Al Gore

Al GoreÍ morgun naut ég þeirra forréttinda að sitja við fótskör meistara Al Gore og hlusta á það hörmungaerindi sem hann flytur allri heimsbyggð. Ég bauð mömmu í bíó hér í denn þegar myndin An Inconvenient Truth var sýnd og var um sama fyrirlestur að ræða í grunninum, en hann hafði þó tekið nokkrum breytingum. Ég er Glitni þakklátur fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að mæta á fyrirlesturinn. Of oft eru svona gestir fráteknir fyrir aðra en sauðsvartan pöpulinn, en að þessu sinni fengu allir jafna möguleika.

Al Gore er frábær ræðuskörungur. Hann kom efninu fumlaust og skýrt frá sér og fléttaði snilldar vel saman máli og myndum. Ég fann að hann átti stóran hóp skoðanasystkina í sætum Háskólabíós, enda var snillingnum klappað lof í lófa þegar hann lauk tölu sinni. Framsetningin er líka sláandi. Bornar eru saman ljósmyndir af jöklum sem teknar eru með 25 ára millibili; á þeim fyrri eru jöklar, á þeim seinni nakið berg eða stöðuvötn. Loftmyndaröð af Larsen B ísflæminu sem sýndi hvernig hún liðaðist í sundur á nokkrum dögum. Vísindamenn höfðu áður áætlað að hún myndi halda saman í allt að 100 ár. Niðurstöður mælinga sem sýna óþekktar stærðir í magni kolefnis í andrúmsloftinu. Aukin tíðni hvers kyns hamfara; fellibylja, flóða og skógarelda. Skeytingarleysi og afneitun alríkisstjórnvalda í Bandaríkjunum. Útbreiðsla hvers konar óværu og sjúkdóma með meiri hlýnun. Af nógu er að taka, upptalningin er ömurleg.

Auðvitað er málflutningur Al Gore umdeildur. Margir sjá ofsjónum yfir því hvað hann hefur fram að færa og í hvaða búning hann setur hlutina. Ég varð eiginlega hálf spældur yfir því að sjá ekki Jón Glúm Baldvinsson hlaupa upp á svið og tækla kallinn; það hefði gert góðan fund enn eftirminnilegri. Sjálfur hef ég fulla trú á því að Gore byggi fyrirlestur sinn á bestu fáanlegu gögnum og því gefi þetta nokkuð raunsanna mynd.

Hins vegar er hægt að leika sér að þeirri hugmynd að kallinn bæti aðeins í og máli hlutina með ögn dekkri litum en raunverulega þarf, eins og margir segja hann gera. Þá spyr ég mig hvernig yrði ef hægt væri að deila í það sem Gore var að lýsa með tveimur? Þremur? Eða fimm? Hvað ef aðeins fimmtungur þess sem hann lýsti í morgun gengi eftir? Í mínum huga er það engu að síður næg ástæða til þess að við grípum hart inn í. Gore segir að 25 milljón tonn af kolefni fari í sjóinn daglega. Ef þau eru ekki nema fimm milljónir, veitir það okkur rétt til að slá slöku við og gera ekki neitt? Sjórinn verður þá bara fimm sinnum lengur að breytast í sýrubað, en það gerist á endanum. Gore segir að daglega fari um 70 milljón tonn af kolefni út í andrúmsloftið. Væri það ásættanlegt ef þetta væru bara um 15 milljónir tonna?

Við höfum ekki efni á því að bíða. Það er margt sem einstaklingurinn getur gert sem skiptir máli. Endurvinnum dagblöð, fernur, gosflöskur og dósir. Látum einn plastpoka nægja í stað tveggja þegar við verslum. Skiptum út ljósaperum og notum umhverfisvænar perur. Lesum skjöl af skjánum í vinnunni í stað þess að prenta allt á pappír. Ef við prentum eitthvað, endurvinnum þá pappírinn. Þeir sem eru komnir með bláu tunnuna frá Reykjavíkurborg eiga að skila henni strax og fá í staðinn Endurvinnslutunnuna frá Gámaþjónustunni, hún er margfalt betri og notadrýgri. Gerum umhverfisvænt ennþá vænna. Veljum hvítt, ef við höfum ekki skoðun á litnum. Kolefnisjöfnum! Hættum að ræsta fram mýrar landsins. Notum svo metan-gasið sem Sorpa getur framleitt í magni til að knýja bílana okkar og drífum í alvöru vetnisvæðingu. Látum börnin okkar, þegar þau hafa aldur og þroska til, taka strætó í stað þess að skutla þeim út um allt. Þetta og miklu meira til er hægt að gera án þess að gera neinar stórvægilegar breytingar á lífsstíl eða venjum.

Þetta skiptir allt máli.

Það er við hæfi að enda þetta á tilvitnun í Winston Churchill, en hann var í miklu uppáhaldi hjá pabba mínum. Þessi orð lét hann falla þegar hann sá fyrir yfirgang nasista í Evrópu meðan flestir aðrir skelltu við skollaeyrum:

"The era of procrastination, of half-measures, of soothing and baffling expedients, of delays, is coming to its close.  In its place we are entering a period of consequences."

Málið er að við sem nú erum á fullorðins aldri töpum ekki miklu á því að bíða og gera ekki neitt. Þeim mun meir mun það hins vegar bitna á börnunum okkar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband