Sunnudagur, 4. mars 2007
Google og hreindýramosinn
Það eru til þrír kaupendur að allri raforku sem nokkurn tíma verður hægt að framleiða hérlendis og í heimi viðskipta eru þeir holdtekjur hins heilaga grals. Þessir aðilar eru nú í höfrungahlaupi um öll Bandaríkin í leit að hagkvæmum stöðum til uppsetningar á orkufrekum starfsstöðvum. Það er fernt sem ræður för hjá þessum fyrirtækjum:
- Kostnaður
- Staðsetning
- Rekstraröryggi
- Umhverfisáhrif
Þessi fyrirtæki eru Google, Microsoft og Yahoo! og leita þau nú logandi ljósi að heppilegum stöðum til að setja upp tröllauknar hýsingarskemmur (e. server farms). Í grein sem birtist í Fortune á síðasta ári er m.a. farið yfir það að Google er að setja upp starfsstöð sem mun hýsa hálfa til eina milljón netþjóna. Þetta leggur sig út á rúmlega þrjá öfluga netþjóna á hvern einasta Íslending sem býr hérlendis ef miðað er við hæsta gildi en þegar Google á í hlut er venjulega talið ráðlagt að miða hátt.
Forseti vor færði á dögunum í mál þennan möguleika til orkusölu og er það vel. Þarna var kastljósinu beint að raunhæfum valkosti við álversvæðinguna þar sem orkan okkar er nýtt til góðra verka, en um leið gæti myndast frjór jarðvegur fyrir störf sem byggjast fremur á hyggjuviti. Með þessu er ég ekki að segja að framleiðsla áls hérlendis sé ekki góðra gjalda verð því það er mat mitt að umhverfisvæn (eins og hægt er) framleiðsla áls hérlendis sé til hagsbóta fyrir alla heimsbyggð. Hins vegar má segja það sama um allan orkufrekan iðnað og ef ég gæti valið, þá myndi ég velja þekkingariðnað umfram þungaiðnað.
Eins og staðan er í dag erum við þó engan veginn í stakk búin til að taka á móti fyrrgreindri þrenningu því netsamband okkar við útlönd hlýtur að teljast eitt það lélegasta sem um getur hjá þróuðum ríkjum. Meðan við eigum samband okkar við útlönd undir nagþörf skoskrar rottu getum við ekki boðið þeim hingað. Við verðum að fjölga sæstrengjum og tryggja þar með öflugt samband við umheiminn. Staðsetning landsins gefur hýsingarskemmu hérlendis færi á að þjóna mörkuðum í BNA og Evrópu jöfnum höndum, en til þess að það geti orðið verður að koma netsambandi í lag.
Ég skora á eitthvert framboðanna sem eru að taka slaginn í komandi kosningum að gera könnun á þessu máli. Einhver flokkanna þarf að eigna sér þetta mál og gera það að sínu svo það eigi möguleika á að hljóta brautargengi. Það er reyndar mitt mat að VG séu ekki hæfir til þess arna því orðið 'hreindýramosi' kemur líklega aldrei fram í viðskiptaáætlun fyrir svona verkefni. Það er verkefni okkar Íslendinga að nýta þá umhverfisvænu orku sem við búum yfir. Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn og tilbeðið stöku mosaþembur á kostnað heimsbyggðarinnar. Við eigum og getum vel nýtt orkuna í sátt við umhverfið; það er okkar framlag í baráttunni við hlýnun í andrúmsloftinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.