Þriðjudagur, 29. maí 2007
Kolefnissprengjan
Ég var að lesa magnaða grein í Viðskiptablaðinu sem græninginn Ólafur Teitur Guðnason ritar. Þar fjallar nafni minn um framræsingu votlendis sem farið var í með oddi og egg á árunum frá 1941 og allt fram til 1987. Ræst var fram votlendi hvers flatarmál telur um 4% af heildar flatarmáli Íslands með ríkisstyrktum greftri skurða sem samanlagt eru 32 þúsund kílómetrar að lengd. Þetta eru magntölur sem forvígismenn gömlu Ráðstjórnarríkjanna hefðu vel getað verið afar stoltir af. Það er margt hryggilegt við þetta, en eitt þó umfram allt annað og það er að nú rýkur kolefni úr sprökþurrum sverðinum sem áður var bundið í mýrum.
Ólafur Teitur bendir á í grein sinni að í gegnum framrás tímans hafi ómælt magn lífræns efnis sokkið ofan í votlendisbreiður landsins og varðveist þar sökum þess að það komst ekki í snertingu við súrefni. Um leið og mýrarnar voru ræstar fram komst súrefni að þessum lífmassa sem byrjaði þá umsvifalaust að rotna og gefa frá sér kolefnið sem allt er að drepa. Maður hefði svo sem haldið að nokkrar fúamýrar geti nú ekki vegið þungt þegar áhrif þeirra eru borin saman við kolefnislosun þá sem verður til við eldsneytisbruna ökutækja okkar og skipaflota, en það gæti ekki verið fjær veruleikanum.
Ólafur Teitur greinir frá því að árið 2004 hafi nettó losun kolefnis hérlendis numið 3,5 milljónum tonna, þ.e. þegar búið er að jafna heildarlosun á móti náttúrulegri bindingu. Sérfræðingar áætla hins vegar að fyrrum fúamýrar séu að skila frá sér allt að 7,2 milljónum tonna af kolefni árlega eða rúmlega tvöfaldu því magni sem við erum beint ábyrg fyrir! Sé þetta umreiknað í bílaígildi með ríflegum vikmörkum er hægt að segja að þurrlendislosunin jafnist á við kolefnismengun frá 450 þúsund bílum hið minnsta til allt að 1,8 milljón bíla!
Það hefur verið gerð tilraun með endurheimt á votlendi fyrir norðan sem fólst í því að gömlum uppgreftri var einfaldlega ýtt aftur ofan í skurði. Á tiltölulega skömmum tíma jafnaði landið sig aftur og byrjaði þannig á ný að binda kolefni í stað þess að losa það út í andrúmsloftið. Þessi aðgerð kostaði afar lítil fjárútlát, en skilaði miklum ávinningi. Ljóst er að ekki er alls staðar hægt að beita svo einföldum aðferðum við endurheimt á mýrum landsins, en telja má að ef horft er á kolefnislosun og bindingu sérstaklega muni nokkuð dýrari aðgerðir þó vera að skila mun meiri ávinningi en skógrækt.
Ég hef mært framtak það sem hefur yfirskriftina Kolviður, enda tel ég þar á ferð afar þarft verkefni. Hins vegar sést að mestum árangri í baráttunni við kolefnið er hægt að ná með endurheimt mýrlendis. Ég mun halda því áfram að kolefnisjafna bílinn minn í gegnum Kolvið, en ég mun líka reka tána í steinvölur og moldarhauga næst þegar ég rölti fram hjá gömlum fráveituskurðum og leggja þannig mitt af mörkum til að endurheimta votlendið. Ég þykist vita að keldusvínið verður mér þakklátt fyrir vikið.
Áhugasamir geta hringt á skrifstofu Viðskiptablaðsins og keypt tölublaðið sem geymir þessa frábæru grein. Það er gefið út 25. maí 2007 og síminn er 511-6622.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2007 kl. 13:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.