Fimmtudagur, 5. desember 2019
Bannkóngurinn bannar enn :)
Allir muna eftir grátstöfunum og ramakveininu sem bergmálaði hér á milli veggja í byrjun júní 2019 þegar Jón Valur Jensson henti sér í gólfið, grátsnöktandi, eftir að góðvinur hans hafði sett Bann-Jón á bannlista. Þetta þótti Bann-Jóni vera hin mesta svívirða og bar sorgir sínar og vandlætingu á torg í bloggfærslu sem hafði þá átakanlegu yfirskrift Halldór Jónsson verkfræðingur lokar á athugasemdir frá einum aðalbloggvini sínum!
Greinarhöfundur gerði þessa sorglegu uppákomu að umfjöllunarefni í þessari færslu.
Þetta var auðvitað meinfyndið því enginn er rússneskari eða kínverskari eða norður-kóreskri í sínum vinnubrögðum þegar kemur að bannlistnum en Bann-Jón. Þeir eru langir og voldugir, bannlistarnir sem hann viðheldur á þeim fjölmörgu bloggvefjum sem hann heldur úti, m.a. annars á aðdáendabloggvefnum jvj.blog.is sem mærir og birtir valdar af höfuðsetrinu jonvalurjensson.blog.is. En nóg um það, netheimar þekkja vel bannáráttu Bann-Jóns og greinarhöfundur þegar um langt árabil notið þess að vera færsla á þessum listum.
En sakir pólitísks rétttrúnaðar og, mögulega, andartaks meyrni opnaði Bann-Jón öllum aðgang að þeim ótal bloggvefjum sem hann heldur úti og má sjá hér að m.a.s. þessi textaskrifari gat sett inn viðskrif við harmvælið. Bann-Jón var ekki lengur Bann-Jón, Bann-Jón hafði breyst í Meyra-Jón eða Góða-Jón eða Frelsis-Jón eða Opinnfyriralla-Jón. Þetta voru mestu umskipti í veraldarsögunni síðan Berlínarmúrinn féll.
En Bann-Jón var þó aldrei langt undan. Bann-Jóni sveið það að vita að óhreinir gátu sett inn alls konar óverðug viðskrif við bestu blogggreinar í heimi. Bann-Jón var andvaka yfir þessu og bylti sér í næturhúminu, skelfingu lostinn vegna þeirrar tilhugsunar að Vantrúarúlfar, Evrópurottur og Útvarpssögugrínarar myndu nú gera sér gott úr þessum andartaks veikleikamerki og bresti í bannmúrunum miklu.
Og þá er komið að því. Greinarhöfundur ætlaði s.s. í dag að nýta sér frelsið sem Bann-Jón telur að hann eigi að njóta og ætla að leiðrétta smá misskilning sem Bann-Jón hefur þráast við að setja fram sem sönnun á dálæti þjóðarinnar í garð Ríkiskirkjunnar. Útkoman var þessi er reynt var að skrifa við þessa grein:
Bann-Jón hafði endurreist bannmúrinn mikla. Hann felldi í brestina og með tárum sínum herti hann múrinn svo að ekkert kæmist í gegnum hann, yfir hann eða undir hann sem ekki væri verðugt og réttsýnt.
Bann-Jón varð Séra Jón því það er mikill munur á Jóni og Séra Jóni. Séra Jón má gera alls konar á meðan Jón má sín lítils. Bann-Jón lifir, voldugri og máttugri en nokkru sinni fyrr. Bann-Jón stendur á bannmúrnum, búinn að endurskrifa söguna, og berst þar við barbarana sem sækja að úr öllum áttum með allar sínar röngu og vondu skoðanir.
Lengi lifi Bann-Jón! Lengi lifi maðurinn sem kvartar undan illri meðferð á meðan hann beitir sömu meðulum á aðra. Bara ef það hentar mér eru einkunnarorð Bann-Jóns sem á sér enga meiri gleðigjafa í lífinu umfram bannlistaskrifin en að setjast í volg strætósæti.
PS. Bann-Jón hefur alltaf mátt setja inn athugasemdir á þessu bloggi og hefur hann oft nýtt sér það, enda sjálfsagður hluti þess að búa í lýðræðissamfélagi.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Mannréttindi | Facebook
Athugasemdir
Halldór Jónsson er einn af beztu bloggvinum mínum, ólíkt þér, síðuhafi: kirkjufjandsamlegi Óli Jón!
Það var á misskilningi byggt hjá mér, að Halldór hefði lokað á mig -- hann hafði einfaldlega breytt sínu birtingakerfi og innlegg mín eftir sem áður, eins og flestallra annarra, velkomin á síðu hans.
Ég líð ekkert svívirðutal um Guðdóminn og kirkju hans á vefsíðum mínum, vil ekki, að neinar trúaðar sálir sjái þar að morgni slík særandi ummæli einhverra gesta á bloggum mínum. Þess vegna hef ég á sl. 13 árum og hálfu betur þurft að útiloka allnokkra þeirra skæðustu af sumum (ekki öllum) vefsíðum mínum.
Væru kristnir menn jafn-illyrtir og skæðir í innleggjum sínum og hinir herskáustu meðal þeirra trúlausu og byltingarsinnuðu, þá hefði Óli Jón sannarlega orðið var við það og þurft að takast á við hliðstætt vandamál á Moggabloggi sínu.
En kristnir menn hafa bæði sinn eigin standard, meðtekinn með trúnni af þeim flestum, háttvísir eins og þeir vilja vera, og hætta sér þess utan fæstir í umræður þar sem þeir vita að umhverfið (síðuhafar og bloggvinir þeirra) muni iðulega taka við innleggjum kristinna af heift og háði, jafnvel hatri. Menn vilja ekki láta alþjóð horfa upp á, að þeir séu níddir niður saklausir, eins og svo oft gerist á opnum vefjum eins og visir.is, dv.is o.fl. (og sú er einmitt ástæða þess, að öfgamönnum og nettröllum hefur svo oft tekizt að einoka þar umræðuna, einungis af því að kristnir eða hófsamir menn með andstæð sjónarmið voga sér ekki í þá ljónagryfju).
En ég er mest hissa á því, að Óli Jón sé ekki þessi dægrin að velta sér upp úr því, af sinni hlakkandi Þórðargleði, að meðlimatala Þjóðkirkjunnar, sem hann hefur svo lengi barið á, flestum ef ekki öllum fremur, hefur nú hrapað niður í 63,5% landsmanna!
Ertu að verða uppgefinn á limminu, Óli Jón, og bara farinn að endurtaka þig?
Jón Valur Jensson, 5.12.2019 kl. 18:35
Jón Valur: Þetta hrun Ríkiskirkjunnar er svo fyrirsjáanlegt núna að það er lítið sport í því að hamra á því. En af gömlum vana fer ég þó árlega yfir stöðu mála og reyni að sjá spennandi hliðar á þessari kollsteypu og þar má t.d. nefna þessa merku og ómissandi grein sem er hin endanlega og mest afgerandi úttekt á þessu falli sem boðist hefur.
Í nýrri grein á nýju ári mun ég t.d. benda á að fyrir um 20 árum síðan voru 22x fleiri landsmann skráðir í Ríkiskirkjun en þeir sem voru skráðir utan trúfélaga. Í dag eru 3x fleiri skráðir í Ríkiskirkjuna en utan trúfélaga og þetta hlutfall fer hríðlækkandi. Þetta er niðurlægjandi útkoma fyrir bákn sem hefur fengið megnið af börnum landsins inn á félagatalið án þess að þurfa að hafa fyrir því og hefur fengið fúlgur fjár á fúlgur fjár ofan ár hvert ásamt því að ríkið hefur borgað launin. Að hægt sé að spila svo illa úr þessari stöðu sem raun ber vitni er besta sönnun þess að aldrei var innstæða fyrir þessum uppblásnu félagatalstölum sem þú og þínir hafið ekki þreyst á að vitna í í gegnum tíðina sem óhrekjandi sönnun þess að þjóðin sé kristnari en Jésús sjálfur.
Ég spái því að þegar ríkið hættir að styrkja trúfélög fjárhagslega og lætur af þeirri kjánalegu iðju að skrá nýfædd börn í trúfélög muni Ríkiskirkjan enda í 10%. Það er nokkuð í þetta því kerfislæg þjónkun ríkisins við hana er svo djúpstæð að það mun taka nokkurn tíma að láta þetta gerast.
Já, kristið fólk fólk tekur ekki þátt í umræðum vegna þess að það eru bara mun færri kristnir hérlendis en nokkurn hefði getað grunað. Svo er hitt að það er eins og að tala við grjót þegar reynt er að ræða einföldustu hluti eins og t.d. hversu ótrúverðug hlutfallstala Hagstofutrúaðra í raun er, en þú hefur t.d. rekið hausinn í jörðina oftar en tölu verður á komið og neitað að viðurkenna þann veruleika sem þú gerir að umfjöllunarefni þessa dagana, að Ríkiskirkjan sé á fallandi fæti með 63% markaðshlutdeild.
Nei, þú þolir ekki svívirðu, en ert sjálfur til í slaginn þegar tala þarf niður það sem þér líkar ekki. Þetta tvöfalda siðgæði í gegnum tíðina hefur verið grátlega broslegt. Þú uppnefnir nafngreinda einstaklinga, hrakyrðir skoðanir annarra og gerir lítið úr fólki. Ótal dæmi eru til um slíkt.
En takk fyrir viðskrifin. Finnst þér ekki gott að geta sett inn athugasemd á vef einhvers sem þú hefur sett í bann? Er ekki dásamleg tvöfeldni í því að þú ætlir þér þann rétt sem þú meinar öðrum um? Það hlýtur að vera álíka hressandi eins og að setjast í volgt sæti í strætó :)
Óli Jón, 5.12.2019 kl. 23:25
Ég læt þig, Óli Jón, um þínar bollaleggingar um að sækja enn frekar á meðlimi Þjóðkirkjunnar til að fá þá til vantrúar eða til einhvers annars. En fækkunin í henni er greinileg, var það mikið til af einni ástæðu á 10. áratugnum, en nú eru jafnvel ýmsir trúaðir orðnir uppgefnir á þessum "nýfrjálslyndu" prestum sem varðveita ekki trúararfinn, heldur hafna honum eða fíflast með hann (eins og Davíð Þór Jónsson í gær) og haga sér bara að eigin vild, án viðmiðs við orð Guðs.
Það er allt í lagi að "hrakyrða skoðanir" sem órökstuddar og rangar teljast og eru stundum fluttar fólki á kostnað ríkissjóðs og skattgreiðenda, sama hve vitlausar eru (og farvegurinn gjarnan gegnum Rúvið).
Annars nefndirðu engin áþreifanleg dæmi þarna um að ég gerði lítið úr fólki sem slíku, þótt mér mislíki vissulega dreifing skoðana byggðra á fáfræði; en þú gætir kannski reynt að nefna þótt ekki væri nema eitt versta dæmi um að ég geri lítið úr fólki, svona í viðleitni til að staðfesta þessa staðhæfingu þína í hugum lesenda þinna!
Jón Valur Jensson, 6.12.2019 kl. 08:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.