Meiðsli

PlásturYðar einlægur lagði á Esjuna kl. 20.00 í gærkvöldi í þeim tilgangi að sneiða aðeins af tímanum upp að 4. stiku. Ég byrjaði vel og gekk í einni lotu upp fyrir fyrri brúna og hálfa leið upp gilið á mínum besta tíma hingað til. En þá brast eitthvað í hægri kálfanum sem varð til þess að nú er kallinn draghaltur enda formlega orðinn einn þeirra sem þjást af íþróttameiðslum. Í gegnum tíðina hef ég gert óspart grín að íþróttamönnum og þótt það býsna sniðugt að þeir séu ósjaldan teygðir og togaðir að jafna sig eftir einhver meiðsli. Viðkvæðið hefur verið að góð, jöfn og markviss kyrrseta sé lykillinn að meiðslalausu lífi. Nú er ég hins vegar kominn í raðir þeirra sem skakklappast um sem fórnarlamb álagsmeiðsla og er það illt. Það góða í stöðunni er hins vegar það, skv. því sem göngumakker minn segir, að maður þarf reyndar að vera kominn úr allra lélegasta formi til þess að geta lagt þannig á skrokkinn að hann bregðist svona við. Ég hugga mig altént við það.

Nú liggur fyrir að fá tíma hjá sjúkraþjálfara til að fá bót þessa meins svo ég geti haldið göngunni áfram, mér til góðs. Það merkilega hefur gerst að ég hef sífellt meira og meira gaman af þessu stússi og má ég því vart til þess hugsa að liggja í kör. Vonandi á sjúkraþjálfarinn góða töfrapillu sem fiffar þetta til eins og skot ... annars verð ég illa svikinn.

En mikið eigum við kallar bágt þegar við eigum bágt! Vá!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æ spælandi!

Farðu varlega brósi. Vona að þér batni sem fyrst.

litla systir 6.9.2007 kl. 13:04

2 identicon

Hrikaleg lesning! Ég vona að það grói fljótt um heilt svo þú getir aftur dregið mig grátandi upp á hárinu upp að stiku 4!

palli 13.9.2007 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband