Sunnudagur, 13. maí 2007
Niðurlæging Sjálfstæðisflokksins
Það versta hefur gerst, Framsókn "hélt" velli. Ég sé fyrir mér formann flokksins í fréttatímum dagsins þar sem hann segir; "Ég kannast ekki við það að flokkurinn hafi fengið slæma niðurstöðu úr kosningunum. Mig rekur ekki minni til þess að hann hafi goldið sérstök afhroð". Það er nefnilega svo magnað að minni Framsóknarflokksins er afar valkvæmt og kristallast það í fádæma slæmu og valbundnu minni formannsins sem aldrei virðist muna eftir því sem aflaga fer. Það er næsta víst að rósrauðu lonjettunum verður brugðið á nefið í dag og niðurstöður kosninganna túlkaðar sem stórkostlegur varnarsigur. Það er ekki langt síðan kjósendur kusu með einbeittum hætti gegn Framsókn í borginni þrátt fyrir magnaða brosherferð frambjóðandans hér, en engu að síður voru úrslitin túlkuð á besta veg og Framsókn fékk sætin sín. Það er gott að brosa!
Annars er Framsóknarflokkurinn magnað fyrirbæri, hann hefur eins bjagaða sjálfsmynd og mest getur orðið. Það er best að lýsa þessu í máli sem hann skilur og leita líkinga í sveitinni (hann hefur augsýnilega enga skírskotun í borgarlífinu!!):
- Sýn Framsóknarflokksins: Stæltur og glæstur veðhlaupahestur sem sigrar hvert hlaupið á fætur öðru og hreppir stöðugt silfrið.
- Raunveruleikinn: Aflóga og draghölt trunta sem er ætíð dregin í mark af sigurvegaranum. Fær ætíð annað tækifæri í haganum meðan það ætti í raun að leiða hana bak við skúr og lóga henni.
Þó er í raun ekki við Framsókn að sakast vegna góðs gengi hennar eftir hörmuleg kosningaúrslit. Ábyrgðin liggur hjá Sjálfstæðisflokknum því það er hann sem ætíð leiðir þessa höltu truntu að jötunni, kembir henni og klappar og í því liggur niðurlæging hans. Flokkurinn treystir sér augsýnilega ekki í ríkisstjórn nema með auðsveipum Framsóknarflokknum sem tekur þakklátur við hverju því sem að honum er rétt, en er svo jafn snöggur upp á lagið að stinga Sjálfstæðisflokkinn í bakið um leið og hann getur. Það sannaðist þegar forsætisráðuneytið var vélað yfir til Framsóknar hér í denn. Þá lagðist Framsókn lágt, en Sjálfstæðisflokkurinn lægra.
Ég vona að forystumenn Sjálfstæðisflokksins sjái nú að sér og lesi raunverulegan hug kjósenda úr könnuninni - fólk vill ekki Framsókn! En nú sé ég formann flokksins á Stöð 2 í þessum rituðu orðum að verja Framsókn. Verið er að leggja línurnar fyrir niðurlægingu næstu fjögurra ára og í augum formannsins er draghalta Framsóknartruntan óðum að breytast í veðhlaupahestinn glæsta.
Oj!
Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Facebook
Athugasemdir
Ég gæti ekki verið meira sammála þér, þetta er eins og talað út frá mínu hjarta. Vel að orði komist.
Sighvatur 13.5.2007 kl. 12:54
Það er spurning hvort maður sæki ekki um sem pólitískur flóttamaður í Færeyjum. Ef Framsóknarófétið í dauðahryglu sinni verður áfram við kjötkatlana í boði Sjálfstæðisflokksins verður haldið áfram að misþyrma landinu með stóriðju og virkjunum. Gamla fólkið fær enn að búa með ókunnum inn á stofnunum. Sett verður nýtt met í sendiherrum, ráðherrum og útbýttum bittlingum til þeirra sem sáu um kosningabaráttu líksins. Verðbólgan og þenslan halda áfram undir stjórn álhausanna.
Þetta kusu 48,3% þjóðarinnar yfir okkur. 11,7% kusu Framsóknarófétið og eins og með 6,3% mann þeirra sem er valdamesti maður Reykjavíkur getur það gerst að 50% ráðherra og nefndarmanna komi frá þessari ólýðræðisvaldaklíku. Þá skiptir engu hvort þeir hafi raunverulegt umboð á bakvið sig. Það eru bara völdin og bittlingarnir sem skipta máli.
Ævar Rafn Kjartansson, 13.5.2007 kl. 18:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.