Fjörutíu og þrjár mínútur

ToppurinnJæja, þá hafðist það loksins. Eins og vatnið holar steininn náði ég að sigra fjallið. Í kvöld rann ég upp hlíðar Esjunnar að fjórðu vegstiku í einum samfelldum rykk fyrir utan nokkurra sekúndna hlé (argh!!!) við neðri brúna. Þetta var magnaður sprettur; tími og rúm urðu að einu í endalausri samfellu sem markaðist af hverju skrefinu á eftir öðru. Makker minn, Hörður Helgi Helgason, sló taktinn og talaði mig í gegnum andlegu skaflana og þegar fjórðu vegstiku var náð í rökkrinu stóð tíminn í 42:30 mínútum. Það var sérdeilis mögnuð upplifun að ná þessu forna takmarki mínu; að komast að stiku 4 á 45 mínútum eða skemur og það fylgdi því mikil sælutilfinning að klukka stikuna áður en ég fleygði mér á daggarvota þúfu. Eftir að hafa slökkt þorstann í straumhörðum læknum sem rennur glaðlega hjá stikunni var haldið niður í grunnbúðir. Á leiðinni var að finna magnaða sýn á stórkostlegt sjónarspil þegar þokan herti silkimjúk tök sín á há- og láglendi og smeygði sér lipurlega um króka og kima. Þarna óskaði ég þess að hafa tekið með myndavélina og þrífót, en það verður víst ekki á allt kosið!

Það var eitt að ná þessu á tíma og annað að rölta þetta í nær samfelldum rykk. Ég fór hægt og rólega yfir í stað þess að geysast áfram og hvíla svo á milli. Auðvitað koma erfiðir kaflar, en ég fann að þetta var, svona heilt yfir, auðveldara og bersýnilega vænlegra til árangurs. Það má finna líkindi með þessu og verklagi afa míns; hann er ekki sá sneggsti þegar hann er að musast með spýturnar og velta þeim fyrir sér, en þegar dagur er að kvöldi kominn hefur hann afkastað margfalt miklu meiru með stanslausu juðinu en sá sem er stöðugt að spretta og stoppa til að ná mæðinni.

Í bili ætla ég að halda áfram að reyna við stiku 4 og reyna að upplýsa fleiri af þeim leyndardómum sem hún geymir. Ég sé það nefnilega betur í hvert skipti sem ég fer til fundar við hana að þrátt fyrir fálæti hennar búa í henni kosmískir kraftar og margslungnir straumar sem ókannaðir eru.

Engage!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eydís Hauksdóttir

Til lykke!

Eydís Hauksdóttir, 31.8.2007 kl. 09:08

2 Smámynd: Óli Jón

Það er ótrúlega gaman að sjá hið upprunalega litla grjón hér :)

Óli Jón, 31.8.2007 kl. 09:34

3 identicon

Glæsilegt hjá þér brósi. Þú ert orðinn meiri fjallageitin! Líst mér vel á.

Elísa 31.8.2007 kl. 14:28

4 identicon

Til hamingju með áfangann/stikuna.

Sendu mér póst þarf að ná í þig.

Jón Ægisson 31.8.2007 kl. 17:37

5 Smámynd: Óli Jón

Jón: Hvaða netfang?

Óli Jón, 1.9.2007 kl. 03:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband