðirnir eru færri en hundrað? Eigum við orð til þess að lýsa því? Nei, engin!

En sá möguleiki er þó eftir að félagatalan hafi lítið sem ekkert breyst. Ef svo væri, sem er alls ekki og í raun óhugsandi, þá væri ljóst að þjóðin hefur gjörsamlega hafnað tilboði Jóns Vals og öllum hans málflutningi. En auðvitað hefur hún ekki gert það, henni er jafn illa við homma og allt hommalegt og honum. Þetta er því ekki í myndinni.

Jæja, ég hef aðeins reifað stöðuna og farið yfir nokkra fjarstæðukennda kosti í henni. Ég hlakka til að sjá hvoru megin 15 þúsund talsins félagatalið liggur, enda hlýtur 6-7 ára undirbúningur að bera ríkulegan ávöxt. Því bíð ég spenntur eftir hálfs árs uppgjörs hins eina sanna kristilega framboðs hérlendis þar sem uppskeran verður kynnt í löngu máli.

Lifið heil.


Þetta gengur ekki upp!

Rúmlega fimm þúsund manns, mest aldrað fólk, bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum, sumir hverjir í rúmlega 500 daga og samt eru til extra peningar fyrir Ríkiskirkjuna. Þessi gjafmilda og eymingjagóða nefnd vill ausa fé í hundraða milljóna vís í Ríkiskirkjuna. Þegar slíkar niðurstöður eru bornar á torg hlýtur maður að reikna með því að þessi alvöru verkefni ríkisins, þessi verkefni sem skipta einhverju máli, séu þegar full fjármögnuð. En þegar um fimm þúsund manns bíða eftir aðgerðum og ráðamenn kjósa að ausa meira fé í trúarpyttinn, þá er ljóst að forgangsröðunin er röng. Vera má að hlutaðeigandi séu með þessu að tryggja sér betri vist í handanlífinu, en dagljóst má telja að þau gæði gagnast þessum fimm þúsund lítt.

Eitthvað stemmir ekki í þessari jöfnu.


mbl.is Yfir 5.000 bíða eftir aðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hreppir hnossið?

Nú þegar bænakvakið eftirsótta fær ekki lengur inni í Rúv þá hlýtur spurningin að vera hvaða útvarpsstöð önnur hreppir þetta hnoss? M.v. þá miklu eftirspurn sem kristnir nefna í kvörtunarpistlum sínum ætti ekki að vera erfitt að finna kvakinu annað heimili á öldum ljósvakans. Aðrar stöðvar hljóta því að standa í langri röð og biðja blíðlega um að fá að útvarpa þessum vinsælum dagskrárliðum.

En svo má auðvitað alltaf biðja fyrir endurkomu kvaksins á Rúv :) bænin er, jú, öruggasta leiðin til þess að ná sínu fram. 


mbl.is Orði kvöldsins og Morgunbæn hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband