Kristilegt siðgæði - reiðarslag fyrir frjálst val?

Nú þurfa þeir sem unna frjálsu vali og vilja eðlileg mannréttindi að snúa bökum saman. Í bloggfærslu í dag segir alþingismaðurinn Sigurður Kári eftirfarandi:

Þau tímamót urðu í starfi okkar sem sæti eigum í menntamálanefnd Alþingis á föstudag að við afgreiddum fjögur frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntamál kennara og skólastjórnenda.

Menntamálanefnd þingsins haft þessi efnismiklu frumvörp til vinnslu síðan í desember og fengið á fundi sína fjölda gesta.  Nefndin leggur til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði.

Breytingatillögur okkar verða lagðar fram á Alþingi í vikunni.

Einkaleyfi á almennu siðgæði?Þarna virðist alþingismaðurinn gefa það í skyn að ákvæði um 'kristilegt siðgæði' verði áfram haldið inni í lögum um leik- og grunnskóla. Ef rétt er, þá er þetta sorgleg staða og snautleg afgreiðsla frá fulltrúa flokks sem telur sig setja einstaklinginn og frelsi hans í öndvegi. Þó ber að hafa í huga að þetta er flokkurinn sem rær að því öllum árum að einkavæða heilbrigðiskerfið á meðan hann treystir í sessi ríkisvæðingu trúarinnar.

Þetta er á skjön við alla skynsama hugsun og þá þróun sem er að verða í trúmálum á Vesturlöndum þar sem skynsemin er að verða trúnni yfirsterkari. En það er örugglega þetta sem veldur þessu krampakennda viðbragði. Trúin er á undanhaldi, en ríkir hagsmunir Ríkiskirkjunnar ohf. valda því að það verður að nýliða inn í hana með öllum leiðum, jafnvel með því að boða trúna leik- og grunnskólabörnum sem ekki eru í neinni aðstöðu til þess að gagnrýna það 'tilboð', heldur er uppálagt að taka öllu með opnum hug sem fólk í valdstöðu boðar í skólunum. Þetta er í hæsta máta ógeðfellt og sorglegt.

Sigurður Kári, alþingismaður, treystir því ekki að trúaðir foreldrar geti axlað þá ábyrgð að ala börn sín upp í trú. Því vill hann tryggja áfram greiðan aðgang Ríkiskirkjunnar að smábörnum landsins á þeim stað sem mest á að tryggja þeim hlutlaust umhverfi - í skólanum!

Það er aumt að Ríkiskirkjan þurfi á þessari meðgjöf að halda. En líklega er það mat manna á borð við Sigurð Kára að hún geti ekki lifað án hennar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Það á semsagt að halda áfram að heilaþvo börnin með einhverri trúarvellu. Gildir einu hvort börnin koma úr kristnum fjölskyldum eða fjölskyldum annarra trúa.

Þetta þykir frá mínum bæjardyrum séð bara hræsni gagnvart fólkinu í landinu.

Ólafur Björn Ólafsson, 11.5.2008 kl. 21:36

2 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Það er alltaf að sýna sig betur og betur að Þjóðkirkjan OHF, er ekki stofnun sem á að hafa aðgang að ómótuðum huga ungra barna, slíkt er ekkert nema misnotkun á trausti og skemmdaverk gegn þekkingarleit hins opna huga barnsins

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 12.5.2008 kl. 09:11

3 Smámynd: Púkinn

Tja - Púkinn vísar nú bara í það sem hann sagði hér um þetta mál.  Púkinn er þeirrar skoðunar að "kristið siðgæði" sé ekkert betra öðrum tegundum siðgæðis, og engin ástæða til að halda því sérstaklega að börnum - sér í lagi ekki þegar stór og vaxandi hluti þjóðarinnar lætur trúmál sig litlu eða engu skipta - svo ekki sé nú minnst á þá sem ekki teljast kristnir.

Púkinn, 12.5.2008 kl. 09:13

4 identicon

Heiðraði Óli. Það vill nú svo til að um það bil 90% þjóðarinnar eru bæði skírð og fermd inní lúthersk- evangelíska kirkju. Það merkir einfaldlega að mikill meirihluti þjóðarinnar tilheyrir þeirri kirkjudeild og réttlætir því það að sú kirkjudeild sé "rekin" af ríkisapparatinu (reyndar er kirkjan sjálfstæð eining í samvinnu við ríkið). Sú gamla lumma að fólk "fermist fyrir peningagjafirnar" eða "af því að allir fermast" eru ekki rök fyrir því að fermingin sjálf, sem staðfesting skírnarinnar, sé gagnslaus. Sá hópur sem, af sannfæringu, staðfestir skírnarheiti foreldra og annarra skírnarvotta, þarf einnig að njóta sannmælis....ekki bara þeir sem eru falskir og tvöfaldir í roðinu. Mér segir svo hugur um að þeir sem fermast vegna þess að þeir vilja tilheyra lútherskri kirkju vilji að hlustað sé á þá. Kveðja, Páll.

Páll Einarsson 12.5.2008 kl. 09:30

5 identicon

Það er skelfilegt að lesa Ólaf Björn og Púkann hér að ofan svo ekki sé talað Um Óla Jón.   það má lesa úr þessum skrifum ótta við Kristnina,  þrjósku, eins og illa siðuðum börnum og ungingum er töm,  það má lesa heimsku og jafnvel minnimáttarkennd.  Ykkur er sár vorkunn að láta þetta fara svona fyrir brjóstið á  ykkur.  Það er að sjá að hamingja ykkar sé fallvölt og ekki byggð á traustum grunni.  það er eins og þið séuð ofsóttir af Kirkjunni og hennar mönnum.  Páll,  hér að ofan, hefur mjög margt til síns máls.  Og ekki láta eins og ykkur sé þröngvað til eins né neins.  Þið hafið val og það gott og ekki sjá ofsjónum yfir Kristinni.  Hún er hér, verður hér og mun blómstra af því hún er feykilega sterk og góð.

Eg sjálfur er mikið að spá í  að gerast kaþólskur.  Mér leiðist að vera í flokki  fólks eins og ykkar sem argist og þvargið um ekki neitt.  Alltaf vælandi um hvað þig eigið bágt og að ykkur er sótt.  Fólk að biðja bænir allt í kring um ykkur og þið smeykir við að það nái eyrum ykkar og mýki ykkur. EF þið væruð í raun trúlausir þá létuð þið ekki svona.  Reynið því að finna ykkar innra sjálf og látið aðra í friði með sitt.  Það kann að færa ykkur smá hamingju.  Meigi krafturinn vera með ykkur alla tíð og börnum ykkar, ef þið eigið þau.

Simbi Sæfari 12.5.2008 kl. 11:13

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

NÝJASTA NÝTT. Þótt Sigurður Kári sé ekki búinn að svara lykilspurningum á bloggi sínu um þetta mál þá hef ég fengið lýsingar annars nefndarmanns úr menntamálanefnd.

það er ekki verið að setja inn í frumvörpin (markmiðsgreinar skólalaga) aftur ákvæðið um kristilegt siðgæði. Vegna gráturs og gnístran tanna sumra varð til "lending" sem felst í því að setja inn í markmiðsgreinarnar setningu um hina kristnu arfleifð, en annars er siðgæðið miðað við fyrrtalda upptalningu; umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Hið óskilgreinda hugtak er því ekki á leið inn, en hins vegar áréttuð áherslan á Íslandi á hina kristnu arfleifð. Þarna er heilmikill munur á í mínum huga, því eins og ég hef fyrr sagt þá hlýtur trúarbragðakennsla á Íslandi að leggja hvað mestu áhersluna á einmitt hina kristnu menningararfleifð - annað er óhjákvæmilegt. Og auðvitað erum við að tala um fræðslu en ekki trúboð.

Hafi ég skilið lýsingarnar rétt er því engin grundvallarbreyting að eiga sér stað á þeim breytingum sem menntamálaráðherra boðaði, aðeins fyrst og fremst verið að rétta ákveðnum öflum dúsu. Sjáum það betur þegar breytingatillögur menntamálanefndar verða lagðar fram.

Þetta kann hins vegar að vera of mikil eftirgjöf fyrir fólk sem er róttækara gagnvart trúarbrögðum en ég, þ.e. þeirra sem vilja alls enga tilvísun til ákveðinna trúarbragða, þótt nú sé talað um arfleifð en ekki siðgæði. Ég geri þónokkurn greinarmun þarna á milli en það gera kannski ekki Matti og félagar í Vantrú eða t.d. talsmenn annarra skipulagðra trúarbragða en kristninnar. Munurinn liggur kannski í því hvort fólk er á móti trúarbrögðum eða ekki. Ég er ekki á móti trúarbrögðum heldur fyrst og fremst á móti forréttindum tiltekinna trúarbragða - er gegn mismunun milli trúarbragða.

Óljós bloggfærsla Sigurðar Kára verður að teljast klaufaleg í ljósi þessa, því það er erfitt að skilja hana nema á einn veg.

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.5.2008 kl. 11:53

7 Smámynd: Óli Jón

Ég vil byrja á því að þakka Friðriki Þór fyrir hans skýringu á málsatvikum og vona ég að svona sé í pottinn búið. Þá tek ég undir orð hans þess efnis að bloggfærsla Sigurðar Kára hafi verið illa ígrunduð.

Hvað varðar 80-90% lummuna sem heiðraður Páll Einarsson ber á borð, þá verð ég alltaf jafn forviða þegar hún er hituð upp. Að nokkur maður skuli sjá málstað sínum vörn í því að vitna í afurð rakalausrar skylduskráningar hvítvoðunga í Ríkiskirkjuna er svo ótrúlegt að engu lagi er líkt.

Ég vil byrja á því að segja að ég er þess fullviss að það er fjöldi fólks hér heima sem játar kristna trú fölskvalaust, en ég er jafn viss um að það eru engin 80-90% þjóðarinnar. Í besta falli nær sá fjöldi helmingi þess hlutfalls. Þá vil ég minna á að fyrir þremur árum tilheyrði ég þessum 80% af því ég hafði ekki haft nennu til að skrá mig úr Ríkiskirkjunni. Ég var þannig talinn til þess hóps þjóðarinnar sem fylgir Ríkiskirkjunni að málum í gegnum þykkt og þunnt. Er það ekki hlægilegt, sorglegt og bagalegt ... allt í einu?

Fermingin sjálf er svo sér fyrirbæri þar sem krökkum er smalað skipulega saman í skólum og þau rekin sem hjörð í fermingarfræðslu á skólatíma! Mikill fjöldi þeirra lætur til leiðast og horfir til þess að við lok þeirra göngu uppskera þau oft ríkulega í reiðufé og góssi. Hins vegar fer iðulega lítið fyrir trúarhita.

Simbi sæfari, sem er augsýnilega ekki traustari í sinni trú en svo að hann treysti sér að koma fram undir nafni, gerir sér enga grein fyrir í hverju hlutleysi og jafnrétti er fólgið. En hann er augsýnilega þeirra skoðunar, eins og svo margir dátar Ríkiskirkjunnar, að hún muni líða undir lok ef hún fær ekki greiðan aðgang að vöggustofum sem og leik- og grunnskólum landsins. Dæmi þá hver fyrir sig um reisn þess málstaðar!

En skynsemin virðist ætla að hafa sigur að þessu sinni, sem er vel.

Óli Jón, 12.5.2008 kl. 12:35

8 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Það vill nú þannig til að frumkvæðið að því að fá t.d. presta í heimsókn í leik- og grunnskóla sem og að leik- og grunnskólar hafi verið að sækja messuhald hjá þjóðkirkjunni hefur í mun meiri mæli komið frá leik- og grunnskólunum sjálfum heldur en þjóðkirkjunni sjálfri.

Þjóðkirkjan er einfaldlega að bregðast við kalli skjólstæðinga sinna . . . á hún kannski bara að loka dyrunum?

Það er allt í lagi að taka afstöðu, fremur en að lýsa sig algjörlega hlutlausan.

Magnús V. Skúlason, 12.5.2008 kl. 12:35

9 Smámynd: Óli Jón

Varðandi innlegg tímasett 12.35: Það er ekkert réttlæti í því að kennarar taki fram fyrir hendur foreldra með því að óska eftir heimsóknum frá Ríkiskirkjunni eða þá að hafa frumkvæði að því að farið sé með börnin í messur. Í þessum tilfellum eiga kennararnir að gera sér grein fyrir hlutverki sínu og ábyrgð og halda sig við kennslu í veraldlegum og hlutlægum fræðum.

Auðvitað á Ríkiskirkjan ekki að loka neinum dyrum. Þær eiga að standa þeim opnar sem þangað vilja fara. Ég er þess fullviss að foreldrar, uppljómaðir af trúarlegum innblæstri og eftirsókn í boðskap hennar, muni flykkjast þar að með börn sín. Hinir láta það vera.

Trúarlegt uppeldi er á ábyrgð foreldra og verða þeir að sinna því. Engin rök, sem lúta að því að skólinn eigi að axla þá ábyrgð, standast skoðun.

Óli Jón, 12.5.2008 kl. 12:46

10 Smámynd: Ellý

Ég er sjálf orðin afskaplega leið á þessu orðtiltæki, "Kristilegt Siðgæði".

Kristnin hefur engan einkarétt á þessu og hefur vægast sagt ekki verið góð fyrirmynd fyrir það heldur. 

Ellý, 12.5.2008 kl. 13:24

11 identicon

Óli Jón  er ekki kominn timi á að þú slakir aðeins elsku karlinn minn  Mér finnst þú orðinn alltof róttækur.  Það skín af þér ofstækið.  Kannski þú hafir verið prestur í fyrra lífi eða bara munkur, svei mér þá.  Þú ætlar þér meira að segja að fara að segja kennurum landsins fyrir verkum.  Þú vilt kannski hafa með gerð stundarskrár þeirra að gera? Svona hvað má kenna og hvað ekki?  Auðvita á skólinn að að axla alla þá ábyrgð sem samfélagið leggur á hans herðar eða þak   Bæði hvað varðar kennslu trúarbragða og trúleysis og skólinn gerir það.  Ertu ekki að fylgjast með hvað fram fer í skólanum?  Ertu bara að skjóta vegna þér finnst á þér troðið  Af hverju ertu svona sár vinur minn? Enn og aftur, megi krafturinn vera meða þér alltaf.   Megi líka kærleikurinn umlykja þig.

Simbi Sæfari 12.5.2008 kl. 14:28

12 Smámynd: Ellý

Ragnar Örn. Kærleikur og falleg trú? Þú hefur greinilega aldrei lesið biblíuna...

Ellý, 12.5.2008 kl. 15:10

13 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Það vill nú þannig til að frumkvæðið að því að fá t.d. presta í heimsókn í leik- og grunnskóla sem og að leik- og grunnskólar hafi verið að sækja messuhald hjá þjóðkirkjunni hefur í mun meiri mæli komið frá leik- og grunnskólunum sjálfum heldur en þjóðkirkjunni sjálfri."

Þetta er *lygi*.  Í öllum þeim tilvikum sem ég þekki, sem eru nokkuð mörg, kom frumkvæðið frá ríkiskirkjunni og stundum var hart gengið fram til að fá að troða kirkjulega starfi í leik- eða grunnskóla. Hér get ég bæði vísað til leikskólatrúboðs í Seljahverfi og Vinaleiðar í Garðabæ. Í báðum tilvikum var það ríkiskirkjan sem átti frumkvæði að starfinu og lagði hart að skólastjórnendum að samþykkja það.

Það er ljótt að ljúga Magnús Viðar.

Matthías Ásgeirsson, 12.5.2008 kl. 15:26

14 Smámynd: Óli Jón

Varðandi innlegg tímasett 14.26: Mér er síður en svo uppsigað við að börn fái fræðslu um fallega trú. Það er hins vegar undarlegt hvað 'Ragnar Örn' og aðrir trúaðir hafa litla trú á foreldrunum í þeim efnum. 'Ragnar Örn' treystir augsýnilega foreldrum ekki hætis hót í þessum efnum og telur því nauðsyn á halda fast í ríkisvæðingu trúboðs. Mín skoðun er sú að ef foreldrum finnst trúin jafn frábær og 'Ragnar Örn' segir hana vera, þá hljóti þeir að miðla henni til barna sinna. Er það ekki rökrétt? Eða er ekki hægt að ætlast til þess?

Varðandi innlegg tímasett 14.28: Samfélagið gerir þær kröfur til skólans að verkefnaval hans taki mið af veraldlegum og hlutlægum gildum. Við höfum ekki haft aðra eins umræðu um nokkuð á verkefnaskrá skólanna eins og trúmál, nema kannski mengjafræðina hér í gamla daga! Þessi umræða ætti að hringja einhverjum bjöllum í hugum trúaðra eins og hún gerir hjá okkur vantrúuðum. Gerum ekki skólana að vígvelli, gætum þess að þeir séu ávallt staðsettir á hlutlausu svæði!

Ég get vel fallist á að ég sé ofstækisfullur og forhertur í minni skoðun, enda tel ég tilefni til. Að sama skapi eru 'Simbi Sæfari' og áhöfn hans á M/S Örkinni jafn ofstækisfull og forhert. Við eigum þó að geta verið sammála um að vernda börnin fyrir ofstæki í skólum, hverrar tegundar sem það er!

Óli Jón, 12.5.2008 kl. 15:38

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Tek undir að Magnús Viðar fer verulega á svig við sannleikann í fullyrðingum sínum um frumkvæðið.

Ragnar Örn er bara að rífa kjaft og innihaldið er verðlaust. Eins og fullyrðingin um að kærleikur og falleg trú einskorðist við kristni.

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.5.2008 kl. 15:39

16 identicon

Kristilegt siðgæði er gott og gilt siðgæði. Og er siðgæði sem aðrir trúarhópar geta alveg lært og tekið til sín. Þeir þurfa ekki að verða kristnir fyrir það. Siðgæði er ekki trú, heldir virðing fyrir samfélaginu og meðbræðum.

Að vera kristinnar trúar er ekki sama og ofstæki.

Sigrún Jóna 12.5.2008 kl. 16:09

17 Smámynd: Óli Jón

Varðandi innlegg tímasett 16.09: Það er rétt að ekki er hægt að setja jafnaðarmerki milli þess að vera trúaður og að vera ofstækismaður. Hins vegar eru til trúaðir ofstækismenn sem eru jafn forhertir í sinni afstöðu eins og t.d. ég í minni sem vantrúaður.

Ég er jafnframt sammála því sem Sigrún Jóna skrifar:

Siðgæði er ekki trú, heldur virðing fyrir samfélaginu og meðbræðrum.

Gott siðgæði er því ekki nokkuð sem bundið er við kristna trú. Margir hafa hins vegar viljað eigna kristinni trú gott siðgæði, en hún á ekkert tilkall til þess eða einkarétt.

Óli Jón, 12.5.2008 kl. 16:40

18 identicon

Þeir sem hampa kristilegu siðgæði ættu að staldra við og athuga hver er kristilegi hluti þess. Enginn sjáanlegur munur er á kristilegu siðgæði og almennu hjá flestu fólki. Þessi kristilegi stimpill er eitthvað sem hefur haldist vegna venju og hefðar en hefur ekkert innihald í sjálfu sér.

Telja talsmenn kristilegs siðgæðis t.d. að hjónaskilnaður jafngildi hórdómi eins og Jesús sjálfur hélt fram (t.d. Mark 10.10-12)? Ef svo er ekki þá eru þeir augljóslega að velja það úr "kristilegu siðgæði" sem þeim hentar best og því er einfaldast að sleppa hreinlega þessum óþarfa kristilega millilið. 

Lárus Viðar Lárusson 12.5.2008 kl. 17:25

19 Smámynd: Hulda Proppé

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir - ekkert dýr má borða annað dýr

Alveg sting í eindregið upp á því að við slökum nú bara öll á og tökum eins og eitt Rommý.

Hulda Proppé, 13.5.2008 kl. 15:30

20 Smámynd: Óli Jón

Mín ágætasta Proppé :) Ég væri alveg til í taka eitt Rommí. Það er allra meina bót!

Óli Jón, 14.5.2008 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband