Fimmtudagur, 2. ágúst 2007
Framtíð tölvuleikja?
Ég kynnti mér nýverið leikinn Little Big Planet sem mun innan tíðar verða fáanlegur fyrir Playstation 3 leikjatölvuna. Þetta er magnaður leikur sem brýtur blað í tölvuleikjasögunni með einstakri uppbyggingu sinni. Í grunninn er þetta þrautreynt leikjamódel þar sem spilarinn hleypur fram og til baka og leysir margvíslegar þrautir. Það sem hins vegar gerir leikinn sérstakan er að spilarar geta á öllum stundum haft áhrif á umhverfi sitt. Þeir geta hannað ný borð, breytt köllunum sínum og hvað annað sem hugurinn getur kokkað. Svo geta þeir vistað allt sem þeir hafa búið til á Playstation Network þar sem aðrir spilarar geta nálgast borðin og spilað þau.
Múgvistun (e. crowdsourcing) hefur að nokkru leyti birst í leikhaheimum hingað til og þá helst með því að framleiðendur leikja hafa gert spilurum kleift að búa til kort, borð eða sk. 'mod' við leiki. Þetta er hins vegar ný nálgun þar sem spilurum er gert afar auðvelt að skiptast á hugverkum sínum með skipulögðum hætti.
Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að þarna geta allir lagt sitt lóð á vogarskálarnir. Sumir myndu segja að það eina sem þetta leiði af sér sé rusl í stríðum straumum og að engum sé treystandi til að búa til og hanna tölvuleiki nema sérhæfðu fólki. Það er næsta víst að 95% af því sem spilarar Little Big Planet munu búa til verði algjört rusl sem enginn muni hafa gaman af, en þá eru 5% eftir. Ef milljón manns spila leikinn að staðaldri, þá eru 50 þúsund spilarar í 5% flokknum. Ef þessir spilarar eru að skila frá sér gæðaefni þá eru þeir margfalt stórvirkari en nokkur leikjaframleiðandi gæti nokkurn tíma verið. Ég hygg að það sé fátítt að fjölda hönnuða sem koma að einum leik fari yfir 50, þ.e. þeir sem koma beint að hönnun og uppsetningu korta og borða. Múgvistunin myndi þannig leiða þúsund sinnum fleiri hönnuði að borðinu og það án nokkurs kostnaðar fyrir framleiðandann!
Í framtíðinni eigum við eftir að sjá meira af þessu. Framleiðendur búa til grind og regluverk ásamt fyrsta kaflanum í sögunni, en eftir það taka spilararnir við. Lýðræðið mun ráða, verk þeirra sem standast ekki dóm spilaranna munu ekki ná hylli en framlag þeirra sem eitthvað kunna til verka mun ná vinsældum. Fyrir vikið munum við sem spilum leiki njóta meiri fjölbreytni og meiri gæða fyrir minna verð.
Að lokum hvet ég lesendur til að kynna sér leikinn Little Big Planet með eftirfarandi vefslóðum:
- gametrailers.com (nokkur myndskeið)
- youtube.com (tvö myndskeið)
Game on!
Flokkur: Spil og leikir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.