Miðvikudagur, 16. maí 2007
Kolviður
Ég kíkti rétt í þessu inn á vef Kolviðar, www.kolvidur.is. Þarna er að finna snjalla og þægilega leið fyrir einstaklinga og fyrirtæki til þess að kolefnisjafna bifreiðar sínar þannig að notkun þeirra geti verið í góðri sátt við umhverfið.
Þetta er einfaldur og aðgengilegur vefur. Gestir gefa upp bílnúmer og áætlaðan akstur þeirra ökutækja sem þeir vilja kolefnisjafna og fá til baka áætlun um hversu mörg tré þarf að gróðursetja til þess að markmiðinu sé náð. Í mínu tilfelli eru það 39 tré sem gróðursett verða á Geitasandi á Suðurlandi. Svo er greitt með greiðslukorti og eftir það er ekið næsta árið í þeirri góðu vissu að búið sé að upphefja þá mengun sem viðkomandi ökutæki gefa frá sér.
Ég hvet alla til að kíkja á vef Kolviðs. Það eru traustir aðilar sem að verkefninu standa og er þeim vel treystandi til þess að inna þetta verkefni vel af hendi. Það er tilvalið að nota þjónustu Kolviðs sem tækifærisgjöf fyrir þá sem eiga allt (og þeir eru býsna margir hérlendis). Gefum kolefnisjöfnun í stað forgengilegra blóma, það er gjöf sem endist langa framtíð.
Það þarf svo ekki að fjölyrða um hversu mikilvægt þetta er fyrir okkur sem íbúa jarðar og þá sér í lagi börnin okkar og barnabörn. Þau munu þurfa að bera byrðarnar í framtíðinni verði ekkert að gert.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.