Urð og snjór, upp í mót ...

SlóðÍ kvöld átti ég mína bestu stund á fjallinu. Ég og Villi kafari lögðum á fjallið um hálf sex og var þá orðið nokkuð rökkurt. Á leiðinni sáum við að vindstyrkur á Kjalarnesi var 4 m/s og reiknaði ég með því að þar af leiðandi væri nokkur gjóla á fjallinu, en það gat ekki verið meir fjarri sanni því allan þann tíma sem við vorum með fjallinu bærðist vart hár á höfði.

Við félagarnir kveiktum á framljósunum og lögðum í hann. Ákváðum við að fara upp í einni lotu, enda er það í raun besta leiðin. Það er nefnilega býsna þreytandi að stoppa og hvíla sig þegar allt kemur til alls, eins skrýtið og það er - vöðvarnir stífna og það verður erfitt að fara af stað aftur. Áfram paufuðumst við í gegnum fannfergið sem alla jafna náði upp í miðja kálfa, en var ósjaldan mun dýpra. Þannig sukkum við nokkrum sinnum gjörsamlega í djúpum sköflum sem gerði ferðalagið ekki auðveldara. Við áttum því láni að fagna að tveir göngumenn höfðu farið fyrr í dag á fjallið og nutum við þess að geta fetað í fótspor þeirra. Það hefði þó ekki verið verra að ryðja þarna nýja slóð, en það gerist þá bara síðar.

Eins og reynslan hefur kennt okkur, þá eru fyrstu metrarnir erfiðastir og er spottinn upp að stiku 2 nokkuð strembinn. En þegar hann er að baki virðist maður ná upp ákveðnum takti og eftirleikurinn verður mun auðveldari. Sú var raunin og við brutumst upp brekkuna, einbeittir. Í rökkrinu fundum við svo stiku fjögur eftir nokkra leit og var kærkomið að sjá þessa þolinmóðu vinkonu. Við stöldruðum hjá henni örstutta stund, vættum þurrar kverkar og héldum svo niður á við. Sú ferð var tíðindalítil fyrir utan það að áfram nutum við einstakrar veðurblíðu og þannig lauk bestu ferð minni á fjallið.

Nú höfum við félagarnir ákveðið að ganga á fjallið alla þriðjudaga og fimmtudaga strax eftir vinnu og láta veður og vinda hafa sem minnst áhrif á þá áætlun. Svo ætla ég að vera kominn að fjallsrótum á hádegi alla sunnudaga og eru þeir sem vilja slást í hópinn velkomnir.

Hraðar ... hærra!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ótrúleg staðfestan hjá þér í prílinu !  Ég er þess fullviss að Hnjúkurinn verður ekki farartálmi fyrir þig í vor.

Brandur

Brandur 11.2.2008 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband