Mánudagur, 5. febrúar 2007
Djörfung og dugur
Þakka ber það sem vel er gert, en betur má ef duga skal. Með djörfung og dug mætti gera Ísland að Kuwait norðursins með því að setja í gang svo mikla framleiðslu vetnis að við gætum knúið bíla okkar og skip með innlendum orkugjafa í stað innfluttra. Þetta er ekki fjarlægur eða óraunhæfur draumur; heyrst hefur að Kárahnjúkavirkjun ein gæti framleitt nægt vetni til þessa arna og jafnvel með smá afgangi til útflutnings. Bílaframleiðendur bjóða nú flestir vetnisbíla og fullyrða að þeir verði samkeppnishæfir í verði árið 2010. Ísland á möguleika því að framleiða og nota grænasta vetni í heimi; framleitt með vatnsafli í fullkominni sátt við náttúruna.
Við gætum sett okkur það að markmiði í dag að hætta innflutningi á erlendum orkugjöfum eftir 10 ár og nýta alfarið íslenska, vistvæna orku. Þetta er ekki fjarlægur draumur, markmiðið er í hendi ef við hugsum nógu stórt. Í raun er það skylda okkar gagnvart börnum okkar og barnabörnum að gera þetta því með þessu myndum við verða leiðandi afl í þessari umræðu á heimsvísu og þannig gætum við haft margfalt meiri áhrif til góðs en t.d. með árs setu í Öryggisráði sameinuðu þjóðanna, en kosningabarátta okkar til hennar mun víst kosta fimmfalt það sem nú er verið að leggja í vetnið skv. Moggafréttinni. Það væri áhugavert ef einhver talnaglöggur lesandi þessara skrifa myndi setja inn sem athugasemd áætlaðan árlegan orkuinnflutning okkar. Skrifari giskar á að hann hlaupi á 10-20 milljörðum árlega. Það er nú bærilegur arður af einni grænustu framkvæmd sem sagan hefur hingað til séð.
Hér er fimm-punkta-planið mitt sem einhver góður stjórnmálamaður ætti að taka upp og gera að sínu:
- Hefjum stórvirka framleiðslu vetnis
- Gefum góða afslætti af aðflutningsgjöldum vetnisbíla
- Fjölgum vetnisstöðvum á landinu
- Hættum innflutningi hefðbundinna orkugjafa eftir 10 ár
Fimmti punkturinn er að gera Hjálmar Árnason að vetnisforingja landsins til að leiða þessa áætlun, enda er hann sá stjórnmálamaður sem hefur talað hvað lengst og með samfelldustum rómi um þetta mál.
Ef við gerum þetta myndum við fá slíka góðviljainnstæðu meðal borgara heimsins að við gætum gert að hval á Austurvelli án þess að nokkur gerði athugasemd við það! Svo yrðum við líka sjálfstæð þegar kæmi að orkumálum og líklega er það einhvers virði líka.
Ríkið setur 225 milljónir í vetnisverkefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mig langar til að benda þér á greinar Sigþórs Péturssonar í Mbl. dags. 19. júní 2006, Af hverju flytur Ísland ekki út áburð í stórum stíl og 9. sept. 2006, Orkumál á villigötum. Sigþór er prófessor í efnafræði og einn mesti sérfræðingur okkar á sviði vetnis og vetnisframleiðslu.
Það gætir nokkurs misskilnings hjá þér. Vetni er ekki orkugjafi, vetni er orkuberi. Hægt er að framleiða vetni með rafgreiningu eins og gert hefur verið í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi og með kolum eða jarðgasi (Haber-Bosch aðferðin) en sú aðferð er ríkjandi í vetnisframleiðslu´heimsins í dag. Framleiðsla vetnis með rafgreiningu er gífurlega dýr og engan veginn samkeppnisfær við framleiðslu með jarðgasi. Ástæðan er einkum sú að mikill hluti raforkunnar (70 - 80%) tapast í rafgreiningunni þannig að til að framleiða 1 kw af vetnisbundinni orku þarf 5 kw af raforku. Það þarf engan stærðfræðing til að reikna það út að allar okkar virkjanir myndu ekki einu sinni duga til að framleiða vetni með rafgreiningu til nota á samgöngutæki okkar. Besta nýtingin á raforku er bein notkun, sbr. rafbílar sem nýta orkuna á mun hagkvæmari hátt. Nýting dísilvéla er einnig mjög góð og koldíoxidlosun frá þeim mjög lítil miðað við bensín. Því miður sýnist mér að þessir vetnisdraumar standist ekki skoðun. Því miður.
Sveinn Ingi Lýðsson, 6.2.2007 kl. 14:53
Sæll, Sveinn
Takk fyrir prýðilega ábendingu. Ég hef mínar upplýsingar úr leiðara í Mogganum, dags. 19. júlí 2006, þar sem þessar stærðartölur eru nefndar varðandi framleiðslugetu. Hvernig sem allt veltur þá vona ég að þetta mál verði fært ofar á skörina enda þjóðþrifamál fyrir þjóðina og lífsspursmál til framtíðar.
- Óli
Óli Jón, 7.2.2007 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.