Leggjabrjótur

BotnssúlurMeð sínum hætti blés Brandur góðvinur minn til sóknar inn á íslensk víðerni í gær. Að gömlum sið féllu síðustu stykkin í stóru púsluspili á rétta staði á elleftu stundu, en allt hafðist. Fríður hópur fór úr Mosfellsbænum og leiðin lá í Hvalfjörðinn, hvaðan ganga yfir til Þingvalla myndi hefjast um magnaða leið sem nefnd er Leggjabrjótur. Aldur leiðangursmanna spannaði frá örfáum árum, snáðarnir, til nokkuð margra ára. Góð stemmning var í hópnum og mikill hugur, markinu skyldi náð með glans. Himinn var nær heiður og og aðstæður allar hinar ákjósanlegustu. Haldið var af stað þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í sjö.

Öldungarnir í hópnum - hinir mögnuðu meistarar tölfræðinnar, Jón og Jóhanna hin góða Glósudís - tóku fljótt að sér hlutverk undanfara og leiddu sem slík hópinn um hlykkjótta stigu. Fyrstu sex kílómetrana var á sótt að brattanum, en eftir það skiptust á hæðir og lægðir uns það tók almennt að halla undan fæti skömmu eftir að níu kílómetra markinu var náð. Hópurinn áði klukkan átta og gæddi sér á nesti. Þar var farið yfir stöðu landsmála, þau reifuð og afgreidd. Þetta var eina hléið sem gert var og varði það í tuttugu mínútur eða svo.

Brandur geystist um hæðir og hóla eins og gimbur, enda er hann svo gisinn í vextinum að hann getur nýtt sér hinn ljúfasta andvara sem sterkan meðbyr. Björk, kona hans og samviska, rak iðulega lestina og hvatti snáðana tvo til dáða með umhyggju og natni sem mæðrum er einum gefin. Ljóst er að ef hlýju hennar og lipurðar í samskiptum við ungviðið hefði ekki notið við værum við kallarnir enn á stígnum með drengina á öxlunum. Eitthvað vógu þó verðlaunin sem drengjunum var lofað í skiptum fyrir tápmikla framgöngu, en farið verður með ungana í bíógrafið í næstu viku.

Við vorum svo búin að vera á röltinu í rétt liðlega fimm tíma þegar nafni minn og bjargvættur okkar kom keyrandi á móti okkar á umsömdum mótsstað. Þá vantaði örfáa metra upp á það að við næðum að fylla 14,5 kílómetra vegalengd, á hverri við hækkuðum okkur samtals um rétt rúma 700 metra. Þetta var laust fyrir miðnætti og framundan var akstur að Botni í Hvalfirði þar sem náð var í fararskjóta Brands. Gönguferðin var öll hin ágætasta, en næst verður farið fyrr af stað þannig að hægt sé að fara hægar yfir og njóta náttúrunnar betur. Á leiðinni eru mýmörg ljósmyndatækifæri sem fóru forgörðum sökum hraðrar (sem er auðvitað afstætt hugtak!) yfirferðar. En Leggjabrjótur er að baki og þá er bara að líta í kringum sig eftir næstu gönguleið.

Einhverjar tillögur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar kveðjur og þakkir frá Aski (með marða fótleggi að eigin sögn) Harðsperrur heldur mamman!!!!

Ragga 17.7.2007 kl. 11:52

2 identicon

Hér eru nokkrar hugmyndir. Góðar, þó ekki séu þær mínar.

Hörður Helgi Helgason 18.7.2007 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband