Þriðjudagur, 2. desember 2008
Geir eignar sér það góða, en slær striki yfir það vonda!
Eftirfarandi er hluti ræðu Geirs H. Haarde sem hann flutti á 37. landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2007. Hægt er að skoða ræðuna í heild sinni hér, en áhugavert er að sjá í þessum kafla hvernig Geir eignar sér fyrirvaralaust allt það sem vel hefur gengið hérlendis fram að þessum tíma. Engir fyrirvarar eru settir, engir varnaglar slegnir. Allt er Sjálfstæðisflokknum, undir styrkri og fumlausri forystu Geirs, að þakka. Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Geirs, stóð einn aukningu í velmegun hérlendis:
Síðustu sextán ár undir nær samfelldri stjórnarforystu okkar sjálfstæðismanna hafa verið þjóðinni farsæl. Við höfum náð að styrkja efnahagslegu stöðu þjóðarinnar með þeim hætti að aðdáun hefurvakið víða um heim. Þau viðfangsefni sem við glímum nú við í efnahagsstjórninni hér á landi þættu flestum öðrum ríkjum öfundsverð.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur aukist um 60% frá árinu 1995 og á sama tíma hafa skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður þannig að hann má heita skuldlaus. Vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs eru ekki lengur að sliga skattgreiðendur þessa lands. Af þessari kaupmáttaraukningu hafa tæp 20% komið til á yfirstandandi kjörtímabili.
Áherslur okkar sjálfstæðismanna á aukið viðskiptafrelsi, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og skattalækkanir hafa gerbreytt efnahagslífinu til hins betra. Atvinnuleysi, sem er landlægt böl í mörgum nágrannalöndum, er sem betur fer víðs fjarri okkur.
Það gengur vel í atvinnulífinu. Hefðbundnir atvinnuvegir, eins og sjávarútvegur og landbúnaður, halda áfram að þróast og taka breytingum við hlið nýrra greina og eru mikilvæg undirstaða byggðar um land allt.
Útrás íslenskra fyrirtækja hefur bæði skapað ungu fólki ný og spennandi atvinnutækifæri og verðmæta reynslu en einnig fært þjóðarbúinu nýjar tekjur úr ýmsum áttum. Lífskjörin í landinu hafa stórbatnað og mun meira en í nálægum löndum. Það er meira til skiptanna en áður fyrir alla.
Aukið frelsi á öllum sviðum hefur gert mannlífið í landinu fjölbreyttara og það er eftirsóknarverðara en áður að búa á Íslandi. Óvíða er betra að ala upp börn en hér á landi og víða um land er aðstaða foreldra og fjölskyldna til sérstakrar fyrirmyndar. Íslendingum fjölgar hratt, fæðingartíðni er hærri en í flestum sambærilegum löndum. Nýja fæðingarorlofskerfið er að skila sínu.
[...]
Staða okkar í alþjóðasamfélaginu hefur styrkst og Íslendingar njóta virðingar á alþjóðavettvangi. Við höfum náð að vinna farsællega úr gjörbreyttri stöðu eftir að bandaríska varnarliðið hvarf úr landi. Á Keflavíkurflugvelli bíða ótal möguleikar úrvinnslu á vegum hins nýjar þróunarfélags sem þar er að störfum.
Frelsi var leiðarljós þeirra breytinga sem innleiddar voru á tíunda áratugnum undir forystu okkar flokks. Þá var verið að brjótast úr viðjum fortíðar og innleiða stjórnunarhætti nútímans í efnahags- og stjórnmálum. Það hefur gefið þá góðu raun sem við vissum fyrir.
Krafturinn í íslensku samfélagi á sér engin takmörk. Ísland er orðið það sem við sjálfstæðismenn lofuðum - land tækifæranna.
Þá er áhugavert að sjá ályktun um efnahags- og skattamál sem samþykkt var á þessum fundi, en þar er 'ábyrgð' Sjálfstæðisflokksins á stöðu efnahagsmála hérlendis áréttuð.
Íslenskt efnahagslíf hefur blómstrað á undanförnum árum undir styrkri forystu sjálfstæðismanna. Frá árinu 1996 hefur hagvöxtur verið um 4,5% á ári að meðaltali og landsframleiðslan hefur aukist um helming á þessum tíma.
Afar lítið var gert úr áhrifum ytri aðstæðna í þessum efnum. Þau virtust aldrei vigta neitt sérlega mikið og bliknuðu eiginlega í samanburði við stjórnvísi Sjálfstæðismanna með Geir í fararbroddi.
Geir er alveg til í að eigna sér heiðurinn af því sem mestmegnis var skapað hér heima í gegnum stjóriðjuvæðingu og almenna þenslu á heimsvísu í fjármálakerfi heimsins. Geir telur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi, undir hans stjórn, gert allt ofangreint að veruleika.
Hvers vegna getur hann þá ekki gengist við því að þessar sömu aðgerðir hafi máské leitt þjóðina í glötun? Er minni hans virkilega svo valkvæmt að hann sjái þetta ekki? Er hann virkilega eins og efnahagslegur gullfiskur, hvers minni núllstillist á nokkurra sekúndna fresti? Það getur reyndar ekki verið því nógu lengi barði hann sér á brjóst og eignaði sér allt þegar vel gekk.
En það var auðvitað þá :)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.3.2010 kl. 19:36 | Facebook
Athugasemdir
Það var athyglisvert að lesa þetta. Auðvitað var það þá, í þá "góðu, gömlu daga", hvernig skyldi ræðan hljóða á næsta landsfundi? Það verður fróðlegt að fylgjast með því.:)
Nína S 2.12.2008 kl. 06:40
Það var aldrei "góðæri". Þetta var allt saman risastórt lántökusukk sem við verðum a.m.k. næstu 10 ár að borga, nema þjóðin fái einhvers konar happdrættisvinning í olíu- og gasvinnslu eftir 5-7 ár. Vilji menn vera eitthvað bjartsýnni en þetta þá held ég að það jaðri við heimsku.
Það sem blekkti marga íslendinga stórkostlega var að allar lántökurnar mældust á fullu inn sem "landsframleiðsla" og settu okkur á toppinn (3. sæti) með þjóðartekjur á mann (pr. capita).
Haukur Nikulásson, 2.12.2008 kl. 09:55
Að geta ekki vegið og metið og sjá einungis framgang en ekki bakhliðar er veikleiki og ber vott um að sá sem slíkt drýgir sé ekki mjög reflexívur.
Anna Karlsdóttir, 2.12.2008 kl. 12:31
Geir skortir alla hógværð, sjálfsmat og ábyrgðarkennd.
Slíkir menn eru ekki leiðtogar. Þetta eru allt einkenni einvalda og gróðrahyggjumanna.
Það þarf ekki að sanna það meira. En hárrétt hjá þér Haukur. Það var aldrei góðæri. Lánablekking sem þjóðinn féll kylliflöt fyrir enda logið að henni hægri vinstri.
Þröstur 2.12.2008 kl. 22:17
Hvenær megum við vænta þess að Geir H. Haarde sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu?
Hún er næstum við eins skrifuð og ályktun landsfundar 2007 og efnislega alveg rétt.
Óli Jón, 9.12.2008 kl. 20:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.