Sígarettuframleiðendur fjarlægja skaðleg efni úr sígarettum!

Ljúffeng, góð og meinholl sígaretta!Auðvitað ekki? :) Þetta er samt flott fyrirsögn!

Meðan það er leyfilegt að flytja inn og selja sígaréttur eru svona fréttir í besta falli hlægilegar og í versta falli sorglegar. Ég man t.d. eftir því þegar gamla brennið Victory-V var tekið úr sölu hér í gamla daga, en sú ráðstöfun var gerð í óþökk minnar og Björgvins mjólkurfræðings í Osta- og smjörsölunni, en báðir vorum við eldheitir unnendur brennisins. "Fáðu þér brenni, knægt!", hætti að hljóma bræðslunni og í staðinn norpuðum við hér á skerinu án hins bráðdrepandi brennis, en sem betur fer gat ég stytt mér stundir með meinhollum reykingum. Svo þegar brennið kom aftur í sölu, og þá án hins bráðdrepandi og ógeðslega aukefnis sem lýðheilsuyfirvöld höfðu séð ofsjónum yfir, var það óætt og vont. En við höfðum sígarettur, sem betur fer!

Svo man fólk á mínum aldri eftir þeirri skýru og viðvarandi hættu sem stafaði af Tab neyslu hér á árum áður, en yfirvöld í lýðheilsumálum höfðu reiknað út að ef einnar baðkarsfylli af Tab var neytt daglega í tuttugu ár þá hækkuðu nokkuð líkur á krabbameini eða heimsku eða einhverju öðru. Ég man reyndar ekki hvort Tabið var tekið af markaði, en ef svo var ekki þá hljóta gamlir Tab-fíklar að týna tölunni hvað úr hverju, enda komnir á tíma. Söknuðurinn eftir Tabinu var þó ekki eins sár og ella sökum þess að maður gat keypt sér sígarettu og reykt og reykt og reykt ... góðar stundir!

Þá rifja ég einnig upp ógæfuna sem hlaust af því að Lucky Charms var selt hérlendis og hreinlega teflt fram af Nathan & Olsen, hlaðið eiturefnum, til að vega að heilsu íslensku þjóðarinnar. Lýðheilsuyfirvöld brugðust skjótt við og bönnuðu þennan vágest, en fyrir það kunnum við þeim auðvitað miklar þakkir fyrir. Í valinn féllu einnig Count Chocula, Boo Berry og Frankenberry, en upprisu þeirra er beðið með óþreyju! Meðan á þessu stóð var nú gott að getað drepið tímann með því að fá sér hollan og góðan kost, sígarettu!

Og er hægt að minnast þessara dökku kafla í sögu íslensku þjóðarinnar án þess að geta bláu M&M eiturpillunnar? Á tímabili varð M&M að smyglvarningi þegar agentar íslenskrar lýðheilsugæslu gerðu það útlægt. Maður norpaði á götuhornum og beið eftir M&M díler og fékk smá yl í kroppinn með því að reykja eina sígarettu!

Nú man ég ekki eftir því hvaða bráðdrepandi efni voru í þessum vörum, en mér er stórlega til efs að Pólóníum 210 hafi verið þar að finna. Eða blásýru. Nú, eða arseník. Hvað þá dímetýlnítrósamín. Svo ekki sé minnst á brennisteinsvetni.

Ég fletti upp áhugaverðri grein á Vísindavefnum og þar eru talin upp nokkur efni sem hvert og eitt er talið nokkuð hættulegra heilsu manna en þetta ágæta glúkósamín sem Lýsi er gert að fjarlægja úr vörum sínum, en það efni er líklega bara hollt. Á netinu er að finna fjölda greina sem segja að samtals séu 2.000 til 2.500 skaðleg efni í sígarettum, en til að gæta allrar sanngirni þá held ég mig við töluna sem nefnd er á Vísindavefnum, 2.000. Efst á listanum eru þessi ágætu efni sem virðast algjörlega hafa farið fram hjá útsendurum lýðheilsueftirlitsins:

  • Nikótín
  • Tjara
  • Kolsýrlingur
  • Akrýlónitril
  • Ammoníak
  • Arsenik
  • Benzen
  • Benzóapýren
  • Blásýra
  • Brennisteinsvetni
  • Dímetýlnítrósamín
  • Formaldehýð
  • Hýdrazín
  • Metanól
  • Pólóníum 210
  • Úretan

Af hverju er Lucky Charms talið hættulegra en Marlboro? Hvernig er hægt að segja að Victory-V sé skaðlegra en Winston? Er Tab virkilega óhollara en filterslaus Camel? Getur verið að blátt M&M sé verri kostur fyrir heilsuna en Capri?

Getur það virkilega verið? Er þetta rétt forgangsröðun?


mbl.is Lýsi fjarlægir efni úr vörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Proppé

Þú gleymir bláum Ópal. Þvílíkt guðlast að hann skyldi hafa verið tekinn úr hillunum. Þegar menn svo uppgötvuðu að hægt væri að fjarlægja það sem var álitið skaðlegt, stóðu vonbrigðin ekki á sér; "brenni" og blár Ópal eru í sama flokki.

Þegar ég var, einu sem oftar, ófrísk, fékk ég óstjórnlega löngun í bláan Húbba Búbba. Ég sagði mjög smekklega að ég "ætlaði" að fá einn pakka og stúlkan horfði á mig mjög stórum augum. Það var kallað á verslunarstjórann því hún hafði ekki hugmynd um um hvað ég var að tala. Þá komst ég að því að hann hafði líka verið tekinn úr sölu fyrir nokkrum árum vegna skaðlegra efna. Einmitt...góð saga. Ég segi nú bara: "Hvað er ekki skaðlegt nú til dags?" Maður ætti kannski að fá sér eina rettu!

P.s. Lucky Charmes er komið aftur í hillurnar, það fylgir ekki sögunni hvaða "óskunda" hefur sleppt

Hulda Proppé, 7.4.2008 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband