Hugleiðingar um tölvuleiki

Game on!Í nýrri grein BusinessWeek um tölvuleikjaiðnaðinn sést að árlegur vöxtur hans er áætlaður rúmlega 9% næstu fjögur árin. Í fyrra var velta markaðarins á heimsvísu tæpir 32 milljarðar Bandaríkjadala en verður komin upp í um 49 milljarða Bandaríkjadala árið 2011.

Það er merkilegt að sjá að hægt og bítandi er farið að horfa meira á tölvuleiki sem þjónustu frekar en vöru. Þannig hafa leikir á borð við World of Warcraft og Second Life fest fyrirkomulag áskriftar í sessi þar sem spilarinn greiðir mánaðarlegt gjald gegn aðgangi að margvíslegri þjónustu. Þá eru mörkin á milli stafrænu heimanna og raunheims stöðugt að verða óskýrari. Þess eru dæmi að háskólar séu byggðir í Second Life þar sem alvöru kennsla fer fram. Þá eru fasteignasalar farnir að bjóða þjónustu sína á sama vettvangi. Fyrirtæki nýta sér haftalaust umhverfi leikjanna í æ ríkari mæli t.d. til starfsmannaþjálfunar og símenntunar. Bandaríski herinn hefur lengi nýtt sér tölvuleiki til að þjálfa dáta sína og heldur hann m.a.s. úti afar vinsælum leik, America's Army, sem ætlað er að auka áhuga ungs fólks á herþjónustu.

Auglýsingar hafa birst í leikjum undanfarin ár og þá sér í lagi íþróttaleikjum hvers konar. Nú er farið að bera á því að auglýsingaskilti séu reist um víða velli í leikjaheimum. Hvergi er hægt að mæla áhorf eins nákvæmlega og í tölvugerðum heimum þar sem það er vitað með 100% vissu hvort auglýsingu bar fyrir augu spilara eða ekki, þ.e. annað hvort er hún á skjánum eða utan hans. Það vakti nokkra úlfúð meðal spilara þegar það fréttist að auglýsingar myndi birtast í leiknum Battlefield 2142 og frestaði útgefandi leiksins, EA Games, þeim fyrirætlunum um sinn. Þar átti að stíga næsta skref í því að sérsníða birtingar auglýsinga því í leiknum er hægt að meta hvort spilari sé sókndjarfur eða haldi sig til hlés? Tekur hann málin í sínar hendur og leiðir hóp manna í orrustu eða er hann leiðitamur? Lætur hann vel að stjórn eða ekki? Rekst hann vel í hópi eða fer hann einn síns liðs. Sé spilarinn ágengur og sókndjarfur má ætla að hann sjái auglýsingar um t.d. hraðskreiða sportbíla meðan rólegri spilarar fái að líta auglýsingar um venjulega fólksbíla.

Í jarðbundnari leikjum á borð við Second World eða The Sims Online er hægt að mæla hegðun fólks enn nánar. Er spilarinn sparsamur og hagsýnn eða eyðir hann stöðugt í nýjustu græjurnar? Hefur hann gaman af því að vera heima hjá sér og hugsa um heimilið eða er hann stöðugt á ferðinni út um allt? Kaupir hann dýran og vandaðan varning eða reynir hann að þræða útsölurnar? Í þessum leikjum má fá sérdeilis nákvæmar upplýsingar um hegðun fólks sem nýtast vel til markaðsfærslu á hvers konar varningi. Stafrænir heimar eiga þannig eftir að verða draumastaðir markaðsmanna sem munu geta komið skilaboðum sínum á framfæri með ótrúlegri nákvæmni.

Framundan eru spennandi tímar fyrir okkur sem höfum gaman af tölvuleikjum. Múgvistun á eftir að stórauka framboð af góðu efni og tæknin er orðin svo fullkomin að í dag er hægt að skapa næstum hvað sem hugurinn getur ímyndað sér. Innan skamms tíma verður tölvuleikur á útgáfudegi aðeins fyrsta birtingarmynd hans áður en múgurinn tekur að sér að þróa hann áfram í áttir sem enginn hefði fyrirfram getað giskað á.

Game on!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband