Fimmtudagur, 30. október 2008
Varnarlaus?
Ingibjörg Sólrún, varnarmálaráðherra, greindi nýverið frá því að hugsanlega verði loftrýmisvörn Breta í desember afþökkuð. Með þessu verður vonandi gert langt hlé á einni hlægilegustu og fáránlegustu ráðstöfun í sögu íslenska lýðveldisins, þ.e. að fá útlenda dáta til að verja okkur endrum og sinnum og auglýsa svo hvenær það er gert. Ergo, óvinir Íslands vita þannig hvenær við erum varin og hvenær ekki. Það er snjallt. Ofursnjallt, jafnvel!
Hér er lítið dæmi til að lýsa þessu fyrir þá sem ekki skilja málið alveg. Ísland kaupir loftrýmisgæslu af t.d. Bretum í desember. Í nóvember og janúar nýtur þessarar gæslu ekki við. Ef ég er óvinur Íslands, hvenær vel ég að ráðast á landið?
Hér er lítið dæmi til að lýsa þessu fyrir þá sem ekki skilja málið alveg. Ísland kaupir loftrýmisgæslu af t.d. Bretum í desember. Í nóvember og janúar nýtur þessarar gæslu ekki við. Ef ég er óvinur Íslands, hvenær vel ég að ráðast á landið?
- í nóvember
- í desember
- í janúar
- Ísland á engan óvini
Svari hver fyrir sig!
Ég vorkenni því fólki sem er svo vænibrjálað að það sér hættu á báða bóga. Fjendur í hverjum skugga. Launráð við hvert fótmál. Það fólk vill hervæðingu, hervæðingarinnar vegna. Vopnvæðingu, vopnvæðingarinnar vegna. Glórulausa eyðslu í hernaðarbrölt ... af því að það er svo svalt?
Sem betur fer virðist skynsemin þó ætla að ráða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Svona nú það má nú ekki taka þetta af hægri mönnunum líka. það er ekki nóg með að peningahyggjan sé búin að sanna sig sem drasl heldur á að fara að halda því fram að við þurfum ekki varnir heldur. þetta er nú bara guðlast af verstu gerð og þú verður örugglega bannfærður af Jesúbloggsfíflunum fyrir svona bull ef ekki krossfestur.
Ja hérna.
Upprifinn, 31.10.2008 kl. 01:01
Ég held þið ættuð að lesa – OG GLÍMA VIÐ – forystugrein Morgunblaðsins á liðnum degi. Aðhlátur án skoðunar málsins og án mótraka myndi aðeins dæma ykkar eigin málefnafátækt, þess vegna skuluð þið reyna að svara. Eða ætlið þið kannski að leggja það til, að Norðurlöndin öll leggi niður heri sína? Mér er sem ég sjái því tekið vel þar um slóðir! – Og ekki sakar að lesa þessa pistla mína:
Jón Valur Jensson, 31.10.2008 kl. 02:46
Jón Valur: Það er haft fyrir börnunum að þau þurfi ekki að apa alla ósiði upp eftir vinunum og þetta á einnig vel við um okkur fullorðna fólkið. Það að vísa í hervæðingu hinna Norðurlandanna eru harla léttvæg rök fyrir hervæðingu okkar. Það sést líklega best hvað málstaður þinn er slappur að þú grípur óðar til sproksetningar varnarmálaráðherra, en skv. þinni eigin skilgreiningu er slíkt merki um rökþrot og málefnaþurrð.
Öryggi landsins er sannarlega hætta búin. Það sýnir sig þó að við sjálf erum stærsta hættan sem og 'vinir' okkar, sbr. fautaleg vinnubrögð Breta á dögunum. Verjum okkur gegn slíkum hættum sem eru raunverulega áður en við förum að bregðast við ímynduðum óvinum í krókum og kimum.
Ég styð það fullkomlega að við afþökkum þessar sýndarvarnir sem listflug Breta yfir landinu yrði í desember. Ég er nefnilega ekki hrifinn af því að einhver brosi við mér og mæli fagurgala meðan hann sparkar linnulítið í sköflunginn á mér. En ljóst er að slíkt hugnast sumum.
Óli Jón, 31.10.2008 kl. 09:14
Þessi 'röksemd' þín um apaháttinn er ekki verðug skoðunar, Óli Jón, en hitt er verðugt athugunar, af hverju ekki aðeins Norðurlöndin öll (bæði þau, sem eru innan og utan NATO), heldur einnig Írland, Sviss, Eystrasaltsríkin þrjú, Pólland o.s.frv. eru öll með hervarnir. Reyndu bara að tala um þetta sem "ósiði" og "léttvægt", en viltu þá ekki snara þér til þessara landa til að hafa vit fyrir þjóðunum þar?!
Jón Valur Jensson, 31.10.2008 kl. 12:28
Jón Valur: Þetta er 'apaháttinn' er gamalt og gott viðkvæði í uppeldi og merkir einfaldlega að maður þurfi ekki endilega að fylgja öllum öðrum eftir, jafnvel þótt manni langi ógurlega mikið að vera með.
Hvað varðar núverandi stöðu þessara landa sem þú taldir upp, þá er hún í mínum huga sorgleg afleiðing aldalangrar hervæðingarstefnu sem tilheyrði gömlum heimi og fornlegu hugarfari. Þessi lönd geta ekki tekið í sundur þá hernaðarmaskínu sem þau hafa byggt upp, en ég tel að nokkur vilji sé til þess innan þeirra.
Ég þarf svo sem ekkert að hafa vit fyrir þessum löndum sem þú telur upp, þeirra staða er þeirra (vanda)mál. Ég þarf hins vegar ekki að vera þeim sammála! Því til stuðnings er mér efst í huga þau sterku og afgerandi dæmi um það þegar vopnleysi okkar vann með okkur, ekki gegn, sbr. Þorskastríðið. Þannig sannar sagan að við höfum aðeins hagnast á vopnleysinu í gegnum tíðina, aldrei tapað.
Óli Jón, 31.10.2008 kl. 12:49
Óli, ég varaði þig við. Var það ekki?
Upprifinn, 10.11.2008 kl. 20:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.