Kristinn þjóðarflokkur úthýsir öðrum en málafylgjufólki

Rétt í þessu ætlaði ég að setja inn eftirfarandi athugasemd við bloggfærslu Kristna þjóðarflokksins:

Vegna 8. liðs í stefnuskrá Kristna þjóðarflokksins hlýt ég að spyrja að hvaða leyti er frelsi til trúariðkunar heft hérlendis? Hvernig er þrengt að trúuðum?

Hvernig er hægt að bæta starfsskilyrði kristinna söfnuða? Ríkið t.d. skráir óvita í þessa söfnuði við fæðingu og rukkar félagsgjöld fyrir þá. Þá er Ríkiskirkjunni veittur aðgang að óvitum í leik- og grunnskólum til að stunda trúboð sitt. Hvað er hægt að gera meira?

Þegar kom að því að skrá athugasemdina fékk ég eftirfarandi kveðju frá Jóni Val Jenssyni:

Kveðja frá Kristnum þjóðarflokki

Þessi kveðja er gamalkunnug enda blasir hún við mér og mörgum öðrum þegar við ætlum að setja inn athugasemdir á bloggsvæði hans sjálfs. Þetta er auðvitað kaldhæðnislegt því enginn emjar eins mikið og Jón Valur ef honum er settur stóllinn fyrir dyrnar :)

Nokkuð ljóst er að Jón Valur og Kristinn þjóðarflokkur, sem samanstendur af Jóni og tveimur öðrum, þola illa athugasemdir á vefnum. Þau sjá bersýnilega eftir þeim tímum þegar trú og kirkja voru yfir gagnrýni hafin. En kannski eru þau bara að gera sitt til þess að þeir tímar renni upp aftur? Kannski eru svona bönn bara fyrstu skrefin í átt að því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nokkuð ljóst að ef ofurkrissaflokkur JVJ stjórnaði hér þá kæmu enn harðari skilaboð, eins og td: "Trúarlögreglan er á leiðinni að sækja þig" :)

DoctorE 28.3.2010 kl. 09:12

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er nú bara fjandi mikill status að vera bannaður svona fyrirfram. Ég get enn sett inn athugasemdir, en þær eru þurrkaðar út jafn óðum.  Ef þú skoðar færslurnar, þé er engin athugasemd við flestar þeirra. Ef ein slæðist inn, þá er það lofgjörð um Jón Sjálfan. 

Maðurinn á náttúrlega bágt og ég er löngu hættur að taka hann inn á mig. Set inn spurningar til að stríða þeim eins og þú gerir.

Ég er að sjálfsögðu bannaður á bloggi Jóns og hef verið frá day one. Hann hefur líka örugglega klagað mig nokkuð oft fyrir blog.is  Hann hefur meira að segja skrifað um mig hneykslunarblogg án þess að ég hefði leyfi til að svara fyrir mig.

Kallinn er haldinn alvarlegri Meglomaníu og er í sjálfu sér tragikómískur í augum allra. Meira að segja meintra trúbræðra. 

Ef hann les þetta, þá skora ég á hann að skrifa varnarræðu fyrir páfann sinn og kaþólsku kirkjuna í þeim málum, sem plaga þá nú. Hef séð hann réttlæta þau ósköp, en hann mætti gera það á formlegri hátt. 

Jón Steinar Ragnarsson, 28.3.2010 kl. 12:51

3 Smámynd: Hamarinn

Það er ekki skrítið að þú skulir vera bannaður, miðað við spurninguna. Þetta lið getur ekki svarað þessu, þá er þér hent út og lokað. Þetta er mjög algengt hér á blogginu, og sá sem mest grenjar þegar lokað er á hans sóðakjaft er Loftur A Þorsteinsson. En hann og Jón Valur eru miklir skoðanabræður.

Hamarinn, 28.3.2010 kl. 13:52

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Flokkurinn, sem Óli Jón talar um, er ekki til, heldur Kristin stjórnmálasamtök. Við höfum farið okkur afar hægt í útbreiðslu, en félagsmenn voru orðnir 14, þegar loksins einn þeirra sagði skilið við okkur vegna afstöðu hans til Icesave-málsins, þótt hlynntur sé öðrum málefnum samtakanna.

Ekki eru margir hér á landi kunnir að árásum á kristindóm og kirkju, en ert þú ekki einn af þeim, Óli Jón? Skilmálar hafa staðið lengi uppi á vefsíðunni Krist.blog.is þess efnis, að við áskiljum okkur leyfi til að útiloka slíka frá síðunni.

Jón Steinar er annaðhvort óskaplega gleyminn eða stundar það að skrökva (sem er bannað í kristni, en kannski ekki í ýmsum ókristnum hugmyndastefnum). Hann var ekki bannaður "from day one" á minni vefsíðu – lék þar lausum hala, unz hann var útilokaður fyrir brot gegn reglum síðunnar. Það er leitt, því að ágætt er að geta rökrætt líka við trúlausa menn um ýmis mál, jafnvel trúmál, enda er það ekki svo, að trú og kirkja séu "yfir gagnrýni hafin". Við Jón Steinar erum reyndar samherjar í Icesave-málinu, eins og sjá hefur mátt stað á vefsíðum.

Hann skrökvar líka mjög eindregið, þegar hann fullyrðir, að þeim einum athugasemdum sé hleypt inn á síðurnar, sem séu lofjörð um sjáfan mig. Það gagnstæða geta menn sannfært sig um á 3 mínútum með því að skoða bæði vefsíður mínar og Kristinna stjórnmálasamtaka.

Grófur er Jón Steinar, þegar hann segir: "Ég get enn sett inn athugasemdir, en þær eru þurrkaðar út jafnóðum." – Hver var það annar en herra Jón Steinar Ragnarsson sem lagði athugasemdir (birtar) inn á vefsíðu samtakanna – um margvísleg málefni – á þessum tímapunktum:

24. febrúar 2010 kl. 0.13,

13. janúar kl. 20.08,

3. janúar kl. 21.55,

31. desember 2009 kl. 3.43,

30. nóvember kl. 23.19,

14. nóvember kl. 1.22,

12. október kl. 9.54,

29. september kl. 11.50, 13.16 og 17.33,

28. september kl. 13.06 og (á aðra síðu þar) 9.13,

25. september kl. 23.20 og (á aðra síðu) kl. 18.35,

24. september kl. 10.15,

23. september kl. 12.37 ?

Jón Steinar, að borgar sig ekki að skrökva.

Jón Valur Jensson, 28.3.2010 kl. 14:06

5 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Ég hef ekki ráðist á neina kirkju, nema þá kaþólsku enda er þar fullt tilefni til, þótt mér finnist þær almennt óþarfar stofnanir og aumar. Hins vegar hef ég talað gegn þeim óþörfu forréttindum sem Ríkiskirkjan nýtur, s.s. forskráningu óvita í trúfélag móður, leyfi kirkjunnar til að boða óvitum trú í skólum, rukkunarþjónustu ríkisins varðandi félagsgjöld í kirkjufélögum o.s.frv. Þetta eru allt atriði sem eru mikil tímaskekkja í nútíma og upplýstu samfélagi.

En getur þú svarað þeirri fyrirspurn sem mér var meinað að leggja inn á vef Kristna þjóðarflokksins og birtist hér í innleggi mínu?

PS. Þrettan manns! Það er nokkuð heppilegur fjöldi í kristnum þjóðarflokki. Þú ert þar umkringdur tólf postulum, sé ég, þótt einhverjir þeirra geti nú reyndar aldrei orðið almennilegir postular, enda af kolröngu kyni til þess.

Óli Jón, 28.3.2010 kl. 16:11

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kaþólska kirkjan er í meirihluta (51%) meðal kristinna manna, Óli Jón. Þú getur ekki fríað þig frá því að hafa ráðizt á kristna kirkju með því að taka það fram, að þú hafi bara ráðizt á kaþólska kirkju!

Því var ekki haldið fram á vefsíðunni, að frelsi til trúariðkunar sé heft hérlendis, en það þarf samt að standa vörð um það, og reyndar hafa ýmsir reynt að hafa áhrif á þetta frelsi.

"Hvernig er þrengt að trúuðum?" spyrðu. Það er gert víða um lönd, og einnig hér hafa komið fram hótanir í garð kristinna manna, ásamt mannorðsníði, eins og þú ættir að vita, en þetta er reyndar yfirleitt frá mönnum sem ekki er mikið mark tekið á.

Hitt er verra, þótt ekki sé alveg eins gróft, þegar ráðamenn hafa beinlínis verið með hótanir í garð kirkjunnar, að þrengja það frelsi hennar sem þeir hafa jafnvel tekið þátt í að lögfesta á Alþingi. Ég gæti nefnt þér dæmi ...

PS: Enn ertu haldinn þeirri grillu, að hér sé um flokk að ræða. Við heitum Kristin stjórnmálasamtök og kynnum hugmyndir okkar á vefnum og höfum gert í næstum þrjú ár. Hefðum við háð frá upphafi baráttu í blöðum og úti í þjóðfélaginu, værum við sennilega að minnsta kosti 13 x 13. (PPS. Þú sérð að ég er ekki hjátrúarfullur!)

Jón Valur Jensson, 28.3.2010 kl. 16:46

7 Smámynd: Vendetta

Hvort ætli þessi Kristnu stjórnmálasamtök séu skráð sem trúfélag eða áhugamannafélag? Mig grunar að trúfélög fái ýmis konar skattafríðindi, sem áhugamannasamtök fá ekki.

Ætli það sé ekki bezt að athuga hvaða reglur gildi um trúfélög varðandi minnsta meðlimafjölda, raunverulega starfsemi, leyfðar eignir, leyfðar tekjulindir o.s.frv. Því að þá gæti ég kannski breytt mínu áhugamannafélagi, sem er skattskylt, í trúfélag og síðan gert allan andskotann.

Vendetta, 28.3.2010 kl. 20:48

8 Smámynd: Vendetta

Ég hef leitað í fyrirtækjaskrá, þar sem félagasamtök eru skráð, en fann ekki Kristin stjórnmálasamtök, þannig að ég hef engar upplýsingar um starfsemi þessara samtaka. Maður skyldi halda að samtök sem hefðu verið stofnuð fyrir 3 árum væru skráð. En auðvitað er það mér alveg óviðkomandi.

Vendetta, 28.3.2010 kl. 21:07

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er engin skylda að skrá frjáls félagasamtök í landinu. Kristin stjórnmálasamtök hafa engan gjaldkera, engar tekjur, engin útgjöld, enga launaða starfsmenn, skulda ekki eina einustu krónu og eiga ekkert nema skrif félagsmanna sinna. Samtökin eru ekki trúfélag og njóta hvergi neinna fríðinda nema hér á Moggabloggi (eins og aðrir bloggarar) að fá að halda ókeypis úti bloggsíðu. Í samtökunum er fólk úr mörgum trúfélögum.

Jón Valur Jensson, 28.3.2010 kl. 21:45

10 Smámynd: Vendetta

Ég skrifaði heldur ekki að skráning væri skylda, enda væri það nú meiriháttar Gestapo-reglugerð. Einungis að ekki væri hægt að fá upplýsingar um samtökin gegnum fyrirtækjaskrá.

Vendetta, 28.3.2010 kl. 21:56

11 identicon

Jesú hefur talað... úps Jón valur meina ég ;)

DoctorE 29.3.2010 kl. 08:49

12 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Ég geri athugasemdir við kaþólska kirkju einmitt vegna stærðar hennar. Það eru fjölmargar kirkjur sem eru mun verri en sú kaþólska, en allar eru þær töluvert mikið minni, eðli málsins samkvæmt, og valda mun minni skaða vegna þess. Kaþólska kirkjan setur sig á háan hest í siðferðismálum gagnvart öðrum, en skríður sjálf um í svaðinu eins og hefur berlega komið í ljós á undanförnum árum og áratugum ef t.d. fréttaflutningur af misgjörðum hennar er skoðaður. Þetta geri ég fús og glaður athugasemdir við. Það að 51% kristinna manna séu kaþólskir segir ekkert til um gæði hennar, það segir meira til um að 51% kristinna manna fari villur vega í sinni trú.

En að efni greinar minnar. Hvernig viltu bæta starfsskilyrði kristinna söfnuða? Hvernig er raunverulega hægt að bæta þau skilyrði þegar öll þau forréttindi og meðgjöf sem ríkið veitir eru skoðuð í því samhengi? Trúfélög eru mestu forréttindaklúbbar hérlendis, hvað er hægt að gera til að auka enn velsæld þeirra?

Það eina sem mér dettur í hug er að eyða samkeppninni með því að útrýma meintri villutrú hérlendis (þú veist, íslam, hindúisma og allt hitt sem sannkristnir hafa enga trú á), gera alla Íslendinga sannkristna með lagaboði (það virðist reyndar nægja ein merking í Þjóðskrá til að 90% teljist kristnir) og hækka trúarskattinn hressilega.

Hvert er álit vísis að kristnum þjóðarflokki á þessu máli?

Óli Jón, 29.3.2010 kl. 09:24

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ert röskur við alhæfingarnar, Óli Jón, það tók þig nokkrar sekúndur að komast að skjótsmíðaðri niðurstöðunni: "Það að 51% kristinna manna séu kaþólskir segir ekkert til um gæði hennar, það segir meira til um að 51% kristinna manna fari villur vega í sinni trú." – En hafa skaltu í huga, að það er oft hið mesta klamburverk, sem smíðað er í óðagoti.

Í samantekt minni í greininni Nokkur stefnumál kristins stjórnmálaflokks talaði ég ekki beinlínis um að "bæta starfsskilyrði kristinna safnaða" – þótt það sé eflaust unnt í ýmsu tilliti og án þess að það fari inn á þær óvæntu leiðir sem þú ert að gera hér skóna (og ég kem alveg af fjöllum!), – heldur segir þar í 9. lið: "kristinn flokkur vill stuðla að frelsi til trúariðkunar, félags- og tjáningarfrelsi og góðum starfsskilyrðum kristinna safnaða."

Þetta gerist t.d. með því að verja frelsi kirkjunnar og allra kirkna, m.a. gegn ásælni og félagspólitískum þrýstingi utanaðkomandi afla, einkum á vettvangi stjórnmálanna.

Þú talar gjarnan um "forréttindi" í sambandi við Þjóðkirkjuna. Það er rangt af þér, þótt ég geti vel (og hafi oft) tekið undir gagnrýni á ofurlaunastefnu prestanna þar. Harla ólíkir eru þeir lærisveinum Jesú í því tilliti. Það er slíkt ástand, sem leiðir af sér þankagang eins og þann, sem ég tók á beinið í nýlegri grein minni: Þurfa sumir að komast á 2. milljónina á mánuði?

En hina gildu tekjupósta Þjóðkirkjunnar á að nota eftir megni í hjálparstarf innan lands sem utan, þótt vitaskuld verði að nota þá að miklu leyti í viðhald og byggingu kirkna og safnaðarheimila, helgiþjónustuna og aðra starfsemi og þjónustu á vegum hverrar kirkju.

Jón Valur Jensson, 29.3.2010 kl. 11:12

14 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

"Harla ólíkir eru þeir lærisveinum Jesú í því tilliti."
Það er þá annað en kaþólska kirkjan, sem þekkt er fyrir lítillæti og nánast sjúklega andstöðu sína við auð. Það sést hvergi í gull í Vatíkaninu, annað en hjá Ríkiskirkjunni!

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 29.3.2010 kl. 14:30

15 identicon

Jón Valur, hvernig væri nú að þú færir eftir því sem þú boðar sjálfur. Þar á meðal að hætta að ljúga að fólki eins og þú gerir, einnig væri gott ef þú hættir að ljúga að sjálfum þér vegna þinnar eigin minnimáttarkenndar. Það er reyndar þannig að minnimáttarkenndin hjá þér sést langar leiðir á internetinu.

Það er einnig rétt að benda á að Jón Valur tilheyrir því sem er kallað "religious right" í Bandaríkjunum. Ég veit ekki hvort að það er til annað heitir yfir þetta í Evrópu en öfgatrúmenn. 

Jón Frímann 10.4.2010 kl. 22:27

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sum svör eru svaraverð, önnur alls ekki.

Jón Valur Jensson, 11.4.2010 kl. 00:55

17 Smámynd: Hamarinn

Sumir svara bara því sem hentar þeim.

Hamarinn, 11.4.2010 kl. 01:13

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, líka það, Sveinn Elías. Mér hentar ekki að elta ólar við rugl.

Jón Valur Jensson, 11.4.2010 kl. 01:33

19 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Hvernig réttlætirðu það fyrir sjálfum þér að kvarta yfir of háum launum þjóðkirkjupresta á meðan kaþólska kirkjan -sem þú verð með kjafti og klóm- er hlaðin gulli?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 12.4.2010 kl. 00:52

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hún er það ekki, Tinna, og prestar hennar, m.a.s. hér á Íslandi, fá MARGFALT lægri laun en prestar Þjóðkirkjunnar. Hitt má alveg játast og viðurkennast, að mörg kaþólsk (og orþódox) kirkjuhús eru prýdd fögrum listaverkum, en þessar kirkjur eru líka fjölsóttir staðir – og eru þannig eins og listasöfn alþýðu manna.

Jón Valur Jensson, 12.4.2010 kl. 01:06

21 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Hvaða augum myndi Jesús Jósepsson líta glysgleði og prjálsemi kaþólsku kirkjunnar? Myndi hann hafa velþóknun á skrautklæðum páfa? Myndi hann hvetja til þessarar yfirgengilegu auðsöfnunar eða myndi hann kannski leggja til að allt þetta glingur yrði selt og komið til þeirra sem þurfandi eru?

Óli Jón, 12.4.2010 kl. 01:18

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Skrautklæði páfa? Má hann ekki klæðast hátíðarklæðum?

Og hvaða "yfirgengilegu auðsöfnun" kirkjunnar ertu að tala um, veiztu ekki, að henni er fjár vant til margra hluta? Veiztu ekki, að hinir þurfandi eru látnir ganga fyrir um margt? Veiztu í alvöru af einhverjum samtökum sem stunda meira hjálparstarf í formi neyðaraðstoðar og sjúkraþjónustu heldur en kaþólska kirkjan?

Vesalings maður að sitja uppi með jafn-vitlausa yfirskrift á grein eins og: "Kaþólska kirkjan er EKKI afl til góðs ..."

Ekki er hún réttari yfirskriftin á þessari vefslóð. Þar eru þrenn rangmæli, sbr.:

1) Það er enginn kristinn þjóðarflokkur til á Íslandi.

2) Kristin stjórnmálasamtök (sem þú áttir við) leyfa (t.d. í síðasta mánuði) fjölda andmælenda að skrifa athugasemdir á vefsíðuna.

3) Þú notar orðið 'málafylgjufólk' í rangri merkingu. Sjálfur eru málafylgjumaður, þ.e. maður sem fylgir fast eftir þínum hagsmuna- eða áhugamálum. Orðið málafylgjumaður í setningunni er þar ranglega notað í merkingunni: "þeim sem fylgja K.s. að málum."

Þú þarft greinilega að vanda þig betur – og þetta var bara það minnst alvarlega!

Jón Valur Jensson, 12.4.2010 kl. 01:36

23 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Það eina sem þú átt eftir að gera nú er að fara yfir stafsetninguna hjá mér, en þetta er klassísk smjörklípa frá þér þegar þú ert rök- og ráðþrota :)

Finnst þér virkilega að kaþólska kirkjan sé ekki prjálsöm og glysgjörn? Hverju svarar þú um viðhorf Jesúss Jósepssonar til glysgirni hennar, væri hann á lífi í dag? Þú treystir þér til að tala fyrir hans hönd í flest öllum öðrum málum og því hlýtur þú að geta túlkað vilja hans og álit í þessu máli. Hvað sagði Jesús um auðsöfnun og því að komast inn í himnaríki?

Var ekki talað um úlfalda og nálarauga í því samhengi?

Óli Jón, 12.4.2010 kl. 11:45

24 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta var ekki spurning um stafsetningu, heldur að furðu-ábótavant er um ýmis grundvallaratriði skrifa þinna og jafnvel spurning um skynsemi þína og þekkingu í því efni.

Kirkjan stundar ekki auðsöfnun, t.a.m. biskupum hennar til gróða, því fer víðs fjarri. Þeir safna ekki fé í embættum og fara ekki með það út úr kirkjunni; það gera hins vegar ýmsir biskupar í öðrum kirkjum heimsins.

Glysgirnin er bara þitt eigið hjal og hvernig þér koma hátíðarklæði fyrir augu. Lesirðu Davíðssálma, þá sérðu, að það er eðlilegt, að menn gangi fram fyrir auglit Drottins í helgidóminum með hátíðlegum hætti, ekki á gallabuxunum.

Eigirðu sjálfur konu, þá geri ég ráð fyrir, að hún vilji mæta uppábúin þegar þið mætið á hátíðarviðburði.

Jón Valur Jensson, 12.4.2010 kl. 12:58

25 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Það er varla við hæfi að líkja Ratzinger páfa við konu þótt honum þyki gaman að klæða sig upp í gullslegin föt og hafa sig svolítið til. Hvað varðar mína skynsemi og/eða meintan skort á henni, þá er hún bara eins og hún er.

En þú svarar ekki spurningu minni um hvert þú teldir viðhorf Jesúss Jósepssonar vera ef hann sæi glysgirni kaþólsku kirkjunnar í dag (myndir: 1|2|3|4|5). Myndi hann hafa velþóknun á öllu prjálinu og skrautinu? Myndi hann kinka kolli og segja að þetta væri besta leiðin til að frelsa sálir hinna glötuðu?

Ertu kannski hræddur við að skoða þessa spurningu og svara einlæglega?

Óli Jón, 12.4.2010 kl. 18:03

26 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er gagnslaust svar frá þér, Óli Jón. Þú vilt selja listaverk eins og Michelangelos svo að þau komist í eigu vellríkra auðjöfra og frá augum alþýðu manna. Af hverju mega 100.000.000 manns ekki fá að berja þau augum? (já, svo margir eru pílagrímarnir til Rómar, á löngum tíma talið, ólikt fámennisfélögum ykkar vantrúarmanna).

Jón Valur Jensson, 12.4.2010 kl. 19:45

27 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Það er vart við hæfi að þú tiltakir fjölda sem mælikvarða á einhver gæði eða skort á þeim. Þú talar heitt gegn samkynhneigðum hérlendis (manstu eftir greinabálkingum þínum um Samkynhneigð og þau mál þar sem þú jafnar barnagirnd við samkynhneigð?) og telur að það fólk eigi að njóta minni réttinda að gagnkynhneigðir. Það vill svo til að kaþólskir eru álíka margir hér og samkynhneigðir og mun færri ef nýlega aðfluttir kaþólskir eru frádregnir. Hvernig ætti það að varða kaþólsku kirkjuna hérlendis sem fámennisfélagið sem hún er skv. þínum mælikvörðum?

En það er sjón að sjá þig engjast um sem ormur á öngli þegar þú víkur þér, ég vil ekki lýsa því sem 'fimlega', undan því að svara hvert þú telur að viðhorf Jesúss Jósepssonar til kaþólsku kirkjunnar og glysgirni hennar væri ef hann gengi aftur í dag?

Ég hallast helst að því að þú sért dauðhræddur við að svara þessari spurningu ærlega og haldir því lífhaldi í þá hugsun að nokkrir sakbitnir pílagrímar eigi rétt á því að njóta verka Michaelangelos. Ef þú telur það vera kjarnastarfsemi kirkjunnar að bjóða upp á listaverkasýningar, þá það. Segðu það þá bara beinum orðum í staðinn fyrir að stíga þennan klunnalega dans!

En hvað myndi Jesús halda? Svaraðu nú ærlega :)

PS. Tókstu eftir því að ég feitletraði spurninguna og setti á hana rauðan lit? Það gerir þér auðveldara að sjá hana, ef það hefur háð þér hingað til!

Óli Jón, 12.4.2010 kl. 20:07

28 Smámynd: Hamarinn

Karlanginn er flúinn enda eins og venjulega Rök og ráðþrota.

Hamarinn, 12.4.2010 kl. 21:16

29 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Óli Jón, ég jafna ekki barnagirnd við samkynhneigð. Hins vegar er það, sem nú er kallað barnagirnd, gjarnan flokkað erlendis í tvennt: eiginlegir barnagirndarmenn, 'pedophiles', snúa sér að yngri börnum, t.d. 7–9 ára, en s.k. 'hebephiles' eru unglingagirndarmenn (beina sér t.d. að 14–17 ára), þeir sem beina sér í síðarnefnda tilfellinu að drengjum, eru flestir sagðir vera samkynhneigðir karlmenn. Jafnvel í síðara tilvikinu er þó ekki hægt að segja, að samkynhneigð verði jafnað við barnagirnd.

Ég svara ekki óviðurkvæmilega orðuðum spurningum.

Nei, kjarnastarfsemi kirkjunnar er ekki að "bjóða upp á listaverkasýningar," en það er nú samt gert í kirkjum eins og víðar. Þú kannast sennilega lítt við Biblia pauperum, en það voru listaverkin sem tjáðu hjálpræðissögu Ísraels og boðun og píslarsögu Jesú í myndum fyrir hina ólæsu, t.d. í steindum kirkjugluggum. Þetta og annað fallegt hefur upp sálina til andlegrar hugsunar ("ef þú veizt hvað ég meina," eins og þeir ensku segja).

Jón Valur Jensson, 12.4.2010 kl. 23:51

30 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Þegar þú setur grein um barnagirnd undir efnisflokkinn Samkynhneigð og þau mál, þá ertu að setja jafnaðarmerki þar á milli. Það er ekki hægt að túlka það öðruvísi. Þér var í lófa lagið að búa til efnisflokkinn Barnagirnd og þau mál, en þú lést það vera. Ergo, samkynhneigð er á sama plani og barnagirnd í þínum heimi.

Ég skil vel að þú skulir ekki svara spurningunni, þér líkar svarið augsýnilega ekki.

Óli Jón, 13.4.2010 kl. 00:30

31 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, þú ruglar, Óli Jón. Orðin "og þau mál" vísa til fleiri hluta en samkynhneigðar. Þetta geta verið tengdir hlutir í fræðunum, þótt það sé ekki jafnaðarmerki á milli þeirra. "Vantrú og þau mál" gæti t.d. vísað til greina um vantrú, guðsafneitun og efahyggju í trúmálum.

Jón Valur Jensson, 13.4.2010 kl. 00:52

32 identicon

Athygliverður þráður, einkum síkópatían sem hér veður uppi.

Jón Valur: Þú talar um „tengda hluti í fræðunum“ og nefnir sem dæmi „vantrú, guðsafneitun og efahyggju í trúmálum.“ Þetta útskýrir að þinni sögn hvers vegna er að finna grein um barnagirnd undir efnisflokknum „samkynhneigð og þau mál“. Gott og vel (mætti jafnvel segja „guði sé lof“) að það sé ekki „jafnaðarmerki á milli þeirra“ tveggja. Hins vegar væri æskilegt ef þú útskýrðir fyrir okkur, aumum lýðnum, hvernig barnagirnd og samkynhneigð eru „tengdir hlutir í fræðunum“. Hver er þessi tenging, að þínu mati?

Kolbeinn 10.5.2010 kl. 08:56

33 Smámynd: Óli Jón

Kolbeinn: Góður!

Jón Valur: Þér finnst s.s. við hæfi að flokka barnagirnd með samkynhneigð? Er ekkert athugavert við þessa tengingu í þínum huga? Telur þú ekki betra að stofna efnisflokk sem nefnist t.d. Barnagirnd og þau mál þó ekki sé nema í virðingarskyni gagnvart samkynhneigðum?

Óli Jón, 10.5.2010 kl. 10:09

34 Smámynd: Kristin stjórnmálasamtök

Já, teldirðu að þeir myndu sætta sig betur við það? Bjartsýnn!

Kolbeinn er ekki "góður", heldur órökvís. Umræða um kynhneigðir manna fer oft undir einn hatt, t.d. um samkynhneigð, gagnkynhneigð, tvíkynhneigð og kynskiptinga. Kynhneigð má segja að sé grunnthemað, og þetta gæti náð yfir fleira, s.s. kynhneigð til dýra og til barna.

Kannski hefði ég átt að hafa yfirskriftina 'Kynhneigð – ýmsar kynhneigðir', en ég hugsaði ekki út í það þá, og samkynhneigð hefur nú verið mest í umræðunni, ekki sízt að vali baráttumanna samkynhneigðra, sem hafa "markað orrustuvöllinn", ef svo má segja, m.a. með harðri ásókn gegn kirkjunni, en sú er einmitt helzta ástæða mín til að hafa farið að rannsaka þessi mál sérstaklega, fyrir 10–15 árum.

Sjálfir hafa samkynhneigðir tekið fólk af fleiri kategóríum undir sinn hatt, m.a. í félagi uppi í Háskóla. Er ekki talað um "LGTB" og þar slengt saman lesbíum, hommum, "trans"-fólki og tvíkynhneigðum?

Svo talið þið eins og það sé sjálfgefið, að ekkert samband geti hugsanlega verið milli samkynhneigðar og barnagirndar. Þið yrðuð þá sennilega hissa á ýmsu því, sem birzt hefur um þau mál.

Kristin stjórnmálasamtök, 10.5.2010 kl. 15:22

35 Smámynd: Jón Valur Jensson

Æ, þarna var ég ennþá loggaður inn á vefsíðu Kristinna stjórnmálasamtaka, nýkominn frá því að birta þar grein. Þetta voru mistök hér, innleggið átti að vera á mínu nafni, og bið ég mína tólf félaga í KS afsökunar á þessum klaufaskap.

Jón Valur Jensson, 10.5.2010 kl. 15:25

36 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Þú setur hér inn athugasemd sem talsmaður fósturvísis Kristna þjóðarflokksins. Það vita þeir sem nenna að bera sig eftir því að fósturvísir þessi er fámennur hópur öfgatrúaðra einstaklinga sem hafa afar sterkar skoðanir á flestum hlutum, en samkynhneigð virðist það hátt á lista. Það má eiginlega segja að samkynhneigðir eigi sérstakan stað í steinrunnu hjarta fósturvísisins, en þeir fá reglulega að kenna á ógeðfelldum fýluköstum öfgahópsins sem lepur lífssýn sína úr gamalli og staðnaðri bók í stað þess að horfa með eigin augum í kringum sig og meta samborgara sína að verðleikum.

Fyrir nokkru birtir þú grein um barnagirnd sem þú geymir undir efnisflokknum Samkynhneigð og þau mál og setur þannig jafnaðarmerki á milli þeirrar brenglunar sem barnagirnd er og þess náttúrulega ástands fjölmargra að vera samkynhneigðir. Í hrokakasti ítrekarðu þessa skoðun þína og slærð svo um þig með ógeðfelldum fullyrðingum (önnur athugasemd fyrir ofan) um að hægt sé að sanna samband á milli barnagirndar og samkynhneigðar. Sjálfur ertu svo óþreytandi málsvari þess hóps manna sem berastur er að því að vera illa haldinn barnagirnd, en það eru kaþólskir prestar, biskupar, kardinálar ... og páfar?

Það er þannig, á þessum tímamótum, að ég get ekki fundið til neins annars en djúprar meðaumkunar gagnvart þér. Fádæma ljótt einelti þitt gagnvart samkynhneigðu fólki er þannig að það virðist glöggt merki um að þér sé hreinlega ekki sjálfrátt. Þér hlýtur að líða afar illa, það virðist eitthvað mikið vera að og þegar þannig er ástatt þá verðskuldar hinn hrjáði ekkert annað en dýpstu meðaumkun. Það má líkja þessu ástandi við vont uppeldi barns. Maður getur ekki verið reiður barninu því uppalandinn á alla sökina. Þannig lít ég á þetta mál!

Þú átt mikið bágt, Jón Valur. Ég vona að þú náir þér af þessu, enda getur ekki verið þægilegt að lifa með svona tærandi hatri í garð margra samborgara þinna. Nú veit ég að þú munt segja að þú sért ekki haldinn hatri í garð samkynhneigðra, en gjörðir þínar segja annað. Þær segja í raun allt sem segja þarf.

PS. Svo vil ég þakka þér fyrir að benda á að kaþólska kirkjan fékk hluta af sínum eignum hérlendis í gegnum ólöglega og siðlausa gerninga sem hannaðir voru til þess að að skjóta eignum undan skatti. Eins og einhver sagði, Katóla er ekki ólíkt Tortóla! Takk kærlega fyrir þetta.

Óli Jón, 10.5.2010 kl. 19:28

37 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvað veizt þú um trúarafstöðu K.G., sem ég talaði við í dag og er í kristnum stjórnmálasamtökum? Hvað um trú ýmissa annarra þar? Nú skora ég á þig að birta hér nöfn þeirra félagsmanna þar, sem þú álítur "öfgatrúaða einstaklinga". Ef þú getur þetta ekki, væri þér sæmst að sleppa svona ófyrirleitni.

Þetta er virkilega ljótt innlegg frá þér og greinilega í þínum ljótasta stíl persónulegrar rætni. Ég hef skora á menn að freista þess að benda á einhver haturs- eða bara aðkasts-orð frá mér í garð samkynhneigðra, en þeim ekki tekizt það, og meðal þeirra eru mínir mestu óvildarmenn hér á Moggablogginu, t.d. DE og MSH. Þeim mistókst ætlunarverkið. Það á einnig við um þín orð innantóm og full gremju, sem á víst að vera einhver uppbót á það, að ekki geturðu svarað rökrænt síðasta innleggi mínu kl. 15.22. Hitt geturðu, að búa til 5 hænur úr tveimur fjöðrum, sbr. orð þín um kardínála og páfa.

Sá talsmáti, sem þú tíðkar, mælir hvorki með Siðmennt né Vantrú, ef þú ert í þeim félögum (mig minnir að þú sért í því fyrrnefnda). Það færi ekki vel, ef þú sæir um vefsíður þeirra.

Vegna orða þinna þarna um barnagirnd og ofurfrjálslegrar túlkunar þinnar á orðum mínum bendi ég þér aftur á að lesa þau orðrétt: "Svo talið þið eins og það sé sjálfgefið, að ekkert samband geti hugsanlega verið milli samkynhneigðar og barnagirndar. Þið yrðuð þá sennilega hissa á ýmsu því, sem birzt hefur um þau mál." – Kannski ertu svona hissa strax, af því að þu hafir aldrei séð neitt af slíku? (og þá á ég ekki við skætingsskrif, sem vissulega er allt of mikið af).

Lokaorð þín eru kjánalegur útúrsnúningur.

Jón Valur Jensson, 10.5.2010 kl. 23:42

38 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Þú berð þig illa vegna þessa innleggs, en sérð ekkert athugavert við linnulausar árásir þínar á samkynhneigða! Þú segir:

Ég hef skora á menn að freista þess að benda á einhver haturs- eða bara aðkasts-orð frá mér í garð samkynhneigðra, en þeim ekki tekizt það, og meðal þeirra eru mínir mestu óvildarmenn hér á Moggablogginu, t.d. DE og MSH.

Þú lætur ekkert tækifæri fram hjá þér fara að skrifa gegn þessu fólki og veitast að því með öllum tiltækum ráðum! Stöðugt skaltu jagast í þessu fólki og vinna gegn því í eðlilegri og réttmætri baráttu þess fyrir sjálfsögðum mannréttindum! Þú vefur málflutning þinn inn í trúarlegar umbúðir, en það er ljóst að undir liggur ekkert nema fen fordóma og andúðar. Eftirfarandi greinar lýsa t.d. ekki neinum kærleik í garð samkynhneigðra:

Títtnefnd flokkun þín á barnagirnd með samkynhneigð segir svo meira en mörg orð! Þú getur ekki með nokkru móti varið þann gjörning þinn að setja þetta tvennt í sama flokkinn! Það er ómögulegt og þú gerir lítið úr sjálfum þér að viðurkenna ekki hreint út að annað hvort gerðirðu skelfileg mistök eða þá að þú setur jafnaðarmerki á milli hinnar viðurstyggilegu barnagirndar og hinnar eðlilegu og náttúrulegu samkynheigðar.

Það þarf ekki annað en að hugleiða þá staðreynd að þú heldur úti sérstökum efnisflokki um samkynhneigð þar sem þú skrifar hverja greinina á fætur annarri gegn þessu fólki. Réttindamál samkynhneigðra eru þér eitur í æðum, það sjá allir sem vilja. Þú vilt ekki að þeir fái smánarlega lága styrki frá opinberum aðilum til að kynna málstað sinn, þú vilt ekki að þeir geti ættleitt börn og þú vilt ekki að þeir geti gengið í hjónaband. Þú hefur t.d. megna vanþóknun á því hvers konar kynlífi samkynhneigðir karlar lifa og svo mætti  lengi telja. Þú ert eins mikið á móti samkynhneigðum og hægt er að vera.

Þér fer því ekki að emja og bera þig aumlega, enda áttu enga innstæðu fyrir slíku! Viðurkenndu þetta bara, þú verður maður að meiri ef það gerist!

PS. Lokaorð innleggsins eru síður en svo útúrsnúningur. Þú sagðir sjálfur í pistli á Útvarpi Sögu að bændur hefði skráð jarðir sínar á kaþólsku kirkjuna til að komast undan skattskyldu. Í dag er svona æfingar kallaðar málamyndagjörningar og er þeim rift sem slíkum! Þú getur ekki vikist undan því að viðurkenna það sem þú sagðir sjálfur! Ekki nema að það sé bara ekkert að marka þig yfir höfuð!

PSS. Ég er hvorki í Siðmennt né Vantrú og hef aldrei verið. Ég hef þó mikið dálæti á báðum félögum enda standa þau fyrir þörfu, góðu og uppbyggjandi starfi.

Óli Jón, 11.5.2010 kl. 00:38

39 identicon

Jahérnahér.

Alltaf kemur mér það jafn mikið á óvart þegar ég reyni fólk að því að verða rökþrota án þess að geta viðurkennt það.

Rifjum nú aðeins upp hvað hér er á seyði:

- Vefbókarhöfundur ritaði pistil í lok mars þar sem hann benti á þá kjánalegu staðreynd að honum er meinað að tjá sig á síðu sem haldið er úti í nafni einhverra trúarsamtaka, á meðan sá sem skrifar fyrir hönd umrædds félagsskapar veður uppi að því er virðist kinnroðalaust í athugasemdakerfi vefbókarhöfundar.

- Að vonum fylgdu fjörlegar umræður í kjölfarið, sem áðurnefndur talsmaður trúarsamtakanna tók vitanlega þátt í af miklum móð, án þess þó að láta svo lítið að gefa einhverjar skiljanlegar skýringar á hrokanum sem upphaflegur pistill laut að.

- Eins og flest rifrildi á Vefnum þar sem menn tala í kross þá lauk og þessum kítum um miðjan aprílmánuð, án mikils framgangs málefna sem hreyft var við.

- Í umræðunum hafði verið farið út um víðan völl, svona eins og gengur og eftir sat sitt af hverju málefninu mismerkilegt. Þar var þó óútkljáð hvort títtnefndur talsmaður hafi í raun haldið því fram að tengsl séu milli samkynhneigðar og svonefndrar „barnagirndar“, þ.e. löngunar til að hafa samræði við ómálga börn. Nú er slíkur málflutningur með slíkum ólíkindum að það er ekki líðandi að heilvita mönnum séu gerðar upp slíkar vilpuskoðanir án þess að þeim sé hjálpað til að bera hönd fyrir höfuð sér. Ég leyfði mér því að ýta við talsmanninum með eftirfarandi spurningu: „Hins vegar væri æskilegt ef þú útskýrðir fyrir okkur, aumum lýðnum, hvernig barnagirnd og samkynhneigð eru „tengdir hlutir í fræðunum“. Hver er þessi tenging, að þínu mati?“ Átti ég von á því að talsmaðurinn hristi af sér slyðruorðið og sagðist vitanlega ekki ætla að fara að jafna því saman að fólk af sama kyni felli saman hugi og það að sækjast í að beita ófulltíða börn því versta ofbeldi sem grimmúðleg mannskepnan hefur, í öllu sínu töluverða hrottaveldi, látið sér detta í hug að níða hin varnarlausust okkar með.

- Við tók hins vegar kunnuglegur dans vefbókarhöfundar og talsmannsins um flest önnur atriði en það sem spurt var að og svo stendur þá nú að talsmaðurinn hefur enn ekki rekið af sér viðbjóðslegt slyðruorðið sem virðist–vonandi ranglega–mega eigna honum. Að vísu má sjá ákveðna tilburði til að bera til baka þau ægindi sem lesa mátti–aftur, vonandi ranglega–út úr orðum hans, þegar hann nú vill meina að ætlun hans hafi verið að taka saman á einum stað skrif um ýmiss konar kynhneigð. Svo bætir hann því við að hann hafi skorað „á menn að freista þess að benda á einhver haturs- eða bara aðkasts-orð frá mér í garð samkynhneigðra“. En hann er vart fyrr búinn að gefa til kynna að hann ætli sér að staðfesta að hann eigi stað í samfélagi siðaðra manna en hann tekur sig til og dylgjar þessu yfir okkur lesendur: „Svo talið þið eins og það sé sjálfgefið, að ekkert samband geti hugsanlega verið milli samkynhneigðar og barnagirndar. Þið yrðuð þá sennilega hissa á ýmsu því, sem birzt hefur um þau mál.“

Nú skora ég á þig, „Kristin stjórnmálasamtök“, „Jón Valur Jensson“, eða hvað þú nú vilt láta kalla þig, að gera hreint fyrir þínum dyrum. Ef þér og samtökunum sem þú talar fyrir er alvara með því að vera ekki talin eggjendur hatursáróðurs í garð meðbræðra ykkar og systra á grundvelli kynhneigðar þeirra einnar saman, þá vertu maður og lýstu því yfir að þú líkir ekki þeim sem ekki deila þinni kynhneigð við þá sem leggjast á börn eða annað ósjálfbjarga. Frelsaðu þig–og sýndu að þú gangir með Kristi! Eða hafðu ella kjark til að viðurkenna að þú sért í hatursliði höggormsins.

Sérhver sanntrúaður stendur ávallt með kærleikanum. Sýndu nú hvað í þér býr.

Kolbeinn 11.5.2010 kl. 02:44

40 Smámynd: Jón Valur Jensson

Taktu þessu rólega, Kolbeinn, ég hef engu haldið hér fram um þessi tengsl, en veit af því, að aðrir hafa gert það, þótt Óli Jón hefði fyrir fram talið það útilokað, að því er virðist; átti ég að þegja um það? Með engri fullyrðingu af minni hálfu í þessu máli fer því vitaskuld fjarri, að ég sé "eggjandi hatursáróðurs" á grundvelli einhvers slíks, og mér dytti ekki í hug að koma hér með einhverjar alhæfingar þessu tengdar.

Óli Jón, almannafé hefur verið ausið í samkynhneigða, t.d. tugum milljóna í Gay Pride-gönguna. "Brauð og leikar" hafa löngum höfðað til manna, og þegar mikið fjármagn hefur verið lagt í að gera göngu sem litskrúðugasta, með músík, dansi, leikurum og hvers kyns sýningum, er enginn vandi að draga fullt af fólki á vettvang.

Hvergi lítilsvirði ég samkynhneigða í skrifum mínum og myndi aldrei vilja gera það, enda þekki ég allmarga í þeirra hópi og umgengst þá bara á jákvæðan hátt. Miðlun vísindalegra upplýsinga er ekki "hatursáróður" né aðkast, en þér mun kannski seint skiljast það. Enn erfiðlegar mun þér ganga að finna "linnulausar árásir á samkynhneigða" í skrifum mínum, enda hefurðu ekki komið með nein dæmi um slíkt.

Þér líður ekki vel með þetta, Óli Jón, það sést líka á bræði þinni. Sannleikanum (að hafa ekkert á mig) verður þú hér sárreiðastur!

Jón Valur Jensson, 11.5.2010 kl. 03:50

41 Smámynd: Jón Valur Jensson

Orðum þínum um kirkjueignir o.fl. svaraði ég á viðkomandi síðu.

Jón Valur Jensson, 11.5.2010 kl. 03:51

42 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Ég reyndi að kommenta hjá KS um daginn, en athugasemd mín birtist ekki. Kannske Jóni hafi þótt ég dónaleg að benda honum á nýjustu fréttirnar af 'samynhneigðarsérfræðingnum' George Rekers, sem Jón er duglegur að vitna í.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 11.5.2010 kl. 10:23

43 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ef Tinna væri reiðubúin að takast á við samansöfnuð rök Rekers (prófessors í taugageðlækningum og hegðunarvísindum og deildarforseta sálfræðideildar University of South Carolina School of Medicine), sem eru að miklu leyti ekki hans, heldur fjölda vísindamanna (félagsfræðinga, sálfræðinga, lækna o.fl.), þá væri það framför hjá henni. En þetta hefur henni alltaf verið fyrirmunað og ekki bara nú í þessum mánuði, þegar ósannaðar ásakanir hafa verið bornar á dr. Rekers.

Jón Valur Jensson, 11.5.2010 kl. 11:42

44 identicon

"ég hef engu haldið hér fram um þessi tengsl"

Gott og vel, þetta verður ekki skilið öðru vísi en svo en að þú sverjir af þér að þú haldir því fram að þeim sem ekki deila þinni kynhneigð megi líkja við þá sem leggjast á börn eða annað sem ósjálfbjarga er.

Þakka ber það sem vel er gjört, í hverjum mæli sem það kann að reynast.

Verið blessuð, Kristin stjórnmálasamtök/Jón Valur Jensson.

Kolbeinn 11.5.2010 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband